Morgunblaðið - 15.02.2020, Page 12
12 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 15. FEBRÚAR 2020
Eftir Berglind Svavarsdóttur,
formann Lögmannafélags Íslands.
M
eð sambandslagasáttmálanum 1918
fengu Íslendingar á ný rétt til þess
að fara með æðsta dómsvald í ís-
lenskum málum og hinn 16. febrúar
1920 kom Hæstiréttur Íslands saman í fyrsta
sinn. Á þeim eitt hundrað árum sem liðin eru
hefur Hæstiréttur Íslands verið kjölfesta rétt-
arskipunar og þróunar.
Dómstólar eru hornsteinar lýðræð-
isskipulagsins og meginstoð réttarríkisins. Til-
vist og stöðugleiki réttarríkisins byggist meðal
annars á því að til staðar séu óvilhallir og sjálf-
stæðir dómstólar. Það er grundvallaratriði í
réttarríkinu að allir eigi að geta náð fram rétti
sínum og að allir skuli vera jafnir fyrir lög-
unum.
Á undanförnum árum hafa Íslendingar kom-
ið fram umbótum á réttarkerfi sínu og dóms-
kerfi. Með tilkomu millidómsstigsins sem sett
var á fót árið 2018 varð veruleg breyting á rétt-
arskipan Íslands, en það var vel við hæfi að
Landsréttur hefði tekið til starfa á 100 ára af-
mæli fullveldis Íslands. Stofnun Landsréttar
felur í sér mikla réttarbót, þá veigamestu í ís-
lensku réttarkerfi í áratugi, en nú er tryggð
milliliðalaus sönnunarfærsla á tveimur dóm-
stigum og um leið skapaður jarðvegur fyrir að
Hæstiréttur geti gegnt betur en áður því hlut-
verki að vera fordæmisdómstóll. Má segja að
hlutverk Hæstaréttar, sem fordæmisdómstóls,
hafi þannig aukist verulega og munu næstu
hundrað ár í sögu réttarins sjálfsagt mótast af
því.
Það er hlutverk lögmanna að leggja ágrein-
ingsmál milli borgaranna fyrir dómstóla ef ekki
tekst að leysa úr þeim ágreiningi utan réttar.
Við rekstur dómsmála er nauðsynlegt að leggja
góðan grunn að málshöfðun í upphafi og fylgja
henni eftir. Lögmenn eiga því ákveðið frum-
kvæði að því að móta hvernig mál eru lögð fyrir
dómstóla og geta þannig haft áhrif á þróun
réttarins. Réttaröryggi í landinu er að verulegu
leyti háð því að lögmenn gegni störfum sínum
af þekkingu, samviskusemi og alúð frammi fyr-
ir sjálfstæðum og óvilhöllum dómstólum.
Sjaldan veldur einn þá er tveir deila. Á sama
hátt sýnist sitt hverjum um niðurstöður dóm-
stóla í einstökum málum, ekki hvað síst þegar
miklir hagsmunir eru undir. Það var stjórn
Lögmannafélagsins sérstakt ánægjuefni að sjá
niðurstöður nýlegrar könnunar dómstólasýsl-
unnar sem lögð var fyrir lögmenn og ákær-
endur, til að kanna ýmsa þjónustuþætti og
traust á dómstólunum. Þátttakan var góð og
niðurstöðurnar marktækar. Mikill meirihluti
lögmanna ber mikið eða fullkomið traust til
allra dómstiga, og ekki hvað síst til Hæsta-
réttar Íslands. Sér í lagi töldu lögmenn dómara
vinna störf sín af heilindum, að málsmeðferð
væri réttlát og að dómar og úrskurðir væru vel
rökstuddir, en þetta eru sjálfsagt mikilvægustu
þættirnir í góðri málsmeðferð. Gott samstarf
lögmanna og dómstóla og gagnkvæmt traust er
mikilvægt.
Það verður því ekki annað sagt en að íslenskt
dómskerfi, með Hæstarétt í broddi fylkingar,
standi á styrkum stoðum á þessum merku
tímamótum, þegar kemur að trausti lögmanna
til dómstóla og að málsmeðferð sé réttlát. Er sú
niðurstaða ánægjuleg, ekki hvað síst í ljósi
þeirra mörgu erfiðu og fordæmisgefandi mála
sem hafa komið til kasta Hæstaréttar síðasta
áratuginn þar sem dómar hafa í sumum til-
vikum haft áhrif á hagsmuni fjölda einstaklinga
og lögaðila, ásamt því að hvöss gagnrýni hefur
beinst að Hæstarétti í tengslum við úrlausn
ýmissa mála og mál verið til meðferðar hjá
Mannréttindadómstól Evrópu vegna þessa.
Þetta traust er ekki áunnið á einni nóttu,
heldur er afrakstur áratuga starfs, metnaðar
og elju. Það eru hagsmunir almennings og rétt-
arkerfisins, þ.á m. lögmannastéttarinnar, að
þetta traust ríki áfram. Er engin ástæða til
annars en að horfa bjartsýn fram á veginn.
Við þessi tímamót í sögu Hæstaréttar færir
Lögmannafélag Íslands réttinum góðar kveðj-
ur og árnaðaróskir.
Kveðja frá Lögmannafélagi Íslands
Stofnun Hæstaréttar hinn 16. febrúar 1920 markaði tímamót í réttarsögu þjóðarinnar. Í tilefni af hundrað
ára afmæli réttarins hefur Morgunblaðið fengið nokkra valinkunna lögfræðinga af hinum ýmsu sviðum til
þess að rita kveðjur og afmælishugvekju til Hæstaréttar og eru þær birtar hér.
