Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Side 10
STÚDENTAR
10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.5. 2022
„Hún fór í Verzló og varð svo stúdent frá
Kvennó. En mér tókst að sannfæra börnin
hennar Sigrúnar að fara í MR og þau gerðu
það.“
Stefnir á hærri einkunn en afi
Það er kominn tími til að heyra aðeins í
Tryggva yngri, sem setið hefur hjá okkur og
hlustað á afa sinn rifja upp gamla tíma.
Tryggvi segir menntaskólanámið hafa gengið
afar vel og að skólinn hafi verið skemmtilegur,
en hann útskrifaðist nú á föstudaginn frá nátt-
úrufræðideild MR.
Hann byrjar á að segjast enn vera að finna
út úr því hvað tekur við í haust. Þegar viðtalið
var tekið voru allar einkunnir utan stærðfræði
komnar í hús.
„Ertu kominn upp fyrir mig?“ spyr afinn
spenntur.
„Ég á eftir að fá úr ólesinni stærðfræði,
þannig að ég veit það ekki. Ég hef smá svig-
rúm til að ná því,“ segir hann.
„Strákskrattinn stefnir að því að verða
hærri en ég og ég verð að sætta mig við það.
Ég er samt ekkert leiður yfir því,“ segir
Tryggvi eldri og hlær.
Blaðamaður fær það út úr honum að stúd-
entseinkunnin hafi verið 8,72.
Og þú ætlar að verða hærri en afi?
„Ég stefni á það!“ segir ungi stúdentinn og
brosir.
Talið víkur að félagslífi og náminu sjálfu.
„Covid truflaði félagslífið. Ég stundaði það
mest í sjötta bekk enda hafði ég þá eignast
fleiri vini,“ segir Tryggvi og segir afa sinn
ekki hafa þurft að sannfæra sig um að fara í
MR.
„Það var alltaf MR. Bróðir minn og systir
voru á undan mér þar og ég hafði heyrt frá
þeim hræðilegar sögur af miklu álagi og var
því búinn að búa mig undir mikla erfiðleika.
En þetta var miklu auðveldara en ég bjóst
við,“ segir hann og segir kennarana hafa verið
afar góða og skemmtilega.
„Líffræðin var skemmtileg og efnafræðin.
Jarðfræðin var líka skemmtileg,“ segir
hann.
Tryggvi Ásmundur segist eins og afi hans
eiga afar góða félaga úr skólanum þó hann
nefni það ekki klíku, og segist svolítið hafa
stundað böllin.
Ertu kominn með kærustu?
„Nei, ég er ekki svo heppinn, því miður,“
segir hann sposkur.
Þetta voru margar langar nætur
Hefur þú leitað til afa þíns og fengið aðstoð við
námið?
„Já talsvert, alla vega í sögu. Það er svo
mikið efni og það er þægilegra að afi útskýri
það fyrir mér,“ segir hann og segist einnig
hafa leitað til hans og beðið um góð ráð.
„Í lesinni stærðfræði þarf maður að
standa fyrir framan kennara og prófdómara
og í fimmta bekk var ég gríðarlega stress-
aður. Þess vegna hringdi ég í afa fyrir munn-
lega stúdentsprófið í stærðfræði til að fá góð
ráð.“
Hvaða ráð gafstu unga manninum?
„Ég gaf honum þau ráð að sofa vel nóttina
fyrir prófið, líta ekki í bók í klukkutíma áður
en hann gengi upp, jafnvel fara í smá göngu-
túr. Slaka vel á og ganga rólegur inn. Hugsa
sig rólega um áður en hann byrjaði að tala eða
svara spurningum. Það liggur ekkert á. Kenn-
arinn getur vel beðið. Ég hef sjálfur verið
kennari og séð fólk alveg lokast í munnlegum
prófum.“
Tryggvi Ásmundur segir þessi ráð hafa
hjálpað sér. Hann segist hafa lært vel fyrir
stúdentsprófin.
„Þetta voru margar langar nætur,“ segir
hann.
„Þá hefur hann brotið reglur afa síns; ég
sagði honum að hann þyrfti alltaf að fá fullan
svefn. Þarna kemst upp um hann,“ segir afinn
í gríni.
En þótt þessi regla hafi verið brotin, fór
Tryggvi Ásmundur að ráði afa síns og snerti
ekki áfengi menntaskólagönguna.
„En daginn eftir að ég kláraði síðasta stúd-
entsprófið fékk ég mér smávegis í partíi.
