Morgunblaðið - Sunnudagur - 17.04.2022, Side 4
FRÉTTIR VIKUNNAR
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17.4. 2022
Önnur umferð einkavæð-
ingar Íslandsbanka var
mjög til umfjöllunar í vik-
unni, en þá kom í ljós óeining í rík-
isstjórninni um hana. Lilja Alfreðs-
dóttir viðskiptaráðherra lét þannig í
sér heyra með afdráttarlausum
hætti og kvaðst hafa verið mótfallin
aðferðinni.
Nýjum samningum milli Sjúkra-
trygginga, fyrirtækja í velferð-
arþjónustu og sveitarfélaga var vel
tekið, en þar var tryggt aukið fjár-
magn, alls um 130 ma.kr. til 45
hjúkrunarheimila. Samningarnir
eru til þriggja ára.
Starfshópur um orkumál á Vest-
fjörðum telur efla þurfi raforkukerfi
fjórðungsins með a.m.k. einni öflugri
virkjun og nokkrum minni.
Bindandi kauptilboði í varðskipin og
systurskipin Ægi og Tý var tekið, en
íslenskur kaupandi bauð 125 millj-
ónir króna í skipin, sem voru smíðuð
fyrir Landhelgisgæsluna 1968 og
1975 og tóku dyggan þátt í þorska-
stríðunum.
Bæjarstjórn Stykkishólms leggur til
að hluta tekna ríkissjóðs vegna
bankasölu verði varið í að kaupa nýja
Breiðafjarðarferju. Sú gamla sætti
nokkurri gagnrýni í sjónvarpsþætti í
vikunni.
Velferðarsjóðurinn Vinátta í verki
undir stjórn Hrafns Jökulssonar
gekkst fyrir hátíð á Grænlandi um
páskana í samvinnu við Grænlands-
vini, Veraldarvini og fjölda fyr-
irtækja.
Ný kosningalög gera nánast
ómögulegt að skipa kjörstjórn í
smærri byggðarlögum, vegna hæ-
fiskrafna um að kjörstjórnarmenn
megi ekki tengjast frambjóðendum í
sjöunda lið. Sérstaklega þó í óhlut-
bundum kosningum, þar sem allir
eru í kjöri.
Davíð Scheving Thorsteinsson
iðnrekandi lést, 92 ára að aldri.
. . .
Sólveig Anna Jónsdóttir, sem er
nýtekin við formannsembætti verka-
lýðsfélagsins Eflingar á ný, átti
óvænt útspil þegar hún rak alla
starfsmenn félagsins og bar við
skipulagsbreytingum og launabreyt-
ingum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráð-
herra setti ofan í við Lilju Alfreðs-
dóttur viðskiptaráðherra og sagði
að hvorki Lilja né nokkur annar ráð-
herra hafi óskað að færa eitt eða
neitt til bókar um söluferlið, hvorki í
ríkisstjórn né ráðherranefnd um
efnahagsmál.
Fjármálaeftirlit Seðlabankans tók
hins vegar tiltekna þætti útboðsins á
hlutum í Íslandsbanka til skoðunar,
einkum þeim er sneru að starfs-
háttum söluráðgjafa útboðsins.
Mikið gekk á utan við og inni í Hval-
firði, þar sem heræfingar fóru fram
í íslensku gluggaveðri, þar sem þyrl-
ur, svifnökkvar, bryndrekar og
bandarískir landgönguliðar komu
við sögu.
Önnur umsvif Bandaríkjahers voru
einnig til umræðu, en forkönnun á
mengun við gömlu ratsjárstöðina á
Heiðarfjalli á Langanesi leiddi í ljós
að miklu þarf að kosta til við hreins-
un þar. Í jarðvegi er m.a. að finna
PCB og þungmálma.
Landskjörstjórn ákvað að skilja ný
kosningalög þannig að hæfisskilyrði
kjörstjórnarmanna ættu ekki við þar
sem óhlutbundin kosning færi fram.
Móttaka úkraínskra flóttamanna
hefur gengið mun betur eftir að ný
móttökumiðstöð í Domus Medica
var tekin í gagnið. Þó hefur ekki
gengið nógu hratt að gera lækn-
isskoðanir. Þegar eru 728 flótta-
menn frá Úkraínu komnir til lands-
ins.
Könnun á brunavörnum í landinu
leiddi í ljós að reykskynjarar eru í
98% heimila landsins.
. . .
Margir brugðust ókvæða við harka-
legum aðgerðum Sólveigar Önnu
Jónsdóttur, formanns Eflingar, sem
þeir töldu bera vott um skefjalausan
hefndarþorsta, en aðrir töldu að þar
væri vinnuveitendum fært fordæmi
á silfurfati.
Samherjar Sólveigar Önnu í átökum
innan Alþýðusambandsins, sem fara
fyrir öðrum samtökum launþega,
voru ekki við símann þann daginn,
en sumir aðrir verkalýðsforingjar
sögðu vinnubrögðin óvönduð og að
lög um hópuppsagnir hefðu verið
misnotuð.
Lokaverð hluta Íslandsbanka, sem
seldir voru í nýliðnu útboði Banka-
sýslunnar, réðst að miklu leyti af af-
stöðu lífeyrissjóða í aðdraganda
þess. Þeir þrýstu mjög á afslátt frá
markaðsverði ættu þeir að vera með.
