Lesbók Morgunblaðsins - 14.03.2009, Qupperneq 9
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 14. MARS 2009 Lesbók 9TÓNLIST
Þ
etta er æðislegur konsert, og ég er mjög hrifin af honum. Ég
hugsa að ef ég hefði átt að velja mér konsert til að spila, þá
hefði ég valið þennan.
Þetta er mjög Atla-legur konsert. Atli kemur manni stöðugt á
óvart og teygir á konsertforminu. Konsertinn er þekktur fyrir að
vera eitt stórt diminuendo [með minnkandi styrk], mikil læti í byrj-
un, og erfiðustu tæknilegu kaflarnir koma strax, en svo hægir á hon-
um og verkið róast niður. Þetta er sérstakt form og verkið mjög töff.
Ég fékk boð um að spila konsertinn fyrir rúmu ári, því það stóð til
að flytja hann í september. Ég er því búin að vera með hann lengi, en hef hvílt mig á hon-
um inn á milli. Núna er ég farin að hlakka mjög til.
Það er algengt í nýjum flautukonsertum að það sé skipt milli hljóðfæra, og Atli gerir
það líka. Ég skipti á milli flautu og pikkolóflautu, og í lokin kemur þriðja flautan til sög-
unnar, flauta að vali flytjandans. Atli biður um bambushljóðfæri, einhvers konar fram-
andi flturu. Atli gefur flytjandanum þó leyfi til að spila þennan kafla á altflautu ef annað
er ekki mögulegt. Hann er að leita eftir annars konar og exótískum hljóðheimi.
Ég valdi bambushljóðfæri þegar ég var á ferðalagi í Kína. Það heitir Hu Shi og er skyld-
ara óbói eða klarinetti en flautunni, er með málmblaði í munnstykkinu og sekk. Úr því
kemur framandi kínverskt hljóð og ég vona að það gefi þann svip sem Atli leitar eftir.
Það er líka sérstakt við konsertinn, að flauturnar þrjár í hljómsveitinni spila með mér
stóran hluta konsertsins. Erfiðustu kaflarnir eru í rauninni fyrir fjórar flautur. Það gerir
konsertinn svolítið eins og kammerkonsert.“
Melkorka Ólafsdóttir einleikari í Flautukonsert Atla Heimis.
É
g geri mjög mikið af því að stjórna nútíma tónlist en þetta er í
fyrsta skipti sem ég stjórna tónlist Atla og hafði ekki heyrt
hans getið áður. Þetta er mjög áhugaverð tónlist hjá honum
verð ég að segja, sérstaklega þar sem hann fæst við svo ólík stíl-
brigði. Verkin þrjú eru afar ólík að gerð og byggingu, Sinfónía nr. 6
er auðvitað ný en hin verkin öllu eldri. Maður sér í þessum verkum
öllum að Atli hefur þróað sinn stíl af mikilli djörfung í gegnum tíð-
ina, hann hefur átt erfitt með að staldra við eitthvað eitt og eiga
þar með á hættu að staðna. Sum tónskáld leita eftir ákveðnum stíl
strax í upphafi ferils og halda sig síðan við hann allt til enda en það er ekki svo með
Atla Heimi. En um leið heyrir maður glöggt í verkunum á hvaða tíma þau voru samin.
Hann er um leið póst-módernískt tónskáld og leitast við að brjóta upp formið á hverj-
um tíma. Maður heyrir að hann var vel með á nótunum og dró þá strauma sem í gangi
voru hverju sinni inn í sína tónlistarsköpun. Hann skrifaði þannig í takt við það sem var
að gerast og maður heyrir vel að hann er djúpþenkjandi hvað list sína varðar. Tónlistin
er tæknilega séð mjög athyglisverð og ég get vel skilið af hverju Atli er í svona háum
metum hjá ykkur Íslendingum. Annars reyndist mér auðvelt að takast á við þessi verk
Atla, enda er það starf mitt að fara inn í huga tónskáldanna. Slík vinna gefur mér ætíð
mjög mikið, þetta er í rauninni eins og að fara á blint stefnumót. Spennandi. Þú geng-
ur til móts við höfundinn og hefur ekki hugmynd um hvað bíður þín. Í raun ætti maður
að nálgast alla tónlist svona, gamla sem nýja. Takast á við hana án fyrirfram gefinna
hugmynda og leyfa henni að tala sjálfri. Ég vil að endingu hrósa Íslensku sinfón-
íuhljómsveitinni fyrir að styðja svona við bakið á sínu fólki og flytja innlend verk. Að
mínu viti er mikilvægt að fólk passi upp á sína með þessum hætti.
