Norðurslóð - 17.12.2015, Blaðsíða 7

Norðurslóð - 17.12.2015, Blaðsíða 7
Norðurslóð - 7 Um sögur af fornum Svarfdælum Á þessu ári hefur frægasta fornkona úr hópi Svarfdælinga verið heiðruð. í tilefni aldarafmælis kosningaréttar var torgi við ráðhúsið á Dalvík gefið nafnið Ingvildartorg, en þar er vísað til Ingvildar (Yngvildar) Ásgeirsdóttur sem nefnd var fogurkinn og er persóna í Svarfdæla sögu. Svarfdæla er raunar ekki talin með merkari Islendingasögum, til þess er hún ekki nógu vel saman sett, en hún er viðburðarík og er þar sagt frá ýmsum feiknlegum atburðum og skrautlegum persónum. Á Svarfdælu minna bæði bæjanöfn í sveitinni og götunöfn á Dalvík, samanber Karlsá, Karlsbraut og Karlsrauðatorg, Klaufabrekkur, Skíðabraut og Svarfaðarbraut. Þá má ekki gleyma Hreiðarsstöðum, sem sækja nafn sitt í ekki í Svarfdælu heldur Hreiðars þátt heimska, en hann er með allra bestu og skemmtilegustu Islendingaþáttum. Fleiri bæjanöfn eru sögð dregin af persónum sem nefndar eru í Svarfdælu, líklega jafnan karlmönnum. Var því vissulega kominn tími til að Yngvildi fögurkinn yrði sýndur nokkur sómi og fer vel á því að það sé gert á þessu mikla minningarári kvenréttinda. Jónas Kristjánsson gaf Svarfdæla sögu út í bindinu Eyfirðingasögur í Islenskum fomritum árið 1956. Þar eru líka tvær aðrar áður ónefndar sögur sem gerast í dalnum, Valla-Ljóts saga og Þorleifs þáttur jarlsskálds. Undir lok inngangs nefnir Jónas að fáein skáldverk hafí verið gerð eftir Svarfdælu. Fyrst telur hann Rímur af Þorsteini svörfúði eftir Eirík Pálsson, óprentuð í handriti á Landsbókasafni, og svo tvær skáldsögur sem fjalla um Yngvildi: Þýska sögu eftir mann að nafni Zedlitz, Ingvelde Schönwang, útgefrn í Stuttgart 1860, og loks Yngvildi fögurkinn, skáldsögu í tveim bindum eftir Sigurjón Jónsson, 1951-52. Löngu síðar bættist við enn eitt skáldverk í þessum flokki, Hér liggur skáld eftir Þórarin Eldjám, 2012. 1 þeirri bók er raunar Þorleifur Ásgeirsson skáld frá Brekku fyrirferðarmestur, sagan hefst og henni lýkur á honum, og er Þorleifs þáttur meginheimildin. En persónur úr Svarfdælu koma hér einnig við sögu, eins og faðir Þorleifs, Ásgeir rauðfeldur, og líka systir hans, sem er engin önnur er Yngvildur fögurkinn og Þorleifúr nefnir raunar Yngu. Saga Þórarins er einkar fagmannlega samin og skemmtileg aflestrar, einkum sá hluti sem spunninn er úr Þorleifs þætti og greinir frá samskiptum Þorleifs við Hákon Hlaðajarl sem voru söguleg í meira lagi. Má hvetja alla lesendur Norðurslóðar sem áhuga hafa á svarfdælskri menningu að fomu og nýju að lesa bókina. Vísa ég hér til ritdóms um hana eftir Gísla Sigurðsson handritafræðing í Tímariti Máls og menningar, 4, 2013, þar sem hann segir undir lokin: „Nútímalesandi finnur strax að hann er ekki byrjaður á neinni hversdagssögu. Sjálfúm fannst mér það eins og að setjast við svala lind í gróinni birkilaut eftir klungur í brunahrauni þegar ég fékk Hér liggur skáld í hendurnar." Saga Þórarins er sú eina af Svarfdælasögum hinum nýrri sem aðgengileg er nútímalesendum. Rímumar af Þorsteini