Dagblaðið Vísir - DV - 08.12.2010, Side 18

Dagblaðið Vísir - DV - 08.12.2010, Side 18
18 8. desember 2010 miðvikudagur Ævintýralegt ferðalag með illa brenndri klámmyndastjörnu og geðsjúkum myndhöggvara sem áður var nunna. Mikið kjöt á bein- unum, en stundum vantar svolítið blóð í kjötið. Fjallmyndarlegur, farsæll og hégómafullur klámmyndaleikari brennur svo illa í bílslysi að krafta- verk telst að hann haldi lífi. Með af- myndað andlit og líkama, sem ekki lengur státar af getnaðarlim eftir að vítisheitir logarnir höfðu lokið sér af, þráir hann það eitt að ná nægilega góðri heilsu til að komast út af spít- alanum til að fremja sjálfsmorð. En þegar myndhöggvarinn Marianne fer að vitja leikarans á sjúkrabeðin- um kviknar löngun innra með hon- um til einhvers meira en að stúta sér. Hún er sjúklingur á geðdeild sjúkra- hússins sem kemur þó ekki í veg fyr- ir að hann þyrsti í að heyra sögur hennar. Sumar fjalla um þau tvö, en Marianne segir þau vera elskendur frá fyrra lífi, nánar tiltekið í Þýska- landi miðalda. Klámmyndaleikar- inn var þá málaliði en hún skrifari og nunna. Aðrar sögur hennar ger- ast til að mynda í Japan fornaldar og á Íslandi víkingaaldar. Steindrekinn er fyrsta bók Kan- adamannsins Andrews Davidsons sem á bókarkápu er sagður af ís- lenskum ættum. Nokkur alþjóðleg verðlaun hafa fallið honum í skaut fyrir þessa fantasíukenndu sögu af ástum og örlögum Marianne og leikarans nafnlausa sem jafnframt er sögumaður bókarinnar. Inferno, fyrsti hluti Gleðileiks- ins guðdómlega eftir Dante, er fyrir- ferðarmikill í Steindrekanum; hann bjargar til dæmis lífi sögumanns þegar hann hefur bókina innan klæða í orrustu í fyrra lífi sínu, Mari- anne les reglulega fyrir hann úr eig- in þýðingu á verkinu í hinu síðara lífi þeirra og á einum stað bókar- innar fer sögumaður í hrollvekjandi ferðalag um ána Akkeron þar sem kunnuglegum persónum bregður fyrir. Raunar má segja að hið þekkta miðaldaverk Dantes sé eins kon- ar rammi utan um sögu Davidsons um hinn synduga og trúlausa klám- myndaleikara sem brennur hvorki meira né minna en þrisvar á síð- um bókarinnar. Lesandanum er því rækilega ýtt í átt að hreinsunareld- inum, Beatrice og öðru sem tengist ferðalaginu mikla í söguheimi Dan- tes, ef ætlunin er að leggjast í ítar- lega greiningu á sögu Davidsons. Þetta er metnaðarfullt verk og vel unnið að miklu leyti. Sagan líð- ur hins vegar fyrir skort á ljóðrænu og betri stílfærni höfundar. Þær til- raunir sem gerðar eru til ljóðrænna lýsinga eru gjarnan afskaplega líf- lausar og klúðurslegar. Frásögnin af sundspretti Marianne (bls. 219- 20), vangaveltur sögumanns með naktan myndhöggvarann við hlið sér á aðfangadagskvöld (358-60) og ástríðufull samskipti skötuhjúanna í örlagaríkri senu seint í sögunni (453-4) eru ágætis dæmi um þetta. Davidson tekst miklu betur upp þegar hann bregður fyrir sig húm- ornum, sem meira er af í fyrri hluta bókarinnar en þeim síðari. Helst sú skipan mála í hendur við þá breyt- ingu sem verður á söguhetjunni. Hreinsun hennar og hamskipti eru bæði líkamleg og andleg. Þeir les- endur sem meira eru fyrir kald- lyndar persónur með svartan húm- or gætu því farið að sakna brenndu klámmyndastjörnunnar sem þeir kynntust í upphafsköflum bókar- innar og dró þá af stað í hið ævin- týralega ferðalag. Kristján Hrafn Guðmundsson Skáldsaga Steindrekinn Andrew Davidson Þýðing: Sölvi Björn Sigurðsson. Útgefandi: Jentas. 