Morgunblaðið - 14.01.2014, Blaðsíða 3
ÍÞRÓTTIR 3
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. JANÚAR 2014
Eiður SmáriGuðjohn-
sen var í gær
orðaður við belg-
íska knatt-
spyrnuliðið
Zulte-Waregem,
sem Ólafur Ingi
Skúlason leikur
með. Het Laaste
Nieuws sagði að félagið vildi fá Eið
frá Club Brugge til að fylla skarð
Thorgans Hazards, sem hefur verið
í láni frá Chelsea en er á förum. For-
ráðamenn Zulte-Waregem neituðu
að ræða málið við fjölmiðla, og kváð-
ust ekki ræða fréttir um félagaskipti
nema þau væru fullfrágengin.
Samir Nasri, franski knatt-spyrnumaðurinn hjá Manchest-
er City, verður frá keppni næstu
átta vikurnar. Hann meiddist á hné í
leik liðsins við Newcastle, þegar
Mapou Yanga-Mbiwa, varnarmaður
Newcastle, tæklaði hann harkalega,
en meiðslin reyndust ekki eins alvar-
leg og óttast var í fyrstu.
Hollenski knattspyrnumaðurinnMaikel Verkoelen er kominn
til KR-inga og verður til reynslu hjá
þeim út þessa viku. Verkoelen er 21
árs miðvörður, alinn upp hjá PSV
Eindhoven. Hann á ekki deildaleik
að baki með liðinu en lék með að-
alliðinu í forkeppni Evrópudeild-
arinnar og í hollensku bikarkeppn-
inni tímabilið 2011-12. Verkoelen
spilaði síðan sem lánsmaður með FC
Eindhoven í hollensku B-deildinni
síðasta vetur, 2012-13, en er samn-
ingslaus núna. Hann hefur leikið
með U17- og U19-ára landsliðum
Hollands.
Casper Andersen, 31 árs gamallknattspyrnumaður frá Dan-
mörku, er væntanlegur til reynslu
hjá Stjörnunni. Andersen er varn-
armaður og hefur spilað í Ástralíu í
hálft annað ár en var áður lengi í
röðum AB í Kaupmannahöfn.
Nadine Ange-rer, nýkjör-
in besti leik-
maður síðasta árs
í kvennaflokki,
hefur samið við
bandaríska félag-
ið Portland
Thorns um að
leika með því á
komandi keppnistímabili, en Ange-
rer er markvörður og fyrirliði Evr-
ópumeistara Þýskalands í knatt-
spyrnu kvenna. Angerer, sem er 35
ára, yfirgaf Frankfurt síðasta sumar
og spilar nú með Brisbane Roar í
Ástralíu.
Birkir Bjarnason kom inn á semvaramaður hjá Sampdoria þeg-
ar liðið sigraði Udinese örugglega á
heimavelli sínum, 3:0, í ítölsku A-
deildinni í knattspyrnu í gær. Birkir
kom inn á á 66. mínútu í stöðunni 2:0
fyrir Sampdoria.
Fólk sport@mbl.is
EM 2014
Ívar Benediktsson
Álaborg
„Ungverjar eru líkamlega stærri og sterkari en
Norðmennirnir,“ sagði Sverre Andreas Jakobsson,
leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik og
helsti varnarmaður liðsins, spurður í gær hver væri
meginmunurinn á ungverska landsliðinu sem ís-
lenska landsliðið mætir í dag og því norska sem leik-
ið var gegn á sunnudaginn.
„Ungverjar hafa yfir að ráða meiri skyttum en
Norðmenn sem eru betri maður gegn manni og eru
jafnframt tæknilega betri. Það er margt líkt með
liðunum en annað ekki. Við höfum farið vel yfir leiki
ungverska landsliðsins og erum komnir með hern-
aðaráætlun sem verður fínstillt í kvöld og í fyrra-
málið [í dag] og svo að segja alveg fram að leik,“
sagði Sverre eftir æfingu íslenska landsliðsins í Gig-
antium rétt eftir miðjan dag í gær.
Æfingin fór ekki fram á aðalstaðnum þar sem
leikið er heldur í minni hliðarsal. Þakið yfir salnum
lak á einum stað og þurfti að setja fötur og hand-
klæði á gólfið meðan æfingin stóð yfir.
Líkamlega erfiðari
Sverre segir að leikurinn við Ungverja í dag muni
verða líkamlega erfiðari. „Við þekkjum Ungverjana
ágætlega eftir að hafa leikið nokkrum sinnum við þá
á síðustu árum, til dæmis á Ólympíuleikunum í
London sumarið 2012. Við vorum vel búnir undir
þann leik og búum að því að einhverju leyti ennþá.
