Feykir


Feykir - 04.10.2017, Blaðsíða 8

Feykir - 04.10.2017, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Enn heldur Ingólfur Ómar áfram að yrkja góðar vísur. Seggja heyri söngvaklið són með gáska léttum. Glaðir stútinn glingra við gangnamenn í réttum. Nú síðustu daga hafa farið fram nokkr- ar umræður og fréttaflutningur af þeirri glórulausu tilskipun sendipilta Matvæla- stofnunar um að fé bænda hér í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum yrði drepið sem farið hafði yfir gamla sauðfjárvarnalínu með Blöndu sem nú hefur ekki verið til í hugum flestra vitiborinna mann í mörg ár. Hlýtur að vera sanngjörn krafa sauðfjárbænda að þeim verði sett það verkefni næsta sumar að rölta með Blöndu og afstýra frekari vá. Kannski er gott að rifja upp að á þeim hryllilegu árum sem lungnaveikin, (líka kölluð mæðiveiki), geisaði hér á landi var sett upp geysilega öflug girðing, á þess tíma mælikvarða, og þar til viðbótar hafðir verðir til að fylgjast með henni allt sumarið. Man ekki fyrir víst hvar ég hef lesið um tímasetningar þessara atburða en held að það hafi verið í kringum 1940 sem þetta alvarlega mál var rætt á Alþingi. Einn af þingmönnum þess tíma, Sigurður Hlíðar, hélt því fram að allt væri þetta á misskilningi byggt og sá ágæti dýralæknir sem uppgötvaði þennan sjúkdóm hefði vakið upp draug sem þyrfti að kveða niður og ekki mætti ausa fé í slíkt verkefni. Samþingsmaður Sigurðar, Bjarni Ásgeirs- son, sem síðar varð landbúnaðarráðherra Framsóknarflokksins, orti þá þessar snilldar vísur: Dungal vakti upp vondan draug var það snemma auðséð, þegar téður læknir laug lungnaveiki í sauðféð. Draugurinn var Dungal trúr dag og nótt á kreiki, Síðan drepast ærnar úr ímyndunarveiki. Bjarni var með allra snjöllustu hagyrðingum á sinni tíð og urðu margar vísur hans landsfleygar. Eitthvert sinn er hann var á ferð á Norðurlandi, orti hann þessa hógværu vísu sem þá varð landsfleyg. Letjast hestar, lýjast menn. Lokið er tölti og skeiði. Þó er spölur eftir enn yfir Vaðlaheiði. Öðru sinni er Bjarni var á ferð í Skafta- fellssýslu varð þessi til: Vísnaþáttur 697 Bylgjan margan bar á sandbeint að faðmi svanna.Eru víða um okkar land augu skipbrotsmanna. Um haustkvöld heima á Reykjum mun Bjarni hafa ort þessa vel gerðu hringhendu. Andar köldu um rós og reyr. Reykur í öldum svífur. Alltaf kvöldar meir og meir myrkrið völdin þrífur. Eitt af því sem hæst ber í okkar nútímasamfélagi er túristaflóðbylgjan sem virðist á góðri leið með að eyðileggja okkar fagra Ísland frá fjöru til fjalls. Þegar stjórnvöld loks álpast til að taka skynsamlegar ákvarðanir um gjaldtöku af liði þessu, reka ferðaþjónustuforkólfar upp kryppu og mótmæla. Ólafur Stefánsson heyrði af þvílíkum fréttaflutningi og orti svo: Grímur Sæm hann sífrar, talar, sumpart beygir af. Gróttukvörnin meðan malar mest allt hér í kaf. Grunar að gaman hefði verið að vera með Ólafi í þeirri utanlandsferð sem þessi vísa var ort: Lengi er á losta von lífs á hálum póstum. Sást hér ein með sílikon sveifla þungum brjóstum. Engin von er fyrir okkur jarðarbörn að neita þeirri staðreynd að haust er nú komið og vetur á næsta leiti. Sá ágæti hagyrðingur, Karl Friðriksson, orðar