svörfuði hefúr varla nokkur maður skoðað og fjarri okkur liggur að sjálfsögðu hin þýska saga frá 1860. Eg man eftir eintaki af sögu Sigurjóns, Yngvildi fogurkinn, í Bókasafni Dalvíkur í gamla daga og má vera að það leynist þar enn í hillu. En Yngvildur hefúr ekki verið gefín út aftur og er að líkindum algjörlega fallin í gleymsku. Ætla ég nú að segja stuttlega frá þessari sögu hér sem ég fékk lánaða í Þjóðarbókhlöðu. Utgefandi hennar var Iðunnarútgáfan, forlag Svarfdælingsins Valdimars Jóhannssonar. Valdimar sagði mér raunar að það hefði einungis verið að nafni til, höfundurinn hefði kostað og annast útgáfúna sjálfur, en líklega hefur Valdimar dreift henni í búðir með öðmm bókum Iðunnar. Sigurjón Jónsson fæddist 1888 í Reykjavík en ólst upp á Húsavík. Hann mun snemma hafa fengið áhuga á skáldskap og skriftum, en þá iðju hafði hann lengstum í hjáverkum eins og var um flesta hans samtíðarmenn. Hann var ungur kennari í Þingeyjarsýslu, á Tjömesi og í Aðaldal, svo bóndi á Völlum í Saurbæjarhreppi í Eyjafírði, en þaðan var kona hans, Rósa Jónasdóttir. Frá 1918 var Sigurjón starfsmaður Landsbankans í Reykjavík og starfaði þar til 1952. Eftir það bjó hann allmörg ár í Cork á Irlandi, en síðustu árin í Reykjavík. - Ámi Sigurjónsson bókmenntafræðingur birti grein um Sigurjón og æskuverk hans í Andvara 1996 og segir þar: „Rithöfundarferill Sigurjóns skiptist glögglega í tvennt. Liðlega þrítugur að aldri birtir hann tvö ævintýrasöfn, þrjár skáldsögur og ljóðabók; en því næst gerir hann hlé um átján ára skeið. Það er svo árið 1945 sem hann tekur, tæplega sextugur að aldri, að senda frá sér bækur að nýju og em það þá aðallega sögulegar skáldsögur, byggðar á íslenskum fornbókmenntum". Þessar sögur em, auk Yngvildar, Gaukur Trandilsson, Helga Bárðardóttir og Snæbjöm galti. Sú síðasttalda kom út þegar höfundinn varð sjötugur, 1958, og Ingvildur fögurkinn eins og luin birtist á kápu samnefndrar bókar sama ár kom stórt safn smásagna hans sem heitir Það sem ég sá. Sigurjón Jónsson lést árið 1980. Yngvildur fögurkinn er hárómantísk og viðburðarík skáldsaga og má þegar sjá það ef lengd sögunnar er borin saman við Svarfdælu að höfundur teygir býsna mikið úr frásögninni og málar sterkum litum. - Fyrra bindi segir frá æsku og uppvexti Yngvildar og hjúskap hennar og berserksins Klaufa, sem raunar er fyrirferðarmest persóna í þeim hluta verksins. Sagan hefst á því að Klaufí kemur bamungur að Gmnd í Svarfaðardal til Þorsteins afa sína. Fyrra bindi lýkur með því að bræður Yngvildar drepa Klaufa. Það kemur raunar fyrir lítið því hann gengur aftur og veitir frændum sínum, Grundarmönnum, lið með blóðugt höfuð sitt að vopni. I seinna bindi segir frá hjónabandi Yngvildar og Skíða sem var af lágum stigum og bar skarð i vör eftir misþyrmingar Karls rauða, frænda Klaufa. Yngvildur var ekki fús til ráðahags við Skíða, en setti það skilyrði að hann skyldi fylla skarðið, og taldist hann gera það með því að taka þátt í vígi Karls. En sonur Karls, Karl hinn ungi, hyggur á hefndir þegar hann vex upp. Til að villa um