Norðurslóð - 26.04.2022, Page 4

Norðurslóð - 26.04.2022, Page 4
4 – Norðurslóð Aðalbjörg Kristín Jóhannsdóttir yfirleitt kölluð Kitta og maður hennar Rúnar Bjarnason festu nýverið kaup á Laugabrekku í Laugarhlíðartorfunni af Birni (Bubba) heitnum Júlíussyni, föðurbróður Kittu og Fjólu Guðmundsdóttir. Kitta er fædd og uppalin Dalvíkingur en flutti ung að heiman og hefur alið manninn sunnan heiða meira og minna síðan. Þegar blaðamann Norðurslóðar bar að garði voru Kitta og Rúnar í stuttri helgarferð með yngsta stráknum sínum Gísla Dan, sem hafðist við kökubakstur meðan á spjalli okkar stóð. Eins og í litlu ítölsku sveitaþorpi Foreldrar Kittu, Jóhann Daníelsson og Gíslína Hlíf Gísladóttir fluttu til Dalvíkur 1973 og byggðu síðar Sunnubraut 14, uppeldisheimili Kittu. „Húsið var innsta húsið í Sunnubrautinni og eina húsið svona sunnarlega í götunni lengi vel. Pabbi hafði plottað að vera eins nálægt Stólnum og hann gat, þannig að ekkert hús myndi koma og skyggja á hann. Við bjuggum þarna innst inni á meðan það var að byggjast upp í kringum okkur. Þetta var pínu óhugnanlegt þegar maður var krakki að hlaupa þarna á milli á þessum ljóslausa kafla, maður hljóp bara fyrir lífi sínu í gegnum myrkrið” segir Kitta og hlær. “Á unglingsárunum gat maður ekki komist nægilega hratt frá Dalvík til þess að sjá heiminn, fara í menntaskólann og þetta allt saman, það var bara eins og að fara til útlanda að fara til Akureyrar. En ég átti æðisleg uppeldisár á Dalvík og á marga góða vini þaðan og auðvitað fólk sem kenndi manni, sem ég síðar kenndi með sjálf síðar og kynntist sem vinum þegar ég flutti skamma stund til Dalvíkur.“ Eftir að hafa dvalið í Þýskalandi eitt ár eftir menntaskóla lá leiðin í Kennaraháskólann. „Ég ætlaði mér aldrei að verða kennari, það var ekki endilega málið, en námið var praktískt og hafði reynst pabba mikið happaskref. Ég kom alltaf heim á sumrin því þar var mesta stuðið, spilaði fótbolta og vann fyrir næsta vetri og svona, eitt slíkt sumar kynnumst við Rúnar. Hann er aðkeyptur fótboltamaður frá Skaganum og ég verð að þakka Ungmennafélagi Svarfdæla fyrir þau kaup!”. Þau hjónin útskrifuðust á sama tíma úr háskólanum, hann sem landfræðingur, hún sem kennari og fljótlega kom fyrsta barnið undir. „Við ætluðum okkur til Reykjavíkur um haustið en barnið pínu breytti öllu og við ákváðum að vera á Dalvík til að vera nær baklandinu. Ég fór þá að kenna og það var æðislegur tími, bæði stuðningurinn að því að eignast fyrsta barnið og að vera hér. Rúnar var alæta á vinnu, tók allt sem bauðst, hann var í frystó, hann var lögga og hann kenndi líka seinna árið okkar hérna. Við kenndum saman á tímabili og þá með pabba, hann var á bókasafninu með litlu börnin. Ég kenndi líka með öllum þessum kennurum sem að voru að kenna mér í gamla daga, Gunnellu, Þóru Rósu, Dóru Reimars og Önnu Baddí og bara öllu þessu gengi. Það var eitthvað svo yndislegur tími sem styrkti okkar tengsl við Dalvík og ekki síst Rúnars, hann verandi utanaðkomandi. Við bjuggum upp í Hjarðarslóð og það var æðislegt kennaragengi þar, Arna Vals, Guðný Ólafs, Linda og Skúli, og Anna Ólafsdóttir, sem var mentorinn minn í Dalvíkurskóla. Gat ekki fengið betri undirbúning fyrir þessa vinnu. Við bjuggum öll þarna saman hliðina á hvert öðru, bara eins og fjölskylda, þetta var bara eins og í litlu ítölsku sveitaþorpi, kaffibolli á morgnana og gengið inn og út á milli húsa. Ég fór líka í leikfélagið og við fórum bæði í Samkór Svarfdæla þar sem Rósa