Úrslit þess leiks verða til þess að hvetja okkur enn
frekar til dáða á morgun,“ sagði Sverre ennfremur
en eins og mörgum er eflaust í fersku minni unnu
Ungverjar þann leik með einu marki eftir drama-
tískar lokasekúndur.
Með sigri eða jafntefli í leiknum við Ungverja
tryggir íslenska landsliðið sé sæti í milliriðlakeppni
Evrópumótsins og flytur sig þar með um set undir
helgina.
„Við veltum framhaldinu í sjálfu sér ekki fyrir
okkur. Nú kemur bara nýr dagur og með nýju verk-
efni. Ef maður ætlar að ná árangri á stórmóti í
handknattleik má maður ekki dvelja of mikið við
fortíðina, hvort sem upplifunin er jákvæð eða nei-
kvæð. Það má taka ýmislegt með sér úr næsta leik á
undan, menn verða hinsvegar að geta núllstillt sig
og tekist á við nýtt verkefni. Við viljum samt ekki
eyðileggja góðan árangur úr leiknum við Norðmenn
með því að eiga slakan leik gegn Ungverjum. Það
verður enginn meistari með því að vinna einn leik í
móti,“ segir Sverre léttur í bragði að vanda.
„Við stöndum hvorki né föllum með sigrinum á
Norðmönnum, sama má segja um næsta leik, gegn
Ungverjum á morgun [í dag],“ segir Sverre. Hann
segir ennfremur að það breyti ekki miklu í und-
irbúningi fyrir leikinn við Ungverja að hafa unnið
leikinn við Noreg á sunnudaginn.
„Auðvitað er alltaf betra að hefja nýtt verkefni í
lífinu á jákvæðum nótum en þeim neikvæðu. Þá
komum við aftur að því sem ég sagði áðan að menn
mega ekki láta fortíðina blinda sig. Leikurinn í dag
er ekkert síður mikilvægur en viðureignin við Norð-
menn á sunnudaginn,“ segir Sverre. iben@mbl.is
„Stöndum hvorki
né föllum með
þessum leik“
Morgunblaðið/Eva Björk
Varnarmaður Sverre Jakobsson er lykilmaður í
vörn íslenska liðsins og hefur verið um langt skeið.
Talsverður munur á norska og ungverska landsliðinu
Úrslitin í London 2012 hvetja enn frekar til dáða
Liðin sem taka þátt í lokakeppni
heimsmeistaramóts karla í Brasilíu
í sumar þurfa heldur betur að vera
á faraldsfæti innan þessa víðfeðma
lands. Bandaríkin, Ítalía og Mexíkó
þurfa að ferðast mest vegna leikja,
samtals rúmlega 14 þúsund kíló-
metra hvert lið.
Samkvæmt útreikningum brasil-
íska dagblaðsins Estado de SP
þurfa Aron Jóhannsson og sam-
herjar í bandaríska landsliðinu að
ferðast mest allra þeirra 32 liða sem taka þátt í loka-
keppninni. Þeir dvelja í Sao Paulo og þurfa að ferðast
þaðan með flugi til Natal, Manaus og Receife, þar
sem leikir þeirra gegn Gana, Portúgal og Þýskalandi
fara fram. Samtals gera það 14.326 kílómetrar. Ítalir
koma næstir en þeir munu hafa aðsetur í Ríó de Ja-
neiro, og ferðast samtals 14.126 kílómetra til að kom-
ast í leiki í sömu borgum. Mexíkóar koma síðan
skammt undan.
Belgar eru hinsvegar best settir. Þeir búa skammt
frá Sao Paulo og geta farið þangað í rútu til að spila
gegn Suður-Kóreu, og þurfa aðeins að fljúga tæplega
2.000 kílómetra vegna leikja gegn Alsír og Rússlandi
sem fara fram í Belo Horizonte og Ríó.
Meðalvegalengd hjá liðunum er 7.525 kílómetrar og
gestgjafarnir, Brasilíumenn, eru það lið sem er næst
þeirri tölu.
Leikirnir á HM fara fram í tólf borgum og í sumum
tilvikum tekur það liðin fjóra tíma að fljúga frá dval-
arstað sínum til keppnisstaðar. vs@mbl.is
Bandaríska liðið ferðast lengst á HM
Aron
Jóhannsson
Landsliðið í alpagreinum hefur verið við keppni í Noregi og
Austurríki undanfarna daga. Í gær tóku íslenskir keppendur
þátt í svigmóti í Bjorli í Noregi.