480 blaðsíður Hreinsunar- eldar klám- stjörnu Íslenskir leiklistarmenn hafa ekki verið neitt óhemjuduglegir við að senda frá sér endurminningar eða sjálfsævisögur. Þó munu þær vera komnar nokkuð á annan tuginn, ef taldar eru með bækur leikskálda og leikhússtjóra. Þessi rit eru misjöfn að gæðum, mislæsileg og innihalds- rík. Af ævisögum leikara hef ég alltaf haldið mest upp á ævisögu Haralds Björnssonar, Sá svarti senuþjófur, sem Njörður P. Njarðvík skrásetti. En það er líka margt ágætt í Lífróðri Árna Tryggvasonar eftir Ingólf Marg- eirsson; ég nefni bara frásögn hans af náminu í leiklistarskóla Lárus- ar Pálssonar sem hefur hvergi verið betur lýst en þar. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart að Gunnar Eyjólfsson skuli slást í þennan hóp. Gunnar hefur lifað langa og á köflum viðburðaríka ævi og er ágætur sagnamaður, eins og allir vita sem þekkja hann. Ekki er hann heldur maður þeirrar gerð- ar sem setur ljós sitt undir mæliker; hann hefur tíðum komið fram í við- tölum og viðtalsþáttum, í blöðum, útvarpi og sjónvarpi, og hefur margt, sem lesa má í hinni nýju bók þeirra Árna Bergmanns, Alvara leiksins, komið þar fram áður. Sú mynd, sem hann gefur af liðinni ævi í sérstöku ævisöguverki, ætti þó að vera miklu fyllri en það sem hann hefur látið uppi í fjölmiðlum. Hún er það um sumt, en annað ekki. Gunnar er einn af síðustu fulltrú- um þeirrar kynslóðar sem hægt er að kalla fyrstu íslensku atvinnuleikar- ana. Þetta fólk fékk á unga aldri góða skólun, byrjaði flest hjá Lárusi Páls- syni, síðar nam margt af því í viður- kenndum stofnunum erlendis. Eft- ir að atvinnuleikhús voru orðin til í landinu gat það lengst af helgað sig list sinni óskipt. Gunnar kom heim að loknu námi í einum helsta leik- listarskóla Englands, RADA, og vann hér sem leikari í um fjögur ár, venti þá sínu kvæði í kross og starfaði er- lendis í nokkur ár, minnst þó sem leikari. Lágu að sögn hans til þess persónulegar ástæður sem hann greinir frá í bókinni og hefur raunar sagt frá áður. Gunnar hóf aftur störf í Þjóðleik- húsinu árið 1960 og hefur starfað þar síðan. Hann hefur leikið mörg hlutverk og stór, auk þess sem hann leikstýrði þar nokkuð á fyrri árum. Úthald hans hefur reynst meira en annarra af hans kynslóð, ef undan er skilin Herdís Þorvaldsdóttir ein. Gunnar fagnaði sextíu og fimm ára leikafmæli fyrr á þessu ári ásamt Ró- berti Arnfinnssyni, en Róbert ákvað að kveðja sviðið fyrir tíu árum, ólíkt Gunnari sem er enn að. Hann á þó nokkuð í land með að slá Herdísi við, því að í febrúar á næsta ári verða lið- in sjötíu ár frá því hún steig fyrst á svið. Bók Gunnars og Árna er fyrst og fremst sögusafn; það er styrkur hennar og um leið veikleiki. Fyrsti hlutinn, sem lýsir uppvaxtarárun- um í Keflavík, er langbestur; það eru nánast heinesensk tilþrif í lýsing- unni á vinalegu smáþorpinu sem er á hægri leið inn í nútímann. Þar eru líka bestu mannlýsingarnar: á föður hans Eyjólfi Bjarnasyni, sem reynd- ar var ekki blóðfaðir hans, og móð- urömmu, Gróu Jónsdóttur. Gróa lenti ung vinnukona í því að villast í nokkra daga með brauð, sem hún var á leið með í hverabakstur; löngu síðar sagði Gunnar Halldóri Laxness þá sögu sem Halldór nýtti sér svo í Innansveitarkroniku; Gunnari þykir svo mikið til þess koma að hann seg- ir frá því tvisvar. Móður sína missti hann ungur og er frásögnin af missi hennar áhrifamikil; mann grunar að Gunnar hafi aldrei komist fyllilega yfir hann. Leiklistarferil sinn