Morgunblaðið - 14.07.2021, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 14. JÚLÍ 2021FRÉTTIR
HAGI ehf Stórhöfða 37 • 110 Reykjavík • S. 414-3700 • hagi@hagi.is • Hagi ehf HILTI
Hágæða
vinnuföt
í miklu úrvali
Sérmerkjum fyrir fyrirtæki
Verkfæri og festingar
Mikið úrval af öryggisvörum
vinnuföt fást einnig í
Töluverðrar spennu hefur gætt á
olíumarkaði eftir að slitnaði upp úr
fundi OPEC og samstarfsríkja í
byrjun síðustu viku. Viðræðurnar
strönduðu á kröfu Sameinuðu arab-
ísku furstadæmanna um að fá
stærri skerf af heildarframleiðslu
olíu á heimsvísu en fulltrúum
furstadæmanna þykir þeim hafa
verið gert að gefa of mikið eftir í
apríl á síðasta ári þegar OPEC-
hópurinn sammæltist um að lækka
framleiðsluþakið vegna minnkaðrar
eftirspurnar í miðjum kórónuveiru-
faraldri. Litast afstaða furstadæm-
anna líka af valdabaráttu ríkjanna
við Persaflóa en þar hafa fursta-
dæmin gert sig æ breiðari undan-
farin misseri, með tilheyrandi nún-
ingi við Sádi-Arabíu sem leiðir
OPEC-samstarfið.
Er skiljanlegt að furstadæmin
sæti lagi einmitt núna enda hefur
olíuverð hækkað töluvert það sem
af er þessu ári og eru OPEC-ríkin
ólm að semja um að hækka fram-
leiðsluþakið og fá þannig fleiri
krónur í kassann. Þetta setur
furstadæmin í sterkari samnings-
stöðu enda geta þau haldið hinum
OPEC-ríkjunum í gíslingu þar til
niðurstaða fæst. Hefur sá mögu-
leiki jafnvel verið nefndur að Sam-
einuðu arabísku furstadæmin segi
sig úr OPEC til að geta dælt
olíunni eins og þeim sýnist en það
myndi veikla samtökin verulega
enda furstadæmin sjöundi stærsti
olíuframleiðandi heims og fjórði
stærsti framleiðandinn í OPEC-
hópnum ef Rússland er talið með. Í
dag er olíuframleiðsla furstadæm-
anna skert um þriðjung til að fara
ekki fram úr framleiðslukvóta
OPEC og segjast þarlend stjórn-
völd hæglega geta aukið fram-
leiðslugetu sína umfram það sem
hún er í dag með því að bora ofan í
fleiri olíulindir.
Kapphlaup við tímann
En David Sheppard hjá Fin-
ancial Times bendir á annan flöt á
málinu í nýlegum pistli: Fursta-
dæmunum liggur á að koma olíunni
sinni í verð áður en heimsmark-
aðsverðið hrynur.
Öld olíunnar kann senn að vera á
enda og eftir því sem eftirspurnin
minnkar verður erfiðara að selja
hráolíu á því góða verði sem fæst
um þessar mundir. Í dag má rekja
um tvo þriðju af allri eftirspurn eft-
ir hráolíu til fólks- og vöruflutninga
en eins og lesendur vita hafa ótal
ríki sett sér metnaðarfull markmið
um orkuskipti í samgöngum og
sum gengið svo langt að lögfesta
bann á sölu bensín- og díselbíla að
tíu til tuttugu árum liðnum. Með
hverjum deginum koma æ fleiri
rafmagnsbílar á göturnar og hand-
an við hornið eru vöruflutninga-
bílar knúnir áfram af rafmagni,
vetni eða öðrum grænum orkugjöf-
um. Ef miðað er við bandarískar
tölur má áætla að fyrir hvern bens-
ínbíl sem skipt er út fyrir raf-
magnsbíl minnki eftirspurn eftir
bensíni um nærri 2.500 lítra á ári,
og samtals um 37.500 lítra ef miðað
er við að bíllinn verði í notkun í
fimmtán ár.