Strákarnir eru búnir að vera í þrjú ár að reyna
að sannfæra mig um að fá mér í glas,“ segir
hann og brosir.
„Það leið nú ekki heldur langur tími hjá
mér,“ segir Tryggvi eldri og hlær.
Iðni, siðprýði og framfarir
Talið berst að dimmisjón og segir Tryggvi Ás-
mundur að bekkur hans hafi klæðst búningum
teiknimyndafígúranna Lilo & Stitch. Afi hans
upplifði öðruvísi skólalok.
„Þetta búningavesen var ekki byrjað þegar
ég útskrifaðist sem betur fer. Við fórum á lóð-
ina fyrir framan skólann og það var sungið og
hrópað og um kvöldið var borðhald og ball.
Stúdentsdagurinn sjálfur var mjög skemmti-
legur. Það var athöfn á sal og síðan var tekin
mynd af okkur á tröppunum og svo var ball
kvöldið eftir á Hótel Borg. Ég man vel eftir
þessu balli.“
Bauðstu dömu upp í dans?
„Já, ég held ég hafi látið mig hafa það,“ seg-
ir hann og hlær dátt.
„Við vorum 18 strákar í mínum bekk og
ég fékk að bjóða þeim heim í kaffi, en það
var ekki á sjálfan útskriftardaginn.
Stúdentsveislan var haldin heima í stofu. Þá
kom bara nánasta fjölskylda. Stúdents-
veislur voru miklu minni þá en nú,“ segir
hann og segist muna vel eftir einni stúd-
entsgjöf.
„Kristinn Ármannsson rektor og Þóra kona
hans voru miklir vinir foreldra minna. Þau
gáfu mér í stúdentsgjöf áritaða bók en það var
bókin Jörð í Afríku eftir Karen Blixen á
dönsku“.
Nú, 65 árum eftir stúdentsveislu Tryggva,
verður veisla fyrir Tryggva Ásmund í fallega
húsinu við Laufásveg. Vinur afa hans úr gömlu
klíkunni, Guðmundur Kr. Guðmundsson arki-
tekt, mun ekki láta sig vanta. Þeir tveir sem
eftir eru úr klíkunni gömlu eiga sjálfsagt eftir
að rifja upp margt þennan dag á meðan
Tryggvi nýstúdent býr til minningar sem end-
ast munu út ævina.
Hvernig tilfinning er það að klára mennta-
skóla?
„Það er mjög góð tilfinning og ég er spennt-
ur fyrir framtíðinni. Veislan verður hér í hús-
inu og ég býð 60-70 manns. Svo verður partí
um kvöldið og á laugardaginn júbílantaball,“
segir Tryggvi og Tryggvi eldri segist ætla að
mæta í Háskólabíó, horfa á barnabarnið út-
skrifast og halda sjálfur upp á 65 ára stúdents-
afmælið.
Við förum að slá botninn í skemmtilegt við-
tal í fallegu stofunni í fjölskylduhúsi þeirra
nafna. En áður en blaðamaður heldur á brott
dregur afinn fram gamla bók sem faðir hans
Ásmundur biskup átti eitt sinn. Hana fékk
hann í MR sem viðurkenningu fyrir „iðni, sið-
prýði og framfarir“ eins og ritað er á hana.
Bókin Menneskeaandens sejre frá 1904 fjallar
um uppfinningar.
„Ég ætla að gefa stráknum þessa bók, hún
er nokkuð merkileg.“
Tryggvi Ásmundur Briem varð stúdent frá MR á föstudaginn og afi hans, Tryggvi Ásmundsson, er 65
ára stúdent frá sama skóla. Stúdentsveislur nafnanna eru báðar haldnar í sama húsinu við Laufásveg.
Vinir fyrir lífstíð og samstúdentar, frá vinstri; Guðmundur Kr. Guðmundsson arkitekt, Björn
Björnsson professor í guðfræði, Þórður Þorbjarnarson borgarverkfræðingur, Tryggvi Ásmundsson
læknir og Ólafur B. Thors lögfræðingur og forstjori. Tveir eru enn á lífi, Tryggvi og Guðmundur.
Ljósmynd/Ósvaldur Knudsen
’
Í lesinni stærðfræði þarf mað-
ur að standa fyrir framan
kennara og prófdómara og í
fimmta bekk var ég gríðarlega
stressaður. Þess vegna hringdi ég í
afa fyrir munnlega stúdentsprófið
í stærðfræði til að fá góð ráð.