Bæjarins besta


Bæjarins besta - 06.03.2014, Blaðsíða 12

Bæjarins besta - 06.03.2014, Blaðsíða 12
12 FIMMTUDAGUR 6. MARS 2014 – Af því að þú ert fiðrildi ... „Já, sennilega! En ég verð að halda áfram að tala um kennarana mína heima á Ísafirði. Ég var svo heppin í grunnskóla að hafa þar einungis tvo frábæra umsjónar- kennara nærri allan tímann, fyrst Herdísi Hübner og síðan Jónu Ben. Það var alltaf líf og fjör í tímum hjá þeim, passleg blanda af aga og því að hafa gaman af að vera til. Þær eiga það báðar sam- eiginlegt að hafa fyllt mann svo mikilli jákvæðni og trú á sjálfan sig, sem skiptir máli og hentaði barni eins og mér sérstaklega vel. Í bekknum mínum fékk hver ein- staklingur að blómstra á sínum eigin forsendum, og það á maður mikið kennaranum sínum hverju sinni að þakka.“ Undarlegur krakki? „Einhvers staðar hefði ég sennilega flokkast undir það að vera undarlegur krakki að því leyti, að ég fór ekki alveg með straumnum, var ekki að gera sömu hluti og allir hinir, ég var bara í mínu. Ég átti fáa en rosa- lega góða vini, og þar var ég og er ennþá rík. En það sem mér finnst ótrúlegt en á sama tíma rosalega ánægjulegt er hvað ég fékk að gera hlutina mína í friði. Það setti aldrei neinn spurninga- merki við það sem ég var að gera, og þó svo að einhver hefði gert það, þá skilaði sú gagnrýni sér aldrei til mín. Ég fékk bara að vera skrítinn krakki sem lék sér með dúkkur langt fram eftir aldri, rak leikfélag af miklum metnaði með bestu vinum mínum í kjallar- anum heima og var á kafi í klass- ískri tónlist. Á sama tíma vissi ég ekkert hvað var að gerast í popptónlist, vissi ekki muninn á handbolta og fótbolta og þorði ekki fyrir mitt litla líf að dansa á diskótekum. Sjálfri fannst mér það aldrei neitt skrítið og ég veit ekki hvort nein- um í kringum mig fannst þetta skrítið.“ – Ætli þeir sem ná góðum ár- angri í lífinu séu ekki meira og minna skrítnir, ef út í það er farið, eitthvað öðruvísi en aðrir? „Jú, kannski. Ég held reyndar að við séum öll „skrítin“ á ein- hvern hátt. Það er svo mikilvægt fyrir hverja manneskju að átta sig á því hvað hún hefur til að bera sem gerir hana ólíka öllum öðrum. Við höfum öll eitthvað sem gerir okkur sérstök, svo er bara mismunandi eftir hverjum og einum hvað við leyfum þess- um skringilegheitum að blómstra. Ég er óskaplega fegin að hafa áttað mig á mínum sérkennum, sem gera það að verkum að ég er ég.“ Skóli er ekki hús heldur fólk – Þegar þú komst í Listahá- skólann var annar Ísfirðingur þar fyrir ... „Hann Hjálmar, jú! Listahá- skólinn er reyndar á svo mörgum stöðum að Hjálmar var aldrei í sama húsi og ég. En ég hef alltaf litið óskaplega upp til Hjálmars, mér finnst gaman að hann skuli hafa verið rektor þegar ég var í skólanum. Honum fylgja ísfirskir siðir sem fylgja mér líka, og þar ber helst að nefna fjöldasöng á almenningssamkomum. Mér finnst veisla ekki vera veisla án þess að í henni sé sungið oft og reglulega. Sennilega er þetta ekki bara ísfirskur siður, en ég tengi fjöldasönginn sterkt við Ísafjörð. Ég minnist þess oft sem Ragnar H. Ragnar pabbi Hjálmars sagði: Skóli er ekki hús heldur fólk. Þetta held ég að hafi fylgt Hjálm- ari í Listaháskólanum. Húsnæðið sem skólinn er í núna er alveg hræðilegt, en fólkið sem fylgdi mér í Listaháskólanum var alveg yndislegt, bæði kennararnir og nemendurnir. Það er fólkið sem hefur skilað mér þangað sem ég er í dag. Auðvitað er nauðsynlegt og löngu tímabært að laga húsa- kost Listaháskólans, en þegar öllu er á botninn hvolft er það fólkið en ekki byggingin sem skiptir mestu máli.