Lögmannablaðið - 2016, Blaðsíða 8
8 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/16
Þann 1. desember sl. stóðu Lögmannafélag Íslands og Dómarafélag Íslands fyrir
hádegisverðarfundi um nýlegan dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli tveggja einstaklinga
gegn Noregi þar sem reyndi á hvort málsmeðferð skattalagabrota í Noregi stæðist ákvæði 4. gr.
7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrir Mannréttindadómstól Evrópu bíða nú til
úrlausnar sambærileg mál er varða fyrirkomulag refsimála vegna skattalagabrota á Íslandi og
hvort það brjóti gegn framangreindu ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu, þ.e. annars vegar
leiðrétting skattaskila fyrir stjórnvaldi, sem lokið getur með úrskurði um 25 % álags á vantalda
skattstofna og hins vegar refsiþáttur málsins, sem ýmist er sektarmeðferð fyrir stjórnvaldi eða
refsimál fyrir dómstólum og varðað geta fangelsisrefsingu auk sekta.
Davíð Þór Björgvinsson, prófessor við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla og fyrrverandi dómari
við Mannréttindadómstól Evrópu, fór yfir niðurstöðu Mannréttindadómstólsins og mögulega
þýðingu hans gagnvart íslenska málinu.
EKKI TVÍVEGIS
FYRIR ÞAÐ SAMA
Hádegisverðarfundur Lögmannafélags Íslands og
Dómarafélags Íslands
Fullt var út úr dyrum á fundinum og komust færri að en
vildu.
Davíð Þór Björgvinsson hélt
erindi um dóminn og Hildur Ýr
Viðarsdóttir hdl. hjá Landslögum
var fundarstjóri.