Vísbending


Vísbending - 08.04.2013, Blaðsíða 4

Vísbending - 08.04.2013, Blaðsíða 4
4 V Í S B E N D I N G • 1 4 T B L 2 0 1 3 Aðrir sálmar Thatcher Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Benedikt Jóhannesson Útgefandi: Heimur hf., Borgartúni 23,105 Rvík. Sími: 512 7575. Net fang: visbending@heimur.is. Prentun: Heimur. Upp lag: 700 eintök. Öll réttindi áskil in. © Ritið má ekki afrita án leyfis út gef anda. Þegar Margrét Thatcher varð forsætisráðherra árið 1979 vill svo til að skrifstofufélagi undirritaðs var Englendingur. Hann sagði að yfirleitt hefðu forsætisráðherrar Breta verið hámenntaðir menn „og svo er hún kona.“ Á þessum tíma virtist honum og fleirum Thatcher ólíkleg til afreka. Bretland var „veiki maðurinn í Evrópu“ og hafði þurft að leita til Alþjóða gjaldeyrissjóðsins um aðstoð skömmu áður fyrst vestrænna landa (Ísland varð númer tvö). Fátt benti til þess að nú væru betri tímar í vændum. Frá fyrsta degi var Thacher þó óhrædd við að ganga gegn viðteknum gildum. Verkalýðsfélög höfðu haldið landinu í heljargreip líkt og víðar. Falklandseyjar breyttu stöðu Thatcher árið 1982. Eyjar suður í höfum sem virtust lítið gildi hafa fyrir Breta nema sem lítilfjörlegur minnisvarði um Breska heimsveldið. Í Argentínu sat herforingjastjórn sem sá að með því að taka þessar óvörðu eyjar gat hún stóraukið vinsældir sínar heima fyrir. Ólíklegt þótti að Bretar myndu sigla kringum hálfan hnöttinn til þess að vernda þessi sker. Thatcher sendi flotann samt af stað. Þetta reyndist tækifærið sem hana vantaði og af herferðinni fékk járnfrúin miklar vinsældir heima fyrir. Í stað þess að verða eins kjörtímabils fyrirbæri sem fáir hefðu munað vann hún sigur í kosningunum 1983 og aftur 1987. Hún hrinti einka- væðingaráformum í framkvæmd og hagur þjóðar innar batnaði sem aldrei fyrr. Jafnframt náði hún að brjóta ofur- vald verkalýðsfélaganna á bak aftur. Hún vann náið með Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og líklega hefur staðfesta þeirra gegn kommúnismanum flýtt hruni Sovétríkjanna um allmörg ár. Þau urðu táknmyndir frjálshyggjunnar og tekin sem sönnun þess að með henni myndi almenningi vegna betur. Verkamannaflokkurinn vissi ekki sitt rjúkandi ráð og kaus hvern öfgamanninn á fætur öðrum sem formann. Thatcher varð með tímanum einráð og féll loks á sérviskulegum nefskatti. Það er erfitt að vita hvenær á að hætta og hún sat of lengi. Hennar verður samt að verðleikum minnst sem einhvers merkasta leiðtoga Breta og boðbera frjálshyggjunnar. bj Þegar land er aðskilið frá efnahagslífi umheimsins að hluta eins og Ísland fylgja því margar hættur. Gildi skekkjast, sem þýðir að neytendur hegða sér óskynsamlega. Hætt er við að úr verði kerfi sem ýtir undir misrétti. Þá kemur upp sú staða að þeir sem hagnast á misréttinu berjast fyrir því að það haldi áfram sem allra lengst. Auðlindum landsins er ekki beitt á hagkvæmasta máta og þjóðfélagið í heild tapar. Tökum nokkur dæmi. Gengi krónunnar Margir telja að gengi krónunnar hafi styrkst að undanförnu. Með stolti geta ráðamenn bent á að nú sé evran komin niður í 155 krónur og hafi ekki verið svo ódýr lengi „á þessum árstíma“. Ef grannt er skoðað sést að aflandsgengi krónunnar er 220 til 240 krónur á evruna, eða nálægt 50% hærra. Í opinberum útboðum Seðlabankans hefur evran verið keypt á um 200 krónur. Þannig að hér er að minnsta kosti þrenns konar gengi og augljóst að eftirspurn eftir krónum er mun minni en framboð. Þeir sem eiga „gamlar“ evrur geta fengið miklu fleiri