Feykir


Feykir - 25.02.1987, Blaðsíða 6

Feykir - 25.02.1987, Blaðsíða 6
6 FEYKIR 4/1987 Mbming: Bjami Halldórsson Uppsölum Fæddur 25. janúar 1898 Dáinn 15. janúar 1987 Það var fögur sjón, að horfa yfir Eylendið í Skagafírði, þegar það var alþakið glærum ísum. Það er líka fagurt að sjá sama svæði algrænt á sumri. Og mannlífið er svona: fegurð, kuldi og hlýir vorvindar, sem bræða ís. Eftir Eylendinu var góð samgönguleið á vetrum og mikið notuð, áður en vegir voru byggðir. Fyrir mörgum áratugum heyrði ég gamla konu segja frá. Hún var á Sjávarborg um vetur, og þá bar það við dag nokkurn, að kona kom gangandisunnan isana og hún var ekki ein, bar son sinn kornungan Bjarna Halldórsson. Þarna voru á ferð móðir og sonur og þannig tengjast kynslóðir saman. Kona þessi hét Helga Sölvadóttir fátæk vinnukona. Foreldrar hennar voru Sölvi Sölvason og kona hans María Jónsdóttir. Þau bjuggu lengst í Hvammkoti í Skefilsstaðahreppi. Faðir Bjarna var Halldór Einarsson bónda í Krossanesi Magnússonar prests í Glaumbæ. Séra Magnús Magnússon prestur að Hvammi í Laxárdal og Glaumbæ var mikill ættfaðir. Hann var tvíkvæntur og átti þrettán börn, fimm með fyrri konu og átta með þeirri seinni, en hún var dóttir Halldórs klausturhaldara á Reynistað Bjarnasonar sýslumanns á Þing- eyrum. Séra Magnús í Glaumbæ var mikilhæfur að mörgu leyti, hafði mikla söngrödd en óvíst, hve snjall hann var í predikunar- stóli. Margir afkomendur séra Magnúsar hafa söngrödd dágóða og ættir eru frá flestum börnum hans. Halldór Einarsson var fæddur 1841, ólst upp með foreldrum sínum í Krossanesi og bóndi í Seyluhreppi tæp 30 ár, í Alftagerði, Grófagili og síðast á Ýpishóli. Kona hans var Sigríður Jónasdóttir Einarssonar bónda í Geldingaholti. Þau áttu fimm dætur og einn son. Halldór naut ekki menntunar, en var járnsmiður ágætur og stóð í smiðju sinni löngum. Hann var söngmaður og forsöngvari í Víðimýrarkirkju áður en orgel kom þar. Hann var hestamaður og talinn snillingur að ríða hesta til skeiðs. Gestrisinn var Halldór, fróð- leiksmaður mikill og sagði vel frá, en gat verið hrjúfur í orðum ef svo bar undir, glaðlyndur var hann og hrókur alls fagnaðar á mannamótum. Halldór var fátækur, en snyrtimenni í allri umgengni og bar ekki fátæktina utan á sér, hann var einarður og hispurslaus, enginn undirhyggju- maður. Drakk brennivín stundum. Síðustu tuttugu ár ævi sinnar var Halldór á Syðstu-Grund, hjá Efemíu dóttur sinni og manni hennar Sigurjóni Gíslasyni og þar andaðist hann 1920 áttræður að aldri. Einhverntíma heyrði ég þá gamansögu, að bróðir Halldórs, Indriði Einarsson skrifstofustjóri, hefði komið til Sauðárkróks og haldið þar fund á vegum Stórstúkunnar. Á eftir var haft eftir Indriða, að mesti árangur af starfi hans þann dag, hefði verið sá, að Halldór bróðir hans hefði farið ódrukkinn úr Króknum. Þegar Bjarni sonur Halldórs fæddist var hann nær sextugur að aldri og hafði verið ekkjumaður nær áratug. Sökum fátæktar og elli gat hann því ekki veitt syni sínum neinn fjárhagslegan stuðning, en það heyrði ég oft á Bjarna, að kynni þeirra feðga voru mjög vinsam- leg og elsta son sinn lét Bjarni heita Halldór. Bjarni var fæddur að Auðnum í Sæmundarhlíð í janúarmánuði 1898. Móðir hans var þá vinnukona þar og ólst hann upp með henni. Þau voru á ýmsum stöðum, en oftast á góðum heimilum. Vorið 1898fórHelga að Laufási hjá Brenniborg og næsta ár 1899 eru þau á Brenniborg og