Morgunblaðið - 12.07.2016, Page 31
MENNING 31
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 12. JÚLÍ 2016
Skútuvogi 6 - Sími 568 6755
plankaparket
Verðdæmi:
190 mm Eik Rustik burstuð
mattlökkuð 6.990.- m2
Hannes Sigfússon gaf út átta frum-ortar ljóðabækur frá 1949 til 1995,auk þess sem hann birti nokkurkvæði í tímaritum og þýddi ljóð og
gaf út. Nú hefur Jón Kalman Stefánsson valið
úr verkum Hannesar allmörg ljóð úr öllu safni
hans og ritar að þeim
einkar persónulegan for-
mála, enda var Hannes afa-
bróðir Jóns og honum ná-
kominn. Hann rekur ævi
Hannesar, segir nokkuð af
einkamálum hans og tengir
við skáldskapinn, finnur
honum bókmenntasögulega
staðfestu án nokkurs hátíð-
leika eða mærðar. Þver-
sögnin er kannski sú að Hannes vildi skrifa
skáldsögur, en það gekk illa þótt Strandið
haldi nafni hans á lofti; Ljósin blakta heitir hin
skáldsagan sem Hannesi auðnaðist að gefa út.
Þetta úrval er snyrtilega búið heiman af hálfu
forlags og kápu prýðir mynd af málverki eftir
Kristján Davíðsson þar sem hlýir litir lyfta sér
yfir kuldann hið neðra; kannski er auga
stormsins á bakhliðinni?
„Tungumálið er lykill skáldsins að veröld-
inni / Hann lýkur upp bergmálshellum innst í
heilabúinu“. Þannig hefst ljóðið „Kirjálaeiði“ í
samnefndri bók Hannesar. Og þetta er gagn-
kvæmt. Tungumálið er lykill lesandans að ljóð-
heimi skálds og orðin verða að bergmála í
hugarfylgsnum lesanda til þess að skilningur
skapist eða upplifun með öðru móti. Fyrstu
bækur Hannesar, Dymbilvaka og Imbrudag-
ar, eru býsna torræðar. Dymbilvaka er að
miklu leyti háttbundin í hrynjandi og ljóð-
stafasetningu, og nokkur ljóð í Imbrudögum,
við upphaf og endi bókar; stundum vottar fyrir
rími. Ljóðmælandinn í þessum bókum er einn,
fær ekki sofið. „Bleikum lit / bundin er dögun
hver og dökkum kili“. „Skíman blind“ er
draugsleg, „blóðlausir skuggar flökta á gráu
þili“. Víða eru endurtekin stef í Dymbilvöku og
allar myndir kvæðabálksins eru fremur
drungalegar, bak við þær býr einhver angist.
En þær ná engu bergmáli í huga mér hvað
merkingu varðar, en birta mér samt ugg ljóð-
mælandans; ljóðmyndirnar eru þess eðlis.
Sama er uppi á teningnum í Imbrudögum; það
var háttur atómskálda og annarra módern-
ískra skálda að sýna hug sinn fremur en segja.
Hannes hefur jafnan verið talinn með atóm-
skáldum, en sú viðmiðun nærist á efnistökum
og ljóðmáli fremur en stílbrögðum í þessum
fyrstu bókum þótt þar séu raunar líka prósa-
ljóð. Með sínum hætti kallast Imbrudagar á
við skáldsögu Hannesar, Strandið, þar sem
hann lýsir hörmulegu sjóslysi sem hann var
vitni að veturinn 1950; prósaljóðin í Imbrudög-
um eru þar ljós vottur. Ég hlustaði á Hannes
lesa Dymbilvöku í útvarp og þá lifnuðu myndir
bókarinnar betur en við hljóðan lestur heima í
hægindi; Hannes sagðist alltaf hafa lagt mikið
upp úr hljómi (bls. 33) og hann hafði grípandi
hljómmikla rödd í upplestri.
Imbrudagar bárust til lesenda 1951, skáld-
sagan Strandið 1955 og ljóðabókin Sprek á eld-
inn 1961. Þar hefur Hannes breytt um stíl,
yrkir skiljanlegar, ef svo má segja, enda vildi
hann að ljóðin væru tæki í baráttu gegn heims-
valdastefnu, stríði og átökum af öðru tagi.