krónur fyrir þær en þeir sem koma með söluandvirði útflutnings eða leifar af glænýjum ferðamannagjaldeyri. Smám saman eru þeir sem voru svo lánsamir að geyma peningana sína erlendis þegar Ísland varð lokað land að koma aftur til landsins og kaupa hvert fyrirtækið á fætur öðru á mun lægra verði en vesalingarnir sem heima sátu. Vextir Stórir fjárfestar eins og lífeyrissjóðir eiga ekki í mörg hús að venda með sitt fé. Þeir vilja lágmarka áhættu og kaupa þess vegna skuldabréf ríkissjóðs. Ríkið nýtur þess að bitist er um að fá að lána því og vextir lækka. Þess vegna er vaxtabyrðin léttari en vera ætti og ríkið freistast til þess að eyða um efni fram. Sparifjáreigendur eiga erfitt með að fá raunávöxtun á sitt sparifé, en eftir hörmungar hrunsins átta margir sig á því að það getur borgað sig að fá lága ávöxtun og taka litla áhættu. Þetta er hættulegt vegna þess að öllum þjóðfélögum er nauðsynlegt að vera með nokkra áhættufjárfestingu. Húsnæði Margir undrast að húsnæðisverð sé nú hærra að raunvirði en fyrir bóluna sem hófst árið 2004. Skýringin er sú að hér hefur skapast markaður fyrir íbúðir og hús sem fjárfestingar hjá þeim sem ekki vilja veðja á ríkissjóð. Þetta heldur uppi bæði verði á Hættur í lokuðu hagkerfi húseignum og húsaleigu. Hagur ungs fólks sem kemur nú inn á húsnæðismarkaðinn er verri en væri ef jafnvægi væri milli framboðs og eftirspurnar. Stórir aðilar, einkum bankar og Íbúðalánasjóður, hafa markaðsráðandi stöðu sameiginlega og stýra framboði inn á markaðinn. Nú þykir gott að hafa góð sambönd. Hlutabréf Hlutabréfamarkaðurinn var kominn í hæstu hæðir árið 2007 og þess vandlega gætt að eftirspurn eftir hlutabréfum í bönkum væri ætíð nóg. Málatilbúnaður gegn bönkunum bendir til þess að þeir hafi átt stóra hluta í sjálfum sér, beint eða óbeint. Ekkert hefði verið óeðlilegt við það að bankarnir keyptu eigin hlutabréf á markaði, ef þeir hefðu í kjölfarið lækkað hlutafé í sjálfum sér. Það var alls ekki markmiðið heldur þurfti þvert á móti að gæta þess að sem mest hlutafé væri „virkt“ í sýndarveröldinni sem blasti við almenningi og eftirliti. Nú virðist ólíklegt að skipulega sé unnið að því að halda uppi verði hlutabréfa. Skýringin á hækkandi hlutabréfavísitölu er ekki sú að rekstur fyrirtækja gangi afbragðsvel, sem væru góðar fréttir, heldur hitt að lífeyrissjóðir eru með mikla peninga en fáa fjárfestingarkosti. Svo illa vill til að staðan er svipuð erlendis, en þar hefur miklu fjármagni verið dælt inn í hagkerfið til þess að halda því gangandi. Þetta fé fer inn á hlutabréfamarkaðinn sem nær þar með nýjum hæðum. Laun Svo einkennilega vill til að laun hafa sums staðar skekkst vegna þess að markaðsöfl ráða ekki lengur. Fyrir hrun höfðu bankamenn búið til kerfi kaupauka sem tryggði þeim sjálfum mjög há laun, óháð því hvernig bankanum gengi. Jafnframt ollu þeir miklu launaskriði með því að bjóða í nánast allt ungt fólk sem kom inn á vinnumarkaðinn. Þetta breyttist tímabundið, en hefur nú hafist aftur á ákveðnum sviðum, ekki síst hjá fólki með hugbúnaðarþekkingu. McKinsey-skýrslan sýnir að bankakerfið er allt of stórt á Íslandi. Enginn virðist þó stefna að því að reka lágverðsbanka sem gæti náð mikilli markaðshlutdeild heldur er bankakerfið enn í dag um tvöfalt stærra en það þyrfti að vera. Þannig verða eftirspurn eftir sérfræðingum og launaskrið óeðlilega mikil. Markaðir skekkjast þegar aðstæður eru brenglaðar og á Íslandi eru nánast allir markaðir skakkir og skældir.

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.