Víkurfréttir - 22.09.2021, Qupperneq 18
Leikfélag Keflavíkur 60 ára:
Margir þekktir
leikarar stigu sín
fyrstu leiklistar-
skref í Keflavík
Leikfélag Keflavíkur á rætur að rekja til ársins 1940 en driffjöðrin
að stofnun leikstarfseminnar hér var Helgi S. Jónsson sem lék og
starfaði í leikfélaginu einkum á árunum 1940–1950. Draga fór úr
starfseminni eftir 1950, enda var þá orðið mikið um að vera í at-
vinnulífinu á svæðinu og tími manna minni fyrir vikið. Það var
svo á haustdögum árið 1961 að þau tímamót urðu í sögu leiklistar-
starfs á svæðinu, þegar nokkrir áhugamenn úr Keflavík og Njarðvík
komu saman, og stofnað var sameiginlegt leikfélag, Leikfélagið
Stakkur eftir klettadrangnum sem stóð undan Hólmsbergi utan
við Keflavík. Leikfélagið Stakkur var stofnað þann 19. september
1961 og hélst svo til 1965 þegar Njarðvíkingar stofnuðu eigið félag.
Leikfélagið Stakkur hélt nafninu sínu fram til ársins 1967 þegar
Leikfélag Keflavíkur var stofnað og hefur það verið starfrækt allar
götur síðan með einhverjum hléum þó.
Fyrst um sinn var Stapinn helsti
vettvangur leiksýninga en svo
bættist Félagsbíó við. Þó gerðist
það nokkuð oft að leikhópar þurftu
að leita í önnur húsnæði til æfinga
og sýninga sem reyndist þreytandi
fyrir leikhópa. Stórleikarinn Helgi
Skúlason var einn þeirra sem léði
félaginu lið á fyrstu starfsárum
þess og varð kannski valdur að
þeirri velgengni sem alltaf hefur
einkennt starfsemina.
Árið 1997 afhenti Karlakór Kefla-
víkur Reykjanesbæ neðri hæðina á
Vesturbraut 17 til eignar gegn því
að þar yrði alltaf einhver menn-
ingartengd starfsemi. Þáverandi
bæjarstjórn Reykjanesbæjar leysti
svo húsnæðisvanda leikfélagsins
þegar félagið fékk yfirráð yfir hús-
næðinu og hefur séð um rekstur
þess síðan. Með tilkomu Frum-
leikhússins leystist ekki aðeins
húsnæðisvandi leikfélagsins heldur
varð til fallegt menningarhús sem
hefur komið að góðum notum fyrir
fjölda viðburða, þó aðallega upp-
byggingu öflugs leiklistarstarfs fyrir
áhugaleiklistarfólk á öllum aldri.
Starfsemi leikfélagsins hefur
verið óslitin síðan Frumleikhúsið
var opnað og þegar þetta er skrifað
hafa verið settar á svið 54 sýningar
í Frumleikhúsinu ef rétt er talið og
því er Fyrsti kossinn sú 55. og 100.
sýning leikfélagsins frá stofnun
þess.
Leikfélagið gekk í gegnum
nokkur dvalatímabil á 7., 8. og 9.
áratug síðustu aldar en síðan 1988
hefur leikfélagið sýnt a.m.k. tvær
sýningar á ári, að undanteknu leik-
árinu 1996–1997 þegar leikfélagar
stóðu í framkvæmdum á Frumleik-
húsinu.
Leikfélag Keflavíkur er og
hefur verið eitt öflugasta starf-
andi áhugaleikfélag landsins og
stendur félagið að baki rekstri og
gróskumiklu starfi innan Frumleik-
hússins. Starfið byggist eingöngu á
áhugafólki og sjálfboðaliðum sem
leggur metnað sinn í að bjóða upp
á gott leiklistar- og menningarlíf í
Reykjanesbæ. Nafnið „Frumleik-
húsið“ á Sveindís Valdimarsdóttir
en hún sendi félaginu blómvönd
stuttu eftir opnun þess með ósk
um farsælt starf í Frumleikhúsinu
og þar með var nafnið komið. Áður
höfðu komið upp hugmyndir eins
og Skothúsið og Skjöldur.
Margir þekktir leikarar fengu
fyrstu reynslu sína af leiklist í
Keflavík, bæði fyrir árdaga Leik-
félags Keflavíkur sem og innan
félagsins. Þónokkrir hafa haldið
í leiklistarnám og einhverjir
hafa m.a. leikstýrt verkum hjá
leikfélaginu eftir útskrift og ein-
hverjir jafnvel stigið aftur á svið
Frumleikhússins sem leikarar.
Leikfélagið setur upp a.m.k.
tvær sýningar ár hvert ásamt því
að taka þátt í ýmsum viðburðum
bæjarins.
Frumleikhúsið
Frumleikhúsið var opnað form-
lega þann 4. október 1997 eftir
áratuga baráttu fyrir húsnæði og
síðan þá hefur Leikfélag Kefla-
víkur aldrei verið virkara. Þar hafa
verið haldnar ráðstefnur, tónleikar,
fundir og margt fleira. Stóri sal-
urinn rúmar í kringum 120 manns
í sæti og salurinn frammi rúmar
vel leikhúsgesti. Starfsemin er til
fyrirmyndar og þeir leikstjórar sem
unnið hafa með okkur eru sam-
mála um að hvergi finnist betri að-
staða áhugaleikfélags en hjá Leik-
félagi Keflavíkur.
Guðný Kristjánsdóttir og Hulda Ólafsdóttir
við opnun Frumleikhússins.
18 // vÍKURFRÉttIR á sUðURNesJUM Í 40 áR