Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.08.2021, Page 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 22.08.2021, Page 15
22.8. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 Yfirþyrmandi samhugur Við heimkomuna blasti við nýr veruleiki án Engilbjartar. Jarðarförin var fram undan og svo lífið sjálft. „Þetta var erfiður tími en við nutum góðs af ótrúlega miklum stuðningi, bæði frá fjölskyldu og vinum og prestinum okkar, séra Öddu Steinu. Það var yfirþyrmandi samhugur allt í kringum okkur sem hjálpaði okkur ofboðslega mikið. Ég sá einhverja fegurð í þessu öllu sam- an, satt best að segja,“ segir Ólafur og segist hafa fengið blóm, matarsendingar og skilaboð frá ólíklegasta fólki sem þau höfðu kynnst ein- hvers staðar á lífsleiðinni, auk mikils stuðnings frá þeirra nánustu. „Við vorum alveg umvafin. Í hvert einasta skipti sem ég gekk hér um hverfið hitti ég fólk sem faðmaði mig og sýndi mér samhug og vel- vild. Pabbi sagði í erfidrykkjunni að með svona margt gott fólk í kringum sig gæti maður ekki dottið. Það eru orð að sönnu,“ segir Ólafur og segist hafa hvatt fólk til þess að koma í heim- sókn frekar en að hringja. „Fyrstu vikuna var hér fólk í skipulögðum heimsóknum allan daginn. Ég skammast mín ekki fyrir það að ég notaði Facebook mikið í gegnum allt ferlið. Ég stofnaði hóp sem í voru um sjötíu manns og þar gat ég upplýst hópinn um veikindin og framvinduna. Og þegar ég kom heim notaði ég líka Facebook til að skipu- leggja heimsóknir. Við erum heppnir að eiga svona marga að,“ segir Ólafur og segist ekki hafa farið þá leið að loka sig inni eða breiða yfir haus. Auk þess að tala við sitt fólk leitaði hann sér hjálpar bæði hjá sálfræðingi og hjá Ljónshjarta, félagi til stuðnings ungu fólki sem misst hefur maka. Hann segir það hafa hjálpað sér. „Þar sá ég að það voru aðrir að glíma við það sama. Það er hluti af því að takast á við svona áföll að horfa aðeins út fyrir sjálfan sig og minna sig á að aðrir hafa gengið í gegn um það sama. Þetta er ekki ósanngirni heimsins sem er að leggjast með öllum sínum þunga á þig einan sem einstakling,“ segir Ólafur og bendir á að stór hluti Íslendinga hafi misst náinn ást- vin í blóma lífsins. „Þetta er nánast annar hver maður sem þú mætir. Mér finnst þetta samhengi skipta máli,“ segir hann. „Ég er nú ekki lífhræddur en hef alltaf í gegnum tíðina minnt mig á að lífið hangi á blá- þræði. Það er bara staðreynd. Ég missti sjálf- ur móður mína sem ungur maður, en hún var yngri en ég er núna þegar hún dó. Ég fylltist aldrei vonleysi Ég velti mikið fyrir mér sorgarferlinu. Ég var satt best að segja með smá áhyggjur af því að ég væri ekki nógu illa haldinn. Ég fór ekki í gegnum þessi fimm þrep sorgar; ég fór til dæmis hvorki í reiði né afneitun. Ég fór að kanna þetta betur og komst að því að þessi kenning er sett fram til þess að lýsa við- brögðum fólks sem er sjálft veikt og dauðvona, ekki aðstandendum,“ segir Ólafur. „Við feðgar allir þrír vorum ekki úr leik á neinum tímapunkti, þótt þetta væri mjög erf- itt. Við náðum að sinna okkar daglega lífi. Dag- inn eftir að Engilbjört dó fórum við á úrslit á Morfís í Háskólabíói, en Guðni hafði þá verið að þjálfa liðið í heila viku. Hann spurði mig hálffeimnislega hvort hann mætti fara á keppnina. Í fyrstu fannst mér það ekki viðeig- andi svona skömmu eftir andlátið. Ég hrein- lega spurði sálfræðing eftir á hvort þetta hefði verið í lagi, hvort við værum eitthvað skrítnir, en honum fannst það ekki. Við fórum og sáum ekki eftir því,“ segir hann. Ólafur las sér mikið til um sorgarferli. „Ég hef komist að því að það er hægt að vera mjög sorgmæddur og mjög glaður á sama deginum, sitt á hvað. Og það sé ekki óheilbrigt. Það er engin regla og allir upplifa það ekki þannig, en ég þarf ekki að skammast mín fyrir að vera öðru hverju líka glaður,“ segir Ólafur og segist hafa lesið bók eftir fræðimann sem segir rannsóknir sýna að það sé algengast að fólk sé ágætlega í stakk búið til að takast á við áföll. „Áföll eru hluti af lífinu, grátur, depurð og sorg eru partur af því. En ég fylltist aldrei vonleysi. Kannski er mér eðlislægt að horfa fram á veginn, að minnsta kosti með öðru aug- anu. Það var ekkert um annað að ræða en að halda áfram.