Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.02.2020, Síða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 23.02.2020, Síða 10
Á fallegu heimili Hafdísar Priscillu í Grafarvogi má finna útsaumaðar myndir í römmum á víð og dreif. Hún afsakar sig og útskýrir að hún hafi verið með sýningu um helgina og eigi eftir að ganga frá myndunum. Það var nú lítið að afsaka og skemmtilegt að skoða þessar athyglisverðu myndir, sem saumaðar eru til þess að tjá erfiðar tilfinningar. Hafdís opnaði ekki aðeins skemmtilega sýningu fyrir fjöl- skyldu og vini, heldur kom hún þeim rækilega á óvart og giftist ástinni sinni, Jóni Baldri Baldurssyni, reyndar í annað sinn. Veislan var haldin til þess að fagna lífinu, en eitt ár er nú liðið frá því að Hafdís greindist með brjóstakrabba. Meðferð gekk vel og Hafdís er nú laus við krabbann. Það var því tilefni til að fagna. Árlega greinast yfir 200 íslenskar konur með brjóstakrabba og þar af tíu undir fertugu. Hafdís var ein þeirra sem greindust á árinu 2019. Nú ári síðar er hún reynslunni ríkari, eignaðist yndislegan vinkvennahóp og fann farveg í útsaumi fyrir tilfinn- ingar sínar. Óvissan var erfið Það var í lok janúar á síðasta ári að Hafdís fann stóran hnút í öðru brjóstinu. „Ég fékk strax slæma tilfinningu. Það var svo tólfta febrúar að ég fékk staðfest að það væri brjóstakrabbi. Ég hafði farið í skoðun og fékk svo símhringingu þar sem ég var boðuð í viðtal og ég vissi að það væri yfirleitt ekki gert nema eitthvað væri að. Þannig að ég vissi þetta í raun fyrr, en var í afneitun. Ég þurfti að bíða frá fimmtudegi til þriðjudags en á mánudeginum gat ég ekki beðið lengur. Ég fékk að sjá skýrsluna mína sem starfs- maður á Hjartarannsókn og sá strax orðið krabbamein. Ég var svo ánægð af því að óvissan hafði verið svo erfið. Þá vissi ég í hvaða átt ég væri að fara,“ segir Hafdís. „Þetta reyndist vera hraðvaxandi hormónajákvætt krabba- mein. Ég er bara óheppin að fá þetta því það er ekki saga um krabbamein í ættinni og ég er ekki með Brca-genið. Þetta var yfir þriggja sentímetra stórt æxli sem var búið að dreifa sér í geirvörtuna, en það var staðbundið og ekki farið í eitla. Sem voru góðar fréttir,“ segir hún og bætir við að mikið ferli hafa farið í gang og teymi lækna sett saman. „Ég byrjaði á að hitta krabbameinsskurðlækni. Ég var spurð hvort ég vildi fara í brjóstnám, eða fleygskurð og geisla. Ég átti sjálf að svara því. Ég fékk ekki nógu miklar upplýsingar varðandi brjóstnám, og hvernig sé hægt að byggja upp brjóstið, til þess að ég gæti tekið upplýsta ákvörðun. Ég sagði nei af því að mér var sagt að ég þyrfti að fá púða, sem ég vildi ekki. En eftir á hef ég heyrt af konum sem hafa farið í svuntuaðgerð og brjóstið byggt upp með kviðfitu, eða bakvöðvum. Ég fékk ekki þessar upplýs- ingar og er pínu bitur yfir því. En þetta gerðist allt mjög hratt. Ég valdi því fleygskurð og geisla. Hálft brjóstið og geirvartan var tek- ið og hitt brjóstið minnkað í samræmi. Ég gæti seinna farið í að láta byggja upp nýja geirvörtu en ég veit ekki hvort ég geri það. Mér finnst örið mitt fallegt,“ segir Hafdís og segist svo hafa farið í lyfjameðferð. „Núna er ég á sprautum til að bæla niður eggjastokkana og mun taka þau lyf í þrjú ár og svo tek ég andhormóna næstu tíu ár. Það er verið að koma mér á breytingaskeiðið. Þetta var mjög erfitt fyrsta hálfa árið; þrjátíu hitaköst á dag; ég átti erfitt með að sofa og upplifði skapsveiflur. Svo hafði þetta áhrif á lið- ina, ég var með bólgur og á tímabili gat ég varla beygt hnén. Þetta er allt að koma til.