Vísbending


Vísbending - 08.04.2013, Blaðsíða 1

Vísbending - 08.04.2013, Blaðsíða 1
Vikurit um viðskipti og efnahagsmál V Í S B E N D I N G • 1 4 T B L 2 0 1 3 1 8. apríl 2013 14. tölublað 31. árgangur ISSN 1021-8483 Þrátt fyrir allt virðist skuldavandi Íslendinga minnka. Þeir eru þó í hópi verst staddra þjóða. Skuldaleiðrétting Framsóknarflokksins virðist færa þeim mest sem mest hafa fyrir. Höftin valda því að allt hagkerfið er skekkt og á því græða ýmsir. Krónan er þeim góð. Margrét Thatcher var umdeildur foringi eins og margir sem þora að fylgja skoðunum sínum. 1 32 4 Hvar er neyðin stærst? Nýleg könnun Hagstofunnar bendir til þess að vandi heimilanna fari heldur minnkandi þó að vissulega sé hann ærinn. Samkvæmt henni hafa um 10% heimila lent í vanskilum með húsnæðislán síðastliðið ár, en það er svipað og árið 2011. Sé litið á önnur lán sést að hlutfallið hefur lækkað úr 12% í 10%. Það vekur athygli að þessar tölur eru ekki ósvipaðar því sem var árið 2004. Mismunandi spurningar Könnunin hefur verið gefin út undir heitinu Fjárhagsstaða heimilanna 2012. Í henni er spurt ýmissa spurninga sem geta varpað ljósi á það hvort heimilin eru í fjárhagsvandræðum. Margar byggja þær á mati svarenda og því ekki víst að allir meti vandann nákvæmlega eins. Sem dæmi má nefna: „Hvernig gengur heimilinu að ná endum saman?“ Vanskil eru hins vegar áþreifanleg að því leyti að annað hvort hafa menn lent í vanskilum eða ekki. Af töflum í skýrslunni má sjá að vanskil hafa aukist frá árunum 2006-8, en þá voru milli 5 og 6% heimila í vanskilum. Frá 2010 hafa vanskil staðið í stað. Mest eru þau hjá einstæðum foreldrum, körlum sem búa einir og hjónum með fleiri en tvö börn. Hjá þessum hópum lentu frá 14 til 22% heimila í einhverjum vanskilum í fyrra. Samkvæmt þessari könnun voru því um 12.000 heimili í vanskilum einhvern tíma árið 2012, en þar með er ekki sagt að vanskilin séu viðvarandi. Þegar spurt er hvernig heimilinu gangi að ná endum saman, fæst að rétt tæplega helmingur segir að það sé erfitt. Hlutfallið var um 30% árin 2006-7, en það segir í sjálfu sér ekki mikið því að menn geta verið í vandræðum af ýmsum toga. Alls kyns „eyðsla“ getur sett menn í svipuð fjárhagsvandræði og sá er í sem hefur lítil laun sem hrökkva ekki fyrir nauðþurftum. Víðar vandi en hér Á meðfylgjandi mynd er niðurstaðan á Íslandi borin saman við stöðuna í flestum ríkjum Evrópu, en oft virðast vera í gangi keppni um hvaða land hafi farið verst út úr kreppunni. Skoðaður er sá hópur sem verst kom út, það er einstæðir foreldrar. Myndin sýnir að meðal fimm þjóða standa þessir hópar mjög illa: Frakka, Íslendinga, Letta, Grikkja og Íra. Einhver kann að hvá við að sjá Frakka í þessum hópi, en í hugann koma orð Görans Perssons, fyrrverandi forsætisráðherra Svía, en hann sagði í fyrirlestri síðastliðið haust að Frakkar kynnu að lenda í miklum hremmingum fljótlega. Myndin bendir til þess að hjá einstæðum foreldrum sé staðan slæm í öllum þessum löndum. Fróðlegt væri að vita hvort annars staðar en á Íslandi er talað um skipulagðar aðgerðir af hendi stjórnvalda fyrir þá sem eru í vanda. Í þessum löndum hafa verðtryggð lán ekki stökkbreyst, en atvinnuástand er víða þungt og laun hafa lækkað. Í Ungverjalandi og fleiri Mið-Evrópulöndum voru erlend lán hins hins vegar algeng og gengi gjaldmiðla sumra þessara landa hefur veikst, en þó ekki í sama mæli og á Íslandi. Umfang vandans Í síðasta tölublaði Vísbendingar kom fram að heildarlán til húsnæðis einstaklinga hér á landi nema um 1.200 milljörðum króna. Hjá Íbúðalánasjóði var fjárhæð lána í vanskilum um 90 milljarðar króna í febrúar síðastliðnum. Ef hlutfall lána í vanskilum annars staðar er svipað, nema heildarlán þeirra sem ekki eru í skilum um 170 milljörðum króna. Hugsanlegt er að lánastofnanir hafi þegar afskrifað hluta af þessum kröfum í bókum sínum. Niðurstöður áðurnefndrar greinar var sú að 20% flatur niðurskurður húsnæðislána myndi kosta 240 milljarða króna sem að mestu kæmu úr ríkissjóði. Þetta er meira en heildarfjárhæð lána þeirra sem í mestum vandræðum eru. Þess vegna má leiða líkur að því að sú aðgerð sé býsna rausnarleg og svo dýr að hún myndi veikja fjárhagsstöðu ríkisins mjög mikið. Í grein á bls.2-3 í þessu tölublaði sést að niðurfærsla lána til þess að leiðrétta „forsendubrest“ er hvorki sanngjörn né góð lausn á vanda þeirra sem keyptu íbúðir síðastliðin 10 ár. Með því að einbeita sér að hópi sem í mestum vanda er væri hægt að grípa til mun markvissari aðgerða en flats niðurskurðar. Í því getur falist bæði skynsemi og réttlæti að lækka höfuðstól lána. Það er örugglega hagkvæmt fyrir þjóðfélagið að sem flestir ljúki sínum málum sjálfir, þó að þeir ráði ekki við heildargreiðslu lánanna. Beita má blöndu af niðurfærslu, lengingu lána og jafnvel lækkuðum vöxtum til þess að laga greiðslubyrðina að getu lántakans. Mynd: Vanskil einstæðra foreldra í ýmsum Evrópulöndum árið 2011 Heimild: Eurostat.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.