Heilsuvernd - 01.02.1972, Blaðsíða 7
og nauðsynlega líkamshreyfingu og rýkur upp til handa og fóta
til að elta uppi heilsuna á harða spretti, svo að hjartað og lungun
og fæturnir vita ekkert, hvaðan á sig stendur veðrið og fylgjast
alls ekki með þessu uppátæki höfuðsins að heimta fyrirvaralaust
þessa ofsa áreynslu, (sem þetta er raunverulega eftir alla kyrrð-
ina), til þess að vinna það, sem tapazt hefir í doðakyrrð, næstum
því dauðakyrrð, í mörg undanfarin ár. Það minnir á gleymsku
hringjarans, fátið og kollsteypuna og æðisgegngna hringingu.
Allt rólfært fólk þarfnast daglegrar útivistar í hreinu lofti. En
þeir, sem hafa kúldazt í kyrrð og inniveru í mörg ár, held ég
megi vara sig á mjög snöggum viðbrigðum, t.d. að taka allt í einu
upp á því að þjóta rakleitt upp úr rúminu á harða sprett í köldu
morgunlofti og kannske í hóp með öðrum, svo að úr verður eins
konar keppni, að minnsta kosti í viðlögum, — allt í þeim fróma
tilgangi að framkvæma gagnráðstafanir gegn hinni langvarandi
kyrrð.
Málið er ekki svona einfalt. Snöggar og harkalegar breytingar
í þjálfunarefnum geta leitt margt illt af sér. Ég man, að fyrr á
árum tíðkaðist það nokkuð í Reykjavík, að þeir, sem höfðu fengizt
við íþróttir á yngri árum, svo sem knattspyrnu og hlaup, tóku sig
til og fóru í keppni sem „old boys“, þegar þeir höfðu náð fimmtugu.
Keppnin og félagsskapurinn með tilheyrandi endurminningum
kemur slíkum görpum, sem einu sinni voru, í íþróttaskap á auga-
bragði, og þeir leggja hart að sér á sprettinum. En mér er sagt,
að ýmsir slíkra hafi ekki haft happ af þessum hamagangi og
hrottaskap við sjálfan sig, af því að þeir athuguðu ekki, að þeir
voru löngu komnir úr keppniþjálfun og meira að segja komnir
sumir í óhirðu vegna vanrækslu á daglegri og duglegri hreyfingu
til að halda sér í góðu horfi, farnir að fitna o.s.frv.
Svo sannarlega er hjartanu eðlilegt að vinna, dæla og dæla blóð-
inu um allan líkamann með fullum myndarskap. Einhvers staðar
las ég, að hjartað hafi „átta stunda vinnudag“, þ.e. að hver hluti
eða vöðvaögn hjartans væri í átaki sem svaraði einum þriðja hluta
sólarhringsins; hinir tveir þriðju hlutar færu í hvíld og afslöppun.
Allt gerist þetta vitanlega á örstuttum augnablikum við hvert slag
hjartans.
HEILSUVEHND
7