Börn og menning - 01.09.2004, Blaðsíða 25
Vorvindar
23
Ávarp Kristínar Helgu
Fyrir hönd okkar Kolfríðar, Úrsúlu og
Messíönu vil ég þakka þessa notalegu
viðurkenningu og ég vil líka þakka Halldóri
Baldurssyni myndlistarmanni fyrir að gefa
nornunum mínum magnað líf á bókarkápu.
Undanfarið höfum við heyrt í fréttum að
yngri kynslóðin sé ekki jafn dugleg að lesa
bækur og áður. Það getur svo sem vel verið
en ég veit samt fyrir víst, finn það alla daga
þegar ég hitti mitt fólk út um allan bæinn,
að krakkar eru á kafi í skemmtilegum bókum.
Galdurinn er líka að geta gleymt sér í góðri
sögu. Það er sögugaldur og þess vegna
leynast galdramenn víða á rmeðal okkar.
Strandartornir minna vonandi á að við
þurfum ekki að leita langt til að finna
magnaðar sögur. Þær eru allt í kringum
okkur og hafa alltaf verið þar. Það eina sem
við þurfum að gera er að kenna börnum
okkar leiðina á bókasafnið, kenna þeim að
nálgast bækur og umgangast þær eins og
súrefni, matvæli, skófatnað og annað sem
við þurfum nauðsynlega á að halda til að
lifa.
Með örlitlu grúski á bókasafni má til
dæmis finna teikningar af galdrastöfum
sem fólk prófaði í raun og veru að nota hér
heima á Islandi. Þetta þótti mér einmitt svo
merkilegt í Ijósi galdrafársins sem geysað
hefur í barnabókmenntum um víða veröld.
Við eigum raunverulega galdrastafi sem
venjulegt fólk trúði eitt sinn að hefðu mikinn
mátt. Langalangalangalangömmur okkar og
afar gengu jafnvel með lítinn kaupaloka á
skinnpjötlu undir handarkrika þegar til stóð
að festa kaup á einhverju. Þannig voru meiri
líkur en minni á að þau gerðu góð kaup.
Einn af mínum uppáhaldsgaldrastöfum,
sem ég freistaðist einmitt til að nota í
Strandanornum, er Vindgapi hinn minni. Til að
framkvæma þann galdur þarf maður góðan
girðingarstaur, haus af löngu og magnaða
blekblöndu sem saman stendur meðal
annars af stöppuðum hrafnsmaga, blóði úr
vinstri vísifingri og blóði úr hægri stórutá
- svo eitthvað sé nefnt. Staurnum skal koma
fyrir þar sem sjór mætir sandi í flæðarmáli,
stinga ofan á hann lönguhausnum, rista á
hausinn galdrastafinn Vindgapa hinn minni,
snúa hausnum í þá áttina sem maður vill að
óveður komi úr og þá segir sagan að maður
geti galdrað fram hið versta veður. Þetta er
mjög heppilegt að kunna til dæmis ef maður
vill bara fá að vera inni hjá sér í friði að lesa
og fá frí í skóla eða vinnu.
Mig hefur líka stundum grunað að
Strandamenn noti Vindgapa hinn minni
ennþá - að minnsta kosti ef marka má
lætin sem verða stundum í veðrinu norður
á Ströndum.
I Strandanornum ákvað ég að bjóða
lesendum mínum í ferðalag um fsland í þeirri
von að kynda undir löngun til þess að skoða
landið. í dag er svo auðvelt að skjótast til
Kaupmannahafnar, Flórída og Alicante að
ég velti því stundum fyrir mér hvort börnin
okkar þekki ef til vill þannig staði betur en
Trékyllisvík og Ófeigsfjörð, Langanes og
Laka, Flatey og Herðubreiðalindir.
Inn í skáldsöguna um þessa óhefðbundnu
fjölskyldu reyndi ég líka að lauma þjóðlegum
fróðleik þeirra Strandamanna og upplýsingum
um galdraöldina skelfilegu. Svo vona ég bara
að mér hafi tekist það án þess að nokkur taki
eftir að hann sé að læra nokkurn skapaðan
hlut. Ég vona líka að sagan um Strandanornir
verði til þess að einhvern langi að leggja land
undir fót, beygja til vinstri í staðinn fyrir
hægri við Brú í Hrútafirði og skoða galdurinn
á Ströndum.
Ég hef stundum verið spurð hvenær ég
ætli að skrifa alvöru sögur og þá eiga menn
sennilega við bækur sérstaklega ætlaðar
fullorðnum. Ég veit manna best að ég er að
skrifa fyrir alvöru fólk, stórmerkilegt fólk sem
á daginn í dag og daginn á morgun, fyrir
það fólk reyni ég að skrifa alvöru sögur og
ef stöku fullorðinn laumast í þær og hefur
gaman af þá er það ekki verra. Stund með
bók í einrúmi er dýrmæt, en um leið og fólk
les saman þá margfaldast ánægjan og úr
verður upplifun sem brúar kynslóðabilið og
eflir samskiptin. Þannig vona ég að mér takist
að skrifa fjölskyldubækur.
Það er höfundi mikils virði að fá hvatningu
sem þessa. Það er klapp á bakið í annars
einmanalegu starfi, og ekki síst gott spark
í rassinn nú þegar liðið er á maímánuð og
kominn timi til að bretta upp ermar og
einhenda sér í næsta verkefni.