“ Skrifin voru eins konar ritúal Talið víkur að minningarbókinni Meyjarmissi. „Ég byrjaði á að taka saman myndir og birta á minningarvef. Ég þurfti að hafa eitt- hvert verkefni sem tengdist Engilbjörtu og halda minningu hennar á lofti. Kannski myndi það hjálpa vinum og fjölskyldu að rifja upp all- ar góðu stundirnar. Þetta var eins og jóga eða hugleiðsla. Þetta var einfalt en tímafrekt og veitti mér hugarró. Vissulega var þetta erfitt en líka ánægjulegt að rifja upp gamla og góða tíma,“ segir Ólafur. „Það sem var erfiðast var að fara í gegnum föt- in hennar, en ég snerti þau ekki í heilt ár. Það er mjög misjafnt hvað fólk bíður lengi með svona hluti og kannski er ekkert eitt rétt. En þetta voru rosalega þung skref að taka því mér leið eins og ég væri að gefa yfirlýsingu um að hún væri ekki velkomin aftur; eins og ég væri að henda henni út. Þetta var eiginlega það erfiðasta við allt ferlið; að setja þennan punkt aftan við allt saman.“ Í kjölfar þess að fara í gegnum myndir og minningar ákvað Ólafur að taka saman frá- sögnina. „Í fyrsta lagi vildi ég skrásetja þetta betur fyrir sjálfan mig. Í öðru lagi upplýsa fjölskyldu og vini um hvað gerðist raunverulega í Sví- þjóð. Í þriðja lagi langaði mig að setja á blað þessar hugleiðingar um sorgarferlið. Það var mér uppgötvun að ferlið er ekki það sama hjá öllum, heldur ólíkt. Mig langaði að koma því á framfæri,“ segir Ólafur og segist hafa áttað sig á því síðar að skrifin hafi hjálpað honum við úr- vinnslu sorgarinnar. „Þegar ég var að skrifa var ég auðvitað með- vitaður um að sumir skrifa sig frá áföllum en mér fannst ég ekki vera að því; þetta væri ekki einhver meðferð. En svo þegar ég var búinn sá ég að ég fór að sakna þess að hafa ekki þetta verkefni. Skrifin voru eins konar ritúal eða helgiathöfn. Ég held að einhverjar slíkar at- hafnir séu öllum nauðsynlegar til að vinna úr sorg. Ég hefði eiginlega viljað skrifað þetta endalaust. Það var erfitt að sleppa pennanum og segja að þessu væri lokið. Þá sá ég að það var sjálfsblekking í byrjun að segja að ég væri ekki að þessu til að vinna úr sorginni. Ég var örugglega að því. Þetta gaf mér mjög mikið,“ segir Ólafur en hann birti alla bókina á síðunni engilbjort.is sem er opin öllum. Nú hefur hann gefið út bókina á prenti og fæst hún í Ey- mundsson og á Amazon. „Þegar ég birti bókina fyrst á vefnum fékk ég mjög mikil viðbrögð frá fólki sem sagði mér að frásögnin hefði hjálpað þeim. Það var mér ekki síst hvatning til að koma þessu á bók,“ segir Ólafur og segist sjálfur hafa fundið að lestur um áföll og sorg hafi hjálpað sér, bæði fræðigreinar svo og frásagnir fólks í fjöl- miðlum. Kannski þess vegna samþykkti Ólafur líka að koma í þetta viðtal. „Það eru endalaus viðtöl í fjölmiðlum eins og þetta, við fólk sem hefur orðið fyrir áföllum. Einhvern tímann fannst mér kannski of mikið af slíkum frásögnum en nú finnst mér þær bæði áhugaverðar og gagnlegar. Við erum ekki feimin við sorgina og það er gott.“ Sorgin verður alltaf með mér Nú eru liðin rúm tvö ár. Ertu kominn yfir það versta eða er hægt að tala um það? „Það er erfitt að segja til um það. Ég held í þessar minningar. Ég er ennþá með giftingar- hringinn. Ég er hvorki bitur né reiður. Ég hef svo margt að lifa fyrir og vera þakklátur fyrir; drengina okkar, fjölskyldu og vini, og þau for- réttindi að hafa átt svona yndislega manneskju að lífsförunaut í tæpan aldarfjórðung. Ég horfi bjartsýnn fram á veginn,“ segir Ólafur. „Þessi reynsla hefur fært mig nær öðru fólki. Velvild fólks stendur upp úr. Við erum eftir allt saman í sama báti.“ Það er kominn tími til að kveðja. Ólafur hef- ur vissulega lært margt og mikið síðustu árin um sorgina. „Manni má líða illa en manni má líka líða vel. Mér líður vel þótt sorgin verði alltaf með mér. Henni lýkur ekkert og hún getur verið falleg líka. Þótt það sé mótsagnakennt þá er einhver fegurð í sorginni. Hún er hin hliðin á ástinni; við höfum ekki annað án hins.“ Morgunblaðið/Ásdís Hjónin Ólafur og Engilbjört áttu gott líf saman í 23 ár en myndin er tekin á tónleikum í Hörpu. Engilbjört og Ólafur kynntust ung og störfuðu í nokkur ár sem flugþjónar hjá Atlanta. „Það sem var erfiðast var að fara í gegn um fötin hennar, en ég snerti þau ekki í heilt ár. Það er mjög mis- jafnt hvað fólk bíður lengi með svona hluti og kannski er ekkert eitt rétt,“ segir Ólafur Teitur.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.