Þess var minnst að 50 ár voru liðin
frá dauða Jóhannesar S. Kjarvals,
helsta jöfurs íslenskrar myndlistar.
Það var gert með því að bjóða upp á
brauðsneið á kaffistofu Kjarvals-
staða, sem líklegt þótti að honum
hefði fallið í geð hefði honum enst
aldur til.
Landsvirkjun hefur til athugunar að
hefja rafeldsneytisverkefni vegna
orkuskipta í samgöngum, annars
vegar á vetni fyrir stóra bíla og hins
vegar metanóli fyrir flotann.
Miklar annir voru í Leifsstöð í
dymbilviku, en sexfalt fleiri flug
verða þar um páskana en endranær.
Mikill ferðahugur er í fólki eftir
ferðatakmarkanir plágunnar og tals-
vert um að fólk framlengi dvöl ytra.
Vel er bókað í farþegaskip á leið til
Íslands í sumar og vonir um að
skipaferðir verði í einhverri líkingu
við það sem gerðist fyrir faraldur.
. . .
Agnieszka Ewa Ziólkowska, vara-
formaður Eflingar, var meðal þeirra,
sem sagt var upp störfum í hreins-
unum Sólveigar Önnu Jónsdóttur,
sem þar er orðinn formaður á ný.
Agnieszka dregur lögmætið í efa.
Vandræði vegna nýrra kosningalaga
héldu áfram, en formaður kjör-
stjórnar í Skorradalshreppi spurði
Persónuvernd hvort það stæðist að
birta þyrfti kennitölur og starfsheiti
fólks, sem beiddist undan kjöri í
óhlutbundinni kosningu.
Framkvæmdastjóri Sorpu vonast til
þess að unnt verði að endurræsa
Gaju, jarðgerðarstöð Sorpu í Álfs-
nesi, í næsta mánuði. Starfsemin þar
raskaðist í fyrra vegna myglu.
Miklar sveiflur hafa verið í stöðu-
vötnum, sem ber vott um öfgar í
vatnsbúskap landsins. Í fyrra lækk-
aði grunnvatnsstaða víða og
skammt er síðan yfirborð helstu
vatnslóna var óþægilega lágt, en
leysingar og miklar rigningar hafa
bætt úr því.
Ekki stendur til að gera víðtækar
breytingar á starfsumhverfi leigu-
bíla að sinni, en hins vegar á að
fjölga atvinnuleyfum leigubílstjóra
á höfuðborgarsvæðinu og Suð-
urnesjum úr 580 í 680. Viðvarandi
hörgull er sagður á leigubílum.
Kórónuveirufaraldurinn er nú á
hraðri niðurleið og líklegt talið að
hjarðónæmi hafi náðst. Hins vegar
hrjá langvinn einkenni um 10-15%
þeirra, sem veikst hafa.
Ásdís Halla Bragadóttir var ráðin
ráðuneytisstjóri í nýju háskóla-, ný-
sköpunar- og iðnaðarráðuneyti.
Elías Snæland Jónsson, ritstjóri og
rithöfundur, er látinn, 79 ára gamall.
. . .
Ráðist var á mann af tveimur öðrum
og hann stunginn með hníf í mið-
bænum á föstudagsnótt. Hann
þurfti að gangast undir aðgerð á
sjúkrahúsi og lögreglan hafði hend-
ur í hári árásarmannanna síðar um
nóttina.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður
VR, sagði hópuppsagnir starfs-
manna Eflingar hafa komið sér á
óvart, en vildi að öðru leyti ekki tjá
sig um aðferðirnar. Margir starfs-
manna Eflingar eru félagar í VR.
Af starfsmönnunum Eflingar var
það að segja að þeir komust ekki
lengur inn á innri vef skrifstofunnar,
þrátt fyrir að þeir viti ekki annað en
að þeir séu þar enn að störfum.
Nokkur hundruð manns komu á
mótmælafund sem ýmis stjórn-
arandstöðusamtök efndu til vegna
sölu á hlutum í Íslandsbanka. Ræðu-
mennirnir voru á því að Bjarni
Benediktsson fjármálaráðherra
yrði að segja af sér.
Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrver-
andi forsætisráðherra, kvaddi sér
óvænt hljóðs á Facebook og sagði
bankasöluna „sukk og svínarí“ sem
ekki kom jafnmikið á óvart.
Vor kann að vera í lofti og jafnvel
spáð allt að 14°C hita. Gleðilega
páska!
Heræfingar og
innanlandsófriður
Mikið gekk á í Hvalfirði þar sem heræfingar fóru fram í vikunni og landganga æfð. Ófriðlegra virtist þó á innanlandsvett-
vangi með hreinsunum og átökum í verkalýshreyfingu og deilum um bankasölu í ríkisstjórn og kaffistofum landsins.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
10.4.-15.4.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Fallegar vörur
fyrir heimilið
Sendum
um
land
allt
Tjarnargötu 2 | 230 Reykjanesbæ | Sími 421 3377 | bustod@bustod.is | www.bustod.is
Tokyo línan
Fáanlegt í svörtu, hnotu og eik