Bændablaðið - 12.05.2011, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 12.05.2011, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | fimmtudagur 12. maí 2011 Svínaræktarfélag Íslands var með aðalfund sinn þann 30. apríl sl. og hélt um leið upp á að félagið á 35 ára afmæli á þessu ári. Hörður Harðarson í Laxárdal, Skeiða- og Gnúpverjahreppi er formaður félagsins. Hann segir að enn sé einn af gömlu stofn- félögunum starfandi í greininni en það er Guðbrandur Brynjúlfsson á Brúarlandi. Var hann reyndar endurkjörinn í stjórn félagsins á aðalfundinum en með Guðbrandi og Herði situr Guðný Tómasdóttir á Ormsstöðum í Grímsnesi í stjórn félagsins. Margvísleg tækifæri í greininni Nærri 11 svínabú eru starfandi í landinu og framleiða þau sem svarar 25% af öllu kjöti sem fram- leitt er fyrir íslenska kjötmarkaðinn. Hörður segist ekki gera ráð fyrir að hlutfall svínakjöts breytist mikið á íslenska markaðnum. Litlir mögu- leikar séu á útflutningi á svínakjöti, þó afurðastöðvar hafi gert tilraunir með útflutning á fjarlæga markaði. Tollkvótar til útflutnings á svínakjöti til Evrópusambandsins eru ekki til staðar þannig að enn um sinn verða svínabændur að haga framleiðslu sinni þannig að hún taki fyrst og fremst mið af þörfum innanlandsmarkaðar. Vaxandi útflutningur á kindakjöti vegna gengisþróunar og ýmissa erfið- leika í framleiðslu erlendis geti líka haft jákvæð áhrif á kjötframleiðsluna í heild og skapað ýmsa möguleika. „Vegna ýmissa erfiðleika í nátt- úrufari í fjarlægum heimshlutum er nú auðveldara að selja íslenska lambakjötið úr landi en oft áður. Svona gæti hæglega komið upp hvað varðar svínakjötið og aðrar búvörur. Við þurfum því alltaf að vera undir það búin að kanna nýja möguleika sem upp kunna að koma. Verð á land- búnaðarafurðum er á hraðri uppleið um allan heim. Auk þess sjáum við aukna erfiðleika í fóðuröflun erlendis. Miklir þurrkar hafa t.d. verið í Ástralíu og ýmsir erfiðleikar í náttúrufari í Ameríku. Þetta mun á endanum hafa sín áhrif á kornmarkaðinn, sem kemur fram í verði búfjárafurða.“ Svínabændur stefna að aukinni kornrækt Hvaða möguleika hafa menn hér á landi varðandi kornrækt, t.d. fyrir svínabúin? „Til lengri tíma geta þeir verið umtalsverðir, þó svo það henti kannski ekki öllum svínabændum í dag að hefja kornrækt. Horfa þarf til langs tíma og byggja þarf upp þekkingu og reynslu sem er forsenda þess að árangur verði viðunandi. Starfshópur á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðar- ráðherra hefur sett fram stefnu um að að auka hlutdeild svínaræktar í inn- lendri kornrækt og að greinin þróist samhliða aukinni akuryrkju sem hefur farið vaxandi á síðustu árum. Ég heyri það núna að svínabændur munu verða með umtalsverða hlutdeild í innlendri kornrækt á þessu ári. Þar er aðallega um að ræða bygg, en það er jafnframt verið að gera ákveðnar tilraunir með ræktun á hveiti. Í fyrra fékkst upp- skera af hveitiakri sem eingöngu var notuð fyrir svín. Búist er við frekari tilraunum með ræktun á hveiti fyrir svín á þessu ári og yrði um að ræða bæði vetrarhveiti og vorhveiti og verður væntanlega gerður sérstakur samanburður á því. Það má segja að í góðu ári geti þetta staðið undir sér í samkeppni við innflutt fóður en skil á milli virðisauka og taps geta verið mjög viðkvæm. Það byggist fyrst og fremst á réttum vinnubrögðum, hag- stæðu veðurfari og því að bóndinn noti sjálfur það korn sem hann ræktar. Næstbesti kosturinn er að bóndinn kaupi af öðrum bændum og þá milli- liðalaust, því það er varla rými fyrir milliliði á þessum markaði.