kýs Gunnar hins vegar ekki að ræða nema mjög takmarkað. Hann segir frá námi sínu erlendis, og fyrstu árum í leikhúsun- um, drepur stuttlega á nokkur stór hlutverk, en að öðru leyti lætur hann að mestu nægja að fjalla um leik- listina í almennum hugleiðingastíl. Sem fyrr hefur hann mesta ánægju af því að segja sögur af sérkenni- legum mönnum eða spaugilegum uppákomum; þær eru sumar ágætar og ekkert ólíklegt að vitnað verði til einhverra þeirra síðar. Flestar fjalla þær um persónur af eldri kynslóð leikhúsmanna, þeirra sem voru fyr- ir þegar Gunnar og jafnaldrar hans stigu inn í leikhúsið. Þeir sem á eftir komu vekja mun minni áhuga, eink- um þó kynslóðin sem kom fram um og upp úr 1970, og hafði um margt allt aðrar listrænar og hugmynda- fræðilegar áherslur en fólk á aldri Gunnars. Það er eins og hún hafi hreinlega ekki verið á svæðinu. Guð- laugur Rósinkranz er eini þjóðleik- hússtjórinn sem bregður fyrir, aðrir eru ekki nefndir á nafn nema Gísli Alfreðsson sem fær inni sem Keflvík- ingur. Þá hefur Gunnar unnið með nokkrum áhrifamiklum gestaleik- stjórum, en um fæsta þeirra segir hann nokkuð, og er þó enginn vafi á því að sumir gerðu þeir íslenskri leik- list gott. Það er frekar að hann tjái sig lít- illega um suma leikhúsmenn yngri kynslóðarinnar sem hann gerir þá yfirleitt með vinsemd og velþóknun. En fátt af því sem hann hefur um þá að segja kemur á óvart; það eru til dæmis ekki ný tíðindi að eldri leik- urum okkar þyki textameðferð hinna yngri ábótavant. Um leikdómara er Gunnar fáorður – ólíkt bæði Róberti Arnfinnssyni eða Árna Tryggvasyni í sínum endurminningum – og heldur lítið að græða á því sem hann segir um þá. Hann er Ásgeiri Hjartarsyni þakklátur fyrir að hafa farið um sig mildum höndum og hann er ekki bú- inn að gleyma því að Agnar Bogason, hinn vígreifi leikdómari Mánudags- blaðsins, líkti honum eitt sinn við súkkulaðidreng. Aðrir gagnrýnend- ur virðast ekki hafa komið við sögu Gunnars. Þetta er liðlega skrifuð bók, enda ekki við öðru að búast af þeim sem í hlut eiga. Hún heldur athygli manns vel framan af, en þegar á líður dett- ur hún sundur í parta. Gunnar hef- ur komið víða við; hann hefur feng- ist við kennslu, iðkað kínverska öndunarleikfimi, tekið virkan þátt í skátastarfi, stjórnmálum, stund- að búskap; svo má ekki gleyma fjöl- skyldunni, öllu þarf að koma að. Ekki má heldur gleyma trúmál- unum, en Gunnar snerist ungur til kaþólskrar trúar og hefur hald- ið tryggð við hana síðan; hún fær einnig sinn kafla eins og leiklistin. Hann er fullur eldmóðs og áhuga að hverju sem hann gengur, örvandi og örlátur; það skilar sér líka. Ætli megi ekki segja að hinar bestu ævisögur, þær sem ná að lifa, séu þær sem feli í sér einhvers kon- ar uppgjör við liðna ævi, sjálfan sig, samtíð og samferðarmenn. Ævisögur þeirra Haralds Björnssonar og Árna Tryggvasonar, sem ég nefndi hér í upphafi, eru dæmi um það. Ævisaga Gunnars Eyjólfssonar nær ekki upp í þann flokk, en það er fengur að ýmsu í henni fyrir það. Engin skrá yfir hlutverk og leik- stjórnarverkefni fylgir bókinni. Það er synd, því að slíkar skrár gefa bók- um sem þessum aukið gildi. Jón Viðar Jónsson gunnar segir sögur Ævisaga alvara leiksins Árni Bergmann Útgefandi: JPV. 329 blaðsíður Gunnar Eyjólfsson „Hann er fullur eld- móðs og áhuga að hverju sem hann gengur, örvandi og örlátur; það skilar sér líka.“

x

Dagblaðið Vísir - DV

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.