Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Page 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Page 15
29.5. 2022 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15 „Á þessu lokaári mínu hef ég leikið í Karde- mommubænum, Jólaboðinu, Ást og upplýs- ingum og svo er ég að æfa í söngleiknum Sem á himni, sem átti að vera búið að frumsýna en frestaðist vegna faraldursins og verður frum- sýndur í haust. Svo það hefur sjaldan verið meira að gera og verkefnin öll mjög skemmti- leg,“ segir Heiða. „Mín hollusta hefur alltaf verið fyrst og fremst við Þjóðleikhúsið. Eftir sjötugt má ég svo vinna áfram sem lausráðin en þá get ég farið að velja; ég má segja já eða nei. Ég hef enn svo mikla orku,“ segir Heiða og segir að sér hafi yfirleitt þótt starfið gefandi og ánægjulegt. Spurð hvort hún hafi einhvern tímann þurft að leika í leiðinlegu verki, svarar hún eftir smá umhugsun: „Það er auðvitað ekki alltaf jafn gaman en því er maður fljótur að gleyma.“ Giftust á sviði Iðnó Heiða á afar góðar minningar frá Iðnó. „Ég elskaði Leikfélag Reykjavíkur og Iðnó, það var mitt hús. Við Nonni kynntumst þar, störfuðum þar bæði og enduðum á að gifta okkur þar uppi á sviði árið 2014 eftir 39 ára sambúð, en þá var hann orðinn veikur og var á leið í tvísýna aðgerð. Við höfðum alltaf ætlað að gifta okkur en einhvern veginn fórst það fyrir. En þarna buðum við nánustu fjölskyldu og vinum til veislu með viku fyrirvara en eng- inn vissi samt að það yrði brúðkaup. Við sögð- umst bara ætla að halda dúndurpartý áður en Nonni færi í aðgerðina. Svo fólk mætti bara á gallabuxunum. Við fengum tónlistarmenn til að spila öll gömlu Iðnó-lögin og svo leiddi sonur okkar mig í salinn. Þá fóru þeir að spila brúðarmarsinn og fólk brosti í gegnum tárin þegar það sá brúðarvöndinn og prestinn sem birtist á sviðinu. Þetta var alveg dásamlegt!“ segir Heiða, en Jón lést tveimur árum síðar úr krabbameini, aðeins 67 ára gamall. Þau hjón eiga tvö uppkomin börn, Steindór Grétar fæddist 1985 og Margrét Dórothea er fædd 1990. „Ég veiktist á meðgöngu eins og mamma af ofvirkum skjaldkirtli og var sagt að ég yrði að bíða með frekari barneignir. Verandi einbirni langaði mig afskaplega mikið að Steindór eign- aðist systkini og Margrét kom eins og kölluð um leið og ég fékk grænt ljós, fimm árum seinna,“ segir hún og aðspurð segir hún börnin bæði hafa leikið í útvarpi og barnaleikritum á fjölum stóru leikhúsanna tveggja, en þau hafi valið sér annan starfsvettvang. Þó er greini- legt að genin verða ekki umflúin. „Margrét hefur mikinn áhuga á Burlesque- leikhúsi, er í slíkum hópi sem heitir Dömur og herra og syngur í bráðskemmtilegum kór. Steindór hefur gaman af spunaleikhúsi og er í spunahópi úti í Berlín þar sem hann býr með sinni konu, en starfar mest við blaða- mennsku,“ segir Heiða. Barnabörnin eru fjög- ur; þrjú sem tengdasonurinn færði henni í kaupbæti og einn lítill kútur, Steindór Gísli, sem verður þriggja ára í haust. Þrjár gullfallegar ljóskur Talið berst að útvarpi, kvikmyndum og sjón- varpsþáttum sem Heiða hefur leikið í, en hlut- verkin þar eru einnig orðin fjölmörg. „Ég sakna þess að leika fyrir útvarp. Það er krefjandi og skemmtilegt. Hér áður fyrr var út- varpsleikhúsið stór hluti af starfinu en nú virðist það hreinlega liðið undir lok, hefur breyst í ein- hvers konar þáttagerð. Leikarar eru líka sjald- an fengnir í upplestur lengur, þáttastjórnendur eru bara lesarar í þáttum hvers annars. Þetta er leiðinleg þróun,“ segir hún. Heiða lék Auði í kvikmyndinni Útlaganum. „Það var mikið ævintýri og Nonni minn gerði leikmynd og búninga. Ég man að einn gagnrýnandinn skrifaði að þarna væru í kven- hlutverkum þrjár gullfallegar ljóskur sem örugglega myndu vekja áhuga erlendra kaup- enda að myndinni. Svona var nú sagt þá en yrði líklega ekki sagt nú, á tímum pólitískrar rétthugsunar,“ segir hún kímin, en myndin kom út árið 1981. „Áður hafði ég leikið aðalkvenhlutverkið í breskri þáttaröð frá BBC sem heitir Running blind,“ segir hún en þáttaröðin hét á íslensku Út í ósvissuna og var byggð á skáldsögu eftir Desmond Bagley. „Það var óskaplega gaman, þættirnir voru að mestu teknir upp hér því sagan gerist hér á landi,“ segir hún og svo stóð til að gera fram- haldsþáttaröð. „Ég átti bara eftir að undirrita samninginn en upptökur áttu að fara fram á Spáni. Þá stöðvaði breska leikarafélagið ráðninguna, þar sem atvinnuleysi í leikarastétt á Bret- landi var nærri 80% og engir samningar þá um atvinnufrelsi í Evrópu. Þetta ævintýri féll því um sjálft sig. Eftir útskriftina úr Bristol bauðst mér líka samningur við umboðsmann og hlutverk í leikhúsi, en ég hafði ekki at- vinnuleyfi sem leikari. Nú er öldin önnur; fólk er með umboðsmenn og er frjálst að leika úti um allan heim.