Austurland - 06.09.2012, Side 2
2 6. SEPTEMBER 2012
Atvinnulífssýning
á Egilsstöðum
Talið er að um 3000 manns hafi sótt atvinnulífssýninguna
„Okkar samfélag“ sem haldin var í Egilsstaðaskóla 18.-19. ágúst síðastliðinn.
Alls tóku 80 fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök þátt í sýningunni.
Markmið sýningarinnar var að gefa fyrirtækjum og einstaklingum tækifæri til
að kynna þær vörur og þjónustu sem
þau hafa upp á að bjóða, skapa tækifæri
fyrir þátttakendur til að vinna saman
og síðast en ekki síst að varpa ljósi á þá
fjölbreytni sem einkennir atvinnulíf á
svæðinu.
Sveitarfélagið Fljótsdalshérað stóð að
sýningunni. Að mati aðstandenda tókst
sýningin afskaplega vel ekki síst vegna
metnaðar sýnenda og þeirrar jákvæðni,
velvilja og gleði sem þar ríkti.
-SGK
Doktorsnemi að störfum í Breiðdalssetri
Birgir V. Óskarsson, doktorsnemi í jarðfræði, dvaldi í Breiðdalssetri og vann að rannsóknum
í tengslum við doktorsverkefnið
sitt: Tegund og uppbygging íslenskra
hraunsyrpna frá síðtertíer (fyrir um
15 milljónum árum síðan): gostíðni,
flæðiferli og umhverfisaðstæður.
Markmið verkefnisins er að leggja
ítarlegt og magnbundið mat á gerð og
byggingu fjögurra hraunsyrpna sem
mynduðust í flæðigosum á síðtertíer
með aðferðum og tækni eðlisrænnar
eldfjallafræði. Hraunsyrpurnar
voru valdar til að endurspegla þrjár
megingerðir íslenskra basalhrauna.
Hólmasyrpan og Grjótásyrpan
innihalda ólivín basalt og
Grænavatnssyrpan samanstendur af
dílabasalti. Hvert hraun er rannsakað
með tilliti til útbreiðslu þess, ytri og
innri byggingar sem og tengingar við
önnur hraun. Jarðlagaskipan hverrar
hraunsyrpu hefur verið kortlögð auk
innri byggingar valinna hrauna. Einnig
hafa sýni verið tekin kerfisbundið.
Athuganir af þessu tagi geta gefið
raunhæfa mynd af stærðargráðu
gosanna, flæðiferli hraunanna og þeim
umhverfisaðstæðum sem ríktu er þau
mynduðust. Þær eru því mikilvægir
þættir í myndunarsögu svæðanna.
Breiðdalssetrið hefur veitt Birgi
aðgang að kortum og frumgögnum
breska jarðfræðingsins G.P.L.
Walker sem starfaði við kortagerð á
Austfjörðum í kringum 1960.
-BVÓ
Nýr formaður Tengslanets
austfirskra kvenna (TAK)
Hrönn Jakobsdóttir verður formaður stjórnar TAK næsta árið. Þetta var ákveðið
á fundi stjórnar mánudaginn 20. Ágúst
sl. Aðrar stjórnarkonur eru Anna Björk
Hjaltadóttir, Þorbjörg Gunnarsdóttir,
Unnur Óskarsdóttir og Stefanía
Kristinsdóttir.
Á sama fundi var lagður grunnur
að haustdagskrá TAK en fyrsti
viðburðurinn var kvennaferð í
Skálanes 31. ágúst til 1. september.
Aðrir viðburðir eru m.a. félagsfundur,
jóga á Hallormsstað í október,
fyrirtækjaheimsókn á Reyðarfirði
í nóvember, og menningarferð til
Akureyrar í desember. Auk þess verður
haldið áfram með verkefnið „konur
í stjórnir“ og námskeið í framkomu
og tjáningu haldið. Þar að auki
verður skipulögð ein heilsubótaganga
í hverjum mánuði undir yfirskriftinni
„úr sófanum og á toppinn“ en
markmiðið er fara á Snæfell í síðustu
göngunni næsta sumar.
Hrönn hvetur konur á Austurlandi
til að skrá sig í TAK-ið og taka þátt í að
móta félagið, verkefni þess og viðburði.
Nánari upplýsingar um TAK má
finna á heimasíðu félagsins www.
tengslanet.is.
