Morgunblaðið - 23.06.2017, Blaðsíða 12

Morgunblaðið - 23.06.2017, Blaðsíða 12
12 MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. JÚNÍ 2017 F ólk getur alveg lent í þeim vandræðum að ekkert annað sé að gera í stöðunni en að eitra,“ segir Guðmundur Halldórsson, skordýrafræð- ingur og rannsóknarstjóri Land- græðslu ríkisins. „Þumalputtareglan ætti hins vegar að vera sú að reyna að komast hjá því í lengstu lög.“ Ástæðu þessa segir Guðmundur vera þá að meindýrin sem verið sé að eitra fyrir séu ekki þau einu sem eitrið hafi áhrif á. „Eitrunin fer líka mjög illa með þau dýr sem eru að hjálpa garðeigand- anum, til dæmis þau skordýr sem éta skaðvaldana. Eins fer það illa í fugla þegar verið er að eitra stór svæði því þá taka þeir mikið af eitrinu í sig.“ Eitra bara þann gróður sem óværan er á Af þessum sökum segist Guðmundur alltaf ráðleggja fólki að eitra þá bara þær plöntur sem eru að skemmast. „Fólk ætti ekki að eitra allan garðinn hjá sér nema í allra lengstu lög.“ Máli sínu til stuðnings bendir Guð- mundur á að í flestum görðum sé gróðurúrvalið fjölbreytt og sjaldan séu allar plöntur í garðinum und- irlagðar af einhverri óværu. „Í þess- um tilfellum ætti fólk að láta duga að eitra bara þær plöntutegundir sem eru að skemmast.“ Guðmundur segir suma þó vissu- lega ekki vilja sjá nein smákvikindi í garðinum hjá sér. „Sumu fólki er illa við allar pöddur,“ segir hann og nefn- ir köngulær sem dæmi, en sumir láta eitra fyrir þessum áttfætlum. „Köngulær eru miklar nytjaskepnur í garðinum. Þær eru miklar veiðiklær og þær hjálpa til við að halda óværu niðri. Það borgar sig að hugsa svolítið um garðinn og lífríkið í honum út frá þessu sjónarmiði. Garðurinn þarf að ná einhverju jafnvægi þannig að mað- ur þurfi ekki að vera grípa svona inn í, af því að því meira sem maður grípur inn í, þeim mun meiri hætta er á að maður þurfi alltaf að vera að grípa inn í með því að eitra.“ Trén lifa en eru kannski ljót Blaðlús er eitt þeirra skordýra sem eru í litlum metum hjá garðeigendum, enda getur hún farið illa með tré, runna og rósir svo dæmi séu tekin. Guðmundur bendir þó á að sjaldgæft sé að blaðlúsin drepi þær plöntur sem hún leggst á. „Trén geta verið lengi ljót en lifa engu að síður af, þó að þau séu kannski lengi að ná sér útlits- lega,“ segir hann. „Álmurinn getur líka farið illa í lús og þá fer sitkalúsin mjög illa með tré þegar hún er að grassera. Ég ráðlegg fólki áður en það grípur til eitursins að hugsa út í það að því meira sem það eitrar, þeim mun meiri líkur eru á að það þurfi að eitra aftur.“ Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvaða skoðun Guðmundur hafi á notk- un sápuefna á borð við brúnsápu og Ecostyle-skordýrasápu gegn lúsinni. Hann kveðst ekki hafa reynslu af notkun þeirra sjálfur. „En ef garðeig- endur telja sig hafa góða reynslu af að úða öðru en skordýraeitri á plönturn- ar dreg ég það ekkert í efa. Það er í þessu eins og öðru að fólk hefur margvísleg heimatilbúin ráð sem sum hver virka og önnur ekki.“ Aðalatriðið hvað slíkar aðferðir varðar sé að ekki sé þá verið að úða efnum sem eru óheppileg fyrir garð- inn og nefnir Guðmundur mat- jurtabeðin í þessu samhengi. „Það gildir það sama um þessi efni og um skordýraeitrið.