Feykir


Feykir - 16.06.2020, Blaðsíða 6

Feykir - 16.06.2020, Blaðsíða 6
 Heilir og sælir lesendur góðir. Höfundur fyrstu vísu að þessu sinni er Jón Arason sem var verka- og erfiðis- vinnumaður í Reykjavík og fóru að birtast eftir hann ágætar vísur í kringum 1950 en þá mun hann hafa verið kominn yfir sjötugt. Byrjum á þessum hollráðum Jóns til okkar hinna: Markið settu himinhátt harma léttu í nauðum. Svangan metta, ef saðning átt, silfrið réttu snauðum. Af því muntu öðlast hrós, auðgast dyggðum sönnum. Viljirðu þitt litla ljós Lýsi öðrum mönnum. Í næstu vísu Jóns lýsir hann vandamáli sem flest okkar kannast við: Ef ég reyni að yrkja gott enginn vill það heyra. Geri ég níð og napurt spott nær það hvers manns eyra. Veit ekki hvort svar hefur fengist við næstu spurningu: Vandasamt því verður hér vel úr málum skera. Hvort er betra, herm þú mér hvað á ég að gera? Nú, kannski nær 70 árum eftir að þessar vísur eru ortar, hafa margir fengið að kynnast því sem Jón telur ráðlegast í næstu vísu: Setti ég kjaftinn sóttkví í sem er réttur vegur, yrði ég talinn allt að því óaðfinnanlegur. Að lokum þessi alvarlega en vel gerða hringhenda eftir Jón: Hárin grána, hallar leið hels að ránarslóðum. Valt er lán en vökin breið, vegurinn skánar óðum. Ein hringhenda kemur hér enn og mun höfundur hennar vera Hálfdán Bjarnason, kenndur við Bjarghús: Oft er vökult auga um nótt og á hrökum vörnin. Mínar stökur fæðast fljótt, framhjátöku börnin. Man eftir annarri hringhendu eftir Hálfdán: Oft er dreymin innsta þrá af því gleymist skuggi. Stakan sveimar ofan á andans heimabruggi. Það er Tómas R. Jónsson á Blönduósi sem er höfundur að næstu vísu. Er hann þar að gantast við sinn góðvin, Skarphéðin Einarsson, sem var næsti nágranni. Ég hef séð þess vísan vott á vorum kjaftafundum. Að Skarphéðinn vill gera gott en gleymir því bara stundum. Ekki var okkar góði vinur og félagi, Skarphéðinn, lengi að svara: Víða brotinn veit ég pott vil sem dæmi taka, að Tómas mörgum gerir gott en grípur sumt til baka. Sigurður Jónsson sem kenndur var við Katadal kom, skömmu eftir að hann gifti sig, til kirkju. Var þá sá siður að heilsa öllum með kossi. Heilsaði Sigurður konum með handabandi en körlum með kossi. Er hann var spurður hverju það sætti varð þessi vísa til: Ekki kyssa mey ég má mér er skylda að baki. Aðeins finna ylinn frá einu handartaki. Önnur vel gerð vísa, hringhenda, kemur hér eftir Sigurð. Mun hann þá hafa verið að virða fyrir sér unga, ógifta stúlku. Böl er sveinum bið og hik best í leynum gengur. Þetta eina augnablik ætti að treinast lengur. Geta lesendur sagt mér af hvaða tilefni næsta vísa er ort? Sé í dóti mínu að höfundur hennar sé Skúli Þorsteinsson. Oft frá menntamálaráði margur napra kveðju hlaut. Bestu skáld þeir hafa að háði en Helga fyrir ráðanaut. Það mun hafa verið Pétur Stefánsson sem orti svo flotta vorvísu: Sólarljóminn signir grund í sælli rjómablíðu. Fuglar óma, létt er lund lifna blómin fríðu. Víða kemur fram böl fólks af Kínapestinni. Karl Kristinsson segir svo frá sínu böli: Ég kemst ekki út að keyra hvað þá nú heldur meira. Ég kúldrast hér inni með konunni minni. Hún er voðaleg þessi veira. Geta lesendur sagt mér hver er höfundurinn að þessari? Vekjum hlátur, vekjum grín, víkja látum trega. Brögðum kátir brennivín bara mátulega. Gaman finnst mér þá að enda með játningu okkar góða vinar hér áður fyrr á Sauðárkróki, Kristjáns Runólfssonar: Í gærkvöldi Bakkusi lagði ég lið lengi ég drakk af hans brunni. Komst þó á fætur og kannaðist við koníaksbragðið í munni. Veriði þar með sæl að sinni. /Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Vísnaþáttur 762 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is Júlíus Aðalsteinn Róbertsson. MYND: ÚR EINKASAFNI 6 24/2020 Júlíus Aðalsteinn Róbertsson hefur heldur betur þvælst um heiminn síðustu ár með gítarinn að vopni í slagtogi með félaga sínum, Ásgeiri Trausta. Júlíus fæddist árið 1986, sonur Hafdísar Brynju Þorsteinsdóttur og Róberts Júlíussonar, ólst upp og bjó í Hrútafirði í Húnaþingi