Eining - 01.12.1953, Síða 8
8
EINING
E I N I N G
Mánaðarblaö um bindindis- og menningarmál.
Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Pétur Sigrurðsson.
Blaðið er gefið út með nokkrum fjárstyrk frá Stórstúku Islands
og ríkinu.
Árgangurinn kostar 20 krónur. I lausasölu kostar blaðið 2 krónur.
Afgreiðsla þess er á skrifstofu blaðsins, Klapparstíg 26, Reykjavík.
Simi: 5956.
Uppspretta
sigursældar,
fegurðar og
lífshamingju
eftir
SÉRA
JÓN
THORARENSEN
Ritstjóri Eiwingar bað séra Jón Tliorarensen um ræðu
þá, sem hér fer á eftir. Hún er einmitt um það, sem mestu
máli skiptir, um það, hvernig daglegt líf manna getur orðið
þeim sjálfum og öðrum blessunarríkt, getur orðið fagurt
og farsælt. Ræðan er ekki samin sem jólaræða, en hún er
tilvalið lestrar- og ígrundunarefni á jólunum, og þá nýárs-
ósk á Eining bezta lesendum sínum til handa, að okkur
takizt öllum að iðlca hið fagra og sigursæla líf.
Ljósið deyr á lampanum, ef Ijósmaturinn er enginn. Og
líf manna verður þróttlaust og dapurlegt, ef það sækir ekki
næringu sína í uppsprettu þá, sem ræðan fjallar um. —
Og nú hefst hún:
Og er hann hafði kvatt þá, fór hann burt til fjallsins að biðjast
fyrir. Markús 6, A6.
Hér í þessum stutta texta fáum vér fordæmi Jesú Krists um
það, að hann leitar einveru til þess að biðjast fyrir. í fegurð, tign
og friði fjallanna fann hann stað til þess að biðjast fyrir. Hann
bað guð daglega og fékk himneskan styrk, og var yfirskyggður
af himneskri dýrð hans. Þetta skal vera efni hugleiðinga vorra
í dag.
Gömul helgisaga úr frumkristninni um Lazarus, bróður þeirra
Mörtu og Maríu, segir, að ávalt hafi einhver óviðjafnanleg fegurð
birzt í andliti hans eftir að Jesús vakti hann upp frá dauðum, því
að þá fjóra daga, sem líkami hans hafi legið í gröfinni, hafi hann
sjálfur verið í paradís og með óhjúpuðu andliti staðið andspænis
þeirri fegurð, sem birtist þeim upprisnu. Þessi fegurð hafi svo
skilið eftir áhrif sín í andliti Lazarusar og komið þar fram eftir
að hann klæddist holdslíkamanum aftur.
í þessari fögru helgisögu, sjáum vér eitt fegursta atriði trúar-
lífsins koma í Ijós, en það eru áhrifin frá því að komast í sam-
band við guðlega dýrð, í samband við það himneska vald, sem
öllu stjórnar og stýrir hverju spori voru.
Dæmi þau, sem vér eigum frá Jesú um þetta eru oss dýrmætust.
Á hverjum degi fór hann á afvikinn stað og baðst fyrir. Hann
varðveitti hið daglega samband við himneska dýrð og hið himn-
eska vald. Og þegar hann ummyndaðist á fjallinu, þá urðu klæði
hans björt eins og Ijósið og ásjóna hans skein sem sólin, af því
að hann var yfirskyggður af himneskri dýrð og krafti.
Hér er oss bent á veginn, sem hvert og eitt af oss þarf að fara.
Vér lifum öll í sífelldu annríki, engin stund er frjáls, bæði vegna
þess, sem þarflegt er og óþarflegt. Það er því mjög nauðsyn-
legt að vér öll ættum kyrrláta stund á degi hverjum, sem vér
værum utan við hraðann og óróleika daglega lífsins og værum í
næði ofurlitla stund. Þá er bezt að vera rólegur, losa hugann við
utanaðkomandi hugsanir, en reyna að líta inn í sinn eiginn barm,
gera sér grein fyrir sjálfum sér og á hvaða ferðalagi vér erum
og hvernig vér eigum í því sambandi að verja lífsstundum vorum.
