Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.04.2021, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.04.2021, Blaðsíða 10
STJÓRNMÁL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.4. 2021 Sjálfstæðisflokksins, stundum lýst efasemdum í einstökum málum, svo sem sóttvarnamálum, án þess þó að greiða atkvæði gegn stjórninni í þinginu. Ástandið býsna stöðugt Kórónuveiran er vitaskuld óútreiknanleg en Grétar Þór á eigi að síður ekki von að hún komi til með að gera þannig usla fram að kosningum að það breyti einhverju til eða frá um afstöðu kjósenda til stjórnarinnar. Hann telur heldur ekki að val á einstaka listum komi til með að breyta þeirri heildarmynd sem við erum með fyrir framan okkur. „Ástandið er býsna stöðugt eins og er og hversu mikið þarf til að rugga bátnum?“ Stefanía sér engar sérstakar blikur á lofti fyr- ir stjórnina en bendir á að óvæntir atburðir geti sett strik í reikninginn, t.d. ef að eldgosið á Reykjanesi verði meiri skaðvaldur en við blasir á þessari stundu en þá þurfi stjórnin vitaskuld að bregðast rétt við því. Af flokkunum þremur telur Grétar Þór Framsóknarflokkinn hafa mestan áhuga á að halda vegferðinni sem hófst árið 2017 áfram. Samstarfið sé umdeildara innan Sjálfstæðis- flokksins og VG, þó það hafi mögulega gengið betur en ýmsir bjuggust við. „Það er alls ekki sjálfgefið en haldi stjórnin áfram verður það ekki hljóðlaust. Gleymum því ekki að þetta er mjög óvenjulegt mynstur og ýmislegt á eftir að ganga á innanhúss hjá flokk- unum áður en þeir samþykkja að halda þessu samstarfi áfram, jafnvel þó menn telji sér hafa gengið vel. Það á ekki síst við um VG en Sjálf- stæðisflokkinn líka. Þessir flokkar nálgast þjóð- málin hvor úr sinni áttinni sem hefur kallað á miklar málamiðlanir. Báðir flokkar hafa þurft að gefa eftir hluti og slá af sínum prinsippum til að ná árangri á öðrum sviðum. Það hefur reynt á þolrifin,“ segir Grétar Þór. Hann nefnir árangur VG í umhverfismálum sem dæmi en hann sé óumdeildur en öðru hafi verið fórnað í staðinn og á endanum verði menn að setjast niður og vega og meta hvort það hafi verið þess virði. Starfhæf ríkisstjórn Stefanía segir menn hafa lagt áherslu á stjórn- festu og málamiðlanir við myndun ríkisstjórn- arinnar árið 2017; allt kapp hafi verið lagt á að setja saman „starfhæfa ríkisstjórn“. Henni kæmi ekki á óvart þótt sama orðræða yrði aftur uppi á teningnum nú. „Það var stór biti að kyngja fyrir bæði VG og Sjálfstæðisflokkinn að fara í samstarf fyrir fjórum árum. Þetta sam- starf virðist á hinn bóginn hafa gengið nokkuð vel og hvers vegna að hætta einhverju sem er að virka?“ Spurð hvort hún telji núverandi mynstur þá líklegast áfram svarar Stefanía. „Það er líklegast en flokkarnir verða þó að halda áfram vel á spöð- unum, sérstaklega ef það byrjar að rakna upp úr samstöðunni vegna sóttvarnaaðgerða. Verði Svandís [Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra] að einhverju leyti látin sitja í súpunni gæti það vald- ið óróa innan VG. Enginn veit þó hvernig þau mál þróast og mögulega verður allt annað andrúms- loft í haust, þegar bólusetning verður orðin al- mennari og ferðaþjónustan ef til vill byrjuð að ná sér aðeins á strik.“ Sögulega hafa Sjálfstæðisflokkur og Fram- sóknarflokkur iðulega verið tilkippilegir þegar mynda þarf stjórn. Sama á ekki við um VG og forvera hans en Stefanía segir öðru máli gegna í dag. „VG finnur greinilega til ábyrgðar og er búinn að færa sig í ákveðið miðjuhlutverk í ís- lenskum stjórnmálum – sem maður hefði ekki trúað fyrirfram,“ segir Stefanía. Katrín nýtur vinsælda Þrátt fyrir að hafa mestan þingstyrk allra flokka á yfirstandandi þingi gaf Sjálfstæð- isflokkurinn forsætisráðuneytið eftir við mynd- un stjórnarinnar fyrir fjórum árum. Væri hann reiðubúinn að gera það aftur, héldi stjórnin áfram í óbreyttri mynd? „Það er mjög stór spurning,“ svarar Grétar Þór. „Það var ekki auðvelt fyrir flokkinn að gefa stól forsætisráðherra eftir einu sinni og gera má því skóna að enn þá erfiðara yrði að gera það öðru sinni. Verði sama stjórnarmynstur í kort- unum mun þrýstingur á Bjarna Benediktsson án efa verða mikill en allar líkur eru á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram stærsti flokk- urinn á þingi og mun stærri en VG.