Skólavarðan - 01.08.2009, Page 3

Skólavarðan - 01.08.2009, Page 3
3 FORMANNSPISTILL Formaður og varaformaður KÍ og formenn aðildarfélaga KÍ skiptast á um að skrifa formannspistla í Skólavörðuna. Félögin á bak við formannspistlana eru: Félag framhaldsskólakennara (FF), Félag grunnskólakennara (FG), Félag leikskólakennara (FL), Félag stjórnenda í framhaldsskólum (FS), Félag tónlistarskólakennara (FT), Skólastjórafélag Íslands (SÍ). Stöðugleikasáttmáli – og hvað svo? SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 9. ÁRG. 2009 Kennarasamtökin tóku þátt í gerð stöðugleikasáttmála fyrr í sumar ásamt öðrum stéttarfélögum í landinu, viðsemjendum og stjórnvöldum. Þar eru talin upp ýmis mikilvæg verkefni sem á að vinna að og sett fram meginmarkmið. Meðal mikilvægra markmiða er að styrkja stöðu heimila, verja undirstöður velferðarkerfisins, standa vörð um menntakerfið og verja störf á vinnumarkaði eins og hægt er. Í sáttmálanum er mikilvæg vörn fyrir opinbera starfsmenn gegn því að kjör þeirra verði rýrð með lagasetningu eða öðrum stjórnvaldsaðgerðum. Íslenskt samfélag glímir við afleiðingar tvöfaldrar efnahagskreppu í þeim skilningi að við erum bæði að takast á við áhrif efnahagskreppu á heimsvísu og síðan afleiðingarnar af hruni íslensks fjármálakerfis sérstaklega. Orsakir hrunsins eru af ýmsum toga en þó tróna þar hæst græðgi og siðblinda í fjármálalífi og næst í röðinni andvaraleysi þeirra sem voru við stjórnvölinn í landinu og skortur á opinberu eftirliti með fjármálastofnunum sem léku lausum hala. Einstaklingar og fjölskyldur sem stóðu höllum fæti fyrir hrunið eru enn berskjaldaðri núna og veruleg hætta er á að þeim fjölgi umtalsvert sem eiga ekki fyrir daglegum nauðþurftum vegna atvinnumissis, minni atvinnutekna og fjárhagslegra erfiðleika. Nú þegar er sá hópur sem leitar til hjálparsamtaka um aðstoð orðinn fjölmennari en áður hefur þekkst hér á síðari tímum. Foreldrar geta ekki staðið straum af skólagöngu barna sinna eða námsvist ungmenna í framhaldsskóla. Það gengur ekki upp að hagsmunir lánveitenda hafi forgang í þeim úrræðum sem eru núna til fyrir skuldsett heimili og fjölskyldur. Viðurkenna þarf að alger forsendubrestur hefur átt sér stað í samfélaginu og stokka þarf málin upp út frá því. Talsverður niðurskurður varð á þjónustu við nemendur í skólum landsins á síðasta skólaári. Á næstunni kemur fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2010 fram og þá sést hvaða forgang starfið með nemendum og nauðsynleg þjónusta við þá hefur fengið samkvæmt markmiðum sáttmálans. Þetta á einnig við um áætlanir og forgangsröðun sveitarfélaga. Öngþveiti skapaðist á höfuðborgarsvæðinu fyrr í sumar við innritun inn í framhaldsskóla. Upplýsingar herma að fjölmörg ungmenni muni ekki komst að í framhaldsskólum á þessu skólaári. Sá hluti fjarnáms framhaldsskóla sem einkum hefur sinnt fólki sem ekki er á hefðbundnum framhaldsskólaaldri er skorinn niður. Það er rík ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því að tímarnir framundan gætu einkennst af tilviljunarkenndum og skammsýnum ákvörðunum í skólamálum því yfirsýn vantar og áætlun til lengri tíma um forgangsröðun í starfsemi skóla. Fyrir bankahrunið var kaupmáttarrýrnun orðin veruleg vegna þenslu og verðhækkana. Síðan bætist við, vegna hrunsins, stöðnun í launum og launaþróun, beinn tekjusamdráttur og niðurskurður á launum. Í raun má segja að það uppbyggingarstarf sem átt hefur sér stað á undanförnum árum milli samningsaðila við kjarasamningsborðið sé orðið að engu. Dreifstýrð launakerfi og það markmið að nota rekstrarafgang til að bæta kjör daga uppi við núverandi aðstæður. Miklu heldur gera aðstæðurnar núna kröfu um bein og milliliðalaus samskipti samningsaðila um fjölmörg atriði sem skipta meira máli en áður. Stéttarfélög og viðsemjendur þeirra þurfa að gera áætlanir fram í tímann um aðferðir og tímasetningar við að ná launum og kjörum upp þegar eðlilegar aðstæður skapast á ný til kjarasamningsgerðar með þátttöku stjórnvalda. Mikilvægur hluti af því að skapa sátt í samfélaginu og þar með stöðugleika er að endurreisa traust, trúverðugleika og að þeir axli ábyrgð á hruninu sem hana eiga að bera. Innleiða þarf siðbót og nauðsynlegar breytingar með lýðræðislegum hætti og í því verkefni þurfa m.a. kennarasamtökin að taka þátt með öðrum samtökum launafólks. Aðalheiður Steingrímsdóttir Aðalheiður Steingrímsdóttir formaður Félags framhaldsskólakennara Lj ós m yn d f rá h öf u n d i Það er rík ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af því að tímarnir framundan gætu einkennst af tilviljunarkenndum og skammsýnum ákvörðunum í skólamálum því yfirsýn vantar og áætlun til lengri tíma um forgangsröðun í starfsemi skóla. SPARAÐU Í KRÓNUNNI! í takt við tímann Lífrænt og hollt ótrúlegt úrval! Kjöt og fiskur Kjötvinnsla á staðnum Ávaxta- og grænmetis torg Ferskleiki og hollusta ! Bakað á staðnum!Alltaf nýbakað INNKAUPALISTA Gerðu þinn eigin á www.kronan.is

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.