Akranes - 01.01.1944, Blaðsíða 8

Akranes - 01.01.1944, Blaðsíða 8
8 AKRANES neyddust stjórnarvöldin til að hýsa þar ýmislegt stór- menni, þegar svo bar undir. Voru tugthúslimirnir þá færðir í annan endann, en hinn hlutinn gerður aðsetur stórmenn- is þess, sem hlut átti að máli. Landsnefndarmennirnir svo- nefndu höfðu bækistöð sína í tugthúsinu allan þann tíma, sem þeir dvöldu í Reykjavík, og svo mun oftar hafa verið.*) Embættismenn tugthússins voru jafnan tveir, eins og áð- ur segir. Annar nefndist ráðsmaður. Hann sá um fjárreið- ur allar og reikninga, gerði kaup á matvöru, hafði um- sjón rpeð störfum eldafólks o. s. frv. Hinn embættismað- urinn War vangavörður (tugtmeistari.) Hann skyldi halda uppi röð og reglu og líta eftir daglegri hegðun fanga. Heldur hafði gengið skrykkjótt með allan rekstur tugt- hússins fram til þess tíma að Jóhannes Zoéga tók þar við lyklavöldum. Fyrsti ráðsmaðurinn var Guðmundur stúd- ent Vigfússon, síðar bóndi í Hjarðarholti. Hann var drykk- felldur í meira lagi, svo að eftirlitið með föngunum fór allt í handarskolum. Sat hann stundum með þeim að sumbli og missti þá gjarnan bæði rán og rænu. Hafði meira að segja ekki verið dæmalaust, að fangarnir lokuðu vörðinn inni í fangahúsinu, en löbbuðu sjálfir út um allar triss- ur eins og frjálsir menn! Stundum óðu tugthúslimirnir um bæinn og stálu öllu steini léttara. Einu sinni brutu þeir upp hús konungsverzlunarinnar í Örfirisey og stálu því, er þeir vildu. í annað skipti frömdu þeir innbrrot í tugthúsinu sjálfu og hnupluðu öllu lauslegu frá yfirmönn- um þess! Þá var umhyggja fyrir líðan fanganna ekki á marga fiska. Mataræði mátti heita fyrir neðan allar hellur, svo að þess er hvað eftir annað getið, að tugthúslimirnir hafi dáið úr „hor og vesöld.“ Ekki batnaði aðbúð fanganna þegar Sigvardt Brun var skipaður tugtmeistari. (1785) Hann var danskrar ættar, hörkutól hið mesta og fór þrælslega með fangana. Þóttist Brun þessi ætla að bæta úr vanrækslu og agaleysi Guð- mundar Vigfússonar, en fór langt yfir öll skynsamleg tak- mörk. Hafði hann refsivöndinn jafnan á lofti og barði fang- ana heiftarlega, meira að segja fyrir lítijlförlegustu yfir- sjónir. Þegar við þetta bættist lélegt mataræði og slæm aðbúð að öðru leyti, var ekki við góðu að búast. Árang- urinn varð sá, að á einu ári létust hvorki fleiri né færri en sex af föngunum úr „ófeiti“ (þ. e. hor) og annarri ves- öld. Horfði heldur óglæsilega í þessu efni, ef Brun hefði leikið áfram lausum hala. En nú tók forsjónin heldur hressilega í taumana, því að böðull þessi hrökk upp af vorið 1786. Voru þá bæði embættin (ráðsmanns og tugtmeist- ara) falin Gunnari student Sigurðssyni um stundarsakir. Gunnar hafði verið kristindómsfræðari við tugthúsið um nokkurt skeið. Þótti hann lítill skörungur og var með öllu óhæfur til ráðsmannsstöðu. Þó hékk hann við starf- ið í eitt ár með þeim árangri, að sjö tugthúslimir sáluðust um veturinn „vegna megnrar vanhirðu og ónógs viður- gernings."**) Vorið 1787 fluttist Gunnar Sigurðsson af landi brott til Noregs, við lítinn orðstír. Þá tóku þeir við stjórn fangahússins Henrik Scheel og Jóhannes Zoéga, svo sem áður segir. Jóhannes Zoéga var staddur í Kaupmannahöfn er hann fékk tugtmeistarastarfið. Hlaut hann ókeypis far til ís- lands á kaupfari nokkru, og er þá titlaður „Hörkrammer- svend.“***) Auk 25 ríkisdala árslauna hafði Jóhannes ó- keypis íbúð í tugthúsinu og eins kýrfóðurs grasnyt af Arn- arhólstúni. Brátt þótti sýnt, að stór og góð umskipti voru orðin hvað snerti stjórn á föngum og viðurgerning við þá. — Zoéga stóð hið bezta í stöðu sinni, stjómaði föngunum *) Safn til sögu ísl. IX. **) J. H. Árbækur Reykjavíkur. ***) Guðbr. J. Aldarminning brauðgerðar á ísl. með myndugleika og röggsemi, án þess að grípa til harð- vítugra typtunarmeðala. Hlaut hann virðingu mikla fyr- ir störf sín, er þóttu vel af hendi leyst í hvívetna. Aftur á móti var nokkur ljóður á ráði félaga hans, Scheel ráðs- manns, er lauk með því að honum var vikið frá ráðsmanns- stöðunni í fargdöum 1793, „for mislig Omgang med Tugt- húsets Penge.