Baldur Brönniman, stjórnandi tónleikanna.
Eftir Atla Heimi Sveinsson
Þ
au þrjú verk sem flutt verða voru samin
1973, 1979 og 2008, svo þau spanna
langan feril. Ég hef sennilega breyst í
áranna rás, Skoðanir og viðhorf breyt-
ast, en sumt af því sem ég aðhylltist
ungur fylgir mér enn í dag. Þetta er
ekki afþreyingartónlist. Ég veit ekkert um hvort
öðrum finnst hún skemmtileg. En ég vona að hún
segi eitthvað. Stefán G. talaði um „… að finna til í
stormum sinnar tíðar“. Ég hef reynt það. Og tón-
listin er ekki aðeins til skemmtunar. Í gamla óp-
eruhúsinu í Kaupmannahöfn stóð þetta skrifað yfir
sviðinu: „Ej blot til lyst.“ Ég reyni að birta hið
góða, fagra og sanna í minni tónlist. Ég held að
þessi tónlist höfði til einstaklinga, en ekki til vúdd-
stokk-mergðarinnar.
Hreinn Gallerí SÚM
Verkið samdi ég árið 1974, þá fyrir kammersveit.
Síðan setti ég verkið út fyrir sinfóníuhljómsveit ár-
ið 1979. Það var hljóðritað undir stjórn Paul Zukof-
skys og gefið út á grammófónplötu af Íslenskri tón-
verkamiðstöð; mjög vönduð hljóðritun. Hreinn
Friðfinnsson er ljóðskáldið í hópi myndlistarmanna
okkar. Sumir kenna hann við konsepstefnu. Mér er
sama hver stefnan er og hvað hún heitir: myndverk
Hreins geisla af nýstárlegri og óskilgreinanlegri
fegurð, sem mér finnst skyld við ljóðrænu, hvað
sem það annars er. Hreinn er hógvær listamaður,
kannski um of. Það hefur verið of hljótt um hann
hérlendis, en í öðrum löndum fer vegur hans vax-
andi.
Ég krukka oft í gömul verk mín, það er eins og
ég ljúki aldrei sköpunarferlinu. Verkið heitir núna:
Ég hef horft á hafið gegnum tárin, eftir einni af
bestu myndum Hreins. Myndin er næstum ekki
neitt, eitt tár á pappírsörk. Hún minnir mig á svo
margt, tárin, hafið og sorgina. Hún minnir mig líka
á uppruna okkar, endur fyrir löngu skriðum við á
land, upp úr hafinu. Og tárin innihalda sama salt-
magn og hafið. Svo þegar maður horfir grátandi á
hafið speglast tárið í sjálfu sér.
Þetta er þíð og lágvær endurtekningarmúsík,
kannski minímalismi. Þó ekki eins og Amerík-
anarnir Philip Glass, Steve Reich og þeirra spor-
göngumenn. Þeir eru vélrænir, ég er sveigjanlegur.
Verkið er tilbreytingarlítið. Það minnir mig á
þunna snjóbreiðu á svörtu hrauni. Maður sér hvítt
en grunar svart.
Tréblásararnir eru beðnir að spila á önnur hljóð-
færi en þau sem þeir eru sérhæfðir á. Ég bið um
alls kyns flautur og hljóðpípur leikfangahljóðfæri,
melódíkur og fleira þess háttar. Læt spilarana velja
sjálfa. Ég veit ekki nákvæmlega hvað út kemur.
Flautukonsert
Flautukonsertinn samdi ég árið 1973 eða -4 fyrir
kanadíska flautusnillinginn Robert Aitken. Hlaut
ég Tónlistarverðlaun Norðurlanda fyrir verkið árið
1976, reyndar fyrstur Íslendinga. Robert kom oft
hingað til lands á áttunda áratugnum. Hann spilaði
mikið með íslenskum hljófæraleikurum. Robert á
nokkurn þátt í Flautukonsertinum. Hann sýndi
mér töfraheim flautunnar, og skaut að mér mörg-
um djörfum hugmyndum, enda gott tónskáld sjálf-
ur.
