Norðurland - 18.03.1983, Blaðsíða 3

Norðurland - 18.03.1983, Blaðsíða 3
Alþýðubandalagið er flokkur þeirra sem vinna fyrír sér hörðum höndum - en hiröa ekki óeðlilegan arð af vinnu annarra “ - segir Steingrímur J. Sigfússon, sem skipar efsta sæti á lista Alþýðubandalagsins Steingrímur Jóhann Sigfússon frá Gunnarsstöðum í Þistilfirði skipar efsta sætið á lista Alþýðubandalagsins við komandi Alþingiskosningar. Það kemur því einkum í hans hlut að leiða kosningabaráttuna í Norðurlandskjördæmi eystra og verða vonandi að kosningum loknum annar tveggja þingmanna flokks- ins í kjördæminu. Við upphaf kosningabaráttunnar hitti NORÐURLAND Steingrím að máli, til að fræðast nokkuð um manninn og viðhorf hans. - Hvers vegna hófst þú afskipti af stjórnmálum? - Ég býst við að meginorsak- anna sé að leita í uppruna mínum og umhverfi. Ekki svo að skilja að ég hafi drukkið sósíalismann í mig með móður- mjólkinni - en Þistilfjörður er frá fornu fari helgaður félags- hyggju og samvinnufólk hefur þar látið til sín taka. Fram- sóknarflokkurinn réði þar löng- um mestu, en þá var framsókn allt önnur en nú, og þau róttæku sjónarmið sem hún hampaði fyrir 50 árum eiga nú ekki hljómgrunn hjá þeim íhaldsöfl; um sem eru nú í forystu. I samræmi við þetta hefur gengi framsóknar fallið ört í þessari heimabyggð minni að undan- förnu, en mikill fjörkippurfærst í Alþýðubandalagið, sem fólk skilur að er eini málsvari róttækrar félagshyggju í land- inu. Þó að manni finnist löngum að skjótfengnari sigrar væru æskilegri í sókn þeirra sem minna mega sín, þá held ég að fólkið þekki sína, og meti Alþýðubandalagið af verkum sínum, en ýmsum félagslegum réttindamálum hefur aldreiskil- að jafn vel fram á við og í ráðherratíð sósíalista. Svo að ég víki aðeins að vitund minni og pólitískum áhuga þá vaknaði hann fyrir alvöru á menntaskólaárunum, ekki síst í starfi með herstöðva- andstæðingum. Það varð svo eins konar rökrétt framhald af því að skipa sér í raðir Alþýðu- bandalagsins, sem eina flokksins sem hefur gert baráttumál þeirra sem vilja herlaust land að sinum. Þeir sem fram undir þetta hafa haldið að framsókn taki eitt- hvert tillit til sjónarmiða þessa fjölmenna hóps ættu nú að vera farnir að átta sig á að Nato- vinirnir í forustunni þiggja að vísu atkvæðin, en hundsa allt sem að baki þeim býr. Þeir sem vilja herinn úr landi eiga því aðeins einn kost - þann að efla Alþýðubandalagið. - Ertu þá í Alþýðubanda- laginu fyrst og fremst sem herstöðvaandstæðingur? - Já, og sem sósíalisti, en eins og ég sagði var það snemma sannfæring mín, að málin skyldi leysa með samhjálp og sam- vinnu. Með aldrinum kynntist ég svo enn betur ýmiss konar misskiptingu og misrétti, stéttar- legu og ekki síður búsetulegu, t.d. fann ég það á sjálfum mér hve erfitt það getur verið unglingum að þurfa að sækja skóla um langan veg. Því tel ég að byggðastefnu verði að bera hátt í málflutningi sósialista. Eftir þessa barnatrú og eigin reynslu kemur svo til lesning til uppbyggingar og frekari stað- festingar félagshyggju og jafn- réttissjónarmiðum. Þetta leiddi svo til þess að ég gekk í