fyrir mönnum læst hann vera afglapi, en hefnir sín svo grimmilega. Drepur hann þrjá syni Yngvildar og fer síðan tvisvar með hana til útlanda og selur hana í ánauð. Jafnan spyr hann hana hvort fullt muni skarðið í vör Skíða. Yngvildur neitar því lengi, en bugast að lokum og segir að skarðið muni aldrei fullt verða. Þar með hefur þessi stórbrotna kona verið beygð og hafa menn til samanburðar bent hér á eitt af leikritum Shakespeares, raunar ekki með þeim þekktustu, sem á íslensku hefur verið nefnt „Skassið tamið“. „Snegla tamin“ er það raunar kallað í leikritasafni Shakespeares í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Þannig er í stuttu máli það feiknlega söguefni sem Sigurjón Jónsson spinnur úr sína löngu skáldsögu, bindin tvö eru samtals hátt á fímmta hundrað síður. Til að gefa hugmynd um stíl og efnismeðferð höfundar má taka upphaf tólfta kafla seinna bindis, Móðir. Hér leikur enn allt í lyndi með þeim hjónum, Yngvildi og Skíða. Tekið skal fram að Möðruvellir í Skíðadal eru nefndir í Svarfdælu sem bústaður Skíða, en sá bær er að minnsta kosti ekki þekktur á síðari öldum: „ Hún lýtur niður að læknum og leitar að skuggsjánni. Ein situr hún hér og greiðir ár sitt bœði mikið og fagurt. Fagrir þjóta ftngur um gullinn hadd. Fögur er konuhönd sú, sem á kambinum heldur. Fagran vanga á Fögurkinn enn. Og enn er Yngvildurfegursta húsfreyjan í sveitinni eftir tólf ára hjúskap og búskap að Möðruvöllum í Skiðadal. Eldfjör œskunnar og leiftrandi fegurð í snöggum viðbrögðum ungmeyjarinnar er að vísu að mestu horfið. I þess stað er komin meiri ábyrgðar/ilfinning, athygli og varúð í svipinn, stilling ogfesta íframgöngu hinnar góðu húsmóður, sem allir treysta. Gamalt steinasörvi glitraði á hálsi Yngvildar. Kvensilfur átti hún eigi mikið né gull. Möðruvallahjón voru talin fátæk.og var því um kennt ,aó Skíði vœri meiri hestamaður og gleðimaður en búmaður og meiri verkmaður hjá öðrum en sjálfum sér. Samt vegnaðiþeim vel, ogþau voru hamingjusöm. Gott var imdir bú í Skíðadal og Möðruvellir voru mikið jarðnœði og farsœlt. “ Sannarlega er þetta falleg mynd, einna líkust þeim rómantísku Hollywoodmyndum sem fólk horfði tíðum á sér til ánægju fyrir nokkrum áratugum. Sigurjón bregður út af sögulokum Svarfdælu að því er að Yngvildi lýtur. Þar er hún niðurlægð, svo að hvorki Skíði maður hennar, Ljótólfur á Hofi né Karl vilja við henni taka eftir að hún er leyst úr ánauð . „Kunna menn það ei að segja hvort hún hefir gift verið en sumir segja að hún haf tortýnt sér af óyndi, “ segir Svarfdæla. I sögu Sigurjóns er annað uppi á teningnum: Yngvildur hefúr í seinni herleiðingu sinni hitt kristniboðann Þorvald víðförla á fömum vegi og numið af honum boðskap um fyrirgefningu og það að kunna að stjórna skapi sínu. í Hróarskeldu hafði hún svo náð fundi prests og þar var hún skírð til kristinnar trúar. Nú segir hún Karli að hún vilji vera ambátt Jesú Krists og þjóna honum einum. Þetta veldur Karli vonbrigðum því þessi kona var ekki sú Yngvildur sem hann áður þekkti. „ Ogþessa konu hafði hann eigisigrað, heldur