“ Hann bætir þó við að yfirleitt séu þessi efni skaðlítil fólki, en að það geti engu að síður þurft að láta líða nokkurn tíma frá því að úðað er og þar til matjurtirnar rata á mat- arborðið. Nýju meindýrin erfiðari viðureignar Öllu erfiðara getur verið fyrir lífríkið í garðinum að takast á við þá nýbúa sem bæst hafa í hóp garðbúanna á undanförnum árum, m.a. asparglytt- una og birkikembuna. „Þeim virðist vera að fjölga og eru að breiðast út,“ segir Guðmundur. „Gallinn við þessar nýju tegundir er sá að þær virðast ekki eiga náttúrulega óvini hér- lendis.“ Sjálfur viti hann a.m.k. ekki til þess að svo sé. Ekki sé þó enn búið að rannsaka það ítarlega, en það standi þó til bóta, því að Brynja Hrafnkelsdóttir hjá Rannsóknarstöð Skógræktar á Mógilsá sé að fara af stað með verkefni um birkikembuna nú í sumar sem mögulega muni varpa einhverju nýju ljósi á þann nýbúa. „Þær lirfur sem hafast við og nær- ast á laufi eru almennt fæða fyrir fugla. Birkikemban hefst hins vegar við inni í laufinu og því er erfiðara fyr- ir fuglinn að átta sig á því að þar leynist eitthvað ætilegt,“ segir Guð- mundur og kveðst ekki vera viss um hvort og þá í hve miklum mæli fuglar éti birkikembulirfuna, líkt og aðrar lirfur. Sú aðferð lirfunnar að koma sér fyrir inni í laufinu hefur það sömu- leiðis í för með sér að erfitt er að eitra fyrir birkikembunni, enda er það ekki fyrr en birkilaufið tekur á sig brúnan lit sem garðeigandinn verður hennar var. „Þegar birkikemban er komin inn í laufblaðið ná efnin ekki til henn- ar,“ útskýrir hann. „Ég hef verið að ræða þetta við garðyrkjumenn og þeir segja að til þess að ná góðum árangri þurfi að eitra snemma, á þeim tímapunkti þegar lirfan skríður úr eggi utan blaðsins og áður en hún skríður inn í blaðið. Garðyrkjumenn segja að ef þeir nái að úða á þeim tíma telji þeir sig ná góðum árangri. Gallinn við þetta er hins vegar sá að maður veit ekki hversu mikill skaðinn hefði ann- ars orðið. Maður veit ekki hversu mikið hefði verið af lirfunni, þannig að það má eiginlega líkja þessu við það að skjóta fyrst og spyrja svo,“ út- skýrir hann og kveðst persónulega ekki mæla með þeirri aðferð. Guðmundur hefur sjálfur orðið var við birkikembu í eigin garði og segir birkið vissulega líta illa út. „Ég held hins vegar ekki að þetta muni drepa birkið, en ég skil vel að það er enginn hamingjusamur með að hafa ljót tré í garðinum hjá sér.“ Ýmis húsráð gagnast vel gegn sniglunum Sniglar geta líka verið hvimleiðir garðgestir, sem breytt geta blómleg- um beðum og matjurtareitum í eyði- mörk. Guðmundur segir vissulega líka hægt að eitra líka fyrir sniglum, en einnig megi losna við þá með því að breyta um ræktunaraðferð. „Þannig má til að mynda koma jarðarberjaplöntum fyrir í hangandi pottum, frekar en að hafa þau í beð- um, og forða þeim þannig frá snigl- unum,“ útskýrir hann. Þá er blaða- manni kunnugt um að garðeigendur hafi notað sand og annað yfir- borðsefni sem sniglum hugnast illa í nágrenni þeirra plantna sem þeir vilja halda sniglunum frá. „Þeir fara í kál og allt mögulegt og það er erfitt að eiga við þá,“ segir Guðmundur. „Ýmis húsráð eru þó til og menn hafa til að mynda verið að grafa niður dollur með pilsner eða bjór til að drekkja sniglunum. Ég hef gert það sjálfur og dollurnar fylltust af sniglum, en í mínu tilfelli átu þeir þó einnig jarðarberin.