Alþýðubandalagið og hef verið i fjórða sæti á lista flokksins við tvennar síðustu Alþingiskosn- ingar. Við stóðum líka að því þá að stofna Alþýðubandalagsfélag á Þórshöfn og nágrenni og hefur félagatalan þar margfaldast á skömmum tíma. - Stundum heyrist því haldið fram að allir flokk- arnir séu eins, og því sama hver kosinn sé. - Þessu þykist ég nú þegar hafa svarað að nokkru hér að framan, þar sem sérstaða Alþýðubandalagsins er augljós í herstöðvamálum og sósíalism- inn hlýtur að marka flokknum sérstöðu. Það má ekki gleymast að við sósíalistar stefnum að grundvallarbreytingu á þjóð- félaginu. Vegna áratugabaráttu eru þær breytingar e.t.v. ekki lengur eins byltingarkenndar og þær voru, því að vissulega hefur sú barátta skilað okkur nokkuð áleiðis að markinu, þótt annars staðar hafí okkur e.t.v. borið eitthvað af leið. Það er ekkert nýtt fyrir sósíalista að berjast fyrir jöfnuði kynja, fatlaðra og fleiri hópa, heldur gamalt baráttumál. En því má ekki gleyma áð hin efnahagslega aðstoð nægir ekki ein saman nema að takmörkuðu leyti. Þar verða aðrir og flóknari þættir að koma til svo að öllum megi líða sem best. Um þetta eru menn góðu heilli að vakna til vitundar á síðustu árum. - En vilja ekki allir jöfnuð frið og frelsi, svo dæmi sé tekið? - Ég efast um að mikið búi undir þeim orðum hjá ýmsum annað en óttinn við að rísa opinberlega gegn slíku og til eru þeir sem vilja nýta frelsið til að sumir séu jafnari en aðrir til auðsöfnunar og arðráns á þeim sem minna mega sín. Slíkt kalla ég ranghverfu hugtaksins. En menn verða að gæta þess í hinni vinsælu umræðu um að sami rassinn sé undir öllum flokkum, að það er ekki hin villandi mynd fjölmiðlanna sem skiptir máli, heldur fyrir hvaða afl og hug- sjónir flokkurinn stendur og sýnir í verkum sínum. Þar er sérstaða Alþýðubandalagsins augljós öllum sem líta í kringum sig. - En flokkur hverra er þá Alþýðubandalagið? - Alþýðubandalagið er flokk- ur allra þeirra sem vinna fyrir sér hörðum höndunum, en hirða ekki óeðlilegan arð af vinnu annarra. Það berst gegn hvers konar erlendri ásælni, bæði í formi herstöðvar, eins og ég hef þegar nefnt, en ekki síður gegn ásókn auðhringa í íslenskt atvinnulíf. Það er hin nýja sjálf- stæðisbarátta okkar að standa þar dyggan vörð og kveða niður þær undirlægjuraddir sem ekki síst hafa látið á sér kræla að undanförnu í álmálinu. Það er grátlegt til þess að hugsa, að nú meira en 200 árum eftir að Skúli fógeti reyndi að beita sér fyrir eflingu inniends atvinnulífs, því að hann þekkti erlenda kúgun, vilji ýmsir leggja þetta atvinnu- líf í rúst í þjónkun sinni við erlend gróðaöfl, og þannig stíga skrefið til baka. Ég tel einnig að okkur beri að framfylgja hlutleysisyfirlýsing- unni til fullnustu, það á að vera okkar framlag til friðar í heim- inum. Hersetan hér er því andstæð grundvallarhugsjónum Islendinga og bandalag með herforingjaklíkum á borð við þá sem ráðið hefur í Tyrklandi t.d. gerir okkur samsek þeim við kúgun þeirra á löndum sínum. Blóði drifinn ferill Bandaríkja- hers víða um heim gerir hann ekki heldur sérlega fýsilegan gistivin. Hann