“ Að segja börnunum Lyfjagjöfin tók á með tilheyrandi kvölum og hármissi, en Haf- dís var átján vikur í lyfjameðferðinni. Var þetta helvíti? „Já og nei. Ég ætla ekki að segja alveg helvíti en fyrsta lyfja- gjöfin fór mjög illa í mig. Ég var mjög veik og þurfti að fara á bráðamóttökuna um kvöldið. Ég varð mjög hrædd og hugsaði að ég vildi ekki fara í fleiri lyfjagjafir ef þetta yrði svona. Þá langaði mig frekar til að deyja, mér leið það illa. Þessu fylgdi mikil ógleði og vanlíðan. En næstu skipti voru skárri. Það kom mér bara á óvart hvað ég var mikið hörkutól að komast í gegnum þetta.“ Hvernig tóku börnin þessum fréttum? „Það er það erfiðasta sem ég hef gert í lífinu að segja þeim frá þessu. En þau hafa staðið sig mjög vel. Það hefur kannski verið erfiðast fyrir yngsta barnið, Emmu, sem er tíu ára,“ segir Hafdís og nær í útsaumaða mynd þar sem lesa má: „Mamma, deyrðu?“ „Þetta verk tengist henni en þetta var spurning sem ég fékk mjög oft frá henni. Hún var alltaf að vonast eftir að fá eitthvað annað svar en „vonandi ekki“. Ég gat ekki svarað að ég myndi ekki deyja því læknarnir gátu ekki lofað því að allt færi vel. Ég má ekki lofa einhverju sem mögulega stenst ekki.“ Fyrsta meinvarpahræðslan Hafdís ákvað strax að leita til Krafts og Ljóssins til að fá stuðn- ing á þessum erfiðu tímum. „Það byrjaði samt á því að í fyrsta sinn sem ég gekk inn í húsnæði Krafts tók ég u-beygju og hljóp út. Ég var ekki tilbúin þá, en ég fór síðar í viðtal þangað. Síðan hef ég verið viðloðandi þar og líka hjá Ljósinu. Fólk sækir þangað stuðning á mismunandi hátt en í mínu tilviki sótti ég leirnámskeið hjá Ljósinu og hjá Krafti fór ég í hittinga og jafn- ingjastuðning.“ Eignaðist þú einhverjar vinkonur þarna? „Oh, já,“ segir Hafdís og ljómar. „Við erum sex stelpur sem greindumst á svipuðum tíma með brjóstakrabba og við erum allar á svipuðum aldri. Það bjargar öllu að tilheyra þessum hópi; við heyrumst daglega. Við gerðum jafningjastuðning að listformi, eins og einn starfsmaður hjá Ljósinu sagði. Við vorum heppnar að finna hver aðra, það er ekkert sjálfgefið.“ Nú hlýtur að vera góð tilfinning að þetta ár sé að baki. En er ekki alltaf einhver kvíði sem situr eftir? „Meinvarpahræðsla? Jú, sérðu einmitt hér,“ segir Hafdís og nær í útsaumaða mynd með orðinu „meinvarpahræðsla“. „Það lýsir sér svona: „Til hamingju, nú ertu búin með þetta og átt að fara að lifa eðlilegu lífi, en ... ef þú færð hausverk í lengri tíma þarftu að athuga hvort það er heilaæxli. Ef þú færð þurran hósta í einhvern tíma gæti það verið meinvörp í lungum. Ef þú færð beinverki gæti það verið meinvörp í beinum.“ Í sum- ar fékk ég ofsalegan verk í fótinn og fór upp á læknavakt og hélt fyrst að ég hefði tognað eitthvað illa. Þá allt í einu sló það mig, ég var með krabbamein og hvað ef það væri komið í beinin? Ég fékk þarna fyrstu meinvarpahræðsluna. Og ég átt- aði mig á því að þetta væri framtíðin, ég þyrfti að búa mig undir að hugsa svona áfram,“ segir hún og tekur fram að ekkert hafi verið að henni í fætinum. Mamma, deyrðu? Hafdís Priscilla Magnúsdóttir, 36 ára sjúkraliði og þriggja barna móðir, hefur barist við krabbamein í eitt ár og sér nú fram á bjartari tíma. Til þess að finna farveg fyrir tilfinningar sínar fór Hafdís að sauma út myndir sem allar tengjast krabbameininu á einn eða annan hátt. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Emma dóttir Hafdísar hafði að vonum áhyggjur af mömmu sinni og spurði hana oft hvort hún væri að fara að deyja. Morgunblaðið/Ásdís Meinvarpahræðslu þekkja allir sem fengið hafa krabbamein. Hafdís notaði orðið í útsauminn. VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 23.2. 2020

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.