“ Að hafa eitthvað að segja – Hvað ber hæst í huga þínum á ferlinum sem leikkona og söng- kona? „Meðal þess sem ég er óskap- lega stolt að hafa tekið þátt í er sýningin Karma fyrir fugla, sem er eftir tvær ungar skáldkonur, Kristínu Eiríksdóttur og Karí Ósk Grétudóttur. Sú sýning fjallaði fyrst og fremst um ofbeldi gagn- vart konum í gegnum aldirnar, í nútíð og fortíð. Þetta var mjög hugrökk sýning, hún var „öðru- vísi“, ekki hefðbundin leikhús- uppfærsla. Hún tók á viðkvæm- um málefnum sem skiptir miklu máli að við fjöllum um, og snerti hjartað. Þegar ég er að gera eitthvað sem mér finnst skipta máli, jafn- vel þó að ég geti bara breytt skoð- un einnar manneskju, þá er ég glöð. Mér fannst ég breytast við að taka þátt í þessari sýningu. Það skiptir svo miklu máli að hafa eitthvað að segja. Þá finnst mér starf mitt sem leikari vera að skila sér. Og það besta við svona sýningar er að þær breyta líka manni sjálfum, heimurinn stækk- ar og verður aldrei aftur eins.“ – Getur ekki verið að ofbeldi gagnvart konum sé komið meira upp á yfirborðið á síðustu árum í stað þess að vera tabú, ekki endilega að það sé meira en áður? „Við fórum í mikla rannsókn- arvinnu fyrir sýninguna. Það kemur manni svo mikið á óvart þegar maður fer að rannsaka þetta hvað ofbeldi gegn konum er al- gengt enn þann dag í dag. Þó að við teljum okkur búa í upplýstu samfélagi, þá hefur í rauninni ekkert breyst frá því að við vorum á moldargólfunum. Ég myndi segja að ofbeldið sé í rauninni meira falið í dag. Við erum líka svo góð í að réttlæta ofbeldið í kringum okkur, viðurkennum það ekki, og þar af leiðandi lokum við augunum gagnvart því. Þó að við séum stöðugt að kanna hlut- ina, þá bara viljum við ekki viður- kenna vandamálið almennilega.“ Draumahlutverkið? „Svo var það mikill hápunktur þegar ég var að útskrifast úr Listaháskólanum. Nemendaleik- húsið setti upp þrjár sýningar og þá var ég svo heppin að fá að vinna sýningar með bekkjarsyst- kinum mínum alveg frá grunni. Það er gaman að geta klárað nám- ið sitt svona. Þarna kynntist ég vel þeirri vinnu að búa til leikhús frá a til ö, og um leið var ég að búa til leikhús með fólki sem ég treysti hundrað prósent og var líka bestu vinir mínir. Það er alltaf verið að spyrja um draumahlutverkið. En þegar öllu er á botninn hvolft, þá er ekki til neitt í mínum huga sem heitir draumahlutverk. Það sem skiptir öllu máli er að vinna með góðu fólki, góðum leikstjóra, og svo auðvitað að vera með gott efni. Þá er mér alveg sama hvort ég er með stærsta hlutverkið eða ekki. Það skiptir engu máli. Æ, svo er það einhvern veginn þannig, að hvert verkefni sem maður tekur að sér á hug manns og hjarta á meðan því stendur. Og oftast er ferðalagið skemmti- legt og gefandi, en aldrei eins. Fjölbreytileikinn er einmitt eitt af því sem gerir starfið svo skemmti- legt.“ Að vera góður í því að vera manneskja – Hefurðu haft einhvern uppá- haldsleikstjóra? „Þessu er erfitt að svara. En svarið er samt nei. Enginn uppá- halds, en margir alveg frábærir sem mig langar mikið að vinna með aftur. Leikstjórar eru svo mismunandi. Þeir henta líka hverjum og einum svo misjafn- lega. Þetta er eins og í lífinu sjálfu. Stundum hittirðu mann- eskju sem þú átt algerlega sam- leið með, stundum alls ekki. Samt þýðir það ekki að manneskjan sé góð eða slæm. En ég hef verið mjög heppin með leikstjóra. Mér finnst pínu erfitt að nefna einhvern einn, því mig langar að nefna svo marga. Til að nefna einhvern get ég þó sagt, að mér fannst yndislegt að vinna með henni Kristínu Jó- hannesdóttur sem leikstýrði mér í Karma fyrir fugla. Það