er sá bjálki sem við eigum að kippa úr okkar eigin auga. Það eru eins og hver önnur falsrök að ætla sér að tryggja friðinn með vopnum og stríðir gegn heilbrigðri skynsemi. - En nú telur Alþýðu- bandalagið sig flokk launa- fólks? - Já og er það, en það er alls ekki svo að sjálfstæðismál og kjaramál séu andstæður, öðru nær. Ég get tæpast ímyndað mér verðugra sjálfstæðismál, en menn geti lifað af launum sínum, né verðugra kjaramál en að atvinnuvegir landsmanna séu í höndum þeirra sjálfra. Hvort tveggja eru höfuðbaráttumál Alþýðubandalagsins. - En hvað er þá brýnast í kjaramálunum? - Næst á eftir kröfunni um fulla atvinnu, verður að setja mannsæmandi laun. Þrátt fyrir allgóða afkomu sumra launa- manna vantar mikið á að taxta- kaupið nægi mönnum til fram- færis, og óhófleg yfirvinna stendur undir tekjunum. í kom- andi kjarasamningum verður eins og raunar hefur oft verið sagt að vinna gegn launamisrétt- inu og draga taxtana saman. En við vitum hvernig slíkt hefur gengið, og þá verður að koma til hlutur stjórnvalda með ýmsar félagslegar úrbætur. Þær má ekki vanmeta og vanvirða, þótt þær komi ekki beint upp úr launaumslögunum. Trygginga- kerfið hefur á síðasta kjörtíma- bili tekið gjörbreytingum til batnaðar og allar greiðslur hækka mjög. Nú vilja íhalds- öflin brjóta niður þetta kerfi til samhjálpar og ýmis félagsleg atriði önnur eins og t.d. félags- legar íbúðabyggingar sem það telur áalandi og óferjandi. Þar á markaðurinn einn að ríkja og lögmál peninganna en ekki mannúðarinnar að ráða. - Ertu þá ánægður með allt sem Alþýðubandalagið hefur staðið að í málefnum launafólks? - Engan veginn, þó er stærsti gallinn að sósíalistar eru stund- um farnir að tala um „köku- kenninguna" sem sjálfsagðan hlut, þ.e.a.s. að launafólki beri aðeins einhver ákveðin sneið af „þjóðarkökunni" margum- ræddu. Það er eins og mönnum hafi þá gleymst að hægt er að taka stærri sneið af þeirri köku, og breyta tekjuskiptingunni þessu fólki til hagsbóta. - Þú minnist á byggða- stefnu. Hver eru brýnustu mál dreifbýlisins? - Fyrst verðum við að svara þeirri grundvallarspurningu hvort við viljum eitthvað á okkur leggja til að öllum gefist kostur á að fá að stunda þjóð- hagslega arðbær störf í fram- leiðslugreinum. Meðþessu erum við búin að taka ákvörðun um dreifða búsetu og dreifbýlisfólk er ekki ómagar á þjóðinni, þvert á móti skapar það verðmætin. Því er grátlegt hve framlag þess er lítils metið . . Þetta fólk á heimtingu á að fá að sitja við sama borð og aðrir þegar um hlunnindi og ýmsa félagslega þjónustu er að ræða, í stað þess að vera svo afskipt sem raun ber vitni. Hér er eitt hið stóra jafn- réttismál, þótt hin séu líka stór, sem fara eftir stétt manna, kyni og heilbrigði svo nokkuð sé talið. - Nú ert þú e.t.v. kunnari fyrir afskipti þín af íþróttum en stjórnmálum. Er ekki lítið að gera með íþrótta (frétta)-mann á þing? - Sem betur fer hef ég átt mínar frístundir eins og aðrir og íþróttirnar hafa verið mér áhugamál og tómstundagaman, þar sem ég hef verið í góðum félagsskaj), nú upp á síðkastið í blakliði IS, auk þess að sjá um íþróttaþáu