“ Miklar breytingar en svipuð mál enn á dagskrá Hörður segir að vissulega hafi mikið breyst á þeim 35 árum síðan Svínaræktarfélagið var stofnað. „Þegar maður fer að rýna í gamlar fundargerðabækur og skoða hvað brautryðjendurnir voru að funda um, þá er það margt keimlíkt því sem við erum að fást við í dag, þó af annarri stærðargráðu sé. Á einum fyrsta fundi Svínaræktarfélagsins var verið að fjalla um að efla leiðbeiningar í grein- inni og að ráða framkvæmdastjóra. Það var haldinn fundur á skrifstofu búnaðarmálastjóra hjá Búnaðarfélagi Íslands um möguleika á að fá ráðunaut til starfa fyrir greinina. Þennan fund sat líka Gunnar Bjarnason, sem þá var hrossaræktarráðunautur en hafði m.a. kennt svínarækt á Hvanneyri. Þar var velt upp möguleikum á því að fá ráðunaut fyrir svínaræktina sem yrði jafnframt framkvæmdastjóri fyrir félagið. Þetta er mjög áþekkt því sem við erum að fjalla um í dag, þ.e. að efla aðgengi okkar að hvers konar ráðgjöf. Við horfum þó kannski meira til nágrannalandanna í dag en áður var gert,“ segir Hörður. Gjörbreyttur svínastofn Hörður segir að svínastofninn í land- inu nú sé þó allt annar en ríkjandi var þegar félagið var stofnað. Upphaflegi svínastofninn var að mestu fluttur inn frá Danmörku og Bretlandseyjum eftir áralanga lokun á innflutning dýra. Engin endurnýjun var síðan á stofninum í fjölda ára sem leiddi til mikillar skyldleikaræktunar og vandamála sem henni fylgi. Það kom fram í minni vaxtarhraða og aukinni fitusöfnun en þó góðri fóta- byggingu. Frjósemi var samt góð í þessum gamla stofni en mikil afföll voru á grísum sem gat haft slæm áhrif á afkomu búanna þó verð til bænda hafi trúlega verið hlutfallslega betri en í dag. Á níunda áratugnum náðist að fá breytingar á lögum um inn- flutning erfðaefnis búfjár. Það gerði svínabændum kleift að flytja inn nýjan stofn frá Noregi. „Við höfum síðan verið að efla það samstarf við systursamtök okkar í Noregi og erum nú stödd þar í dag að geta flutt fryst svínasæði inn beint til notkunar á búunum. Það er algjör bylting frá því sem áður var, því þar með hafa bændur aðgang að einu besta erfðaefni sem völ er á með til- tölulega aðgengilegum hætti.“ Hörður segir að í Noregi sé málum þannig háttað að afurðarstöðvarnar séu oftast hluthafar í kynbótastöðvum á móti bændum og skipuleggja því ræktunina með tilliti til hagkvæmni og krafna markaðarins. Það þýðir m.a. kröfur um hækkun kjötprósentu og aukinn vaxtahraða hjá dýrunum. Segir Hörður að eigi að síður togist þessar áherslur afurðastöðvanna á við sjónarmið bænda, sem horfi meira á velferð dýranna og ýtrasta hag- kvæmni sé ekki endilega í fyrsta sæti. Norskir bændur hafa líka sagt sem svo að ef of langt er gengið í að hækka kjötprósentuna, þá geti það komið niður á gæðum kjötsins. Hafa bændur því viljað fara varlega í þessum efnum og það hefur verið að skila sér í mikl- um kjötgæðum. Segir Hörður að þessi árangur norsku bændanna lýsi sér best í því að mikil eftirspurn sé eftir erfða- efni úr norskum svínum í Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Bandaríkjunum og víðar um heim. Dýraverndarsjónarmið leiða til mikils kostnaðarauka Auknar áherslur hafa komið fram á meginlandinu, bæði innan ESB og í löndum sem standa utan sambands- ins, um aukna velferð dýra. Hefur það leitt til reglugerðabreytinga í Evrópu um aukið rými fyrir dýrin, lausagöngu og annan aðbúnað þeirra á búunum. Það hefur kallað á miklar breytingar á hönnun og skipulagi svínahúsa. Þær breytingar munu koma fram hér á landi á næstu árum enda megnið af búnaði íslenskra svínabúa hannaður og framleiddur í Danmörku. Endurmeta þarf búnað og skipulag búanna og í sumum til- fellum getur reynst hagkvæmara að byggja ný svínahús en breyta göml- um. Ákvæði í þessu sambandi hafa verið sett í reglugerð hér á landi til samræmis við tilskipun EES samn- ingsins. Innleiðing reglugerðarinnar mun leiða til gríðarlegrar útgjalda- aukningar fyrir svínaræktina á Íslandi ekki síður en erlendis. Munurinn er þó sá að Evrópusambandið veitir allt að 