Þannig er það oft þegar tónskáld og einleiks-
virtúós vinna saman. Báðir leggja sitt af mörkum.
Ég stjórnaði frumflutningnum sjálfur og Robert
lék snilldarlega.
Verkið er sambland af einleikskonsert og con-
certo grosso: hljómsveitarflauturnar þrjár og ein-
leikarinn mynda stundum eina heild á móti hljóm-
sveitinni.
Notaðar eru margs konar flautur, pikkóló-
flautur, vanalegar flautur og svo endar verkið á
langri kadensu sem leika skal á austurlenska
flautu, kannski heimatilbúna. Hljómsveitin er
styrkt með öflugu hammondorgeli og miklu slag-
verki. Form Flautukonsertsins er skondið. Verkið
hefst á hápunktinum og endar á innganginum.
Hefst með miklum hávaða og rennur að lokum inn í
þögnina; skrifaðar nótur hverfa og spuni tekur við.
Ég er mjög spenntur að heyra Melkorku Ólafs-
dóttur, flautusnillinginn okkar unga, spila konsert-
inn.
Sinfónía nr. 6 (frumflutningur)
Sjötta sinfónían verður frumflutt. Hljómsveitin er
stór og bætt er við mörgum hljóðfærum sem
óvanaleg eru í sinfóníuhljómsveit, t.d. hljómborði
rafknúnu eins í poppinu, fölskum píanógarmi, raf-
gítar og -bassa: og allt uppmagnað! Þá eru fimm
slagverksleikarar ásamt pákumeistara. Ég hef
reynt að feta fáfarnar slóðir í minni tónsköpun. Ég
hef meiri áhuga á því óvanalega og nýstárlega, en
því sem alþekkt er. Sagði ekki enska skáldið Keats:
„… þekktir söngvar eru fagrir, en hinir óþekktu
ennþá fegurri …
Verkið er í 13 þáttum sem heita: Umbrot, Storm-
ar, Dögun, Farfuglar, Lygna, Búggívúggí,
Draumar, Ótta, Muß Ordnung sein? Framtíðarsýn,
Gamall tangó, Hryllingsmyndir og Seinasti slag-
arinn. Þessir þættir eru ólíkir að stíl og yfirbragði.
Ég vitna í síbyljuna, sem er hin andlega hryðju-
verkastarfsemi vorra daga.
Einn þátturinn er einhvers konar búggívúggí. Þá
kemur fyrir gamaldags tangó, og er hann tekinn úr
sellósónötu minni sem Bryndís Halla Gylfadóttir
og Anna Guðný Guðmundsdóttir fluttu af mikilli
snilld. Einn kafli heitir Hryllingsmynd og er kvik-
myndatónlist við mynd sem aldrei verður tekin.
Lokaþátturinn er úr klarinettsónötunni sem ég
samdi fyrir Guðna Franzson og Geoffrey Gouglas
Madge, og þeir fluttu ákaflega vel. Sá þáttur heitir
Seinasti slagarinn og er einhvers konar óljós og
brotakennd endurminning: þegar maður hefur
gleymt öllum fallegu og sorglegu lögunum (– sagði
ekki Schubert að öll falleg lög væru sorgleg? –) þá
man maður aðeins nokkrar sundurlausar hend-
ingar og hljómasambönd á stangli.
Og þetta setti ég saman. En að kompónera
merkir að setja saman. Hvað svo tekur við veit ég
ekki. Verkinu lýkur í spurn.
Einleikarinn og tónskáldið Melkorka Ólafsdóttir brá sér í heimsókn til Atla Heimis Sveinssonar á dögunum, en hún leikur einleik í flautukonsert hans nk. fimmtudag.
Verkinu lýkur í spurn
Atli Heimir Sveinsson seg-
ist ekki vita hvort tónlist
hans sé skemmtileg, en
vonar að hún segi eitt-
hvað. Hann segir hér frá
tilurð þeirra þriggja verka
sem Sinfóníuhljómsveit Ís-
lands flytur í næstu viku í
tilefni af 70 ára afmæli
hans á síðasta ári.
Verkið er tilbreytingarlítið.
Það minnir mig á þunna
snjóbreiðu á svörtu hrauni.
Maður sér hvítt
en grunar svart.
Höfundur er tónskáld.
Morgunblaðið/Golli
Eitt stórt diminuendo
Atli var með á nótunum