aldamótaárið í Brekkukoti á Efribyggð og þar er Helga skráð húskona. Svo var það vorið 1901, að þau flytjast frá Brekkukoti að Sjávarborg og Helga bar son sinn þriggja ára yfir ísana, sem áður er getið um. Þar voru þau í fjögur ár. Þar bjó þá Pálmi Pétursson síðar kaupmaður. Árin 1905 og 1906 eru þau á Stóru-Seylu og þar á eftir þrjú ár á Grófargili. Árið 1910 eru þau aftur á Seylu. Þá er Bjarni skráður léttadrengur og má ætla, að eftir það hafi hann unnið fyrir sér. Og þá gefur séra Hallgrímur honum einkunn í kirkjubók, vel, vel, vel, fyrir lestur, kristinfræði, reikning og skrift. Árið 1911 fluttust þau mæðgin að Vöglum í Blönduhlíð til Agnars Baldvinssonar bónda þar, voru þar í tvö ár og fluttust með sama fólki að Litladal og voru þar til 1917. 19 ára gamall, fór Bjarni í skóla að Hvítárbakka og var þar tvo vetur. Hvorthannhefurhaft hug á lengra námi veit ég ekki, en ef hann hefði stundað langskólanám er óvíst að Skagfirðingar hefðu fengið að njóta hans. Hvítárbakkaskóli var góður skóli og þeim sem þekktu Bjarna duldist ekki að hann var vel menntaður, þó skólavist væri ekki lengri. Árið 1921 gekk Bjarni að eiga Sigurlaugu Jónasdóttur á Völlum í Seyluhreppi og það ár hófu þau hjúskap þar á móti Haraldri bróður Sigurlaugar. Þar bjuggu þau fjögur ár, en 1925 keyptu þau Uppsali í Blönduhlíð og bjuggu þar siðan. Þau eignuðust átta börn og komust sjö þeirra upp, fimm synir og tvær dætur. Þau systkin eru dugnaðar- og myndarfólk, sem hafa staðið vel í þeim stöðum er þau hafa verið kölluð til. Bjarni á Uppsölum var góður bóndi og gerði miklar umbætur á jörð sinni þegar árin liðu. Árið 1953 fór Árni sonur þeirra að búa á móti foreldrum sínum og hjá honum og Sólveigu konu hans nutu þau skjóls og umönnunar á elliárum. Sigurlaugu konu Bjama þekkti ég lítið, en vissi þó, að hún var vel greind, hlý í viðmóti og afkastaði miklu ævistarfi. Hún er látin fyrir nokkrum árum. Um hálfrar aldar skeið vann Bjarni fjöldamörg trúnaðarstörf fyrir sveit sína og hérað. Þau verða ekki talin hér, enda hefur það verið gert að nokkru. Bjarni Halldórsson var líkur föður sínum um sumt en ekki allt. Hann var hestamaður og söngmaður, hafði mikla bassa- rödd, hann var snyrtimenni og gekk vel um allt, sem hann hafði með höndum. Hann bar ekki fátækt utan á sér, þurfti þess ekki. En hann drakk ekki brennivín og var aldrei hrjúfur í orðum, heldur prúðmenni til orðs og æðis. Gáfur Bjarna voru á breiðu sviði. Hann hafði stærðfræði- gáfu, sem ég veit ekki, hvort Halldór á Grund hefur haft. Hann var lengi í yfirskattanefnd Skagafjarðarsýslu og vann við fasteignamat. Þegar Stéttarsamband bænda var stofnað 1945 var Bjarni annar af tveimur fulltrúum Skagfirðinga og því fulltrúa- starfi gegndi hann samfellt í 30 ár. Þá var hann alllengi í stjórn Stéttarsambandsins og í Fram- leiðsluráði. Um hann segir Gunnar Guðbjartsson: „Bjarni var afar góður samstarfsmaður. Hann var hreinskiptinn, glöggur á aðalatriði mála, tillitssamur við skoðanir annarra manna og drenglundaður í öllum sam- skiptum”. I hárri elli gerði Indriði Einarsson ferð norður í Skaga- fjörð, að heimsækja frændur og vini. Það gæti hafa verið 1936. Ekki veit ég hvort hann heimsótti Bjarna á Uppsölum en hann talaði mikið um þennan frænda sinn svo ég heyrði og sagði að enginn Bjarni í Reynistaðarætt hefði komist til aldurs á undan honum. Fjórir menn með þessu nafni hefðu dáið um eða rúmlega tvítugir og þrír þeirra farið af slysum. Indriði kunni skýringu á þessu og sagði að nú mundi forfaðirinn Bjarni á Þingeyrum vera kominn í gegnum Hreinsunar- eldinn, en hann hafði mælt svo fyrir að ættmenn sínir skyldu ekki láta heita eftir sér. Sumir töldu þetta vera álög, því maður þessi hefði ekkert góðmenni verið. Bjarni Halldórsson var sýslu- maður Húnvetninga frá 1728 til dauðadags 1773. Hann var talinn harður í dómum og harðlyndur. 