75% styrk á móti þeim kostnaði í aðildarlöndum sínum en íslensku búin fá enga styrki til þess, en eru samt að keppa á markaði við ríkisstyrkt kjöt m.a. frá Danmörku. Hér á landi hafa búin mest um tíu ára aðlögunar- tíma til að innleiða þessar breytingar. Það er mun styttri tími en eðlilegur afskriftartími á nýlegum innrétt- ingum í mörgum íslensku búanna. Fjárfestingar íslenskra svínabænda í búnaði og tækjum á undanförnum árum fara því víða fyrir lítið. „Þetta þýðir gríðarlegan kostnað- arauka fyrir greinina sem hún hefur ekki nokkur tök á að standa undir ein og óstudd. Þess vegna er litið svo á í nágrannalöndunum að nauðsynlegt sé að aðstoða bændur við að koma til móts við þessar auknu kröfur um eðlileg dýraverndunarsjónarmið og að tryggja að dýrunum á búunum líði vel.“ Hörður telur að góður skilningur sé á þessum vanda bænda meðal ráða- manna á Íslandi en efnahagsástandið sé með þeim hætti að erfitt sé að sinna þörfum allra þeirra sem þurfi á fyrir- greiðslu að halda. Segir hann alveg ljóst að íslensku svínabúin hafi að óbreyttu ekki bolmagn til að takast á við þetta þar sem þau geti ekki velt kostnaðinum út í verðlagið. Ástæðan er einfaldlega sú að þó fólk geri kröfur um auka velferð dýranna á búunum með tilheyrandi kostnaðarauka, þá er það sama fólk yfirleitt ekki tilbúið að greiða hærra verð fyrir kjötið ef það á kost á einhverju ódýrara. Það getur því tekið töluverðan tíma að laga markaðinn að þessum breyttu framleiðsluaðstæðum. /HKr. Hörður Harðarson afhenti Kristni Sveinssyni í Brautarholti og eiginkonu hans Margréti Jörundsdóttur, útskorinn haus af grís sem viðurkenningarvott fyrir framlag þeirra til íslenskrar svínaræktar á 35 ára afmæli Svínaræktarfélags Íslands. Var grísinn skorinn út í linditré af Sigríði á Grund í Flóa. Mynd | HKr. Svínaræktarfélag Íslands 35 ára: Svínabændur stefna að aukinni kornrækt fyrir bú sín Kristinn Sveinsson, fyrrum svína- bóndi í Brautarholti á Kjalarnesi, átti frumkvæðið að stofnun Svínaræktarfélags Íslands ásamt Páli heitnum Ólafssyni árið 1976. Voru þeir miklir samherjar í upp- byggingu svínaræktarinnar hér á landi. Var Kristinn heiðraður ásamt eiginkonu sinni í afmælis- hófi félagsins á Hótel Sögu þann 30. apríl síðastliðinn. Hörður Harðarson, formaður félags- ins, sagði við þetta tækifæri að Kristinn hefði lagt drjúgan skerf af mörkum við að gera svínarækt- ina að því sem hún er í dag. Svínaræktarfélagið var stofnað 21. ágúst árið 1976 en undirbún- ingsfundur að stofnun félagsins var haldinn að Hótel Holti þann 13. mars sama ár. Kristinn kom víða við sögu við uppbyggingu svínaræktarinnar ásamt eiginkonu sinni og stóðu þau m.a. fyrir upp- byggingu á sérhönnuðu svínaslátur- húsi í Reykjavík, sem þótti mikil bylting fyrir greinina. Tekið er til þess að í þessu sláturhúsi hafi sérstök áhersla verið lögð á velferð dýranna á síðustu metrum þeirra í lífinu, en það var líka ástæða fyrir því, eins og Kristinn lýsti í tölu sem hann hélt við þetta tækifæri. Sagðist Kristinn ekki vera fæddur með silfurskeið í munni og mikið vatn hafa runnið til sjávar á þeim 35 árum sem liðin væru frá stofnun félagsins. „Mér þótti svo vænt um lítinn grís þegar ég var barn,“ sagði Kristinn þegar hann minntist fyrstu tengsla sinna við svínin. Sagði hann frá því að þegar faðir hans dó hafi verið sjö krakkar á heimilinu innan við fermingu. Í þá daga var útvarp ekki á heimilinu frekar en á mörgum öðrum bæjum. Miklar væntingar voru samt um að eignast slíkt tæki, þó engin efni væru til þess. Sagði Kristinn að þá hafi móðurbróðir hans komið í heimsókn og sagt við móður hans að hún gæti sent strákinn til sín um vorið eftir einum grís. Síðan skyldu þau ala hann um sumarið og slátra honum um haustið, þannig að fyrir kjötið mætti fá peninga til að kaupa útvarp. Lýsti Kristinn því að grísinn hefði reynst honum mikill vinur og elt hann hvert sem hann fór um sumarið. Það hafi því vakið blendnar tilfinn- ingar hjá Kristni þegar grísnum var fórnað fyrir útvarpið. „Allt mitt svínavit er út frá þessum grís. Margar ánægjustundir höfum við, konan mín, börnin okkar og ég, haft síðan af svínunum. Dýrin kunna að meta mann.