Upphafsljóð bókarinnar heitir „Vetrarmyndir“
úr lífi skálda og það má túlka sem eilífa bar-
áttu höfunda við orðin. Hannes hafði dreymt
um að verða skáldsagnahöfundur, en ár eftir
ár blöstu við honum auðar síður, hann kom
engu á blað – nema ljóðum sem hann orti í
törnum eftir því sem hann sagði. „Hvaða orð
eiga lýsandi kjarna / í luktri skel þessarar
hauskúpu / sem ert þú sjálfur?“ Er þetta ekki
eilífur vandi allra skálda? Að grafa upp orð úr
sínum innstu innum sem kynnu að fanga hugs-
un lesanda og sýna honum veröldina í nýju
ljósi? Í seinni bókum Hannesar er ögn meiri
birta í kveðskapnum þótt hann hætti aldrei að
fara út í stormviðri tíðarandans. Ljóðið „Á
norðurhjaranum“ er dæmi um birtuna, ljóðið
„Afríka“ er hins vegar atkvæði með frelsisbar-
áttu. Ótal ungmenni í grunn- og framhalds-
skólum hafa fengist við að „greina“ það ljóð
sem er býsna mögnuð myndlíking frá upphafi
til enda. Það er háttur útgefenda sýnisbóka að
velja í þær ljóð „sem hægt er að greina“ frem-
ur en tæra ljóðrænu sem rennur ótrufluð að
hjartans rótum!
Síðustu ljóðabók Hannesar, Kirjálaeiði
(1995), lýkur með tveimur hendingum sem
bera heitið „Hættur“: „Dyrum lokað: / Hurð
fellur að stöfum“. Það er langur vegur frá
þessum hljóðlátu línum aftur til Dymbilvöku.
Hannes Sigfússon hafði ávallt skýra sýn á ver-
öldina þótt hann endurnýjaði sitt andlega bú í
ljósi reynslu og menntunar. Hann hafði góð
tök á máli og bjó til ýmis lýsingarorð til að
spegla hug sinn, en þau eru aldrei stigbreytt
upp í hæðir því að slík orðanotkun brýtur í bág
við hófstilltan ljóðstíl hans; Lágt muldur
þrumunnar heitir ein ljóðabókin hans (1988).
Ég held að Hannes eigi enn erindi við les-
endur. Rödd hans er sérstök og hún er söm frá
fyrstu bók til lokalínu þótt stílbrögð hafi ýmist
breyst eða slípast. Þeir sem lesa ljóð Gyrðis
Elíassonar og Gerðar Kristnýjar sjá t.d. að
þau hafa bæði lesið ljóð Hannesar sér til
gagns. Þannig er háttað framhaldslífi skálda.
Lífið liggur aldrei á lausu
Morgunblaðið/Einar Falur
Erindi „Ég held að Hannes eigi enn erindi við
lesendur. Rödd hans er sérstök og hún er söm
frá fyrstu bók til lokalínu þótt stílbrögð hafi
ýmist breyst eða slípast,“ segir í rýni.
Ljóð
Hannes Sigfússon:
Ljóðaúrval bbbbn
Ljóð eftir Hannes Sigfússon.
Jón Kalman Stefánsson tók saman og ritar for-
mála. Innbundin, 224 bls. auk efnisyfirlits og rita-
skrár. Bjartur, 2016.
SÖLVI SVEINSSON
BÆKUR
» Japanski leikstjórinn, rithöf-undurinn og dansarinn Mus-
himaru Fujieda framdi Butoh-
dansgjörning í Listasafni Íslands
í gær. Í sólódansi miðlar Fujieda
tilfinningaþrungnum augnablik-
um lífsins á táknrænan hátt með
ljóðrænu að leiðarljósi. Hann
fæst einnig við grímudans fyrir
Himalaya-trúarathafnir.
Butoh-dansgjörningur japanska listamannsins Mushimaru Fujieda í Listasafni Íslands
Einbeiting Hinn japanski Mushimaru Fujieda virtist afar ein-
beittur þar sem hann framdi dansgjörning sinn.
Athygli Þessar tvær voru meðal gesta og fylgdust grannt með framvindu
mála hjá listamanninum sem miðlaði tilfinningaþrungnum augnablikum.
List Þó nokkuð af fólki mætti í Listasafn Íslands
til að verða vitni að gjörningi listamannsins.