“ Þá hafa sumir hafa líka komið fyrir spýtu á jörðinni hjá beðinu sem á að vernda og síðan er spýtunni lyft upp reglulega og sniglarnir, sem leita í raka, eru fjar- lægðir þar undan og drepnir. „Menn hafa þannig verið með ýmis húsráð.“ Hann kveðst ekki hafa nein önnur ráð varðandi spánarsnigillinn en aðra snigla. „Ég held að það sé erfitt að losna við hann þegar hann er einu sinni kominn í garðinn og búinn að verpa.“ Ekki sé þó úr vegi að fara ferð um garðinn á kvöldin er skyggja tek- ur og drepa þá snigla sem verða á vegi manns. „Ég held þó að gamli ís- lenski brekkusnigillinn hafi verið mesta vandamálið til þessa, þó að það sé ekki til bóta að fá spánarsnigilinn til viðbótar.“ Fá ráð gegn rana- bjöllunni nema eitrið Annar hvimleiður garðagestur er ranabjallan og segir Guðmundur erf- itt að eiga við þær. „Þær drepa ekki tré, nema þá kannski ungplöntur,“ segir hann. Vissulega geti þær þó ver- ið erfiðar öðrum plöntum í garðinum og eru dæmi um að þær hreinsi heilu beðin, en lirfur ranabjöllunnar lifa á rótum, m.a. trjárótum. „Þær eru úti um allt og ranabjallan blossar upp í einstaka garði,“ segir hann og kveðst ekki vita hvers vegna það gerist. „Ég veit ekki um nein ráð við þeim nema bara að úða.“ Ranabjallan er gömul íslensk padda og hefur verið hér jafn lengi og elstu menn muna, en henni hefur þó farið fjölgandi undanfarin ár og ára- tugi. „Það eru mörg skordýr sem hafa notið góðs af því að það hefur hlýnað og það eru alls konar pöddur sem er meira af núna en áður en það tók að hlýna og ranabjallan er örugglega að njóta góðs af því líka. Þá er líka miklu meiri gróður nú en var fyrir 20-30 ár- um.“ annaei@mbl.is Lífríkið í garð- inum þarf að ná jafnvægi Eftir hlýtt sumar og mildan vetur er gróðurinn fljótur að taka við sér og víða blasir við litskrúðugt blóma- haf í grænum og gróskumiklum görðum. Það eru þó ekki bara plönturnar sem hafa tekið vel við sér þetta sumarið, því skordýrin sem þar búa hafa víða ekki síður vaknað úr dvala af miklum krafti. Þó að flestir geti sætt sig við að deila garðinum með skordýrum upp að vissu marki súrnar það sambýli óneitanlega er áður grænir og gróskumiklir runnar og tré verða lauflitlir á örfáum dögum. En hvað er til ráða þegar dýralífið í garðinum verður gróðrinum ofviða? Morgunblaðið/Óli Már Aronsson Afleiðingar Guðmundur Halldórsson skordýrafræðingur hefur orðið var við birkikembuna í eigin garði eins og margir aðrir. Hann hvetur fólk þó til að vera meðvitað um að kjósi það að eitra garða sína séu líkur á að það þurfi að gera slíkt aftur. Morgunblaðið/Óli Már Aronsson Metnaður Það er mikil prýði að góðum garði og því erfitt að horfa upp á bera runna og tré skemmd eftir skordýr. Ljósmynd/Erling Ólafsson Til vandræða Spánarsnigillinn er meðal óvelkominna nýbúa í görðum landsmanna. Morgunblaðið/Ómar Óskarsson Plága Erfitt er að losna við ranabjölluna, sem hefur reynst skæð, nema með eitri.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.