Norðurslóð - 26.04.2022, Qupperneq 6

Norðurslóð - 26.04.2022, Qupperneq 6
6 – Norðurslóð Menningarráð Dalvíkurbyggðar blés til Menningarráðsstefnu sem haldin var í Bergi þann 7. maí síðastliðinn. Ráðstefnan var haldin til að ná til þeirra er starfa í menningartengdum eða skapandi listgreinum á svæðinu og vita hvernig hægt er að styðja og efla betur við listafólk sem starfar í Dalvíkurbyggð. Valdir listamenn héldu stutt erindi og ein af þeim var Ragnhildur Lára Weisshappel myndlistakona. Eftirfarandi er erindi hennar birt með góðfúslegu leyfi hennar. Fyrir örfáum árum hefði ég ekki trúað spákonu sem segði mér að í framtíð minni væri ræða á menningarráðstefnu á Dalvík. En hér er ég nú samt, og klæði af mér sviðskrekkinn í hinum universal einkennisbúning sjálfsöryggis: jakkafatadraktinni. Ragga heiti ég og ég er myndlistarmaður og nýbúi á Dalvík. Alveg síðan ég var spurð hvort ég vildi halda 5 mínútna tölu á menningarráðstefnu í Bergi fór heilinn að taka inn allskyns efni úr umhverfinu, og djúpt úr iðrum sálarinnar ; allskyns efni sem væri mögulega viðeigandi í ræðuna. Misviðeigandi og misáhugavert efni sem summar upp gildi myndlistar í mínu lífi. Heilinn tók að marinerast í ræðuefninu - án þess að ég væri að hræra mikið í eða skipta mér af. Á einhverjum tímapunkti, mögulega samhliða marineríngunni, er hugurinn að spá í framkvæmdina, aðferðir, lokaútkomu. Efnisval, form, litasamsetningar, merkingu, merkingarleysi, hver merkingin sé í merkingarleysinu, staðsetningu og tímasetningu, mögulega gagnrýni, möguleg tilsvör, hugurinn minnir mig á að googla how to write a speech? Þessar hugsanir eru ekki í neinni línulegri röð, þetta er ekki kerfi með sporum sem þurfa að vera í réttri röð. Nei, þetta er allt í hrúgu. Ólíkt tréi sem byrjar á rótum og vex upp, endar uppí topp ; þá eru hugsanirnar frekar rótarflækja þar sem allar rætur tengjast og vaxa í allar áttir. Ég sé hugmyndina, eða í þessu tilfelli ræðuna, inni í húsi og ég lít innum alla glugga hússins og get þannig skoðað ræðuna frá öllum hliðum - til að sjá heildarmyndina. En það er ekki nóg að efni og hugmyndir fljóti um í huganum, það verður að komast í einhverkonar form. Sköpunarferlið er alltaf einhvernveginn svona eins og ég lýsi hér. Þannig verða allar mínar hugmyndir að hlutmyndum. Ferlið verður að vera áreynslulaust Áreynsla, rembingur og stress er ekki gott í sköpun og allar hindranir, ef einhverjar eru, verða að vera áhugaverðar (þó þær séu sársaukafullar og erfiðar). Hvað sem verið er að skapa ; hvort sem verið er að baka rjómaköku, sinna húsviðhaldi, móta skúlptúr eða skrifa ræðu, er alltaf best ef það gerist eins mjúklega og áreynslulaust og mögulegt er. Það má leggjast á gólfið ef mótlætið er of harkalegt. Liggjandi á gólfinu verðum við meira straumlínulaga svo mótlætið lendir síður á okkur, læðist frekar yfir okkur og framhjá okkur. Á gólfinu getum við nýtt tækifærið og haldið andardrættinum jöfnum og leyft þannig hugmyndinni að nærast enn betur. Að vera listamaður er eiginlega að vera í stöðugri þerapíu, að sækja ævilangt sjálfhjálparnámskeið þar sem gúrúinn er sjálfur sköpunarmátturinn. Ég kalla mig myndlistarmann. En ég veit ekki nákvæmlega hvað það er, þó ég viti hvernig leikari myndi leika myndlistarmann. Ég hef heyrt