“ Við höldum áfram að rifja upp gamla daga. „Ég lék í fyrstu íslensku sjónvarpsseríunni; Undir sama þaki sem var í svarthvítu. Ég lék þar kærustu Ladda og við höfum skemmt okk- ur vel við að rifja það upp undanfarið, því ég lék líka kærustuna hans í Jarðarförinni og Brúðkaupinu. Eftir öll þessi ár!“ segir hún og brosir. „Svo lék ég Þórgunni í Föstum liðum eins og venjulega, en var hrædd um að ég gæti ekki verið með því ég var orðin ófrísk. Gísli Rúnar heitinn sagðist bara redda því. Það var skrifað inn í handritið að Indi hefði gleymt að taka pilluna sína, svo það útskýrði óléttuna. Þætt- irnir voru ekki teknir í réttri röð svo ég held að bumban hljóti að hafa stækkað og minnkað milli þátta,“ segir hún og hlær. „Ég fór líka með hlutverk í fyrsta leikritinu sem tekið var í lit. Nonni minn starfaði þá í sjónvarpinu og gerði leikmyndina. Hann var einmitt sendur til Danmerkur að læra leik- myndagerð fyrir litasjónvarp. Verkið hét Mað- urinn sem sveik Barrabas og var sýnt á pásk- um. Mér finnst gaman að hafa verið í þessari fyrstu litapródúksjón Sjónvarpsins,“ segir hún. „Ég hef lítið verið í bíómyndum eftir Útlag- ann, en nefni þó Ég man þig. En ég hef verið í mörgum þáttaröðum á borð við Hamarinn, Rétt og Brot. Mér finnst mjög gaman að leika í sjónvarpi og var núna nýlega í Jarðarförinni, Brúðkaupinu og Vitjunum. Ég hef gjarnan leikið glæsilegar, fínar og flottar konur og finnst mjög gaman að missa aðeins andlitið og fá að vera breysk, eins og hún frú Guðríður mín í Vitjunum.“ Full aðdáunar á konum Hlutverkum fyrir konur hefur fjölgað mjög að undanförnu og jafnvel er nú margt í boði fyrir konur af eldri kynslóðinni. „Það er allt að breytast til batnaðar vegna þess að nú eru konur farnar að skrifa, leik- stýra og framleiða. Það er dásamlegt! Ég tek til dæmis ofan fyrir Kolbrúnu Önnu Jóns- dóttur, Valgerði Þórisdóttur og Evu Sigurð- ardóttur fyrir seríuna Vitjanir, sem þær skrifa og leikstýra; það er miklu meira en að segja það og mörg fjöll að klífa að koma þessu á koppinn. Konur eru að sækja í sig veðrið á öll- um póstum í þessum geira og það er frábært að fylgjast með því. Ég er full aðdáunar á kon- um á öllum aldri í dag,“ segir hún. „Áfram stelpur! Það þarf auðvitað nauðsyn- lega að segja sögur kvenna, sem eru jú helm- ingur mannkyns! Karlarnir hafa fengið mesta athygli fram til þessa, en ég held að þeir hljóti nú bara að vera ánægðir með þessa þróun líka. Við hljótum að ná betri skilningi og sátt ef við sjáum lífið eins og það blasir við öllum, ekki bara sumum.“ Heiða segist hafa verið heppin í starfi og nýtur sín á sviði. „Ég er kannski misjafnlega vel upplögð, en þegar ég er komin á staðinn og hitti fólkið er alltaf gaman, því leikhúsið er fullt af skemmti- legu fólki. Og kvikmyndageirinn líka. Mér finnst alveg dásamlegt að vinna með unga fólk- inu okkar. Þau eru vel menntuð og klár, þrælfl- ink og fagmennskan mikil. Það ríkir líka yf- irleitt mikil samheldni og virðing,“ segir hún. „Ég heyri stundum unga fólkið segja skemmtisögur af leikurum fortíðarinnar. Ég hef gaman af og segi ekki margt, þótt ég heyri að sögurnar hafi kannski breyst ansi mikið með tímanum. Maður á helst ekki að láta sann- leikann eyðileggja góða sögu og þegar ein fjöð- ur verður að fimm hænum er bara meira hleg- ið og oftast ríkir góðvildin ein,“ segir Heiða kímin. Heiða segir að sig langi til að halda áfram að leika. „Ég vona að ég fái að halda heilsu og að ég geti notið þess að vera virk. En svo verður líka dásamlegt að fá meiri tíma með með fjölskyldu og vinum. Mig langar líka að leika mér oft og mikið við litla vininn minn, hann Steindór Gísla. Samverustundum hefur fækkað undanfarið, bæði í faraldrinum og vegna vinnuálagsins. Mig langar að bæta úr því. Kannski kemst ég á skemmtileg námskeið og get bætt við þekkingu mína. Kannski auðnast mér að sjá meira af ver- öldinni. En það sem mér er samt efst í huga er vonin um betri heim fyrir komandi kynslóðir, loftslags - og umhverfismálin og baráttan fyrir mannvirðingu, jafnrétti og umburðarlyndi. Við verðum einfaldlega að gera betur.“ Morgunblaðið/Ásdís ’ Ég var alltaf að kveikja í nýrri og nýrri sígarettu, en þegar ég sá útkomuna þá sást svo lítið af þessum reykingum! Við vorum þrjá eða fjóra daga að taka upp og ég var orðin græn í framan af öll- um þessum reykingum!

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.