-SGK
Það er gaman að fá tækifæri til að byggja upp eins öflugan miðil og vikublaðið Austurland. Skilyrði þess að vel takist til er að lesendur og íbúar svæðisins taki virkan þátt í þróun blaðsins með því að koma
skoðunum sínum og fréttum á framfæri. Ætlunin er leggja áherslu sérstöðu
svæðisins, viðburði, pólitík og umræðuna hverju sinni en ritstjóri heitir því
hér með að taka á hverju máli af sanngirni og hlutleysi.
Nú kann einhver að gera athugsemdir við það að vikublaði, sem ber heitið
Austurland, sé dreift frá Hornafirði til Vopnafjarðar. Hornfirðingar heyra eftir
breytingar á kjördæmaskipan frá 1999 undir Suðurland þannig að pólitískt séð
nær blaðið til tveggja landshluta þótt margir Hornfirðingar vilji gjarnan áfram
kenna sig við Austurland. Sjálfri hefði mér fundist rökrétt að Austurland, sem
landshluti og kjördæmi, lægi frá Húsavík að Hornafirði. Íbúarnir og svæðin
eiga fjölmargt sameiginlegt svo sem fjarlægð frá höfuðstaðnum, umræðu um
neikvæða byggðaþróun og erfiðar samgöngur, kynjahalla, stóriðju og síðast
en ekki frumatvinnugreinarnar sjávarútveg og landbúnað.
Í fyrsta tölublaði er við hæfi að varpa ljósi á fjölbreytni svæðisins og þær
vonir og væntingar sem forsvarsmenn þess bera í brjósti samanber spurningar
til oddvita. Í blaðinu er farið yfir stöðu ferðaþjónustunnar á svæðinu og
áhyggjur aðila innan hennar af hækkandi skattbyrði. Jafnframt er þar að
finna viðtal við Katrínu Jakobsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra
sem gerði víðreisn um Austur- og Suðurland í vikunni sem leið auk greinar
eftir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Stefnt er að því að í blaðinu
verði fastir pistlar um Austfirskar og Hornfirskar krásir sem og hönnuði,
listamenn og handverksfólk á svæðinu. Einnig verður pláss fyrir aðsendar
greinar en miðað er við að greinar séu að hámarki 250 orð.
Að vikublaðinu Austurlandi starfar gott teymi, útgefandi er Fótspor með
Ámunda Ámundason í fararbroddi en hann sér einnig um auglýsingasölu
fyrir blaðið. Umbrotsmaður er Unnar Erlingsson og prófarkalesari Halldóra
Tómasdóttir.
Stefanía G. Kristinsdóttir, ritstjóri
Öflugur miðill á
Austurland
Leiðari
AUSTURLAND 1. TBL. 1. ÁRGANGUR 2012
ÚTGEFANDI: Fótspor ehf. Ábyrgðarmaður: Ámundi Ámundason, sími: 824 2466, netfang: amundi@fotspor.is. Auglýsingastjóri: Ámundi Ámundason, Suðurlandsbraut 54, 108 Reykjavík. Auglýsingasími:
578 1190, netfang: auglysingar@fotspor.is. Ritstjóri: Stefanía G. Kristinsdóttir, sími 891 6677, netfang: stefania@einurd.is. Prentun: Ísafoldarprentsmiðja, 4.400 eintök. Dreifing: Íslandspóstur.
FRÍBLAÐINU ER DREIFT Í 4.400 EINTÖKUM Á ÖLL HEIMILI Á AUSTURLANDI OG HORNAFIRÐI AUK DREIFBÝLIS. BLAÐIÐ LIGGUR EINNIG FRAMMI Á HELSTU ÞÉTTBÝLISSTÖÐUM Á AUSTURLANDI.
Stjórn TAK, frá vinstri; Þorbjörg Gunnarsdóttir, gjaldkeri, Anna Björk Hjaltadóttir,
vefstjóri, Hrönn Jakobsdóttir, formaður og Unnur Sveinsdóttir meðstjórnandi.Birgir V. Óskarsson doktorsnemi í jarðfræði við rannsóknir á Austurlandi.
Hjónin Eymundur Magnússon og Eygló Björk Ólafsdóttir í Vallanesi voru meðal þeirra sem tóku þátt í sýningunni.