Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Blaðsíða 12
VIÐTAL
12 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.5. 2022
Þ
etta er það erfiðasta sem ég geri,
að fara í viðtöl. Þá þarf ég að vera
ég sjálf,“ segir leikkonan ástsæla,
Ragnheiður Steindórsdóttir, sem
fylgt hefur leiklistargyðjunni alla
ævi. Heiða, eins og hún er oftast kölluð, býður í
bæinn í fallegt hús sitt á Seltjarnarnesi.
Í anddyrinu rekur blaðamaður augun í
svarthvíta ljósmynd af foreldrum Heiðu,
leikarahjónunum þekktu, Steindóri Hjörleifs-
syni og Margréti Ólafsdóttur. Ljóst er að
Heiða er lifandi eftirmynd móður sinnar; sama
brosið, sami augnsvipur.
„Já, finnst þér ekki? Stundum þegar ég er á
gangi í bænum og sé spegilmynd minni bregða
fyrir í gluggum verslana, bregður mér í brún.
Þar er þá móðir mín lifandi komin,“ segir
Heiða og brosir.
Hún ber aldurinn vel, er kvik í hreyfingum,
brosmild og ekki að sjá að hún sé að verða sjö-
tug eftir aðeins fáeinar vikur.
„Hvern hefði grunað þetta! Það er dásam-
legt að fá að vakna á morgnana og sem betur
fer er ég svo hress og orkumikil,“ segir Heiða
og ekki er annað að sjá en að hún sé í fullu
fjöri. Hún leikur sem stendur í tveimur leik-
ritum í Þjóðleikhúsinu og sést á skjánum bæði
í Brúðkaupinu mínu og Vitjunum.
Fékk alla ástina ein
„Ég fæddist heima hjá ömmu og afa í Vest-
mannaeyjum, því þótt foreldrar mínir hafi búið
í Reykjavík, fór mamma til Eyja til að eiga
mig. Pabbi var að vinna svo mikið, á daginn í
banka, því á þeim tíma var alls ekki hægt að
lifa af því að vera eingöngu leikari, og var svo í
leikhúsinu á kvöldin. Hann tók líka vaktir sem
næturvörður í gamla Landsbankahúsinu,“
segir hún og segir hann einmitt hafa verið á
næturvakt í bankanum þegar hann frétti af
fæðingu einkabarnsins.
„Hann sagðist hafa hlaupið á milli allra
fallegu málverkanna og hrópað til þeirra að
hann væri orðinn pabbi,“ segir hún og hlær.
„Mamma veiktist mikið þegar hún gekk
með mig; hún fékk ofvirkan skjaldkirtil og
veikindin höfðu áhrif á allt hennar líf. En hún
var alltaf glöð og jákvæð þótt hún væri oft
mjög lasin,“ segir Heiða, en fleiri urðu börn-
in ekki.
„Ég er einbirni. Þau langaði í stóran barna-
hóp, helst tólf! En svo varð það bara ég. Þessi
veikindi mömmu settu strik í reikninginn,“
segir hún og segist hafa átt dásamlega æsku
og afar skemmtilega og ástríka foreldra.
„Ég fékk alla ástina sem hefði örugglega
dugað tólf,“ segir hún og hlær dátt.
Foreldrar Heiðu voru landsþekktir leikarar,
þótt tímarnir hafi verið aðrir og leikarar þá
ekki jafn áberandi og nú.
