Feykir


Feykir - 12.02.2015, Blaðsíða 8

Feykir - 12.02.2015, Blaðsíða 8
8 6/2015 ( RABB-A-BABB ) oli@feykir.is NAFN: Kristinn Hjálmarsson. ÁRGANGUR: 1973. FJÖLSKYLDUHAGIR: Kvæntur yndislegri dömu að handan. Eigum tvö börn, 21 árs dóttur og 6 ára gutta. BÚSETA: Búum í G-town. HVERRA MANNA ERTU OG HVAR UPP ALINN: Ég sonur Signýjar Bjarnadóttur og Hjálmars Jónssonar. Alinn upp á Króknum, bjó fyrstu árin í Þýskalandi (rauða húsið við Kirkjutorgið) og svo í Víðihlíð 8. STARF / NÁM: Starfa í sjávarútvegi, annars vegar að „selja fisk til annarra landa“ eins og sonur minn skýrir það út fyrir öðrum og hins vegar hjá fyrirtæki, í eigu 39 sjávarútvegsfyrirtækja, sem passar uppá sjálfbærni auðlindarinnar með alþjóðlegri vottun á fiskistofna og veiðiaðferðir. Í frítímanum er ég að læra spænsku, bara hobbí. HVAÐ ER Í DEIGLUNNI: Það er vetrarfrí í Flataskóla í næstu viku, við ætlum að pakka skíðadótinu í bílinn og renna á Krókinn og rifja um gamla ryðgaða skíðatakta. Samlokukvöld í mínu eldhúsi slá öllum öðrum samlokum við (enda sagði ég samlokur fjórum sinnum í svarinu). Hættulegasta helgarnammið? -Wasabi hnetur eru stórvarasamar. Nuddaði einu sinni augun með sömu fingrum og mötuðu mig af hnetum. Ég grét eins og krakki. Hvernig er eggið best? -Egg eru bara alltaf góð en dóttir mín sýður oft egg án skurnar og setur á brauð með avókadói. Það kom skemmtilega á óvart. Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? -Væri til í að vera meira úti að leika og minna inni að vinna. Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? -Sumir eyða miklum tíma í aðfinnslur, kvart og kvein en á meðan líður tíminn hjá og möguleikarnir með. Uppáhalds málsháttur eða til- vitnun? -Misstu ekki af andránni - Jorge Luis Borges. Hver er elsta minningin sem þú átt? -Þegar ég var 5 ára þá náðist fyrst sjónvarp í Svartárdal. Við systir mín kveiktum í fyrsta skipti á tækinu, þá var þáttur sem hét Fuglahræðan, hún hræddi okkur líka, eftir örfáar sekúndur slökktum við dauðskelkuð á tækinu og fórum út að leika. Hvaða teiknimyndapersóna höfð- ar mest til þín? -Tinni er mitt uppáhald, ég gat hlegið upphátt að óheppni og blóti Kolbeins kapteins. Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? -Lincoln kemur fyrstur upp í hugann. Ímynd hans stendur enn fyrir jöfnuði milli fólks, ríkri réttlætiskennd og styrk til að fylgja eftir erfiðum ákvörðunum. Hver er uppáhalds bókin þín og/ eða rithöfundur? -Núna er ég að lesa Táningabók eftir Sigurð Pálsson og oftast er uppáhaldsbókin mín sú sem ég er að lesa. En Innsveitarkrónika er alltaf jafn yndislega fyndin og skemmtileg, kíki reglulega í hana og svo er Hundrað ára einsemd ótrúlega eftirminnileg, þótt hún sé ekki um neitt. Orð eða frasi sem þú notar of mikið? -Olræt. Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? -Má ég lita útfyrir línurnar? Mér finnst nefnilega Íslendingar sem heild vera mikilvægir, því strit og fórnir íslenskra sjómanna, bænda, verkamanna og atvinnurekenda eru forsendur þess að við sem búum Ísland í dag höfum það gott. Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? -Ég færi mjög víða um Ísland og á ólíkum tímum. Vildi gjarnan geta ferðast um Ísland á þjóðveldistímanum og aftur uppúr aldamótunum 1900. Hver væri titillinn á ævisögu þinni? -Hugarflug sveimhugans. Framlenging: Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... Til Maui punktur. Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Geri ráð fyrir að sé hlýtt á eyjunni. Útvarp, hníf og risastóran kveikjara. Hvernig nemandi varstu? -Ég var alla vega lengi nemandi. Kannski lengi að læra. Í grunnskóla var ég bara samviskusamur nemandi, í Fjölbraut var ég samviskusamur í félagslífi á vegum skólans og eftir það var skóli eins og vinna – mæta og reyna að standa sig. Hvað er eftirminnilegast frá ferm- ingardeginum? -Bjarni afi minn í Bjarnarhöfn gaf mér kíki og honum fylgdi samræða um vitundina fyrir umhverfi sínu og geta lesið í aðstæður. Það er hlýjan og hugurinn sem fólst í þessu stutta samtali sem ég man svo vel. Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? -Mig minnir að ég hafi aldrei spáð sérstaklega í það, nema verða rithöfundur, þegar ég var lítill langaði mig að skrifa bók, skáldsögu. Hvað hræðistu mest? -Ég er pínu lofthræddur, nema í flugvél. Þá er bara að halda kúlinu, ekkert til að grípa í ef maður missir fótanna. Besti ilmurinn? -Klárlega þegar maður er svangur á rölti um miðbæinn og matarilmur frá veitingastöðum situr um mann í hverju skrefi. Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? -Það var eitthvað gott rokk, man ekki nafnið á hljómsveitinni en hún var með tónleika í reiðhöllinni í Reykjavík sumarið sem ég fékk bílpróf (gæti gúgglað það, en maður gúgglar ekki eigin minningar). Svo var það sænskt dúó, Siggi Levý var með það í botni allt þetta sumar á sjónum. Feginn að geta ekki raulað eitt stef úr þeirra lögum en man samt sérstaklega eftir Alana Miles og Black Velvet. Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? -Tinu Turner, What‘s love got to do with it. Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? -Í alvöru, þá horfi ég nánast ekkert á sjónvarp. Ekki einu sinni fréttir, allar fréttir eru löngu komnar fram yfir daginn, áður en þeim er sjónvarpað á kvöldin. Horfi frekar á Svamp Sveinsson eða Finnboga og Felix með syni mínum. Besta bíómyndin? -Hmm... Um daginn sá ég Gone Girl og fannst hún fín en svona einu sinni á ári horfi ég á Groundhog Day. Sú mynd er svo frábærlega tilvistarleg eitthvað, að njóta stundarinnar og fá til baka það sem þú leggur á þig fyrir lífið. Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? -Gunnari Nelson, af því ég skil ekki hvernig hægt er að ganga inn í búrið sjálfviljugur og vita hvað er að fara að gerast. Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? -Ég hef algera yfirburði í að strauja. Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? -Samlokur, án efa. Kiddi Hjálmars Kiddi Hjálmars ásamt Stefáni Bjarna, 6 ára syni sínum. sek. Þá gat Múlafoss loksins haldið áfram siglingu og var sú ákvörðun tekin að sigla til Ísafjarðar. Skipið lagðist loks að bryggju í fallegu veðri kl. 17:30, eftir 67 klukkustunda siglingu. Himininn var nánast heiður, logn og frost. Allir voru lifandis fegnir að komast frá borði en sumir stigu ölduna enn eftir að þeir komu á þurrt land. „Ég verð ekki sjóveik en ég fæ alveg svakalega sjóriðu. Ég man að ég stóð varla,“ segir Ásta Birna og brosir. Þrúgandi andrúmsloftið á Ísafirði er Ástu Birnu minnisstætt og var vel greinanlegt að þar var samfélag í sorg. „Ég man við vorum náttúrulega glöð að vera loksins komin á fast land en maður þorði ekki að sýna það, manni fannst það vera virðingarleysi, þegar það voru allir þar í sorg.“ Til stóð að senda hópinn í verðmætabjörgun á Súðavík en það var metið svo að þau væru búin að þola nóg og sú ákvörðun tekin að senda þau heim með flugi á föstudeginum. „Ég man þegar við komum heim, þá fór ég beint í búðina þar sem það var ekkert til heima hjá mér. Þá var ég húðskömmuð fyrir hvað í andskotanum við hefðum verið að asnast þetta. Þá var fólk bara hrætt um okkur en manni fannst það frekar kaldar kveðjur þegar maður var að koma heim,“ segir Ásta Birna en miklar umræður sköpuðust í kjölfarið um rétt- mæti þess að senda ungmenni með í ferðina. Hreiðar segist muna vel eftir því en hann var á meðal þeirra yngstu sem fóru. „Ég man að við héldum fund viku síðar, allir sem fóru, aðstandendur þeirra og sumt fólk úti í bæ sem hafði gagnrýnt þessa ákvörðun. Þá færði Pétur góð rök fyrir henni, hann sagði að allir hefðu getað gert gagn með einum eða öðrum hætti, það hefðu ekki allir þurft að vera í því að grafa eftir fólki. Það hefði verið alveg jafn gagnlegt t.d. að vaska upp eða flytja dót á staðinn.“ Eftir þetta var farið yfir ýmsa verkferla og þeir skoðaðir ofan í kjölinn en þá var t.d. sett aldurstakmark á útköll en nú þarf viðkomandi að vera orðinn 18 ára til að mega fara í útköll og að hafa verið ár í sveitinni til þess að komast á útkallslista. Ásta Birna og Hreiðar eru sammála því að hópurinn hafi orðið nánari eftir sjóferðina og að slík reynsla færi fólk nær hvert öðru. „Ég held að það hafi margir komið inn í sveitina eftir þetta en einhverjir hættu líka. Oft gerist það eftir svona erfið útköll að fólk skoðar hug sinn og finnur að þetta sé ekki fyrir það en þá koma kannski aðrir sterkir inn,“ segir Ásta Birna að endingu. Vert er að taka fram að Skagfirðingasveit fagnar 50 ára afmæli í ár og stendur til að fagna þeim tímamótum í marsmánuði. Til vinstri: Ásta Birna og Haukur Steingríms vaska upp og þrífa upp súpuna sem sull- aðist í veltingnum. Til hægri: Gýgjarhólsbræður að flytja matargóss í skipið. MYNDIR: JOÞ Björgunarsveitarmönnum var flogið heim í tveimur vélum. MYND: JOÞ

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.