Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.05.2022, Blaðsíða 22
22 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.5. 2022
KNATTSPYRNA
S
ynd væri að segja að nýgræð-
ingar og boðflennur tækjust á
um Evrópubikarinn í dag en
Real Madrid hefur unnið mótið lang-
oftast allra félaga, 13 sinnum, og
Liverpool deilir þriðja sætinu með
Bayern München, en hvort félag
hefur lyft þeim eyrnastóra sex sinn-
um og getur nú jafnað við AC Milan
sem býr að sjö titlum.
Flestir sparkskýrendur hallast að
því að Liverpool sé sigurstranglegra
í dag en enginn skyldi afskrifa
Madrídinga. Spyrjið bara Paris Sa-
int-Germain, Chelsea og Manchest-
er City sem þeir hafa slegið út á leið
sinni í úrslitin. Það eru sko engir
aumingjar með hor, skal ég segja
ykkur. Fráfarandi Evrópumeistarar
og nýbakaðir landsmeistarar í
Frakklandi og Englandi. Pep Guar-
diola er enn með asahláku í iðrum
eftir ævintýralegt lokaáhlaup Madr-
ídinga í undanúrslitunum.
Samanborið við þessa Fjallabaks-
leið þá krúsaði Liverpool bara í úr-
slitin á bundnu slitlagi og þurfti ekki
einu sinni að setja nagla undir gegn
Inter Milan, Benfica og Villarreal
sem öllum að óvörum skaut upp koll-
inum í samkvæminu á lokastigum.
Spænsku partíljónin rifu sig meira
að segja á kassann í seinni leiknum,
þangað til Púlaranir fengu nóg og
hentu þeim öfugum út. Takk fyrir
komuna, piltar, hér eftir er dans-
gólfið okkar! Þá voru þeir Emery-
ingar búnir að hrista af sér bæði Ju-
ventus og Bayern München.
Til að gera langa sögu stutta þá
hefur einn maður borið Real-liðið á
herðum sér í úrslitin, franski mið-
herjinn Karim Benzema sem þegar
hefur gert 15 mörk í Meistaradeild-
inni í vetur í aðeins 11 leikjum. Það
er galin tölfræði í bestu deild í heimi.
Besti árangur Frakkans í þeirri
ágætu deild fram að því var sjö mörk
fyrir áratug. Hann státar af þeim
mergjaða árangri að hafa skorað í
Evrópukeppni á hverju einasta
tímabili frá 2005-06. Við erum að
tala um 17 tímabil í röð. „Þetta er
ekki mennskt,“ eins og Einar Bolla-
son myndi orða það ef hann væri að
skrifa þessa grein.
Markahæsti leikmaður Liverpool
í Meistaradeildinni í vetur er Moha-
med Salah með átta mörk í 12 leikj-
um – sem er alls ekki slæmt heldur.
Benzema heyrir til genetískri
undrakynslóð sóknarmanna sem
harðneita að eldast en hann verður
35 ára síðar á þessu ári. Einnig má
nefna Zlatan Ibrahimovic’’ (40 ára),
Cristiano Ronaldo (37 ára), Olivier
Giroud (35 ára) og Robert Lew-
andowski (33 ára). Auðvitað má líka
nefna Lionel Messi (að verða 35 ára)
í þessu sambandi enda þótt heldur
hafi nú bráð af honum í París.
Benzema er að ljúka sínu lang-
besta tímabili á ferlinum, stendur í
44 mörkum í 45 leikjum í öllum
keppnum. Mest hafði hann áður
skorað 32 mörk fyrir Real, fyrir ára-
tug, og áberandi er hvað hann hefur
tekið meira til sín eftir að téður Ro-
naldo yfirgaf félagið 2018. Eftir það
er hann með tæp 33 mörk að meðal-
tali á vetri. „Nú, fyrst aðalkallinn er
laus þá skal ég bara vera hann,“
sagði sá franski, bretti upp á var-
irnar, yppti öxlum og fékk sér væn-
an bita af hvítlauksbrauði.
Svo lengi hefur Benzema verið hjá
Real, hann kom 2009, að margir
þurfa ábyggilega að grafa djúpt til
að muna hvar hann lék áður. Nei,
nei, þetta er engin gáta. Það var
Lyon, heima í Frakklandi.
Talandi um það, þá verður Ben-
zema á heimavelli í dag en leikurinn
verður háður á Fransvangi í hinu
geðþekka hverfi Saint-Denis í París.
