Víkurfréttir


Víkurfréttir - 23.02.2017, Blaðsíða 15

Víkurfréttir - 23.02.2017, Blaðsíða 15
15fimmtudagur 23. febrúar 2017 VÍKURFRÉTTIR Hann fór að vinna á auglýsingastofu í Reykjavík og þar varð til hljómsveitin Dátar. „Ég hafði gert tvo texta fyrir Þóri Baldursson og hann bað mig að semja texta fyrir Savana tríóið, Ást í meinum var því fyrsti textinn eftir mig sem kom út á hljómplötu. Svo gerði ég nokkra texta fyrir Dáta en það var bara einn sem var notaður, hinir þóttu of mikið bull og var Ólafur Gaukur fenginn til að semja hina textana. Þegar Dátar gerðu aðra plötu samdi Rúnar Gunnarsson söngvari og gítar- leikari öll lögin og ég gerði textana, þar stóð upp úr Gvendur á eyrinni sem varð mjög vinsælt - svo vinsælt að Hljómar voru farnir að skjálfa,“ segir Þorsteinn glettinn. Dátar léku um allt land og Þorsteinn var sveitinni innan handar, ef þeir skyldu fara að semja músík. „Þá datt Þráni umboðsmanni í hug að kaupa alls konar kúlupenna og pappír og var ég fenginn til þess að skrifa bréf í óskalagaþættina í útvarpinu og biðja um lagið Gvendur á eyrinni. Við vorum þannig svolítið að svindla og ég skrifaði bréf sem sett voru í póst á Blönduósi, Sauðárkróki og svo fram- vegis. Allir þessir bréfritarar báðu að sjálfsögu um sama lagið. Textagerðinni fór fram hjá Þorsteini en hann lagði áherslu á að það væri auðvelt að syngja textana. Þá hjálpaði það, að mati Þorsteins, að textarnir voru ekki um sjómenn og bændur - heldur mikið um stelpur og daglegt líf. Hirðskáld Hljóma „Þegar ég var búinn að semja á tvær plötur fyrir dáta fannst Gunnari Þórðarsyni ófært annað en að ég færi að semja fyrir Hljóma líka. Það gekk í mörg ár og varð ég nokkurs konar hirðskáld.“ Þorsteinn þekkti vel Gunnar og Rúnar Júlíusson en þeir Rúnar voru báðir úr gamla bænum. „Þegar ég spilaði með Beatniks lékum við á „restrasjónum“ á sunnudagseftirmiðdögum sem voru nokkurs konar miðdegisböll þar sem boðið var upp á kaffi og gos. Aldurs- takmark var 16 ár en þar voru oft yngri krakkar að hlusta á tónlist. Þeir komu oft þangað Gunnar og Rúnar og Gunnar fór oft að tala við mig þótt hann væri hægur og svolítið feiminn, en hann var samt töffari. Rúnar tal- aði minna, hann var svo feiminn á þessum tíma.“ Þorsteinn segir að þótt kanaútvarpið hafi haft mikil áhrif þá hafi ávallt verið mikil tónlist á Suðurnesjum. „Það var öflugt félagslíf í bænum og þar voru sýndar revíur og sketsar og sungið á milli í Verkó og Ungó. Þarna voru Baldur Júlíusson pabbi Þóris og strákur sem ólst upp við Norðfjörð- sgötuna og varð seinna þekkt tón- skáld, Emil Thoroddsen sonur Þórðar Thoroddsen læknis. Það var ekkert sjónvarp og allar kvikmyndir ótexta- ðar og fólk var lítið að læra tungumál nema krakkar. Þess vegna komu til revíurnar þar sem verið var að atast út í stjórnmálamenn og þekkt fólk en marga textana átti Kristinn Pétursson eða Kristinn Reyr frá Grindavík.” En hvernig urðu textarnir til? „Svavar Gestsson, sem var einráður í plötuútgáfu, var strangur og vildi hafa útgefna texta á íslensku. Hann var meira að segja strangur á textana, þeir áttu að hafa stuðla, höfuðstafi og endarím í takt við íslenska bragfræði. Maður þurfti að hafa það á hreinu og þótt ég hafi ekki gert það í Leyndar- máli, fyrsta textanum fyrir Dáta, þá var ég farinn að nota þetta í Gvendi á eyrinni og áfram þar til ég gerði text- ann við Slappaðu af en hann þurfti ég að gera hratt. Ég bað þá Jónas R. Jóns- son í Flowers að skaffa mér viskíflösku til að geta gert þetta á stuttum tíma. Þegar ég var kominn niður í flöskuna var ég búinn að sleppa bragfræðinni - og fór ég að þróa minn eigin stíl upp frá því.