Morgunblaðið - Sunnudagur - 06.06.2021, Page 8
VITÐAL
8 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 6.6. 2021
Þ
að var fallegt vorveður daginn sem
blaðamaður brunaði austur fyrir
fjall að hitta Sigurvinu Samúels-
dóttur, en hún á sér sérkennilega
sögu. Sigurvina, sem ávallt er köll-
uð Vinsý, er nefnilega alin upp á spítala. Hún
fékk berkla sem ungbarn og var skilin eftir á
sjúkrahúsinu á Ísafirði þar sem hún lá rúmföst
og kvalin í fjögur ár. Vinsý lærði ekki að ganga
fyrr en sex ára, en þrátt fyrir að ná bata bjó hún
áfram á spítalanum til tæplega níu ára aldurs.
Vinsý tekur brosandi á móti blaðamanni og
býður inn í notalegt herbergi á Lundi, heimili
aldraðra á Hellu. Það er vistlegt um að litast;
myndir af afkomendum á veggjum og bækur á
borðum. Við vindum okkur í spjall um athyglis-
verða æsku.
Kvalin í gifsi
Vinsý fæddist í Bæ í Trékyllisvík í Árneshreppi
1. ágúst árið 1937 en þar voru foreldrar hennar
bændur.
„Ég fæddist í miðjum heyskap og það náðist
ekki í ljósmóður og sextán ára móðursystir mín
þurfti að aðstoða við fæðinguna,“ segir hún og
skellihlær.
„Ég er þriðja í röðinni af fimm börnum
mömmu og pabba, en pabbi deyr þegar ég er
fimm ára. Það sprakk í honum botnlanginn um
miðjan vetur og um sama leyti fæddist fimmta
barnið. Svo eignaðist mamma níu börn í viðbót
en hún átti fjórtán í allt,“ segir Vinsý.
Þegar Vinsý var á fyrsta ári fékk hún berkla
og var flutt á sjúkrahúsið á Ísafirði.
„Mamma fór með mig á spítalann og skildi
mig þar eftir. Ég man ekkert eftir að hafa séð
hana þótt hún hafi víst komið einu sinni að
heimsækja mig. Ég var rétt að verða níu ára
þegar ég fór aftur heim,“ segir hún.
„Ég átti aðra að en mömmu sem voru góðir
við mig og ég elskaði það fólk í staðinn,“ segir
Vinsý sem var ekki veik af berklum í öll þessi ár
heldur var hún orðin fósturbarn á spítalanum.
„Fyrstu árin lá ég í gifsi, í fjögur ár. Það var
steypt gifs á bakið á mér því það var talið að ég
væri með lokaða berkla en ég var alltaf með
hita. Það er það fyrsta sem ég man eftir mér; ég
í rúminu liggjandi á bakinu í gifsi, bundin niður í
rúmið. Ég fann óskaplega til í bakinu og grét
mikið. Yfirhjúkrunarkonan, Helga, var svo góð
við mig og eins yfirlæknirinn Úlfur. Það var svo
gott fólk þarna,“ segir Vinsý og segist ekki hafa
lært að ganga fyrr en sex ára þar sem hún var
rúmföst þar til þá.
„Þá var hringt í ættingja mína á Ísafirði, sem
höfðu heimsótt mig eins og ég væri þeirra barn
þessi ár, og þeim sagt að nú ætti Vinsý að fara
að prófa á sér fæturna. Svo lærði ég að labba
smátt og smátt.“
Hef sennilega verið óþekk
„Ég var löngu orðin hraust og man eftir mér
leikandi við krakka á Ísafirði, þótt ég mætti ekki
leika við alla því sumir foreldrar bönnuðu þeim
að leika við stelpu sem hafði fengið berkla. Ég
gekk ekki í skóla á þessum tíma og kunni ekki
að lesa þegar ég fór heim. Það hafði einhver á
spítalanum reynt að kenna mér að lesa en ég
nennti bara ekki að læra,“ segir hún og hlær
dátt.
„Mér fannst þetta svo leiðinlegt að ég nennti
því ekki. Þarna var ég nýlaus úr gifsinu og vildi
bara hlaupa um og leika mér, þú getur ímyndað
þér hvort það hafi ekki verið gaman! Ég hef
sennilega verið óþekk,“ segir Vinsý og segist
muna vel eftir því að hafa verið að drullumalla
fyrir utan spítalann.
Þegar Vinsý var á níunda ári var hún send
með Huganum II, síldarskipi, norður á Strand-
ir, heim til mömmu og fósturföður.
