Morgunblaðið - 22.08.2019, Page 10
SVIÐSLJÓS
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Erla Bolladóttir hefur ákveðið að
stefna íslenska ríkinu á næstu dögum
vegna höfnunar endurupptöku-
nefndar á beiðni hennar um endur-
upptöku dóms hennar í Guðmundar-
og Geirfinnsmálinu. Hún segir tækni-
lega ágalla vera á dómi Hæstaréttar
frá árinu 1980, þeir einir og sér ættu
að duga til að mál hennar yrði tekið
upp að nýju. „Ég krefst þess að nið-
urstaða endurupptökunefndar í mínu
máli verði ógilt,“ segir Erla.
Þeir Sævar Ciesielski, Kristján
Viðar Viðarsson, Tryggvi Rúnar
Leifsson, Guðjón Skarphéðinsson og
Albert Klahn Skaftason voru sýkn-
aðir af Hæstarétti 27. september í
fyrra eftir að endurupptökunefnd
hafði fallist á það í febrúar 2017 að
þeir fengju mál sín tekin upp að nýju.
Þrír þeirra fyrstnefndu voru sakfelld-
ir í Hæstarétti í febrúar 1980 fyrir
manndráp með því að hafa orðið Guð-
mundi Einarssyni að bana í janúar
1974 og Albert var sakfelldur fyrir að
hafa tálmað rannsókn málsins. Guð-
jón, Kristján og Sævar voru að auki
sakfelldir fyrir að hafa orðið Geirfinni
Einarssyni að bana í nóvember 1974.
Sævar og Kristján voru einnig, auk
Erlu, fundnir sekir um meinsæri í
málinu með því að hafa í sameiningu
lagt á ráðin um að bera sakir á fjóra
menn. Nefndin féllst ekki á að taka þá
dóma upp.
Erla segir niðurstöðuna hvað sig
varðar alvarlega gallaða, ekki síst
tæknilega. „Upphaflega var ég ákærð
fyrir meinsæri gagnvart fjórum sak-
lausum aðilum og dæmd fyrir það í
sakadómi sem þá var. Þessum dómi
var áfrýjað til Hæstaréttar þar sem
hann var staðfestur. Þetta meinta
meinsæri nær til þriggja manna en
ekki fjögurra. Ég bar sakir á þá Ein-
ar Bollason, Sigurbjörn Eiríksson og
Magnús Leópoldsson en sá fjórði,
Valdimar Olsen, sem ég var dæmd
fyrir að bera meinsæri gegn, kemur
hvergi fram í málsskjölum utan það
að ég sagði á einum stað að Sævar
[Ciesielski] hefði sagt að hann hefði
verið á tilteknum stað. Þetta er yfir-
sjón á öllum stigum málsins og að
mínu mati og Ragnars Aðalsteins-
sonar, lögfræðings míns, nóg til að
taka málið upp aftur,“ segir Erla.
Ekki ein lína á 1.047 síðum
Hún segir að þegar hún lagði fram
beiðni um endurupptöku málsins hafi
verið beðið um umsögn Davíðs Þórs
Björgvinssonar, setts ríkissaksókn-
ara í málinu. Í henni sé m.a. gerð sú
athugasemd við umsókn Erlu að hún
hafi ekki verið í einangrun þann til-
tekna dag sem hún skrifaði undir
skýrslu þar sem hún ber áðurnefnda
menn sökum og því hafi ekki verið
forsenda til endurupptöku. „Ekkert
tillit er tekið til þess að ég var þá
nýkomin úr átta daga gæsluvarðhaldi
þar sem ég hafði verið þvinguð til að
skrif undir vitnisburð um manndráp.“
Í umsögn sinni hélt Davíð Þór þeim
möguleika opnum að endurupptöku-
nefndin gæti farið fram á nánari rök
starfshóps, sem skipaður hafði verið
af innanríkisráðherra vegna málsins.
Í kjölfarið var boðað dómþing þar
sem Erla fór fram á að þeir þrír rann-
sóknarmenn sem mest unnu að rann-
sókninni á Guðmundar- og Geirfinns-
málinu, yrðu einnig kallaðir fyrir sem
vitni. Hún segir að þar hafi þeir orðið
uppvísir að ósannsögli.
Í tengslum við endurupptöku-
beiðnina gerðu Jón Friðrik Sigurðs-
son, prófessor í sálfræði, og Gísli
Guðjónsson réttarsálfræðingur
greiningu á því hvernig sálarástandi
Erlu gæti hafa verið háttað þegar
hún skrifaði undir áðurnefnda játn-
ingu eftir að hafa verið í einangrun og
sætt pyntingum og harðræði. Hún
segir að í skýrslu endurupptöku-
nefndar, sem telur 1.047 síður, hafi
ekki verið gerð grein fyrir niðurstöð-
um þeirra Jóns og Gísla. „Ekki einu
sinni einni línu var varið í það. Ekki
var heldur minnst á að saksóknari
hafði mælt með endurupptöku máls-
ins míns eftir vitnisburði starfshóps
innanríkisráðuneytisins,“ segir Erla.