Hvíti Kristur. “ Það er líklegt að saga Sigurjóns Jónssonar um Yngvildi hafi fallið mörgum lesendum veH geð á sínum tíma, svo litrík og rómantísk sem hún er, hversu sem færi nú ef hún yrði lögð á borð manna. Má vera að hún yrði þá einkum talin bam síns tíma, eins og flest fyrri tíðar listaverk. Samtímaritdómar um Yngvildi fögurkinn sem ég hef séð em lofsamlegir. Um fyrra bindið ber gagnrýnendum saman að lýsinguna á Klaufa beri hæst. Helgi Sæmundsson er þeirrar skoðunar að sú mannlýsing hafi höfúndi tekist best, „ og er hún þó langsamlega vandasömust. Hann gerir Klaufa að barni og trölli í senn og tekst það svo vel að lesandinn fœr innilega samúð með þessum kynlega óhappamanni, sem minnir helst á Lenna Johns Steinbeck í Músum og mönnum. Myndin af Yngvildi er einnig vel dregin, en samt á hún áreiðanlega eftir að stœkka og dýpka. “ - Það er eftirtektarvert að Klaufa er hér líkt við Lenna í hinni kunnu sögu og leikriti Steinbecks, sem hefur lifað góðu lífi til þessa dags. Kristmann Guðmundsson ritaði um bæði bindi Yngvildarsögu. Hann samdi sjálfúr rómantískar sögulegar skáldsögur og kunni vel að meta hvemig Sigurjón fór með efni sitt. Um fyrra bindið segir hann að nokkrar mannlýsingar séu ágætar. „ Sjálfar aðalpersónurnar, Yngvildur og Klaufi, eru að vísu stórfenglegar að efnivið, einkum Klaufi, en á þeim smávegis smiðagallar. “ Ekki skýrir ritdómarinn þessa galla nánar, en segir að lesandinn gleymi þeim að mestu, „sökum hins dramatíska þróttar og frásagnargleðinnar er ber söguna uppi. “ Um seinna bindið segir Kristmann að sagan hefjist þar og stækki allmikið, höfundur nái sterkari tökum á persónunum og hin dramatíska dirfska hans njóti sín til fulls. Þó tekur ritdómarinn fram að höfundur „ virðist yfirleitt kœra sig kollóttan um raunveruleikann. Mannlýsingar hans eru sumar algjörlega óraunhlítar...En þœr eru jafnan samkvœmar sjálfum sér og sögunni, höfundi tekst að gera þœr sannar, á Iíkan hátt og góðar þjóðsögur gera tröll trúianleg. Aldarfarslýsing bókarinnar er spunnin af sama toga. Hún minnir á naivistiska svarthvítarteikningu, en nœr tilgangi sínum og er ágœtlega samhœfð persónum og frásögn. “ - Hér er bent á það að sagan sé fremur ævintýri og þjóðsaga, goðsögn, en raunsæisleg skáldsaga. Þetta liggur raunar í augum uppi og er í samræmi við Svarfdælu sjálfa. Kannski væri hægt að búa til sálfræðilega ástar- og harmsögu úr þessum efniviði, en það yrði annars konar bók en Yngvildur fögurkinn. Það er langt bil á milli sögunnar um Yngvildi fögurkinn eftir Sigurjón Jónsson og sögu Þórarins Eldjáms um Þorleif frá Brekku og frændur hans. Er það að vonum, svo mikill er aldursmunur höfundanna og ólík sjónarmið þeirra og aðferðir sem sagnaskálda. Annar er einlægur rómantíker og alvörugefínn, hinn gamansamur, íronískur, bregður á leik með efnivið sinn. En hvor með sínum hætti minna þessar bækur á að við eigum góðan arf þar sem eru fomar sögur af Svarfdælum. Mættu þær enn reynast skáldum og rithöfundum kveikja í athyglisverð verk.

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.