„Krakkinn var bara sendur með skipinu,
aleinn. Hún fóstra mín á spítalanum, sauma-
konan Guðný Sveinsdóttir sem ég elskaði út af
lífinu, var í sumarfríi þegar ég var send heim, en
ég held að hún hafi ráðið miklu um það hvað ég
var lengi á spítalanum. Ég man eftir mér í mörg
ár á spítalanum sem hraustu barni. Ég var orðin
spítalabarn, það var ekkert annað. Þetta var
eina fólkið sem ég átti að, starfsfólkið og frænd-
fólkið mitt á Ísafirði,“ segir Vinsý og rifjar upp
sjóferðina norður.
„Ég var svo sjóveik, enda aldrei farið á sjó.
Þeir dekruðu svo við mig, skipverjarnir,“ segir
Vinsý og segir þá hafa verið að passa upp á
þennan „krakkaræfil“ eins og hún orðar það.
„Ég held að ferðin hafi tekið um tvo sólar-
hringa, ég man eftir mér í kojunni með ægilega
ógleði.“
Fordekruð eftir spítalavistina
Þegar skipið lagði að bryggju á Eyri við Ingólfs-
fjörð beið þar fóstri hennar, Kristinn Jónsson,
seinni maður móður hennar, en hann vann í síld
í Síldarverksmiðjunni á Eyri.
„Ég þekkti hann ekki neitt en hann tók á móti
mér. Ég man ég þurfti að bíða allan daginn á
Eyri en ég var svo spennt að hitta mömmu og
systkinin mín, en ég mundi ekkert eftir því
hvernig mamma leit út. Ég átti aldrei mynd af
henni,“ segir Vinsý sem segir hafa verið gaman
að komast loksins heim.
Hvernig tók mamma þín þér?
„Æ, ég veit það ekki. Ég get ekki ennþá sagt
frá því hvernig það var, ég held hún hafi tekið
mér ágætlega. Mér fannst óskaplega gaman að
hitta systkini mín og þarna var kominn einn lítill
bróðir og annar rétt ófæddur, auk alsystra
minna fjögurra. Mamma mín eignaðist átta
stráka og eina stúlku með Kristni, við vorum
fimm alsystur Samúelsdætur,“ segir Vinsý.
„Það voru allir óskaplega góðir við mig, en ég
var fordekruð eftir spítalavistina. Mamma sagði
mér að ég væri erfið,“ segir Vinsý og viður-
kennir að það hafi verið erfitt að tengjast móður
sinni.
„Mér þótti vænt um hana en náði ekki teng-
ingu eins og er milli barns og móður. Eina
manneskjan sem ég tengdist þannig var Guðný
saumakona,“ segir Vinsý og segir Guðnýju hafa
saumað á sig afar falleg föt.
„Ég var alltaf eins og puntudúkka á spítal-
anum. Ég átti ofsalega flott föt.“
Spítalinn var heimilið
Vinsý fór í barnaskólann á Finnbogastöðum, en
fékk ekki að fara í gagnfræðaskóla.
„Mér gekk vel að læra það sem var í boði. Það
var bara ekki í boði að halda áfram og ég var því
fjórtán þegar ég hætti í skóla. Ef ég hefði verið
strákur hefði ég fengið að fara áfram,“ segir
Vinsý og segist hafa þurft að passa mikið yngri
systkinin sín, enda voru þau ansi mörg.
Vinsý segir fjölskylduna fyrst hafa búið á
Seljanesi og síðar á Dröngum í stóru húsi.
„Ég fór reyndar þangað löngu áður til frænda
míns. Hann kom í heimsókn eitt sinn og sagði:
„Þetta barn tek ég, hún er of veikbyggð til að
passa börn og vinna.“ Ég fór þá með honum, en
þetta var fyrsta árið mitt eftir spítalann. Þar var
ég litla sparibarnið, það er alltaf gott að vera
yngstur,“ segir hún og hlær.
„Sautján ára fór ég svo að vinna sem ganga-
stúlka á spítalanum á Ísafirði. Ég mátti alltaf
koma og fara eins og ég vildi enda alin þar upp.
Mér datt ekki í hug að vinna annars staðar,
enda þekkti ég alla þarna og mátti allt. Þetta
var meira eins og heimilið mitt heldur en heima
hjá mömmu.“
Vildi ekki dansa við bóndann
Þegar Vinsý var nítján ára fór hún í Reykjar-
fjörð, hitti þar mann og varð ástfangin. Þau
eignuðust eina stúlku.
