Ísfirðingur


Ísfirðingur - 15.12.1982, Blaðsíða 5

Ísfirðingur - 15.12.1982, Blaðsíða 5
 BiAD TRAMSÓKNAKMANNA / l/ESTFJARÐAKJÖRDÆMI 32. árg. ísafiröi í desember 1982 19. —25. tbl. Sr. Þórarinn Þór: Jól 1982 I ágætu kvæði sínu „Jólin 1891“ vitnar Matthías Jochumsson í orð móður sinnar, sem hún talaði til barna sinna um jólin: Þessa hátíð gefur okkur Guð. Guð, hann skapar allan lífsfögnuð. Án hans gæsku aldrei sprytti rós, án hans náðar dæi sérhvert Ijós. Þessi Ijós, sem gleðja ykkar geð, Guð hefur kveikt, svo dýrð hans gætuð séð. Jólagleðin ljúfa lausnarans leiðir okkur nú að jötu hans. í þessum erindum sýnir Matthías hve mikil. var trú móður hans og traust hennar á forsjón og handleiðslu Guðs. Henni verð- ur tíðrætt um Ijósin, sem gleðja geðið, og svo talar hún um allan lífsfögnuðinn, sem sé frá Guði kominn. En hvernig voru Ijósin? — Heimatilbúin tólgarkerti. Og hver var allur lífsfögnuður þessarar konu, sem bjó í moldarkofa, bláfá- tæk með stóran barnahóp? — Það kynni að þvælast fyrir okkur nútímafólki að svara, af því að við mundum eiga erfitt með að skilja hvernig hægt var að finna einhvern lífsfögn- uð í þeim lífskjörum, sem Þóra í Skógum bjó við. — Hún hafði ekkert af þeim lífsþæg- indum, sem nú eru talin sjálfsögð og ómiss- andi. Hún hafði ekkert rafmagn, það var engin upphitun í torfbænum hennar, aðeins ylur frá hlóðunum í eldhúsinu. Engin vatns- leiðsla var inn í bæinn, hún þurfti að sækja vatn í fötum út í læk vetur og sumar. Hún bjó við eintóm óþægindi, erfiðleika, örbirgð og allsleysi. Hún átti aldrei peninga. —Samt talar hún um allan lífsfögnuðinn. Samt gat hún búið börnum sínum svo gleðileg jól að þjóðskáldið mundi alla ævi. Á fullorðinsár- um vitnar hann um að aðra gleði, meiri og sannari, hafi hann ekki átt en jólagleðina í litla torfbænum. Og sú gleði var ekki fyrst og fremst vegna gjafanna, sem hann fékk, þótt þær gleddu hann, hann fékk kerti og rauðan vasaklút, heldur hitt, sem greyptist í minni hans; útskýring móður hans á fyrir- bærinu: Þessa hátíð gefur okkur Guð. Guð, hann skapar allan lífsfögnuð. Það var kjarni málsins, — aðalatriði. — Guði var allt að þakka. Án Guðs væri engin rós, — engin ljós, engin jólagleði, enginn lífsfögnuður. —Hversu margir skyldu hugsa sem svo og tala þannig um jólin nú til dags? — Það er hollt að íhuga nú á jólaföstunni og um jólin. Flest er öðruvísi orðið nú um jólahald en þá er Matthías var að alast upp í Skógum í Þorskafirði, bæði í innra tilliti og þó mest í öllum ytri aðbúnaði. Nú eru upphituð hús á hverjum bæ, rennandi vatn, heitt og kalt, rafmagnsljós og eldavélar, sími, útvarp og sjónvarp og allskyns önnur þægindi. Nú- tímatækni hefur lagt upp í hendur okkar allskonar vélar og tæki, sem létta störfin og gera lífið þægilegra, öruggara — og skemmtilegra (mundu sumir vilja bæta við, þótt það sé umdeilanlegt). Og við höldum jól með miklu tilstandi, skrauti og Ijósadýrð. En ólík eru jólaljósin okkar þeim Ijósum, sem glöddu geð barnanna í torfbænum fyrir 100 árum síðan. Þau gátu ekki einu sinni látið sig dreyma um svo mikil herlegheit, sem við lítum nú á hverjum jólum. Þau hefðu fallið í stafi af undrun og sjálfsagt talið óraunverulegt en fallegt ævintýri, ef einhver hefði sagt þeim. — Ekkert af því, sem við höfum nú höfðu þau, ef litið er á ytri búnað jólanna. Jólagjafirnar voru eitt tólgarkerti og vasaklútur. Hver mundi gleðj- ast yfir slíku nú? En þær glöddu börnin áður fyrr, og sjálfsagt meir og einlægar en mörgu og