var bara af því að hún var svo hugrökk. Hún þorir að taka áhættur sem aðrir þora kannski ekki að taka. Hjarta hennar slær líka fyrir þau málefni sem hún tekur sér fyrir hendur. Hún er ekki að hugsa um að sigra heiminn, heldur um það sem hún er að reyna að koma til skila. Það sem mér finnst einkenna góðan leikstjóra er að hafa sterka listræna sýn, hugrekki og brenn- andi áhuga á viðfangsefninu, að þora að taka áhættu og treysta fólkinu sem hann hefur valið sér að vinna með sér. Að sama skapi finnst mér að góður leikari þurfi að hafa sömu eiginleika. Svo skemmir aldrei fyrir, hvorki fyrir leikara né leikstjóra, að vera góð- ur í því að vera manneskja. Það skilar manni oft ansi langt.“ Núna er einhvern veginn allt breytt Þórunn Arna er yngst þriggja barna Halldóru Magnúsdóttur bankastarfsmanns og Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra á Ísa- firði. Ebba Áslaug er tólf árum eldri og Magnús átta árum eldri. Ebba er kennari í Ísaksskóla í Reykjavík en Magnús er forstjóri Orkusölunnar – og þar með í samkeppni við pabba sinn! „Ég kem svona lítið örverpi í lokin. Og vá hvað allir tóku mér vel! Ég er alltaf að sjá það betur og betur hvað maður er heppinn að eiga góða fjölskyldu. Þar hef ég sannarlega dottið í lukkupott- inn. Áhugamálin í lífinu eru mjög tengd vinnunni minni, ég er hepp- in með það. En hitt sem mér finnst alveg óskaplega gaman er að verja tíma með fjölskyldunni minni.“ Og núna var Þórunn Arna ein- mitt að fjölga í fjölskyldunni sinni, því að 7. febrúar eignaðist hún dóttur, sem er hennar fyrsta barn. „Litla skottan flýtti sér í heiminn og kom þrem vikum áður en við áttum von á. Kærast- inn minn, Vignir Rafn Valþórs- son leikari og leikstjóri, var síðan að frumsýna leikritið Bláskjá í Borgarleikhúsinu daginn eftir að hún fæddist, þannig að þetta var ansi stór helgi. Ég var bara nýhætt að vinna og ætlaði að nýta tímann sem eftir væri til að undirbúa komu litlu stúlkunnar. Þrátt fyrir að ekkert væri tilbúið mætti hún í heiminn á afmælis- daginn hennar mömmu, öllum að óvörum. Pínulítil en ótrúlega kraftmikil og í einu orði sagt full- komin. Eftir þetta er einhvern veginn allt breytt. Lífið var frá- bært, en núna finn ég ekki einu sinni orðin til að lýsa því hvernig mér líður, ég er ástfangin af þessari litlu manneskju en veit um leið að ferðalagið er bara rétt að byrja hjá okkur litlu fjölskyld- unni.“ Þrjátíu hlutverk á tíu árum Þegar litið er yfir ferilskrá Þór- unnar Örnu kemur á óvart hvað hún er löng og fjölbreytt hjá svo bráðungri listakonu. Þrjátíu stærri og smærri hlutverk síðustu tíu árin, þar af tuttugu og sjö á sviði og þrjú í kvikmyndum og sjónvarpi. „Eftir að ég útskrifaðist var ég svo heppin að mér bauðst samn- ingur í Þjóðleikhúsinu, þannig að ég er búin að vera meira og minna þar síðan. Ég er búin að fá alveg óskaplega góð tækifæri, bæði skemmtileg hlutverk og líka mikla starfsreynslu, sem skiptir mjög miklu máli. Það er meira en að segja það að stíga í fyrsta skiptið á Stóra sviðið í Þjóðleikhúsinu. Við út- skriftina heldur maður sig geta allt, en svo kom tíminn þegar það blasti við að maður væri bara rétt að byrja. Maður stækkar og þroskast með hverju verkefni og þess vegna er öll reynsla mjög dýrmæt. Svo er þetta bara eins og í lífinu, stundum gengur manni vel og nær að blómstra og stund- um er maður ekki alveg eins frá- bær, og þá þarf maður bara að læra af því. Svo bauðst mér tækifæri að fara til Brüssel og vinna með Ernu Ómars og fékk leyfi frá Þjóðleikhúsinu til að gera það.

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.