Morgunblaðið - Sunnudagur - 02.05.2021, Blaðsíða 20
20 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 2.5. 2021
UMHVERFISMÁL
Hvít strönd við Saldavatn í Tyrklandi.
Ferðamennska hefur aukist við vatnið.
Aysel Cig er geitahirðir við
Saldavatn og segir margt hafa
breyst með auknum ágangi.
Saldavatn, Tyrklandi. AFP. | Vatnið
Salda er fagurblátt og sendnar
strendur þess hvítar sem snjór. Þar
við bætist að bandaríska geimvís-
indastofnunin, NASA, telur að vatnið
geymi leyndarmál, sem gætu hjálpað
til við rannsóknir á mars og nú óttast
menn að það gæti vakið slíkan áhuga
ferðamanna á því að vistkerfi þess
verði ógnað.
Saldavatn varð heimsfrægt þegar
bandarískir vísindamenn fóru að at-
hafna sig þar þegar þeir voru að und-
irbúa Þrautseigjuleiðangurinn til
mars sem nú hefur varpað myndum
til jarðar frá rauðu plánetunni síðan í
febrúar.
Þotuhreyflarannsóknarstofa
NASA setti meira að segja myndir af
vatninu á vefsíðu sína fyrir lending-
una með þeim orðum að svona gæti
Mars hafa litið út fyrir milljörðum
ára þegar vatnsbúskapur plánet-
unnar var með öðrum hætti.
Nú hefur Recep Tayyip Erdogan,
forseti Tyrklands, ákveðið að vatnið,
sem er 4.370 hektarar að stærð og er
í suðvesturhluta landsins, eigi að
vera hluti af áætlun um að búa til
fleiri græn svæði til almenningsnota.
Þessar fréttir hafa vakið ugg með
mörgum, sem óttast að áhugi NASA
og Erdogans á vatninu geti opnað
flóðgáttir ferðamanna. Verndar-
sinnar hafa áhyggjur af því að örtröð
ferðalanga svamlandi í vatninu gæti
eyðilagt vistkerfið, sem gefur því
sérstöðu sína.
„Framtíð vatnsins er í hættu komi
milljónir manna,“ sagði Gazi Osman
Sakar, forystumaður Verndar-
samtaka Saldavatns.
Það lifir
Vatnið er frægast fyrir svæði, sem
kennt er við Hvítu eyjar með ein-
stökum sandi, sem og gróður og
dýralíf, þar á meðal fisktegund, sem
kennd er við vatnið.
Þar eru einnig steintegundir af
ýmsum toga. Vísindamenn NASA
hafa sérstakan áhuga á vatns-
magnesítkarbónatsteind sem er svip-
uð karbónatsteindum, sem hafa
greinst í Jezero-gígnum, sem öku-
tækið í geimleiðangrinum er nú að
kanna.
Talið er að lög vatnsmagnesít-
karbónsteinda við strendur Salda-
vatns hafi verið sorfin niður úr mikl-
um haugum, sem myndast hafi fyrir
tilstuðlan örvera endur fyrir löngu.
Saldavatn er svokallað jarðhniks-
vatn og er fjölda slíkra vatna að finna
á jörðinni. Sérstaða Saldavatns er
hins vegar fólgin í því að í tímans rás
varð vatnið að lokuðu vistkerfi með
sína eigin hringrás af lífi, að sögn
jarðverkfræðingsins Servets Cevni.
„Það er svo viðkvæmt fyrir utan-
aðkomandi inngripi vegna þess að
það er á lífi,“ sagði Cevni.
Það inngrip er þegar hafið. Níu
litlar byggingar hafa nú risið nærri
fyrirhuguðum almenningsgarði við
vatnið. Sakar sagði að þegar hefði
hvítur sandur verið fluttur frá Hvítu
eyjum til staðar sem nefnist Strönd
fólksins og væri hann ætlaður til
vegagerðar.
„Það ætti að hætta við þetta verk-
efni,“ sagði Sakar. „Það er ekki hægt
að vernda vatnið á meðan á að nota
það.“
Tekist á í réttarsal
Bannað er að synda við Hvítu eyjar,
en annars staðar má þó taka sund-
sprett. Samtök Sakars vilja að alfarið
verði bannað að synda í vatninu til að
verja vistkerfi þess. Þess í stað leggur
hann til að búnir verði til útsýnisstaðir
svo að gestir geti skoðað vatnið.
„Ef einfrumungarnir deyja er Salda
búið að vera,“ sagði Cevni. „Hvítu eyj-
arnar munu ekki endurnýjast og hinar
hvítu sandmyndanir hætta að verða
til.“
Hann sagði að sá skaði, sem þegar
hefði verið valdið, myndi lagast á
næstu 150 til 200 árum yrði ekki
gengið lengra. „Ef við gerum það,
mun það aldrei jafna sig,“ bætti hann
við.
Tilraunum verndarsamtakanna til
að afstýra áætluninni um grænu
svæðin hefur verið hafnað fyrir dóm-
stólum. Samtökin hafa áfrýjað og
leitað til UNESCO um að setja Salda
á heimsminjaskrá.
„Salda er að deyja,“ sagði Sakar.
Verndarsinnarnir eru ekki einir
um að hafa áhyggjur. Aysel Cig er
geitahirðir og býr í þorpi skammt frá
vatninu. Hún sagði að lífið hefði verið
ánægjulegra við Saldavatn áður en
það varð frægt.
„Vatnið okkar, þorpið okkar var
mun hreinna fyrir þremur, fimm ár-
um,“ sagði hún.
Ábyrg ferðamennska
En ferðamönnunum fylgir ekki bara
upplausn. Þeir koma einnig með pen-
inga og heimamenn fagna því.
Suleyman Kilickan er sextugur.
Hann vann á kaffihúsi með miklu
plássi utandyra og 30 starfsmönnum
áður en kórónuveirufaraldurinn skall
á. Kilickan sagði að áhugi á vatninu
hefði aukist mikið samfara leiðangri
NASA og bætti við að gestir sínir
væru flestir útlendingar, sem virtust
bera virðingu fyrir vatninu.
„Ef það eru ferðamenn er líf,“
sagði Kilickan. „Ég myndi hvetja til
ferðamennsku,“ sagði hann og lagði
áherslu á að tryggja þyrfti ábyrga
hegðun ferðamanna.
Tyrkneska umhverfisráðuneytið
lýsti yfir því í mars að fjöldi ferða-
manna til Hvítu eyja yrði takmark-
aður við 570 þúsund manns á ári.
Næstum ein og hálf milljón manna
ferðaðist til vatnsins 2019 og í fyrra
komu þangað 800 þúsund manns
þegar létt var á höftum vegna kór-
ónuveirunnar.
En Nazli Oral Erkan, sem stýrir
umhverfisnefnd Lögmannafélagsins
í Burdur-héraði þar sem vatnið er,
sagði að fyrirhugað þak á ferða-
mannafjölda dygði ekki til að vernda
vatnið.
„Salda er eins og náttúruminja-
safn,“ sagði hún.
Saldavatn í Burdur-héraði í Tyrklandi er mikilfenglegt. Vísindamenn
NASA telja að þar megi finna vísbendingar um aðstæður á Mars fyrir
milljörðum ára þegar vatnsbúskapur þar var með öðrum hætti.
AFP
Eins og Mars
fyrir millj-
örðum ára
Saldavatn í Tyrklandi komst inn á ratsjá ferða-
langa þegar áhugi NASA kviknaði líkt og Fjaðr-
árgljúfur komst á kortið eftir heimsókn Justins
Biebers. Nú hafa menn áhyggjur af ágangi.