Kristín var að stýra og þá náðum við meiri tengslum við sveitina og alla þá sem voru að syngja í kórnum. Ég náttúrulega kannaðist við marga útaf pabba, hann fór oft með mig í dalinn sem barn. Hann sagði þá ævinlega „Kitta, eigum við að taka einn hring“. Amma og afi voru líka á lífi á þeim tíma, afi deyr 1978 og amma 1986. Amma og Júlli (Júlíus Daníelsson) bróðir pabba bjuggu svo í Syðra-Garðshorni í einhver ár. Það var mikið ævintýri að koma þangað í þetta risastóra hús og leika sér í besta bæjarlæk í heimi!” Oxford og fleiri börn „Rúnar fór svo í framhaldsnám til Oxford og ég og elsti strákurinn okkar, Bjarni, sem þá var ekki nema 16 mánaða, fórum með í bláfátækt okkar. Ég var svolítið beygluð fyrst, saknaði stemningarinnar á Dalvík og dalnum. Við vorum úti í eitt ár, ég verð ólétt í annað sinn, eignast Ísold og við komum heim eftir að Rúnar klárar námið. Þetta var rosalega lærdómsríkt ferli allt saman og að upplifa þessa fjölmenningu sem ég þó hafði aðeins kynnst í Þýskalandi. Að vera heima með barn í Oxford var líka frábært, sennilega gat ég ekki verið í fæðingarorlofi á betri stað þó Dalvíkin hafi verið yndislegur staður sem slíkur. Það voru mikil viðbrigði að fara úr svona vernduðu umhverfi á Dalvík yfir í það að vera ein á báti í Oxford, en maður fór að kunna að meta þetta öðruvísi.“ Sunnubrautin seld „Mamma deyr 2009 en við áttum Sunnubrautina áfram til 2013. Þá er pabbi fluttur í þjónustuíbúð við Dalbæ og ekkert vit í því að eiga risastórt einbýlishús á besta stað á Dalvík sem eitthvað frístundahús, svo við systkinin ákváðum að selja. Það tók sinn tíma að komast yfir það tilfinningalega, mamma og pabbi byggðu þetta hús, hvert einasta horn, krókur og kimi hafði góðar minningar. Þetta var mikið veisluhús alltaf mikið stuð og gleði. Ég satt best að segja áttaði mig ekki á því hvað það breytti miklu að hafa ekki þetta „afdrep“ á Dalvík. Það slitnaði einhver tenging að vissu leyti. Pabbi var ennþá á svæðinu, en þegar við komum að heimsækja hann þurfti allt í einu að fara að redda sér gistingu. Það var mjög furðuleg aðstaða að finna sig í. Allt í einu var ég orðinn meiri gestur en heimamaður. Ég fann að ég var ekki tilbúin í að tapa þessu sambandi við heimaslóðirnar og það varð ennþá sterkari tilfinning eftir að pabbi deyr.“ Reiturinn hans pabba „Við hjónin skeggræddum þetta fram og aftur, hvort við ættum að kaupa okkur hús á Dalvík, byggja lítið hús í Svarfaðardal eða hvað það nú væri. Mig langaði allt í einu meira að vera í sveitinni, heyra í hrossagauknum og mæna á Stólinn og tilbiðja hann, sem ég er bara alinn upp við að gera, maður lærði að kunna að meta svona atriði. Pabbi var mikill náttúruunnandi og náði kannski aldrei að slíta sig frá dalnum, við sögðum gjarnan að hann væri tjóðraður við túnfótinn heima. Líklega er ég ekkert skárri þegar uppi er staðið. Pabbi og Júlli tóku frá skika úr Syðra-Garðshornsjörðinni þegar hún var seld og ræktuðu hann upp samviskusamlega. Ég var dregin í þennan skika í gamla daga til að vökva úr læknum með erfiðismunum, planta niður trjám, girða og fleira. Ég man hvað mér fannst þetta erfitt, ég skildi ekkert í þessu og fannst þetta hundleiðinlegt. Það var alltaf „Kitta mín, komdu með mér í Reitinn“, svo stóð ég einhverntíman þarna með honum, var eitthvað fúl af því að ég nennti þessu ekki, það rigndi og allt var ömurlegt, og ég bara „Pabbi, hvað í ósköpunum ertu að gera með þetta, til hvers ertu að hamast hérna?