Rafbílabylting undanfarinna ára
hefur ekki náð að hægja á vaxandi
eftirspurn eftir olíu á heimsvísu og
olíunotkun heimsbyggðarinnar að
jafnaði vaxið um 1-2% árlega
undanfarna áratugi. Í nokkuð
vandaðri greiningu sem sérfræð-
ingar við Kaliforníuháskóla gerðu
árið 2017 var því spáð að eftirspurn
eftir olíu næði hámarki í kringum
árið 2040 en um svipað leyti slump-
aði greiningardeild Goldman Sachs
á að hámarkinu yrði náð strax árið
2030. Eftir það má reikna með að
eftirspurnin dragist saman jafnt og
þétt og að æ lægra verð fáist fyrir
þá olíu sem enn hvílir ofan í jörð-
inni. Sérfræðinga greinir á um
hvort olíuverð muni haldast flatt og
tiltölulega stöðugt þegar hámarks-
eftirspurn er náð eða hvort það
kemur til með að hrynja.
Er því ekki að furða að Samein-
uðu arabísku furstadæmin vilji
koma olíunni sinni til kaupenda
með hraði og dæla sem mestu upp
úr olíulindunum áður en botninn
fellur úr markaðinum. Í dag kostar
fatið af olíu um 77 dali en greining-
arfyrirtækið Wood Mackenzie spá-
ir að ef ríki heims reyna að full-
nægja markmiðum Parísar-
samkomulagsins af fullri hörku geti
það haft þau áhrif á eftirspurnar-
hliðina að heimsmarkaðsverð á olíu
verði í kringum 40 dala markið árið
2030, verði komið niður í 30 dali ár-
ið 2040 og undir 20 dali á fatið eftir
2050.
Hærra olíuverð flýtir fyrir
endalokum OPEC
Hagfræðingurinn snjalli Cathie
Wood, stofnandi ARK Invest, viðr-
aði nýlega áhugaverðar vangavelt-
ur um framtíð olíumarkaðarins og
áhrif olíuverðs á verðbólguhorfur á
heimsvísu. Fyrir þá sem ekki
þekkja Wood þá er hún lærisveinn
Arthurs Laffer og var á síðasta ári
valinn naskasti verðbréfafjárfestir
ársins af Bloomberg News. Wood,
sem er m.a. þekkt fyrir að hafa árið
2018 spáð rétt um mikla hækkun
hlutabréfaverðs rafbílaframleið-
andans Tesla, er einkar áhugasöm
um það hvernig ný tækni eykur
verðmætasköpun og hefur þannig
verðhjaðnandi áhrif.
Bendir Wood á að með því að
reyna að hámarka olíuverð séu
OPEC-ríkin í reynd að skjóta sig í
fótinn enda skapi hátt olíuverð
þeim mun sterkari hvata fyrir fólk
og fyrirtæki að skipta yfir í aðra
orkugjafa. Segir hún nokkuð ljóst
að sú bylting sem er að eiga sér
stað í framleiðslu rafmagnsbíla og
sjálfakandi bíla muni dempa olíu-
eftirspurn og útkoman gæti allt
eins orðið sú að olíuverð lendi fyrr
en seinna á svipuðum stað og áður
en OPEC-samstarfinu var komið á
í núverandi mynd og verðið fyrir
fat af olíu fari jafnvel niður í þrjá
dali.
Ef það sem drífur þessa þróun
áfram er ekki valdboð stjórnvalda
heldur annaðhvort upplausn innan
OPEC og endalok samstarfsins,
eða hugvitsemi fyrirtækja sem
gera rafbíla að æ hagkvæmari sam-
göngu- og vöruflutningakosti, þá
gæti svona lágt olíuverð haft veru-
leg áhrif á þróun verðlags á heims-
vísu þó ekki væri nema vegna mun
lægri flutningskostnaðar.
Upphafið að endinum hjá OPEC
Ásgeir Ingvarsson
skrifar frá Playa del Carmen
ai@mbl.is
Þegar eftirspurn eftir olíu
hefur náð hámarki má
vænta þess að heims-
markaðsverð fari hratt
lækkandi. Sameinuðu
arabísku furstadæmunum
liggur á að koma olíunni
sinni úr jörðu áður en botn-
inn dettur úr markaðinum
og gæti það gert út af við
OPEC.
AFP
Olíuborpallur við sólarlag. Það gæti gerst að hámarki eftirspurnar eftir olíu verði náð eftir einn til tvo áratugi og gæti heimsmarkaðsverðið þá hríðlækkað.