Lögmannablaðið - 01.06.2004, Síða 10
10 2 / 2 0 0 4
að persónuleg afstaða skjólstæðinga fari að móta
samskipti lögmanns. Skjólstæðingurinn hefur for-
ræði á málefni því sem hann ber undir lögmann og
felur honum að annast, á meðan lögmaður hefur
forræði á samskiptum við lögmenn og dómstóla.
Þar um liggja vébönd sem skjólstæðingi má ekki
hleypa inn fyrir.
Til að undirstrika þetta má geta þeirrar góðu
samskiptavenju sem hefur rutt sér til rúms að lög-
menn takist í hendur eftir málflutning. Þetta hefur
mörgum skjólstæðingum sem orðið hafa vitni að
þótt harla sérstakt að lögmenn sem þannig hafa
tekist á og deilt hart geti engu að síður innsiglað
góð samskipti sín með handabandi eins og ekkert
hafi í skorist.
Það má velta því fyrir sér hvort það falli ekki
undir siðareglur um samskipti lögmanna hvernig
lögmönnum ber að haga orðum sínum um aðra
lögmenn í samskiptum við skjólstæðinga sína
þegar lögmaður gagnaðila er hvergi nálægur.
Þegar rekin eru flókin og tilfinningarík mál þá
kemur iðulega fyrir að vinnubrögð og verk lög-
manns gagnaðila verða skjólstæðingum lögmanna
hugleikin. Lögmenn eiga að skýra út fyrir skjól-
stæðingum sínum þær leikreglur sem þar gilda og
einkum þá skyldu sem á hverjum lögmanni hvílir
að halda fram þeim sjónarmiðum sem samrýman-
leg eru hagsmunum skjólstæðinga þeirra. Lög-
menn eiga ávallt að haga orðum sínum og skýr-
ingum þannig að lögmaður gagnaðila njóti fyllsta
sannmælis og hallmæla hvergi persónu hans,
heldur verja þann rétt sérhvers lögmanns að vera
ekki af verkum sínum eða yfirleitt undir engum
kringumstæðum samkenndur skjólstæðingi sínum.
Verk lögmanna eru oft tímafrek og biðstundir
margar eftir niðurstöðu. Góð regla er að gera
skjólstæðingum þegar í upphafi grein fyrir því hve
mál muni sennilegast taka langan tíma í með-
förum. Það minnkar álagið á lögmanninn og eyðir
óvissu hjá skjólstæðingum um framgang og fram-
vindu mála, sbr. 12. gr. CE. Þegar mál dragast þá
tekur fljótt að gæta óþolinmæði hjá skjólstæð-
ingum og upp kunna að koma ranghugmyndir um
af hverju það stafi. Ef þessar vangaveltur vakna
hjá skjólstæðingum er það ekki lögmannsins að
taka undir óánægjuraddir heldur leitast við að afla
skýringa á því af hverju sá dráttur á máli sætir. Ef
skýringarinnar er að leita hjá lögmanni gagnaðila
ber að leita hennar með því að snúa sér beint til
lögmannsins og miðla síðan þeim upplýsingum
sem fyrst til eigin skjólstæðings.
Hér getur stundum myndast togstreita á milli
þess þegar skjólstæðingur krefst umsvifalausrar
málsmeðferðar og hins, sem flestum lögmönnum
hefur reynst auðsótt þegar leitað hefur verið eftir
hjá lögmanni gagnaðila, að fá aukna fresti til öfl-
unar gagna og greinargerðarskila utan réttar og
fyrir dómi. Fyrir því er rík venja í samskiptum
lögmanna að veita til slíks hæfilega viðbótarfresti
enda komi fram rökstudd þörf á slíku, líklegt er að
sá tími verði skynsamlega nýttur og frestur hafi
ekki í för með sér réttarspjöll fyrir skjólstæðing.
Lögmanni ber því að útskýra fyrir skjólstæðingi
þær samskiptareglur sem lögmenn hafa komið sér
upp innbyrðis og kunna að hafa í för með sér ein-
hverja töf á framvindu mála. Slíkt dregur úr óþoli
á meðan skortur á upplýsingum dregur úr biðlund
skjólstæðinga.
Þessu skylt er þegar skjólstæðingur annars lög-
manns kemur á skrifstofu lögmanns og vill reifa
hugleiðingar sínar um lögmannaskipti. Þá hefur
það reynst farsælt að fá strax fram upplýsingar um
það hvað það er sem plagi viðkomandi. Komi
fram vangaveltur sem byggja á misskilningi eða
vanþekkingu á störfum lögmanna almennt þá er
ekkert eðlilegra en að lögmaður skýri það út fyrir
viðkomandi og leiðrétti. Ef frásögn þess sem ráða
leitar gefur ekki tilefni til þess að málið verði fært
frá einum lögmanni til annars og málinu er eftir
sem áður talið vel borgið í höndum verandi lög-
manns, þá er rétt að lögmaður upplýsi um það álit
sitt. Aftur á móti ef trúnaðarbresti er lýst milli
skjólstæðings og lögmanns þá ber að taka slíkt
alvarlega. Lögmanni bæri þá sem endranær að
gera viðkomandi grein fyrir réttinum til að færa
mál sitt á milli lögmanna, þýðingu þess m.a.
kostnaði og hverju slíkt gæti varðað.
Hnökrar í samskiptum lögmanna geta alltaf
komið upp, þeim ber að fækka þó aldrei verði
þeim alveg eytt. Margt af því sem ekki þykir gott
í samskiptum er sett fram í ræðu í hugsunarleysi
og af fljótfærni. Því er það góð regla að hugsa það
tvisvar hvort það sem í fyrstu gæti virst hnyttið
geti um leið verið meiðandi eða skilið eftir sær-
indi. Í riti er það góð regla að taka þankann með
sér heim yfir nótt og velta fyrir sér hvort hann
geti, þrátt fyrir sniðugheit, verið passandi þegar
allt er virt m.a. sú staðreynd að lögmenn eigi síðar
eftir að hittast á ný, undir öðrum kringumstæðum,
í öðru máli, þar sem eldri ummæli og nasanún-
ingur gæti orðið til trafala, þrátt fyrir einlægan
ásetning um að láta það ekki trufla samskiptin
framvegis. Hófstillt orðaval og framkoma hefur
reynst besta leiðin til farsælla samskipta milli lög-
manna.