Berglind Svavarsdóttir,
formaður Lögmannafélags Íslands.
Eftir Kjartan Bjarna Björgvinsson,
formann Dómarafélags Íslands.
Þ
að er nokkuð erfitt að verjast þeirri
hugsun við skrif greinar í tilefni af 100
ára afmæli Hæstaréttar að sjálfsagt
muni einhverjum vaxa það í augum að
verið sé að hampa æðsta dómstóli þjóðarinnar
á þessum tímamótum. Slíkt ætti í sjálfu sér
ekki að koma á óvart. Starfsemi Hæstaréttar
sem og dómstólanna allra er nú einu sinni þess
eðlis að þar tekst fólk á og þá oftar en ekki í
stærstu og erfiðustu deilumálum sínum á lífs-
leiðinni. Ekki er heldur víst að margir tengi við
þau heilræði Björns á Löngumýri að málaferli
sem menn legðu sig fram við og hefðu sigur í
væru ódýrari skemmtun en að flækjast til Mal-
lorka. Að sama skapi er heldur ólíklegt að sá
sem tapar dómsmáli telji það til skemmti-
legrar lífsreynslu.
Þetta keppnisfyrirkomulag réttarfarins þar
sem annar aðilinn fer yfirleitt sigraður af
hólmi hefur getið af sér orðatiltæki eins og að
betri sé mögur sátt en rangur dómur. Við
þetta bætist að dómarar eru í eðli sínu mann-
legir og því fylgja alltaf mistök. Krafa rétt-
arríkisins um að málsmeðferð fyrir dómstólum
sé opinber gerir að verkum að dómarar verða
að una því í störfum sínum að mistök þeirra
eru oftast opinber og því eðlilega í kastljósi
gagnrýnnar samfélagsumræðu. Í þeirri um-
ræðu geta dómarar, rétt eins og aðrir sem
vinna störf sín fyrir opnum tjöldum, sjálfir
staðið berskjaldaðir gagnvart mistökum ann-
arra.
Vegna þessara aðstæðna er óvenjuauðvelt
fyrir dómstóla að tapa trausti en erfitt að
byggja það upp. Af þeim sökum er það sér-
stakt fagnaðarefni að 100 árum eftir stofnun
Hæstaréttar skuli æðsti dómstóll þjóðarinnar
samkvæmt nýlegri könnun Dómstólasýsl-
unnar njóta mikils eða fullkomins trausts 84%
lögmanna og ákærenda, þeirra sem best
þekkja til starfa dómstólsins. Í samhengi við
þær tölur verður ekki hjá því komist að geta
þess að dómarar og annað starfsfólk Hæsta-
réttar hafa undanfarin áratug unnið einstakt
þrekvirki í íslenskri réttarsögu með úrlausn
gríðarlegs fjölda flókinna í ágreiningsmála í
framhaldinu af bankahruninu 2008. Ólíklegt er
að nokkur sem síðar fjallar um þessi mál muni
geta náð til fulls utan um hversu umfangsmikil
og erfið þessi mál voru í reynd, sem tengdust
meðal annars setningu neyðarlaganna, upp-
gjöri gengistryggðra lána og meðferð efna-
hagsbrota á heimsmælikvarða, svo fáein dæmi
séu tekin. Í nær hundrað ára sögu Hæsta-
réttar sem áfrýjunardómstóls er vandfundið
tímabil þar sem rétturinn hefur staðið betur
undir þjóðfélagslegu mikilvægi sínu.
Með tilkomu Landsréttar árið 2018 hefur
hlutverk Hæstaréttar tekið miklum breyt-
ingum. Segja má að Hæstiréttur standi í kjöl-
farið í fyrsta sinn undir nafni sínu þar sem
honum er nú að meginstefnu ætlað að fjalla um
grundvallarspurningar í íslenskri lögfræði,
þar með talið mannréttindi og stjórnskip-
unarleg álitaefni, með djúprættari og ítarlegri
hætti en réttinum hefur áður gefist tími til
vegna mikils málafjölda.
Ljóst er að fjölmargar áskoranir bíða
Hæstaréttar á næstu árum og áratugum.
Flestar af þeim verða ekki fyrirsjáanlegar. Þó
blasir við að það hefur sjaldan verið mikilvæg-
ara að Hæstiréttur sem og aðrir dómstólar
leggi sitt af mörkum til að skýra hlutverk sitt í
stjórnskipuninni. Dæmin sanna að virðing fyr-
ir sjálfstæði dómsvaldsins og það að dómstólar
standi jafnframt undir þeirri virðingu í störf-
um sínum er forsenda þess að mannréttindi
njóti verndar og að fólk búi í réttarríki. Helsta
ógnin sem stafar af hundrað ára farsælli sögu
Hæstaréttar er sú að við gleymum því að staða
réttarins og þar með okkar í dag er hvergi
nærri sjálfgefin og að forfeður okkar og mæð-
ur höfðu mikið og lengi fyrir henni. Besta af-
mælisgjöfin sem við gefum hvert öðru í tilefni
aldarafmælis Hæstaréttar er að leggja þessi
atriði vel á minnið og slá ekki af þeim kröfum
sem í þeim felast í framtíðinni, hversu sjálf-
sagðar sem þær annars virðast okkur í dag.
Hverju er fagnað á afmæli Hæstaréttar?
Morgunblaðið/Eggert
Kjartan Bjarni Björgvinsson,
formaður Dómarafélags Íslands.