það svo vel í næstu vísum. Raddir valla rjúfa frið rósir fallið mynda. Sólin hallar höfði við hæstu fjallatinda. Falleg hringhenda þar á ferð og ekki er sú næsta síður vel gerð frá hendi Karls. Hverfur uggur allt er hljótt, eins og huggun finni. Hljóðum skuggum hlúir nótt hægt í ruggu sinni. Velgengni okkar þáttar veltur kannski á einu sparði og þess vegna er auðvelt að leita til Ingólfs Ómars með lokavísuna. Sumar líður senn á braut sölnar blómaflétta. Roðna brekkur, lyng og laut lauf af trjánum detta. Veriði þar með sæl að sinni. / Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is 30 ára Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps Tekur þátt í Kórar Íslands Kórar Íslands er nýr skemmtiþáttur sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í vetur en Friðrik Dór Jónsson, einn ástsælasti söngvari landsins, er kynnir þáttanna. Dómnefndina skipa tónlistarfólkið Kristjana Stefánsdóttir, Ari Bragi Kárason, og Bryndís Jakobsdóttir. Einn af kórunum sem keppa er hinn ágæti Karlakór Bólstaðar- hlíðarhrepps og fáum við að sjá þá í þættinum sunnudags- kvöldið 8. október. Höskuldur B. Erlingsson, formaður kórsins, segir að fyrirspurn hafi borist frá að- ilum sem tengjast þáttaröðinni um það hvort kórfélagar gætu ekki hugsað sér að vera með. „Við hugsuðum þetta fram og til baka og töldum nokkur vandkvæði á því þar sem að margir kórfélaga eru bændur og fjárstörf í öllum sínum myndum á fullu á þessum tíma. Svo fengum við ítrekun um þetta og ákváðum að gera liðskönnun og eftir það var ákveðið að henda sér í djúpu laugina,“ segir Höskuldur. Fyrirkomulagið verður þannig að kórfélagar mæta á Suðurnesin nk. sunnudags- morgun, 8. október, og segir Höskuldur að þar fari allur dagurinn meira og minna í þetta verkefni sem endar svo með því að keppnin verður send út í beinni útsendingu um kvöldið. Syngið þið lög sem þið hafið haft á söngdagskrá hjá ykkur? „Já, það er hver kór með eitt lag. Við sendum stjórn keppninnar tillögur um þrjú lög og þau Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps á æfingu í Blönduóskirkju. MYND: HÖSKULDUR B. ERLINGSSON UMFJÖLLUN Páll Friðriksson völdu svo eitt. Hvaða lag varð fyrir valinu kemur í ljós nk. sunnudag,“ segir Höskuldur brosandi og gefur í skyn að ekki verði ljóstrað upp um það. Hann segir kórinn hafa æft grimmt, sérstaklega eftir að í ljós kom að hann væri inni í keppninni en alls taka 32 kór- menn þátt í þessu verkefni. Hvernig metur þú möguleika kórsins í keppninni? „Eftir að hafa horft á tvo fyrstu þættina þá held ég að við höfum eins góða möguleika og allir hinir. Það eru einungis tveir kórar af „landsbyggðinni“ í þessari keppni, þ.e.a.s. ef að við teljum ekki Akranes og Selfoss með í því. Þeir eru Karlakór Ból- staðarhlíðarhrepps og Karla- kór Vestmannaeyja. Vest- mannaeyingar voru í fyrsta þættinum og komust áfram. Við vonum það besta og skor- um á Norðlendinga alla að „splæsa“ á okkur atkvæði ef að þeim líkar við atriðið okkar og koma okkur áfram í næstu umferð,“ segir kórstjórinn og Feykir tekur heilshugar undir og mælir með allsherjar „atkvæðasplæsi“ nk. sunnu- dagskvöld. 8 37/2017

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.