“ Hafði hann engin reikningsskil gert frá því er hann tók við stöðunni, eða um sex ára skeið. Þótti Ólafi stiftamtmanni Stefánssyni ekki mega við svo búið standa. Krafðist hann lögboðinna skila og hreinna reikn- inga. Þegar til uppgjörs kom reyndist allt í sukki, oftalin gjöld, vantaldar tekjur og fleira af slíku tagi. Hafði Scheel hneigst meira til drykkju en góðu hófi gegndi, og ekki gætt skyldu sinnar af þeim sökum. Að öðru leyti virðist Scheel hafa verið sæmilegasti maður, „skikkanlegur og vel að sér“, eins og sóknarpresturinn kemsf að orði. Svo mikið er víst, að góð vinátta hefur verið milli hans og Jóhannesar Zoéga, því ekki vill Zoéga vera lengur við tugtmeistarastarfið, þótt honum standi það til boða. Þegar þeir félagar hurfu frá tugthúsinu, var búið að leggja niður iðnaðarstofnanir Skúla Magnússonar og selja húsin, hverjum sem hafa vildi. Höfðu þeir keypt sitt húsið hvor, Scheel htunarhúsið, en Zoéga smiðjuna. Á rústum litunarhússins byggði Scheel síðar allmikið hús, sem lengi var nafnfrægt og nefndist „Gamli klúbburinn“. Gerðist Scheel nú veitingamaður og rak þar lengi helzta gistihús bæjarins. Oft var sukksamt hjá Scheel og hávaði mikill, énda þurfti ekki að hvetja húsbóndann til gleðskapar. Þar sem litunarhúsið stóð áður og „Gamli klúbburinn“ síðar, er nú Herkastalinn, hin mikla bygging Hjálpræðishersins. Smiðjan, sem Jóhannes Zoéga keypti fyrir 40 rdl. og 24 sk. stóð örskammt frá litunarhúsinu, við stíg þann, sem nú ber nafnið Tjarnargata, eða á horni Tjarnargötu og Kirkju- strætis. Hús þetta var allreisulegur torfbær og undi Zoéga þar vel hag sínum. Keypti hann sér nú borgarabréf og mun hafa tekið að verzla um þessar mundir, hafi hann ekki ver- ið byrjaður á því áður, jafnhliða fangavörzlunni. Verzlunin var þó í mjög smáum stíl, enda byrjar hann nú einnig á öðru starfi. Árið 1797 er hann nefndur bakari, og hefur því tekið það fyrir, þótt alveg væri hann ólærður í þeirri grein. Árið 1804 er Zoéga nefndur assistent, og virðist hann þá stunda verzlunarstörf hjá einhverjum kaupmanni. Um 1810 kemst hann í þjónustu Dansk-Skoska kaupmannsins og ævintýramannsins Andrew Mitchell. Mitchell þessi hafði margt reynt um dagana og kemur nokkuð við sögu Jörundarmálanna 1809. Hann átti hér verzlun í allmörg ár, en ekki er svo að sjá, sem Zoéga starfi þar lengi. Er hann titlaður bakari árið 1815, en síðan tómthúsmaður til 1821. Þá er hann nefndur factor. Það hefur þó ekki staðið lengi, því að hann andast 26. maí 1821, 74 ára að aldri. Af öllum heimildum virðist það ljóst, að Jóhannes Zoéga hefur verið mesti mætismaður á ýmsa lund. Hann er virt- ur af samborgurum sínum og þeir fela honum trúnaðar- störf. Um skeið er hann formaður „gamla klúbbsins", eins helzta skemmtifélags Reykvíkinga á fyrstu áratugum ald- arinnar. Voru í klúbb þessum flestir efnaðri borgarar bæj- arins og efndu þeir til margvíslegs fagnaðar á hátíðum og tyllidögum, en hreyfðu auk þess ýmsum nytsemdarmálum. Fátt er vitað um Ástríði konu Jóhannesar, hina íslenzku formóður Zoéga-ættarinnar. Hún virðist hafa verið sam- hent manni sínum og veitt honum aðstoð við brauðgerðina, þau árin, sem hann fékkst við bakaraiðn. Tvö börn áttu þau hjónin, sem úr æsku komust, Jóhannes og Magdalenu. Magdalena giftist Hannesi Gissurarsyni Ólsen, og bjuggu þau í svonefndum Teitsbæ. Teitsbær var kenndur við Teit vefara Sveinsson, er verið hafði verkstjóri við klæðaverk- smiðju „innréttinganna“. Hannes Ólsen drukknaði í fiski- róðri 1830, ásamt Grími Árnasyni í Þingholti og mörgum mönmun öðrum. Sonur hans og Magdalenu var Jóhannes Ólsen útgerðarmaður og bæjarfulltrúi. Frh.

x

Akranes

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Akranes
https://timarit.is/publication/865

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.