Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 37

Lögmannablaðið - 2019, Blaðsíða 37
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 01/19 37 FARA ÍSLENSKIR DÓMSTÓLAR EFTIR DÓMUM MANNRÉTTINDADÓMSTÓLS EVRÓPU? DANÍEL ISEBARN ÁGÚSTSSON LÖGMAÐUR Þann 2. nóvember 2018 var haldinn hádegisverðarfundur undir yfirskriftinni Hlutverk íslenskra dómstóla við beitingu MSE – samstarf eða tregða? þar sem Róbert Ragnar Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, fjallaði um það hvernig Mannréttindasáttmáli Evrópu og einkum dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafa endurspeglast í íslenskri dómaframkvæmd á þeim árum sem liðin eru frá því að Mannréttindasáttmálinn var lögfestur með lögum nr. 62/1994 og hvernig til hefði tekist. Í upphafi erindisins velti Róbert upp nokkrum spurningum, í fyrsta lagi hvernig lögmenn og íslenskir dómstólar hefðu brugðist við þessari réttarbót í störfum sínum, í öðru lagi hvort Mannréttindasáttmálinn væri orðinn raunverulegur hluti af íslenskri lagahefð, í þriðja lagi hvort íslenskir lögmenn byggðu á Mannréttindasáttmálanum í málatilbúnaði sínum fyrir íslenskum dómstólum og í fjórða lagi hvort íslenskir dómstólar beittu Mannréttindasáttmálanum í samræmi við dóma Mannréttinda dómstólsins eða hvort tregða væri hjá íslenskum dómstólum að fylgja þeim. Umfjöllun Róberts skiptist upp í nokkra hluta; í fyrsta lagi fjallaði hann um réttarheimildalega stöðu Mannréttinda­ sáttmála Evrópu í íslenskum rétti, í öðru lagi fjallaði Róbert um svonefnt leiðsagnargildi dóma Mannréttindadómstólsins eða nánar til tekið hver væru, ef einhver, lagaleg áhrif slíkra dóma hér á landi, í þriðja lagi hvort og með hvaða hætti dómar Mannréttindadómstólsins hefðu sögulega haft áhrif á dóma Hæstaréttar Íslands við túlkun og beitingu Mannréttindasáttmálans og hvort sú saga hefði einkennst af tregðu íslenskra dómstóla eða vilja til að leita „samstarfs“ við dómstólinn við Strassborg. Réttarheimildaleg staða Mannréttindasáttmála Evrópu að íslenskum rétti Ísland gekkst undir Mannréttindasáttmálann að þjóðarétti 29. júní 1953 og samkvæmt tvíeðliskenningu þjóðaréttar hafði hann því ekki bein lagaleg áhrif hér á landi í rúm 40 ár fram að lögfestingu árið 1994. Eftir lögfestinguna hefur Mannréttindasáttmálinn formlega stöðu almennra laga í réttarheimildalegum skilningi en ekki stöðu stjórnskipunarlaga, sú afstaða hefur komið fram hjá Hæstarétti og að mati Róberts haldist óbreytt allar götur síðan. Þrátt fyrir hina formlegu réttarheimildalegu stöðu verður að líta til þeirra nánu réttarheimildalegu tengsla sem Mannréttindasáttmálinn hefur við flest mannréttindaákvæði Stjórnarskrárinnar en þau tengsl hafa veruleg áhrif á þær túlkunaraðferðir sem íslenskir dómstólar beita þegar reynir á vernd mannréttinda. Þá er einnig mikilvægt að Mannréttindasáttmálinn hefur ekki einungis að geyma efnisákvæði um mannréttindi borgaranna heldur eru aðildarríkin einnig skuldbundin að þjóðarrétti til að framfylgja dómum Mannréttindadómstólsins og lagalegt gildi dóma hans hefur því verulega þýðingu fyrir þróun íslensks réttar á sviði mannréttinda. Þá kom fram í athuga­ semdum með stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995, sem breyttu mannréttindakafla Stjórnar skrárinnar árið 1995, að eitt af markmiðum laganna væri að taka mið af þeim þjóðréttarlegu skuldbindingum sem Ísland hefði undir­ gengist með aðild sinni að Mannréttindasáttmála Evrópu. Vilji stjórnarskrárgjafans stóð því til þess að ákvæði Stjórnarskrárinnar sem hefðu skírskotun til ákvæða Mannréttindasáttmálans yrðu túlkuð til samræmis við ákvæði Mannréttindasáttmálans og að íslenska Stjórnarskráin hefði a.m.k. að geyma sömu lágmarksvernd og ákvæði Mannréttindasáttmálans.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.