“ Á móti kemur að kannanir benda til þess að Katrín Jakobsdóttir njóti almennrar hylli sem forsætisráðherra. „Hún nýtur mikilla vinsælda, langt út fyrir raðir síns eigin flokks og fólk virðist treysta henni. Það styrkir stöðu Katrínar komi til viðræðna um forsætisráðherrastólinn,“ segir Grétar Þór sem sér Katrínu fyrir sér sækjast eftir öðru embætti þegar fram líða stundir – embætti forseta Íslands. „Nú veit ég ekki hvort hún hefur áhuga á því yfirhöfuð en mér kæmi ekki á óvart þó hún yrði í kjöri þegar Guðni Th. Jóhannesson lætur staðar numið, hvort sem það verður að loknu yfirstandandi kjörtímabili eða því næsta.“ Stefanía segir engan vafa leika á því að Katr- ín komi áfram til með að sækjast eftir embætti forsætisráðherra og í ljósi vinsælda hennar og traustsins sem hún virðist njóta langt út fyrir sinn flokk gæti orðið erfitt fyrir Bjarna að hrófla við henni, sækist hann á annað borð eftir því, óháð því hvað flokksmönnum hans kann al- mennt að finnast. Getur dansað til hægri og vinstri En hvaða aðrir kostir eru í boði, haldi núverandi stjórnarflokkar samstarfi sínu ekki áfram? „Samfylkingin vill komast í stjórn,“ segir Stefanía, „en það yrði að vera vinstri stjórn vegna þess að hún hefur útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Það yrði þá á valdi Katr- ínar Jakobsdóttur að mynda þá stjórn. Sá möguleiki var ræddur síðast en fljótlega slitnaði upp úr þeim viðræðum. Ég sé ekki að mikið hafi breyst síðan.“ Stefanía er þeirrar skoðunar að erfitt yrði að ganga framhjá Katrínu við myndun ríkis- stjórnar og VG því í lykilstöðu eins og 2017. „Hún var í sterkri samningsstöðu þá enda í að- stöðu til að dansa bæði til hægri og vinstri. Þannig verður það væntanlega núna líka. Eins og staðan er núna er líklegt að Katrín hafi fleiri möguleika til að mynda stjórn en Bjarni Bene- diktsson.“ Spurð um möguleikana á hægri vængnum útilokar Stefanía ekki neitt en á þó erfitt með að sjá Viðreisn og Miðflokkinn saman í stjórn. „Þá held ég að núverandi samstarf yrði þægilegra fyrir Sjálfstæðisflokkinn.“ Grétar Þór lítur ekki á núverandi stjórnar- andstöðu sem valkost við ríkisstjórnina. Til þess séu flokkarnir of margir, eða fimm, og ekki nægilega samstíga í sínum aðgerðum á þinginu. Miðflokkurinn hafi til að mynda ekki átt samleið með hinum flokkunum. Sárin ekki gróin Að dómi Grétars Þórs yrði hvorki auðvelt að mynda stjórn sem skilgreina mætti sem hægri- eða vinstristjórn. Ekki yrði auðvelt fyrir Sjálf- stæðisflokkinn að mynda hægristjórn. Til þess sé of langt á milli hinna flokkanna á hægri vængnum og miðjunni. „Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skildu ekki í mikilli hamingju eftir samstarfið 2016, að ekki sé talað um brotthvarf þess síðarnefnda úr Framsóknarflokknum. Þó fimm ár séu liðin, sem er dágóður tími, sé ég ekki í hendi mér að hægt yrði að bræða þetta saman. Sárin virðast ekki vera gróin. Það er líka of langt málefnalega á milli bæði Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar og Framsóknarflokksins til að slíkt samstarf geti talist líklegt. Það verður líka að teljast mjög langsótt að Katrínu Jak- obsdóttur takist að mynda stjórn á vinstri vængnum eða frá vinstri og inn á miðjuna, hafi hún á annað borð áhuga á því, til þess eru flokk- arnir of margir og ólíkir.“ Að þessu sögðu er Grétar Þór býsna sann- færður um að einhverjir af núverandi stjórn- arflokkum verði áfram við stjórnvölinn eftir kosningar. Spurningin sé bara hver eða hverjir. Og með hverjum. Morgunblaðið/Hari Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Morgunblaðið/Eggert Morgunblaðið/Kristinn Magnúss Morgunblaðið/Eggert ’ Gleymum því ekki að þetta er mjög óvenjulegt mynstur og ýmislegt á eftir að ganga á inn- anhúss hjá flokkunum áður en þeir samþykkja að halda þessu samstarfi áfram, jafnvel þó menn telji sér hafa gengið vel. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Logi Már Einarsson, formaður Samfylk- ingarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, for- maður Viðreisnar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, for- maður Miðflokksins. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.