“ og þá sagði hann þetta sem ég lagði enga merkingu í þá, „Nú, til þess að þið getið byggt ykkur bústað hérna eða hús ef þið viljið þegar þið eruð orðin stór“ og ég bara „sjénsinn að ég myndi vilja vera í Svarfaðardal þegar ég er orðin stór!“. Þetta var falleg hugsun, en ég var bara uppfull af mótþróa unglingsáranna. Þessi reitur er ennþá í eigu allra barna systkinanna, hann er lítill en í fallegri rækt og alltaf gaman að koma þarna, sveitalangurinn gengur þvert í gegn um hann. Mér skilst þetta hafi verið uppáhalds leiksvæði þeirra systkinanna. Við vorum búin að vera lengi að hugsa um að byggja í þessum reit í samráði við ættingja mína, en reiturinn er með eindæmum snjóþungur og einhvernveginn komst þessi hugmynd ekkert áfram í 2-3 ár. Svo kom þetta upp með Laugabrekku, Bubbi frændi var þá orðinn frekar slappur og þau Fjóla voru að hugsa um að færa sig til Akureyrar og spurðu hvort við Rúnar vildum kaupa húsið, eitthvað sem við höfðum ekki einu sinni getað ímyndað okkur. Mér hefur alltaf þótt þessi staður æðislegur og það var alltaf frekar ævintýralegt að heimsækja Bubba og Fjólu á þennan magnaða stað og í þetta fallega hús, svo við gátum ekki annað en reynt á þetta. Það er eitthvað mjög falleg hugmynd að húsið sé áfram í fjölskyldunni og er svakalega þakklát fyrir því að þau frændi og Fjóla skyldu hafa treyst okkur fyrir húsinu og boðið okkur að kaupa af þeim. Við fórum svo bara að vöðla saman fé og veðsetja börn og bíl svo þetta gæti gengið.” segir Kitta og hlær. Þakka fyrir hvern einasta dag „Við byrjuðum á því í ágúst í fyrra að gera þetta svona að „okkar“ við reynum að gera sem mest sjálf en auðvitað er kostnaðurinn farinn fram yfir það sem við ætluðum okkur. Við erum samt eiginlega bara að kaupa notað frekar nýtt og reyna að lagfæra allt sem hægt er að laga frekar en ekki. Svo er líka bara mikið „við reddum þessu“ fílingur sem ég fíla í botn, allir vinir boðnir og búnir til þess að hjálpa til og nágrannarnir æðislegir. Þetta er sannarlega búið að vera skemmtilegt hópverkefni sem allir munu njóta góðs af. Ég vinn í bransa sem krefst á tímabili stílhreins klæðaburðar, en mér gengur mjög illa að vera í drakt, ég vil heldur vera útbýjuð í málningu eða mold. Þrátt fyrir að það hafi verið hundleiðinlegt að fara með mömmu og pabba sem unglingur að taka upp kartöflur í garðinum hjá Sökku eða róta í beðinu heima þá er svona vinna einhver heilun fyrir mér að týna sér í verkinu, laga og mála, gera fínt í kringum sig - að sjá áþreifanlegan árangur eftir sig. Þetta er einhver jarðtenging. Ég hef rosalega gaman af því að hafa fallegt í kringum mig og nágrannar mínir hafa sett markið hátt hér í Torfunni. Ég verð að passa að halda uppi arfleifð frænda og Fjólu og halda fallegt hús og garð eins og þau, annað kemur ekki til greina!“ segir Kitta kímin. Kitta og Rúnar hafa búið í Reykjavík síðan 1999. ,,Ég er ofboðslega þakklát fyrir að geta átt tvö heimili, það er ekkert sjálfgefið. Ég bara stend hérna og horfi á Stólinn og þakka fyrir hvern einasta dag sem ég er hérna og get ekki beðið eftir því að koma aftur þegar ég er farin!“ ,,Mig langaði allt í einu að vera í sveitinni“ Aðalbjörg Kristín Jóhannsdóttir Kitta í Laugabrekku, sem staðsett er í Laugarhlíðartorfunni í Svarfaðardal Í stofunni í Laugabrekku. Málverkið á veggnum er af Stólnum í Svarfaðardal og er eftir Dalvíska listmálarann Brimar og var gjöf til Jóhanns Dan. Mænt á Stólinn frá svefnherbergis svölunum.

x

Norðurslóð

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.