Lögmannablaðið - 2016, Qupperneq 28
28 LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 04/16
ANDARTAK VIÐ SJÓINN
RAGNAR JÓNASSON – SMÁSAGA
Hann gat ekki lengur séð sjóinn, en hann fann þó
sjávarlyktina.
Sterkari en nokkru sinni fyrr. Sami salti og seiðandi
keimurinn og hann hafði andað að sér þegar hann kom
í fyrsta sinn til Siglufjarðar, í litla afskekkta bæjarfélagið
á Norðurlandi, eftir langt og strangt ferðalag þangað
með stúlkunni sinni.
Áratugir voru liðnir síðan þá. Hann hafði nú búið
einn um nokkurra ára skeið í litla húsinu innarlega í
firðinum, nokkuð langt frá byggðakjarnanum á eyrinni.
Lóð sem fékkst ódýrt á sínum tíma, á stað þar sem
aðrir höfðu ekki áhuga á að búa. Skeytti lítið um aðra
bæjarbúa og þeir létu sjaldan sjá sig hjá honum. Átti þó
nokkra góða kunningja í bænum, leit til þeirra í kaffi
öðru hverju, en æ sjaldnar hin síðari ár eftir að aldurinn
færðist yfir. Þá var best að sitja bara heima.
Aðventan hafði liðið hægt, þykkur snjór lá yfir bænum,
stórhríð suma daga og tilveran tilbreytingarlaus. Kuldinn
smaug inn um allar glufur á gamla timburhúsinu, en
það var ekkert nýtt á þessum norðlægu slóðum.
Og nú voru jólin loksins að ganga í garð. Hann var
búinn að kveikja á jólakertinu á stofuborðinu eins og
venjulega, fyrir hana. Átti sér þá einu ósk að fá að hitta
hana aftur. Kertið hefði átt að loga út jólanóttina.
Hann hafði kveikt á útvarpinu til þess að missa ekki
af messunni. Hangikjötsilmurinn hafði fyllt eldhúsið.
Bara dálítill kjötbiti, máltíð fyrir einn.
Þau kynntust í heimabæ hennar, sjávarþorpi við Eyjafjörð.
Hann var þar í verkamannavinnu, hún var tíu árum yngri
en hann. Ung og fögur, eftirsótt af flestum karlmönnum í
sveitinni, en féll fyrir honum. Samband þeirra fór leynt til að
byrja með og þegar þau trúlofuðu sig sögðu þau engum neitt.
Hamingjan vandlega innsigluð með þögninni. Að lokum
fór þó svo að þau ákváðu að láta slag standa og biðja föður
hennar um að blessa ráðahaginn.
Hann tók beiðninni afar illa. Barði í borðið, pírði lúin
augun og sagði dimmum rómi að hann fyrr myndi hann
dauður liggja. Dóttir hans ætti betra skilið.
Þetta gerðist á fallegu sumarkvöldi, en fegurð þess var þó
ekki jafn tilkomumikil eftir þessi skýru skilaboð.
Skötuhjúin hittust í skjóli nætur, niðurbrotin en ekki
buguð. Sumarnóttin var björt og þau töluðu um framtíðina
sem þau ætluðu að verja saman. Ekkert skyldi koma í veg
fyrir það.
Hugurinn reikaði aftur til bernskujólanna, þá var minna
umstang en nú. Færri gjafir, meiri hátíðleiki. Ekkert
jólatré á heimilinu, það var í mesta lagi að hann fengi
að sjá heimatilbúið jólatré fjölskyldunnar á næsta bæ. Á
aðfangadagskvöld söng fjölskyldan Heims um ból. Nú
var hann löngu hættur að syngja. Undanfarin ár hafði
hann leyft kirkjukórnum í útvarpinu að syngja fyrir sig
í staðinn.