18. öldin var líka hörð og réttarfarið hryllilegt. Fólk var tekið að lífi umsvifa- laust fyrir sakir sem nú eru taldar minniháttar. Bjarni á Uppsölum stóð af sér þessi meintu álög, en álög gera góðum mönnum ekki grand. Fyrstu kynni mín af Bjarna á Uppsölum voru á árunum 1946- 1949. Ég var þá varðmaður með Jökulsá-eystri á Hofsafrétt. Bjarni var þá fjallskilastjóri í Akrahreppi og samdi við mig um að leita fyrir göngur, Nýjabæjarafrétt fyrir framan Geldingsá, Fjöllin sem kölluð eru. Af þessu tilefni fóru bréf á milli okkar. Ég sendi honum vísupart, sem átti að vera haustvísa, en ég hef aldrei getað sett saman heila vísu. Vindar skaka vítt um jörð, visna hrakin stráin. Bjarni botnaði vísuna og sendi mér. Varðmenn taka af heiðum hjörð, heim er vakin þráin. Eitt sumar spurði ég Bjarna að því, hvaðan hann hefði hagmælskuna. Hann stansaði við en sagði svo; „Líklega er það fremur úr móðurætt”. Guðmundur Jónsson á Kleif var bróðir Maríu móðurömmu Bjarna. Um hann er skráð í Skagfirzkum æviskrám; „Guðmundur var í tölu snjöllustu hagyrðinga á Skaga á þeim tíma og lét oft fjúka í kviðlingum”. Bjarna á Uppsölum var létt um mál og flutti ræður við ýmis tækifæri, beðinn og óbeðinn. Hann hafði góðan málróm og flutti vel. Ræður hans voru ekki langar. Hann þurfti ekki að tala langt mál, því hugsun hans var glögg og hann kunni vel að greina kjarna hvers máls, orð og setningar voru hnitmiðaðar. Árið 1971 var minnismerki afhjúpað í Kjalhrauni um Reynistaðarbræður sem úti urðu, Bjarni á Uppsölum var beðinn að flytja ræðu þar, því hann var næstur að frændsemi þeim bræðrum, af þeim sem þá voru á lífi. Langamma Bjarna, Sigríður prestsfrú í Glaumbæ var systir Reynistaðarbræðra. Árið 1944 andaðist Jóhannes Bjarnason bóndi á Merkigili,frá stórum barnahóp og var jarðaður á Silfrastöðum. Obeðinn flutti Bjarni á Uppsölum ræðu í kirkjunni. Ekkja Jóhannesar, Monika á Merkigili var þakklát og glöð yfir því sem Bjarni sagði. Og nú 24. janúar síðastliðinn var Bjarni kvaddur hinstu kveðju í Silfrastaðakirkju, að viðstöddu fjölmenni, sem vænta mátti slíkrar mannhylli, sem hann naut. Þegar ég minnist Bjarna Halldórssonar, eru það ekki félagsmálastörf hans mikil og mörg, sem eru mér efst í huga, heldur maðurinn sjálfur, persónu- leiki hans, hið hlýja andrúmsloft er stafaði frá honum. Hann var einn af þeim, sem vill og leggur sig fram um að milda kuldann í mannlegu samfélagi. Allir sem þekktu Bjarna munu sammála um, að hann var fyrirmaður með sinni samtíð og góðmenni. Björn Egilsson + Innilegar þakkir færum við öllum þeim sem sýndu okkur samúð og hlýju við andlát og jarðarför föður okkar og afa Bjama Halldórssonar Uppsölum Guð blessi ykkur Börn, tengdabörn og afabörn Bifreiðaeigendur Mótorstilium bifreiðina með fullkomnum mótorstillitækjum. Eigum á lager: kerti, platínur, kveikjulok, kveikjuhamra í flestar tegundir bifreiða. Góð þjónusta Vanir menn BIFREIÐA- OG VÉLAVERKSTÆÐI

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.