„Fólk fór mikið í leikhús og ég fann alveg
fyrir því að fólk þekkti foreldra mína, en það
var fyrst þegar pabbi lék í Deleríum Búbónis í
Iðnó að ég uppgötvaði hvernig „frægðin“ virk-
aði. Þar söng hann sig inn í hjörtu landsmanna
með laginu Einu sinni á ágústkvöldi, ungur og
fallegur. Þá fór síminn að hringja heima og oft
voru það smástelpur á línunni að spyrja: Er
Steindór heima? Ég var kannski um tíu ára
gömul og fannst þetta mjög asnalegt. Við
mamma hlógum mikið að þessu.“
Ætlaði að verða ballerína
Foreldrar Heiðu störfuðu bæði í Þjóðleikhús-
inu og hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
„Ég veit ekki betur en að pabbi hafi verið
eini leikarinn sem var í öllum opnunarsýn-
ingum Þjóðleikhússins og mamma lék í einni
þeirra og hlutverkin þeirra þar voru fleiri. En
eftir að Þjóðleikhúsið var vígt voru margir sem
vildu leggja starfsemi Leikfélags Reykjavíkur
niður. Hópur fólks ákvað að það mætti ekki
gerast og þau voru þeirra á meðal. Þau helg-
uðu Leikfélaginu krafta sína eftir það og ég
var oft með þeim í vinnunni. Heima var mikið
talað um leiklistina og við sáum allar sýningar
í bænum. Leikhúsið heillaði mig og mér leið
alltaf vel þar, fannst það bæði skemmtilegt og
spennandi en ég ætlaði samt að verða ballerína
og byrjaði sjö ára í listdansskóla Þjóðleikhúss-
ins. En þegar ég var tólf ára var mér orðið svo
illt í fótunum og læknirinn sagði að ég mætti
ekki lengur stunda dansinn. Þetta var hrika-
legur skellur fyrir tólf ára stelpu og mjög
dramatískt. En ég hefði aldrei orðið ballerína;
ég hafði hvorki vöxtinn í það né skapgerðina
og það var því lán í óláni að vera bannað að
dansa ballett.“
Sjö ára gömul steig Heiða fyrst á fjalirnar í
Iðnó þegar hún lék í sýningu sem hét Sex
persónur leita höfundar. Næst var það í
miðjum stúdentsprófum, í verkinu Dómínó eft-
ir Jökul Jakobsson.
„Ég lék í öllum skólaleikritum og kom fram
á skemmtunum. Við vorum tvö leikarabörnin í
bekknum, ég og Sigþór heitinn, sonur Bessa
Bjarnasonar. Við vorum hringtrúlofuð frá sjö
ára aldri, með plathringum, og vorum kær-
ustupar allan barnaskólann,“ segir hún og
hlær að minningunni.
„Við vorum alltaf valin í leikritin og hinum
börnunum hefur væntanlega þótt það órétt-
látt, þó ég hafi ekki fundið það á þeim tíma.“
Hún segist aldrei hafa verið feimin sem barn
þegar hún var á sviði eða að lesa upp ljóð.
„Stundum taugaóstyrk auðvitað og það
hrjáir mig enn í dag, en mér líður best þegar
ég hef karakter og kringumstæður til að fela
mig bak við. Sjálfstraustið er oft ansi veik-
burða þegar ég þarf að koma fram í eigin per-
sónu. Ég er frekar feimin. Ég svitna í lóf-
unum, þorna í munninum, titra og skelf ef ég
þarf að standa upp á félagsfundi og segja
skoðun mína. Það er átak. Að halda ræðu í
veislu er bara skelfing. Ég geri það bara helst
ekki!“
Hvernig barn varstu?
„Ég held ég hafi verið ósköp meðfærileg,
samviskusöm og ljúf, enda allir svo góðir við
mig. Ég hef samt oft hugsað að ég hefði mátt
hafa meira skap.“
„Ég er frekar feimin“
„Ég heyri stundum unga fólkið segja
skemmtissögur af leikurum fortíð-
arinnar. Ég segi ekki endilega margt
þó ég heyri að sögurnar hafi kannski
breyst ansi mikið. Maður á ekki að
láta sannleikann trufla góða sögu og
ein fjöður verður gjarnan að fimm
hænum,“ segir leikkonan Heiða.
Morgunblaðið/Ásdís
Ragnheiður Steindórsdóttir
steig fyrst á svið sjö ára gömul
og fljótt var ljóst hvert hugur
hennar stefndi. Einkadóttir
leikarahjóna fetaði í fótspor
foreldranna og hefur leikið í
leikhúsum, kvikmyndum
og sjónvarpi, lengst af í
Þjóðleikhúsinu, þar sem hún
hefur verið á fjölunum í
hartnær fjörutíu ár.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
’
Ég svitna í lófunum, þorna í
munninum, titra og skelf ef
ég þarf að standa upp á fé-
lagsfundi og segja skoðun mína.
Það er átak. Að halda ræðu í
veislu er bara skelfing. Ég geri
það helst ekki!