En við þetta verður öllum ljóst, að vér erum á stóru ferðalagi og
sál vor á að vaxa og þroskast og nauðsynlegast af öllu er því það,
að reyna að dveljast með hugann daglega við ríki guðdómsins. —
Þá opinberast oss staðreyndir um guðs anda, þessa heilögu rödd,
sem samvizka vor getur alltaf heyrt til. Þá opinberast oss betur
staðreyndir um hinn ósýnilega heim guðs dýrðar, sem samofinn
er heimi vorum, svo að ekkert er það, sem hér í heimi gerist, er
ekki hafi áhrif í ósýnilega heiminum.
Öll erum vér hér í heimi umvafin af kærleiksríkum verum og
verndaröndum guðs og hugmyndir vorar um varðveizlu guðs eiga
að efla hjá oss þá vissu og sannfæringu, að yfir oss mönnunum
er vakað. Sérhver stund, sem vér lifum þannig í bæn og í leit til
guðsríkis, gerir það að verkum að guðs kraftur hið innra í oss
leiðist í ljós, allt það ójafna og hrjúfa í sálarlífinu hverfur, en
einhverjir dásamlegir guðs geislar lýsa upp og verma sál vora
og vér finnum á þeim augnablikum, að allar aðfinnslur og dómar
eiga að snúa að oss sjálfum, og guði eigum vér að standa reikn-
ingsskap af oss sjálfum en ekki af lífi annarra. Og þessi hugsun
bendir oss á það, að í sál vorri á daglega að fara fram viðtal við
guð og í auðmýkt eigum vér að rækta hlýðni og lotningu gagnvart
lífinu og þeim lögmálum, sem guð hefur því sett. Og vér munum
öll koma auga á þá vissu, að vér erum öll á langri ferð til þess
að verða miklu fullkomnari verur en vér nú erum, og til þess þarf
meira en þetta jarðlíf vort, enda sagði Jesús að í húsi föður síns
væru mörg híbýli.
Vér förum oft óvarlega með þau orð, er vér segjum eða tölum
um að komast í dýrð guðs og því ættum vér daglega að biðja guð
að gefa oss stöðuglyndi og þrek til þess, að hver áfangi ævi vorr-
ar megi verða heillavænleg undirstaða þess næsta. Og hver stund,
sem líður þannig, að vér beinum huganum til guðs, vekur oss til
meðvitundar um það, hvernig vér eigum að verja lífsstundum
vorum. Öll smámunasemi og daglegt arg, þarf að hverfa.
Þetta kemur allt af því, að vér horfum of lágt, lítum ekki upp
til hugsjónanna, sem Jesús gaf oss til þess að stefna að. Þegar
vér lítum aftur í tímann, þá sjáum vér með sársauka, hve vér
hefðum getað losnað við margar beizkar stundir við þref og þras
og sundurlyndi, ef hjarta vort hefði ekki verið lítið og þröngt. —
Þetta er sorglegt, þegar þess er gætt, hve stórt og kærleiksríkt
föðurhjarta vér eigum á bak við allt það, sem lifir og hrærist,
sem gefur oss öll þau ógrynni af fæðu og auðæfum, sem jörð vor
veitir oss.
Vér eigum að hrinda burt gremju frá hjarta voru, vér eigum
að forðast málaþras og stælur, hvort heldur er í trúmálum eða
veraldlegum málum. Vér eigum aðeins einn leiðtoga, Jesúm Krist,
og ef vér opnum hjarta vort fyrir anda hans, þá munu oss allar
leiðir færar að lifa og starfa saman öll eins og systkini á þessu
fagra landi, bæði í andlegum og veraldlegum málum.
Indverjar segja, að allar rökræður sé eyðsla á tíma og kröft-
um, en upplýstir af andanum frá Budda skilji þeir allt.
Vér getum líka tekið undir þetta og sagt: upplýstir af anda
Krists getum vér allt, skiljum hver annan, víkjum fyrir hver
öðrum, hjálpum hver öðrum, sameinumst hver öðrum, elskum
hver annan. Öll þekking og vizka og kærleikur kemur í fullkomn-
ustu mynd og fegurð inn í sál mannsins við það, að tengjast hin-