dýru gjafirnar nú. Þetta er umhugsunar- vert. Og þá er ekki síður merkilegt að hugsa um lífsfögnuðinn, sem Þóra í Skógum talaði um í fábrotnu lífi sínu, fátækt og umkomu- leysi. Eigum við, sem nú lifum, þeim mun meiri lífsfögnuð, sem því nemur, hve miklu meiri ytri lífsþægindi við búum nú við en forfeður okkar? Er fólkið hamingjusamara vegna allra þægindanna? — Ef hamingjan færi eftir ytri aðbúnaði þá ætti fólkið að vera hundrað sinnum hamingjusamara nú en það var þá — eða meir. Því að aðbúnað- ur og ytri kjör eru mörg hundruð sinnuni meiri nú og betri en þá. — Nei, það heyrist ekki mikið taiað nú um lífsfögnuðinn, sem Matthías yrkir um að móður sinni hafi verið ríkur í huga og tamur á tungu. Með þverrandi Guðstrú fjarlægist ham- ingjan, lífsfögnuðurinn. En að hamingjunni eru menn einlægt að leita. Þóra í Skógum fann hana í fátækt sinni í torfbænum í trú sinni og Guðstrausti. Hún kom innan að frá hjarta hennar, barmafullu af kærleika til Guðs og manna. Þess vegna gat sonur hennar ort um hana svo: Án efa fáir, það er mín trú, sér áttu göfugra hjarta en þú. Það vakti mér löngum lotning. í örbirgð mestu þú auðugust varst og alls kyns skapraun og þrautir barst sem værir dýrasta drottning. Kenning Jesú er alltaf að sanna gildi sitt í hamingjuleit mannanna. Og það hefur alltaf gefist vel og leitt til góðs þegar henni hefur verið gefinn gaumur. Hún er eina rétta leiðin til lífsgleði og hamingju. Þar er að finna lífsfögnuðinn, sem Þóra í Skógum fann og gaf börnum sínum. En stundum þykjast menn hafa fundið aðrar leiðir og fljótfarnari í leit sinni að hamingjunni, en þær hafa allar brugðist. Efnishyggjan kom og leiddi menn afvega. Nú hefur hin mikla tækni glapið sýn, kann- ski mest vegna þess hversu dásamleg hún er og hvernig henni hefur tekist að bæta ytri lífskjör. — Það er gott sem það nær. En tæknin skapar ekki lífsgæfuna, — lífsfögnuð- inn, sem kemur innan að frá hjarta manns- ins og er óháður ytri velsæld. Það sýnir okkur m.a. saga Þóru í Skógum og þá ekki síður sjálf fæðingarsaga frelsarans, sem fæddist í gripahúsi við eins fábrotin ytri kjör og aðstæður og hugsast getur. I velsæld okkar og ytri allsnægtakjöruni, sem við skulum nota og njóta eins og efni standa til — skulum við reyna að gleyma aldrei hinu einfalda og fábrotna í jólasög- unni. Englasöngur og Ijósadýrð, sem lýsir upp myrkrið, má ekki draga athyglina frá aðalatriðinu, heldur bendir það, þvert á móti, á kjarna máls: Lítið barn, reifað og liggjandi í jötu. — Þannig vildi Guð hafa það, til þess að minna okkur á að ytri dýrð og vegsemd getur verið tálsýn og á ekki að vera annað og meira, þegar best lætur, en umgjörð utan um það, sem eitt skiptir öllu máli: Sveininn nýfædda í fjárhúsinu, sem varð frelsari heimsins þrátt fyrir skort á allri velsæld og þægindum við fæðingu, í lífi og dauða. — Vegna fæðingar hans voru — eru og verða haldin heilög jól. Og að hann fæddist var Guðs verk — ákvörðun Guðs til að bjarga mönnunum, sem hann elskar. Þess vegna ber að þakka Guði fyrir jólin, fyrir frelsarann og allt gott, sem okkur hlotnast úr hendi hans. — Því gleymdi skáldið ekki af því móðir hans hafði kennt honum að: Þessa hátíð gefur okkur Guð. Guð, hann skapar allan lífsfögnuð. Án hans gæsku aldrei sprytti rós, án hans náðar dæi sérhvert Ijós. Gleðileg jól!

x

Ísfirðingur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Ísfirðingur
https://timarit.is/publication/790

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.