sjónvarpsins tvisvar í mánuði. Iþróttaiðkun er mann- bætandi, a.m.k. á meðan hún er í skynsamlegu hófí. Menn verða að rækta líkama sinn ekki síður en sálina og ég hef reynt að láta þetta haldast í hendur. Það er svo ekki verri skóli en hver annar að koma nálægt rekstri slíkrar hreyfingar, þannig að ég tel mér það til tekna að hafa kynni af ungmenna- og íþrótta- hreyfingunni. En ég er ekkert frekar í framboði sem íþrótta- maður heldur en vörubílstjóri, jarðfræðingur, bóndi, verka- maður eða hvað annað sem ég hef að unnið. Það er persónan Steingrímur Jóhann Sigfússon sem er í framboði til Alþingis, svo einfalt er það mál. - En er ekki þessi Stein- grímur of „ungur og reynslulítill“ í stjórn- málum? - Nei, ekki tel ég það nú. Þvert á móti held ég að þaðséæskilegt að fá af og til inn í stjórnmálin ungt og ferskt fólk með mikla starfsorku, og auðvitað þarf ungt fólk að eiga sína fulltrúa á þingi á hverjum tíma. Fólk í nýjum störfum þarf ætíð að leggja á sig einhverja vinnu til að kynnast aðstæðum og sé það samviskusamlega gert fylgja því ýmsir kostir að vera ferskur í starfi. Menn mega líka ekki gleyma því að vaninn er harður húsbóndi og oft vill síga værð á menn með aldrinum. - Nú virðist sú skoðun eiga sterkan hljómgrunn að þingmen séu upp til hópa vondir og virðing Alþingis sé lítil. Hvers vegna fýsir þig þá í þeirra hóp? - Ég leyfi mér nú að efast um að æsifréttaflutningur fjölmiðla gefi rétta mynd af störfum Alþingis. En það er auðvitað lítil von til breytinga ef nýtt fólk þorir ekki að gefa kost á sér. Ég býð mig fram í þeirri trú að Alþingi sé réttur vettvangur til að fylgja eftir baráttumálum okkar sósíalista og þoka okkur þannig fram á við í átt til réttlátara og betra þjóðfélags. - Nú er mánuður til kosninga. Hver eru kosninga- loforðin? - Ætli ég sleppi ekki að skrifa flugvöll hér og vegarspotta þar, þó að þetta séu að sjálfsögðu, mál sem þingmönnum ber að vinna að fyrir sína umbjóðentl- ur, og á ekki að vanvirða sem „fyrirgreiðslupólitík". Þing- menn eru starfsmenn kjósenda sinna. Stefna Alþýðubandalags- ins er stefna allra þeirra sem vilja vinna að þjóðfélagsbreyt- ingum í anda jöfnuðar, friðar og sjálfstæðis þjóðarinnar, efna- hagslegs, menningarlegs og stjórnarfarslegs. Ég álít að flokkurinn standi allvel um þessar mundir og við stefnum að sigri 23. apríl. I þessu kjördæmi er annað sætið baráttusætið og ég skora á menn að tryggja Svanfríði Jónasdóttir sæti á Alþingi. Hún á þangað fullt erindi, og yrði hörmulegt til þess að vita ef dreifing atkvæðanna á ýmis ný framboð yrði til að halda henni utan veggja þeirrar samkomu. En ég vona þó fyrst og fremst að kosningabaráttan fari málefnalega og heiðarlega fram. Ég býð fram alla krafta mína, vit og orku, en frambjóð- endur vinna ekki kosningarnar einir. Því heiti ég á alla stuðn- ingsmenn Alþýðubandalagsins að berjast vel á næstu vikum og gera sigur þess sem stærstan 23. apríl. -Erl NORÐURLAND- 3

x

Norðurland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurland
https://timarit.is/publication/784

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.