Ef þið eruð á leið utan gerið þá í
öllum bænum ráðstafnir með ferðir
en ég þekki mann sem horfði á liðið
sitt tapa úrslitaleik í Meistaradeild-
inni á þessum sama velli, fékk ekki
leigubíl á eftir og þurfti að ganga í
þrjá tíma heim á hótel. Þegar þang-
að var komið var búið að loka barn-
um! Enginn verður óbarinn biskup.
Liverpool hefur ábyggilega áform
um að ganga milli bols og höfuðs á
Madrídingum í venjulegum leiktíma,
eða til vara í framlengingu, en fari
rimman alla leið í vítakeppni þá er
lítið að óttast, Rauði herinn er nefni-
lega stríðþjálfaður í þeim vísindum
og í ofboðslegri æfingu eftir að hafa
lagt Chelsea í tvígang í bikar-
keppnum heima fyrir. Nú sé ég minn
gamla félaga Arngrím Baldursson,
sem er að ég held á launaskrá hjá
Liverpool, rjúka upp frá morgun-
verðarborðinu, slá sér á lær og blóta
mér í sand og ösku. „Ætlarðu nú að
fara að jinxa þetta, lagsi?“ Nei,
gamli minn, hafðu engar áhyggjur,
ég hér við lúið lyklaborðið á sveita-
setri mínu á Kjalarnesi hef ekkert
um útkomuna á Fransvangi að
segja. Ég lofa! Auðvitað væri gaman
að geta fjarstýrt svona hlutum en
því miður, þannig virkar heimurinn
víst ekki. En maður á aldrei að
brenna af því dauðafæri að grilla að-
eins í Púlurum enda er sá söfnuður
upp til hópa hjátrúarfyllri en roskn-
ustu bændur á Héraði.
Þess utan þarf enga spekinga til
að telja Þjóðverja sigurstranglegri í
vítakeppni en þaðan er jú hershöfð-
inginn á Anfield, Jürgen Klopp, góð-
kunningi Sunnudagsblaðs Morgun-
blaðsins. Og þau hjónin bæði. Ulla
og hann.
Stjóri Real, Carlo Ancelotti, er frá
Ítalíu. Reyndar svaðalegur sigur-
vegari líka, búinn að vinna allar
stærstu deildir Evrópu, einn manna,
og hlýtur að fara að taka við Val.
Á harma að hefna
En að öllu grilli slepptu þá á Liver-
pool harma að hefna en liðið lá fyrir
Spánverjunum í úrslitaleik Meist-
aradeildarinnar fyrir fjórum árum.
Þegar Gareth Bale gerði eitt af
undramörkum Evrópusögunnar og
Loris Sven Karius átti ekki sinn
besta dag í markinu hjá Liverpool.
Bale bætti við öðru marki, eins okk-
ar maður Benzema. Sadio Mané
skoraði mark Liverpool en leikið var
í Kænugarði.
Þetta var síðasti úrslitaleikurinn
sem Liverpool tapaði en liðið sneri
banhungrað aftur ári síðar og lyfti
bikarnum eftir sigur á löndum sín-
um í Tottenham Hotspur.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar
síðan og Liverpool-liðið orðið mun
sterkara og leikmannahópurinn
breiðari en bæði 2018 og 2019. Inn
eru komnir nokkrir nýir menn sem
eru sólgnir í þann stóra.
Hitt eru þó verri fréttir að Real
Madrid hefur aldrei tapað úrslitaleik
eftir að mót mótanna var vatni ausið
og endurskírt Meistaradeild Evr-
ópu. Við erum að tala um sjö leiki og
sjö sigra og síðasta tapið kom 1981.
Gegn hverjum? Jú, nema hvað – Liv-
erpool. Muniði hver var með sigur-
markið? Jú, Alan gamli Kennedy.
Hver mun standa í hans sporum í
dag? Hver vill ekki vera Kennedy?
Hver vill ekki vera Kennedy?
Risarnir Liverpool og
Real Madrid berjast um
sigurlaunin í Meist-
aradeild Evrópu á
Fransvangi í París í
dag, laugardag. Hvor-
ugt lið er þar á fram-
andi slóðum og þekki
maður þau rétt þá mun
lítið skilja á milli.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Mohamed Salah, erkiskytta Liverpool, sækist eftir sínum öðrum Evrópubikar.
AFP
Karim Benzema er markahæstur í Meistaradeildinni í vetur með 15 mörk.
AFP
’
Samanborið við þessa
Fjallabaksleið þá
krúsaði Liverpool bara í
úrslitin á bundnu slitlagi
og þurfti ekki einu sinni
að setja nagla undir.