„Svo varð ekki meira úr því sambandi en ég
var þá ein með barnið og það gekk mjög vel,“
segir Vinsý sem eignaðist síðar fjögur börn í
viðbót með Erlingi manni sínum, sem nú er lát-
inn.
Faðir elstu stúlkunnar lést þegar sú litla var
þriggja ára. Þegar dóttirin var lítil flutti Vinsý
með hana til Keflavíkur til vinkonu sinnar og
fékk þar vinnu á sjúkrahúsinu. Margir lögðu
hart að Vinsý að hún gæfi vinkonu sinni barnið,
en sú var gift kona.
„Ég gæti aldrei gefið barnið mitt, ég gat farið
hvert sem ég vildi með barnið,“ segir Vinsý og
réð sig sem ráðskonu í sveit, að Berustöðum í
Ásahreppi. Þar þekkti hún ekki nokkurn mann.
Þremur dögum eftir að hún kom austur var
henni boðið í brúðkaup, en þrír bræður á bæn-
um voru þá að gifta sig.
„Það var heljarinnar veisla. Ég ætlaði ekkert
að fara, enda þekkti ég engan og ætlaði bara að
vera heima. Ég var látin vita að enginn yrði skil-
inn eftir, ég yrði þá bara borin út í bíl. Þarna var
búið að ráða fólk til að passa börnin, sem voru
tekin með,“ segir Vinsý, sem að sjálfsögðu lét
tilleiðast.
„Það var rosa gaman og mikið dansað. Ég
man ég sá að bóndinn ætlaði að fara að bjóða
mér upp. Mig langaði ekkert til að dansa við
hann,“ segir hún og skellihlær.
„Þannig að ég blikkaði ungan mann sem stóð
þarna hjá og horfði á mig. Hann var fljótari að
bjóða mér upp. Hann varð svo maðurinn minn,
Erlingur Guðmundsson.“
Var þetta ást við fyrstu sýn?
„Já, ég held það. Ekki samt þarna þegar ég
blikkaði hann, það var bara til að bjarga mér frá
dansinum við bóndann,“ segir hún og skellihlær.
Vinsý og Erlingur settust að á Hellu og vann
hann sem vörubílstjóri og hún rak verslun um
langt skeið.
„Ég flutti inn gosbrunna, ljós, styttur og
fleira frá Englandi og Þýskalandi. Það var nóg
að gera.“
Fjörutíu afkomendur
Vinsý býr nú á Lundi, heimili aldraðra á Hellu.
Hún segist vera mikill bókaormur og hafa verið
alla tíð.
„Ég man þegar ég var lítil og átti að vera að
passa yngri systkinin eða vinna önnur störf þá
gleymdi ég mér oft úti á túni eða í fjósinu með
bók. Ég hafði alltaf með mér bók þegar ég fór í
hæsnahúsið, en ég var alæta á bækur. Ég var
sólgin í þær,“ segir Vinsý og segist una sér vel á
Lundi, enda getur hún legið í bókum að vild.
Það er farið að líða á eftirmiðdaginn og tími
til kominn að kveðja. Á veggnum má sjá ótal
ljósmyndir af börnum á öllum aldri, en Vinsý á
fimm börn, fimmtán barnabörn og tuttugu
barnabarnabörn.
„Ég á orðið fjörutíu afkomendur, sem eru all-
ir vel af guði gerðir, það er ekki hægt að hugsa
sér neitt dásamlegra.“
Ég var orðin spítalabarn
Sigurvina Samúelsdóttir,
eldhress kona á níræðisaldri,
rifjar upp æskuárin á sjúkra-
húsinu á Ísafirði. Þar bjó hún í
átta ár, fjarri fjölskyldu sinni.
Vinsý segist hafa verið
fordekruð og elskuð á
spítalanum.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
„Ég man ég þurfti að bíða allan dag-
inn á Eyri en ég var svo spennt að
hitta mömmu og systkinin mín, en
ég mundi ekkert eftir því hvernig
mamma leit út,“ segir Vinsý.
’
Það er það fyrsta sem ég man
eftir mér, ég í rúminu liggj-
andi á bakinu í gifsi, bundin nið-
ur í rúmið. Ég fann óskaplega til
í bakinu og grét mikið.
Vinsý segist hafa verið fordekruð
á Sjúkrahúsinu á Ísafirði.
Morgunblaðið/Ásdís