vestra allt þar til sumarið 2012. Hann er nú búsettur í „Reykjavík fyrir sunnan“ eins og hann segir sjálfur. „Mitt aðalhljóðfæri er gítar. Kann eitthvað á píanó, aðeins meira á bassa en þótti hins vegar efnilegur trompetleikari á yngri árum, mætti alveg dusta rykið af allskonar,“ segir Júlíus. Spurður um helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann: „Hef mikið spilað opinberlega og samið texta fyrir Ásgeir Trausta Einarsson frá því hann kom fram á sjónarsviðið 2012 og ferðast nokkra hringi í kringum hnöttinn. Dunduðum við það í einhverja daga á einhverjum túrnum að telja saman og skrásetja alla tónleika sem Ásgeir projectið hefur spilað frá upphafi og ef COVID-19 hefði ekki skollið á hefði Ásgeir bandið spilað tónleika nr. 500 þann 14. maí síðastliðinn. Þannig að það hefur ýmislegt verið brallað þar. Annars þykir mér líka voðalega vænt um allskonar opinberar uppákomur og skemmtanir sem ég hef fengið að taka þátt í á síðustu árum í heimasveit. Hvaða lag varstu að hlusta á? -Crazy Crazy Nights með Kiss. Búinn að vera með það fast á heilanum ON og OFF í nokkrar vikur. Uppáhalds tónlistartímabil? -Veit það ekki alveg en síðustu misseri hef ég mikið verið að stunda útihlaup með „headphone“ á hausnum og hefur ´90 rokk og metall orðið mikið fyrir valinu. Það er voðalega misjafnt hvað ég fíla hverju sinni. Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? -Hef soldið verið að skoða Auður (Auðunn Lúthersson) og GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir) síðustu misseri, skemmtilegt stöff. Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? -Það var mikið um folk og country tónlist svona þegar ég fer að pæla í því. Bubbi Morthens, KK, Hörður Torfason, Johnny Cash, Willie Nelson, Kris Kristofferson, Bob Dylan, svona það helsta. Hver var fyrsta platan/diskurinn/ kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? -Minnir að það hafi verið Follow the Leader með Korn. Hvaða græjur varstu þá með? -Það var samtíningur af einhverjum hátölurum, Technics magnara og ferðageislaspilara sem var ekki með hristivörn. Hágæða „ghetto rig“. Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? -Mýrdalssandur með hljómsveitinni GCD. Myndbandið var mesta rokk sem ég hafði séð á þeim tíma, vasaklútar, gallajakkar og leður. Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn (eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér)? -Lagið Aðfangadagskvöld í flutningi Helgu Möller. Hef ekkert á móti henni en lagið gerir mig bara alveg sturlaðan. Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? -House of Fun með hljómsveitinni Madness, það kemur mér allavega í stuð. Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? -House of Fun með Madness. Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? -Veit ekki hvert ég myndi fara en ég hugsa að ég myndi fara á tónleika með Rammstein. Sá þá árið ´01 og hefur alltaf langað að sjá þá aftur. Hugsa hreinlega að ég færi bara einn, finnst voðalega næs að fara einn á tónleika og aðra viðburði. Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? -Platan Vulgar Display of Power með hljómsveitinni Pantera. Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera (eða haft mest áhrif á þig)? -Það myndi vera sænskur maður sem heitir Kristian Matsson og kallar sig The Tallest Man On Earth. Heillaðist af tónlist hans, textum og spilamennsku sem hafði mikil áhrif á hvernig ég spila á gítar í dag og eins hvað varðar textasmíðar. Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út (eða sú sem skiptir þig mestu máli)? -Þykir voðalega vænt um plötuna The Wild Hunt með The Tallest Man On Earth. Kenndi mér margt. Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum? The Tallest Man On Earth - Love is all Johnny Cash - Hurt Auður - Enginn eins og þú Hjálmar - Vísa úr Álftamýri Pantera - Becoming Rammstein - Reise, reise Júlíus Aðalsteinn Róbertsson / gítarinn Undir áhrifum The Tallest Man On Earth ( TÓN-LYSTIN ) oli@feykir.is

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.