Litli Bergþór - 01.08.2015, Page 3

Litli Bergþór - 01.08.2015, Page 3
Litli-Bergþór 3 Ritstjórnargrein Samkvæmt fundargerðum sveitarstjórnar hafa reikningar sveitarfélagsins verið samþykktir og niðurstaðan er góð, framkvæmdafé uppá 90 milljónir og skuldahlutfall rétt um 70%. Það er full ástæða til að þakka fyrir þennan góða rekstur og vona að svo haldist áfram. Þegar litið er til þess að tekjur til framkvæmda gætu verið svipaðar á næstu árum, væri gaman ef hægt yrði gera tímasetta framkvæmdaáætlun þar sem íbúar gætu séð forgangsröðunina hjá sveitarstjórninni. Hér eru nokkur atriði sem sveitarstjórn þarf að skoða og koma á áætlun. Leikskólinn í Reykholti er kominn á tíma og þarf að byggja nýjan. Sundlaugin í Reykholti er orðin lúin og þarf að laga eða byggja nýja. Aðstaða á skrifstofu sveitarfélagsins er léleg og aðgengi óhæft fyrir fatlaða. Þá má minna á nauðsyn byggingar hjúkrunarheimilis. Gaman væri ef hægt væri að leggja slitlag á sem flestar götur bæði í þéttbýli og, ekki síður, á heimreiðar sveitabæja. Allt þetta kostar auðvitað stórfé, en þegar litið er til þess, að í sveitarfélaginu eru mest sóttu ferðamannastaðir landsins og þar af leiðir að það skapast miklar tekjur af ferðamennskunni, sárnar manni hve lítið virðist sitja eftir í sveitinni til hagsbóta fyrir íbúana. Ef gerður er samanburður við sveitarfélög sem njóta fasteignagjalda af virkjunum, þar sem innkoma er stöðug og mikil í formi fasteignagjalda og því sem ferðaþjónustan skilar hér, hlýtur að vakna sú krafa að fá meira fé í kassann frá ferðaþjónustunni til uppbyggingar á samgöngum og betri nettengingum. Þarna verður ríkisvaldið að koma að, með skattlagningu eða öðrum aðgerðum og hlutverk heimamanna er að þrýsta á að svo verði. Ef ekkert verður að gert verður hlutverk heimamanna að horfa á túrhesta spranga um holt og móa, gónandi á hveri og fossa og skiljandi í mesta lagi eftir sig eitthvað smáræði í rotþrónum sem við eigum svo að sjá um að tæma (og koma úrganginum fyrir) með ærnum kostnaði. Tökum höndum saman og krefjumst réttláts skerfs af arði ferðaþjónustunnar til framkvæmda í heimabyggð. PS Ekki benda á mig! Ég geri mín stykki heima.

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.