Eftir áðurnefnda niðurstöðu
Hæstaréttar óskaði Erla eftir fundi
með Katrínu Jakobsdóttur forsætis-
ráðherra til að ræða framhald máls-
ins við hana. Katrín varð við þeirri
ósk og þær hittust í lok desember í
fyrra. „Mín ósk var að það yrði hægt
að semja við mig utan dómskerfisins
og spara þannig bæði tíma, álag og fé
sem myndi fara í málarekstur. Katrín
sagðist ætla að kanna málið nánar
sjálf með sínu fólki, eins og hún orð-
aði það. Ég var ánægð með það. En
síðan þá hef ég ekkert heyrt frá
forsætisráðuneytinu, þrátt fyrir að
hafa ítrekað haft samband,“ segir
Erla.
Í janúar síðastliðnum lagði Erla
einnig fram kröfu á hendur ríkinu um
skaðabætur vegna einangrunar sem
hún var látin sæta árið 1976. „Ég hef
engin svör fengið við þessari kröfu,“
segir hún.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráð-
herra segir að meðferð málsins hafi
tekið lengri tíma innan ráðuneytis
síns en búist hafði verið við. „Mér
þykir það leitt,“ segir Katrín. „Ég
mun taka þetta mál upp á nýjan leik
innan forsætisráðuneytisins í haust.“
Katrín segir að dómsmál, sem Guð-
jón Skarphéðinsson, einn þeirra sem
sýknaður var í málinu, hefur höfðað
gegn ríkinu til greiðslu bóta muni
vafalaust hafa áhrif á framþróun
málsins í heild og á aðra aðila máls-
ins. „En við munum taka upp þráðinn
varðandi þá sem ekki eiga jafn lög-
varða hagsmuni í málinu.“
Gat ekki staðið vaktina lengur
Daginn sem niðurstaða Hæsta-
réttar lá fyrir í september í fyrra
sagði Erla í viðtali við mbl.is að hún
hygðist kæra niðurstöðu endur-
upptökunefndar.
– Hvers vegna gerðirðu það ekki
fyrr en nú, tæpu ári síðar?
„Ég var alltaf að vonast eftir svör-
um frá Katrínu Jakobsdóttur. Önnur
ástæða er að ég varð fyrir miklu áfalli
í kjölfar höfnunar endurupptöku-
nefndar. Það var í fyrsta skiptið, síð-
an þetta allt byrjaði, að mér fannst ég
ekki geta meira. Skyndilega þekkti
ég ekki sjálfa mig; ég, sem hef alltaf
staðið mína vakt, gat ekki meira. Ég
var á sama stað og ég tel að Sævar
hafi verið á þegar hann ákvað að snúa
baki við lífinu og ég greindist síðar
með alvarlegt tilfelli áfallastreitu-
röskunar,“ segir Erla, sem síðan þá
hefur ekki getað stundað vinnu sína
en nýtur sálfræðimeðferðar sem hún
segir gagnast sér vel.
Spurð, hver væri ásættanleg
niðurstaða í málinu að hennar mati
segir hún að það væri að þau þrjú
sem voru dæmd fyrir meinsæri yrðu
sýknuð af þeim sökum. „Á meðan við
erum enn dæmd sek fyrir meinsæri
þá stendur málið þannig að ríkið ber
ekki ábyrgð á því gagnvart okkur
hvernig þessi rannsókn var fram-
kvæmd. Þangað til þetta hefur verið
leiðrétt er þetta mál ekki búið, hvorki
fyrir okkur, fjölskyldurnar okkar né
íslensku þjóðina. Ég er ekki tilbúin
að gefast upp.“
Ég er ekki tilbúin að gefast upp
Erla Bolladóttir hyggst stefna ríkinu vegna höfnunar endurupptökunefndar Forsætisráðherra
hyggst taka málið upp fljótlega innan ráðuneytis síns Fékk áfall í kjölfar höfnunar á endurupptöku
Morgunblaðið/Eggert
Erla Bolladóttir „Ég krefst þess að niðurstaða endurupptökunefndar í mínu máli verði ógilt,“ segir Erla sem hyggst stefna íslenska ríkinu.
10 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. ÁGÚST 2019
Tjarnarbíó - Listasafn Íslands - Ráðhús Reykjavíkur - Hard Rock Cafe - Borgarbókasafn
4.-8. SEPTEMBER
www.reykjavikjazz.is
facebook.com/Rvk.jazz
miðasala á tix.is
20 ára
Aldur Erlu þegar fyrst var
tekin af henni skýrsla vegna
Guðmundarmálsins.
239 dagar
Svo lengi sat Erla í gæsluvarðhaldi.
3 ár
Lengd fangelsisdóms Erlu
í Hæstarétti 1980.
2018
Hæstiréttur sýknar Sævar,
Kristján, Tryggva, Guðjón og Albert
af manndrápi eftir að endurupptaka
dóma þeirra var heimiluð.
2019
Árið sem Erla kærir íslenska ríkið
vegna höfnunar
Endurupptökunefndar.
MÁL ERLU BOLLADÓTTUR
»