“ Óskaði Kristinn Svína ræktar- félaginu alls hins besta í framtíðinni og sagðist óska þess að svínabú fram- tíðarinnar yrðu höfð hófleg að stærð. „Viðráðanleg, þokkaleg og vel rekin en umfram allt að hlynnt sé vel að dýrunum þannig að þeim líði vel. Það er mál málanna,“ sagði Kristinn Sveinsson. /HKr. Kristinn Sveinsson og eiginkona hans Margrét Jörundsdóttir. Mynd /HKr. „Hlynnið vel að dýrunum þannig að þeim líði vel“ – Það er mál málanna, sagði Kristinn Sveinsson, frumkvöðull að stofnun Svínaræktarfélags Íslands Guðný Tómasdóttir á Ormsstöðum í Grímsnesi er eina konan í stjórn Svínaræktarfélags Íslands. „Á síð- ustu fjórum aðalfundum höfum við einungis verið tvær konurnar og við heitum báðar Guðný. Ég hef nú verið að skamma strákana fyrir að skilja konurnar alltaf eftir heima en þeir segjast ekki geta tekið þær með af því að þær heiti ekki Guðný.“ Á Ormsstöðum voru um 220 gyltur þegar mest var en þeim hefur verið fækkað í um 180 vegna þess offram- boðs sem varð í framleiðslunni eftir hrunið 2008. Guðný telur þó mjög misjafnt á milli býla hvað menn hafi dregið úr framleiðslunni, þó mikið hafi verið talað um nauðsyn þess til að koma jafnvægi á markaðinn. Hvernig sýnist þér horfurnar vera í þessari grein? „Þetta hefur verið sveiflukennt síðustu tvö til þrjú árin, með mikilli offramleiðslu. Eftir áramótin sýnist mér vera fyrstu merki þess að það sé aðeins að rofa til og hlutirnir að glæðast. Á móti kemur að um leið hækkar fóðurverðið en maður verður þó að lifa í voninni um betri hag.“ Bankarnir gerðu sig mjög gildandi í svínaræktinni um tíma og segir Guðný að það hafi skapað slæmt ástand. „Það er þó líka ótrúlegt hvað búið er að halda svínakjötsverðinu lengi niðri. Kannski er það búið að halda lífinu í þjóðinni í kreppunni.“ Svínabændur vilja bæta aðbúnað dýranna Guðný segist telja að allir svína- bændur séu sammála um að bæta þurfi aðbúnað svína á búunum en það kosti peninga. „Það væri frábært að geta gert þetta en eins og fjármögnunarmöguleikar eru í dag þá er þetta ekki hægt. Ég veit að neytendur eru ekki tilbúnir að borga þennan kostnað en erlendis virðist vera að ríkin ætli að styrkja þetta.“ „Það sem gerst hefur á undan- förnum árum er að dýrin hafa stækkað svo óhemju mikið, þannig að rýmið sem þeim er æltað verður stöðugt þrengra. Vandinn er bara þær öfgar sem í þessu eru. Nú á allt í einu að breyta öllu í einu og hér horfa menn mikið til þess að taka upp allt sem er að gerast erlendis, en vilja samt ekkert tala um styrkina sem þar eru taldir nauðsynlegir á móti. Frábært að versla beint frá býli, en...! „Á árinu 2008 fórum við á Ormsstöðum að selja beint frá býli. Þegar við vorum að byrja á þessu kom niðursveiflan og við gátum boðið ódýrara kjöt en fékkst í búðum. Við pössuðum okkur að vera ekki með háa álagningu og vorum ekki að græða á því miðað við að leggja kjötið beint inn til sláturleyfishafa. Meðan fólk gat komið til okkar og fengið ódýrara kjöt sagði fólk að það væri svo frábært að geta keypt beint frá býli. Núna, þegar við getum ekki lengur selt kjötið ódýrara en í búð- unum, þá finnst fólki ekkert svo frá- bært að kaupa beint frá býli lengur. Þetta þykir greinilega voðalega fínt svo lengi sem það kemur ekki við koma við budduna hjá fólki,“ segir Guðný. /HKr. „Fyrstu merki þess að það sé aðeins að rofa til“ – segir Guðný Tómasdóttir, stjórnarmaður í Svínaræktarfélagi Íslands

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.