Morgunblaðið - 12.09.2014, Blaðsíða 14
14 | MORGUNBLAÐIÐ
Þ
að eru engar ýkjur að segja
að Sólon Bistro sé einn af
glæsilegri veitinga- og
veislusölum landsins.
Lengi hafa borgarbúar
vanið komur sínar í fallegt og sögu-
frægt húsið efst í Bankastræti,
kannski fengið sér kaffibolla og
kökusneið í miðborgarferðinni eða
ljúffengan kvöldverð áður en haldið
er af stað í leikhús eða út í nætur-
lífið.
Efri hæð staðarins hefur verið
vinsæl til hátíða- og fundahalds og
er snotur umgjörð utan um hvort
heldur jólagleðskap starfsmanna-
félagsins, fermingarveislu eða af-
mæli.
Með langa sögu
Jón Sigurðsson er eigandi staðarins
„Fyrst var hér rekin málningar-
vöruverslun sem seldi ekki bara
áhöld og efni til húsmálunar heldur
sá líka öllum helstu listmálurum
landsins fyrir penslum, litum og
striga. Fyrir tæplega tveimur ára-
tugum er húsinu síðan breytt í kaffi-
hús og veitingastað,“ segir hann og
minnir á að tengingin við listalífið sé
enn sterk og hefð fyrir því að fögur
málverk prýði stóra veggina á bæði
efri og neðri hæðinni.
Sjálfur tók Jón við rekstrinum
fyrir rösku ári en skömmu áður
höfðu orðið allnokkrar skemmdir á
staðnum vegna bruna sem átti upp-
tök sín í eldhúsinu. Var húsið tekið í
gegn í kjölfarið, án þess þó að hrófl-
að væri við sögufrægum innrétt-
ingum staðarins en byggingin er
vernduð bæði að utan og innan.
Rúmgóð efri hæð
Á efri hæð Sólon Bistro er salur sem
rúmar 65 manns í sitjandi borðhaldi
og 120 standandi gesti. „Húsið er
stórt og rúmgott, og ef efri hæðin
dugar ekki til hefur það gerst að við
lokum neðri hæðinni í nokkrar
klukkustundir og nær hátíðin eða
veislan þá yfir allan staðinn.“
Jón segir staðsetninguna eins
góða og hugsast getur. Vinnustaðir
sem efna til árshátíða eða vilja ein-
faldlega gera starfsmönnum daga-
mun velja t.d. oft að tvinna saman
snæðing og drykki á Sólon og ferð í
leikhús eða á tónleika í næsta ná-
grenni. Aðrir kunna að meta að þeg-
ar veislunni lýkur er léttur leikur,
fyrir þá sem vilja, að halda fjörinu
áfram á börum og næturklúbbum
miðborgarinnar. Er jafnvel ekki úr
vegi að enda nóttina á einhverju af
fjölmörgum snotrum hótelum mið-
bæjarins, frekar en að taka leigubíl
heim.
Á Sólon Bistro er hægt að velja
veislupakka af ýmsum stærðum.
„Við bjóðum upp á allt frá smárétt-
um yfir í létta hádegisrétti og svo
heila margrétta kvöldverði með ljúf-
fengum steikum, súpum og léttum
salötum. Þykir sjávarréttasúpa
hússins eitt af aðalsmerkjum stað-
arins, gerð eftir uppskrift sem mikil
leynd hvílir yfir,“ segir Jón. „Í
veislum einstaklinga, s.s. ferming-
arboðum og afmælisveislum, er fólki
að sjálfsögðu velkomið að koma með
eigið bakkelsi og t.d. hægt að tvinna
fermingarterturnar saman við ljúf-
fengt tapas-hlaðborð að hætti Sól-
on.“
Allt sem veislan þarfnast
Fullkomið hljóðkerfi er í húsinu,
skjávarpi og tjald, og m.a. búnaður
til að halda fjarfundi í gegnum
Skype. „Stórir gluggarnir gera rým-
ið opið og skemmtilegt og hægt að
raða upp glæsilegu veisluborði eftir
óskum viðskiptavinarins.“
Jón segir það einmitt ráðlegt í að-
draganda veislunnar að fólk komi og
skoði salinn og velti fyrir sér mögu-
leikunum sem rýmið býður upp á.
Hægt er að raða borðum og stólum á
ýmsa vegu, en líka skreyta salinn til
að gefa rétta tóninn, t.d. ef árshátíð
starfsmannafélagsins er með ákveð-
ið þema, eða til að gera brúðkaups-
veisluna enn rómantískari.
Spurður um helstu mistök sem
skipuleggjendur reka sig á nefnir
Jón að ýmist vanmeta eða ofmeta
gestafjöldann. „Við reynum hvað við
getum til að koma til móts við fólk ef
gestir reynast vera mun færri en til
stóð, en eftir stendur að ef t.d. fólk
hefur látið gera tilboð fyrir 60
manns en aðeins 40 mæta, þá verður
reikningurinn hærri en hann hefði
þurft að vera. Best er ef skekkj-
umörkin eru ekki meiri en fimm
gestir til eða frá, og þá betra að van-
áætla en ofáætla því það er alltaf
auðveldara að bæta við en draga
frá.“
Gott þema gerir gæfumuninn
Ef mikið liggur við að allir gestir séu
kátir og hressir segir Jón að vanda
verði valið á skemmtikrafti, og fá t.d.
söngvara eða veislustjóra sem kann
að ná til alls hópsins. „Ég hef líka
séð það gefast vel að hafa þema í
veislum. Ef t.d. árshátíðin er með
léttu og skemmtilegu þema þá er
undirbúningurinn heima oft búinn
að koma gestunum í rétta skapið.
Þeir mæta svo á staðinn, kannski í
grímubúningi, farðaðir í takt við
þemað og tilbúnir til að deila þessari
upplifun með hópnum.“
ai@mbl.is
Gott að mæla út salinn
og koma auga á möguleikana
Á Sólon Bistró er vin-
sælt að nota efri hæðina
undir smærri og stærri
veislur. Jón Sigurðsson
segir oft gefast vel að
halda starfsmannahá-
tíðir með þema, því und-
irbúningurinn heima
kemur fólki strax í
veisluskapið.
Grand Staðurinn var nýlega tekinn alveg í gegn eftir að bruni olli skemmdum.
Morgunblaðið/Þórður
Umgjörðin „Stórir gluggarnir gera rýmið opið og skemmtilegt og hægt að raða upp glæsilegu veisluborði eftir óskum viðskiptavinarins,“ segir Jón.
Möguleikar Í stærstu veislunum er allur staðurinn undirlagður, bæði uppi og niðri.