Einar Kristinn Kristgeirsson stóð sig best en hann endaði
í sjötta sæti. Fyrir það fékk hann 60,41 FIS-punkta sem eru
hans bestu punktar á erlendum vettvangi. Einar Kristinn
var einnig með besta tímann af öllum keppendum í seinni
ferðinni.
Magnús Finnsson endaði í 25. sæti og fékk fyrir það 50.04
FIS-punkta en Brynjar Jökull Guðmundsson náði ekki að
klára fyrri ferðina. Einnig tóku þátt þeir Sigurður Hauksson
sem endaði í 37. sæti og Hallgrímur Páll Leifsson en hann
náði ekki að klára seinni ferðina.
Í kvennaflokki stóð Erla Ásgeirsdóttir sig best og endaði í 13. sæti og hlaut
fyrir það 52,95 FIS-punkta. Auður Brynja Sölvadóttir varð í 24. sæti sem gaf
72.59 FIS-punkta. sport@mbl.is
Einar Kristinn bestur í Bjorli
Einar Kristinn
Kristgeirsson
Fyrstu umferð riðlakeppni Evrópumótsins í hand-
knattleik lauk í gær þegar fyrstu leikirnir í C- og
D-riðli fóru fram.
Króatar áttu sviðið í Kaupmannahöfn þegar lið-
ið fór illa með Hvíta-Rússland. Það skipti engu
máli þótt Hvít-Rússar skoruðu tvö fyrstu mörk
leiksins því Króatar skoruðu næstu sex og þá var
þetta aldrei spurning. Munurinn var mestur fimm
mörk í fyrri hálfleik og þannig stóðu leikar í hálf-
leik, 16:11, og ljóst að róðurinn yrði erfiður fyrir
Hvít-Rússa að koma til baka eftir hlé.
Það var sannarlega raunin. Króatar skoruðu
átta mörk gegn tveimur í upphafi síðari hálfleiks
og enduðu á að vinna gríðarlega öruggan ellefu
marka sigur, 33:22.
Flestir leikmenn komust á blað í liði Króatíu og
voru Clatko Horvat og Ivan Cupic báðir með sex
mörk. Hjá Hvíta-Rússlandi var Barys Pukhouski
markahæstur, einnig með sex mörk, en það mun-
aði um minna að vera án Siarheis Rutenka, þeirra
besta manns.
Í hinum leik D-riðils unnu Svíar afar þægilegan
sigur á Svartfellingum, 28:21, eftir að hafa verið
fimm mörkum yfir í hálfleik. Fjölmargir sænskir
áhorfendur gerðu sér ferð yfir Eyrarsundið til að
styðja sína menn sem spiluðu af miklu öryggi og
var sigurinn aldrei í hættu. Þeirra markahæstur
var stórskyttan Kin Ekdahl du Rietz með sjö mörk
en Vasko Sevaljevic skoraði fimm mörk fyrir
Svartfjallaland.
Það var mikil spenna í C-riðli þegar Serbar
mættu Pólverjum. Serbar voru fjórum mörkum yf-
ir í hálfleik, 13:9, en það var allt annað lið Pólverja
sem mætti til leiks eftir hlé. Þeir skoruðu sex
fyrstu mörk síðari hálfleiksins og voru allt í einu
komnir með tveggja marka forystu. Þá vöknuðu
Serbar aftur til lífsins, náðu að komast yfir á ný og
mörðu sigur, 20:19, en þeir mega sannarlega
þakka markverði sínum, Darko Stanic, sem fór
hamförum í síðari hálfleik.
Markaskorunin dreifðist vel hjá Serbum þar sem
þrír leikmenn voru markahæstir með þrjú mörk
en hjá Pólverjum var Mariusz Jurkiewicz at-
kvæðamestur með fimm mörk.
Í hinum leik riðilsins lögðu Frakkar lið Rúss-
lands, 35:25, þar sem Alix Nyokas fór á kostum og
skoraði níu mörk. Jafnræði var með liðunum í upp-
hafi leiks en Frakkar tóku þá frumkvæðið, voru yf-
ir 19:14 í hálfleik og uppskáru góðan sjö marka
sigur og sitja á toppi riðilsins. yrkill@mbl.is
Ellefu í plús hjá Króatíu
Króatar rúlluðu yfir Hvít-Rússa í D-riðli Meiri spenna hjá
Serbum gegn Póllandi Frakkar og Svíar með örugga sigra
AFP
Markahæstur Alix Nyokas gerði 9 mörk fyrir
Frakka og var markahæstur í leikjunum fjórum.