“ Textarnir urðu yfir 400 talsins sem gefnir voru út og samdi Þorsteinn fyrir fjölda tónlistarmanna og hljómsveitir. Má þar nefna Trúbrot, Brimkló, Lúdó og Stefán, Hauka og fleiri. Flestir kannast við lagið Þrjú tonn af sandi sem Haukar fluttu svo eftir- minnilega en textinn er það sem Þor- steinn kallar hljóðlíkingu. Enda erfitt að skilja hvert þessi þrjú tonn af sandi eiga að fara, og hver þessi Andrés sé sem vill heilan skóg af mótatimbri? „Stundum gerði ég texta sem kall- aðir eru hljóðlíkingar eins og í Þrjú tonn af sandi. Mér fannst það skrítið þegar ég var strákur í sveit þegar menn voru farnir að súpa og syngja á hesta- mannamótum, grafalvarlegir og fóru vitlaust með textann, þeir höfðu þá lært hann svona og sungu gömlu ætt- jarðarlögin vitlaust, enda höfðu þeir aldrei lært þau rétt. Til dæmis Hamra- borgin mín há og þögul, í staðin fyrir Hamraborgin rís há og fögur. Mér fannst skemmtilegt að búa til vitleysu og leyfa fólki að syngja vitlaust og taka sig ekki of alvarlega,“ segir Þor- steinn en þess má geta að Þorsteinn reyndi upphaflega að gera vandaðan texta við lag Presley Return to sender sem hét „Sendist til baka“. Hann var ekki hrifinn af textanum en sendi þá á Hauka. Hann féll ekki í kramið og þá sagði Þorsteinn: „Ég á annan sem mér finnst skemmtilegri“, hann sendi hann á þá og þeir gleyptu að sögn Þorsteins við honum. Er ég kem heim í Búðardal samið á leið í bíó Oft var djúpt á textunum og segir Þorsteinn að hann hafi þurft að hafa pressu til þess að klára þá. Gott dæmi um það er textinn við lag Gunnars Þórðarsonar Er ég kem heim í Búðar- dal. „Ég var að fara í bíó þegar Gunnar hringir í mig. Hann var þá hjá Rúnari á Skólaveginum og spurði hvort ég væri ekki búinn að gera textann. Ég var ekki byrjaður á honum og Gunnar segir: „Þú verður að gera þetta núna, við erum búnir að bíða í margar vikur og við erum að fara að taka lagið upp. Ég þekkti lagið og var oft búinn að hlusta á það á segulbandi og raula það, það var bara spurning um að fá hugmynd. Ég hafði verið í sveit fyrir vestan þar sem sér yfir til Búðardals og ég bjó mér til svolítinn dagdraum, fullt af stelpum að bíða eftir mér. Ég handskrifaði textann áður en ég fór í bíó og kom við á Skólaveginum á leiðinni og rétti Mæju. Svo kemur í ljós þegar platan kemur í dreifingu að það gleymdist að setja þverstrik í t-ið í heitinni og Ingibert söng þá heillinni og þannig hefur það verð síðan.“ Þorsteinn á textann við eitt af þeim lögum sem þekktust eru í flutningi Rúnars Júlíussonar í seinni tíð, en upphaflega lagið er kántríslagari. Textinn er í raun lýsandi fyrir skrif Þorsteins sem segist sjálfur alltaf líta á björtu hliðarnar: „Ef leiðist þér að hlust’ á nöldur um fátækt og púl, má alltaf graf ’ upp lukkusöngva sungna af Rúnari Júl. Og ef þú vilt fá skammt af ánægju, gleði og hamingjuvon, þá ættirðu að hlust’ á texta eftir hann Þorstein Eggertsson.“ Þorsteinn segist ekki sjá eftir neinum textum. „Nei sem betur fer ekki, þá eru þeir svo lélegir að þeir bara gleymast. Eitt árið þurfti ég að semja 70 texta og þá þarf maður alltaf að vera að koma með nýjar og nýjar hug- myndir, ef maður er að endurtaka sig lætur maður lítið á því bera.“ Tónleikarnir um Þorstein verða haldnir í Hljómahöll 2. mars klukkan 20:00. Beatniks í Kanasjónvarpinu 1962. Söngkonan er Guðrún Frederiksen, systir pianóleikarans. Myndin er tekin einu og hálfu ári áður en til var hljómsveit sem hét The Beatles. HÖFUÐBORGARSVÆÐIÐ: NORÐLINGAHOLTI · GULLINBRÚ · ÁLFHEIMUM · SÆBRAUT · MJÓDD GARÐABÆ · MOSFELLSBÆ LANDSBYGGÐIN: BORGARNESI · AKRANESI · AKUREYRI · REYÐARFIRÐI · KEFLAVÍK · SELFOSSI · HELLU quiznos.is ÞRENNA Bæu við gosi og snakki eða súkkulaði fyrir aðeins 699kr. 400kr. AÐEINS Bátur vikunnar Þú velur bát, veu eða salat Gómsætur í næsta nágrenni

x

Víkurfréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Víkurfréttir
https://timarit.is/publication/1102

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.