fólk tala sem kann að tala eins og myndlistarmenn og jafnvel búa til hluti sem líta út eins og listaverk. Ég kalla mig myndlistarmann, því það er orðið sem samfélagið hefur búið til og samþykkt og það kemst næst því að lýsa því sem ég geri. Ég kalla mig myndlistarmann því með það viðurnefni get ég gert hvað sem er. Það er næst því að upplifa algert frelsi, eða þykjast vera frjáls og hafa tíma til að velta frelsinu fyrir sér. Sem listamaður er ég skoðandi og skoða svo aftur ; endurskoðandi, ég skoða umhverfið og geng samhliða samfélaginu með stækkunargler. Að vera listamaður, fyrir mér, er að læðast og þykjast, gabba aðra á góðlátlegan hátt, klæða sig í kameljónsbúning og falla inní hvaða aðstæður sem er, eins og lögga sem er under cover eða hulduvera. Að vera listamaður, fyrir mér, er að skapa sér tíma og rúm til að skoða og vera til. Sem listamaður þarf ég aldrei að spyrja um leyfi. List er lífsmeðalið Það sem ég læri í ferlinu, að sjá þróunina, að leika mér og gera mistök („mistök”) er raunveruleikinn. Myndlistin kennir mér að merkingin á bakvið hlutinn er mun, mun mikilvægari og raunverulegri en hluturinn sjálfur, eins og merking á bakvið orð er mikilvægari og raunverulegri en orðið sjálft. Tónverkið á bakvið nóturnar, vandamálið á bakvið húðútbrotið, veðrið á bakvið veðurkortið - óveðrið á bakvið neonbleikan lit á veðurkortinu, er raunveruleikinn á meðan veðurkortið, neonbleiki, útbrotið og nóturnar eru táknmyndir. Listamenn eldast víst hægar og upplifa sjaldnar gráan fiðring. Óformleg en há(lf)vísindaleg könnun mín sýnir að ástæða þess sé, að listamenn hætta ekki að leika sér og gera sig reglulega að fífli. Þessi ræða er örugglega full af mótsögnum og óreiðukenndu rugli. Þannig er ég og minn hugur og mig grunar að hugur okkar allra sé staður þar sem tvær andstæðar hugmyndir og andstæðar langanir lifa góðu lífi saman samtímis, bæta hverja aðra upp og valda togstreytu. Í okkur er ljós og myrkur og allir litir, djúpir og dimmir tónar og allur skalinn uppí tæra englatóna, við erum gróf og fín, falleg og ljót, vond og góð og við erum alltaf að reyna að finna fullkomið jafnvægi, rétta blöndu, spila á réttu nóturnar (en án þess þó að verða óáhugaverð og leiðinleg og flöt). Við erum ekki bara eitt heldur svo margt og þurfum að finna jafnvægið uppá nýtt hverja stund. Við erum í raun að skapa nýjan heim á hverri sekúndu. Lífið er síbreytileg kortlagning. Hvert augnablik er hverfandi. Það eru alltaf fleiri en ein möguleg skýring á hvaða vandamáli sem er. Skýringar eru bara tilgátur og kenningar og ættu að vera sveigjanlegar og opnar. Listin endurspeglar þetta og lokaútkoma í listum - listaverkið sjálft - opnar oftar en ekki á fleiri spurningar en hún svarar. Ég veit ekkert fyrir víst, það er það eina sem ég veit. Það er mikið frelsi að vita ekkert. Þróun mannkyns hefur kennt okkur að trúa því sem við þurfum að trúa til að lifa af í heiminum - og að við verðum að taka skýrar ákvarðanir og vera viss um allt. Hellisbúi hefði dáið strax ef hann hefði ekki tamið sér þann sið að taka ákvarðanir. Hugurinn okkar hefur þörf til að vera viss - eða það er að segja, að líða eins og hann sé viss. Hugurinn fer þá að leitast að útskýringu sem samræmist sem best hans núverandi viðhorfa og gilda. Að taka ákvörðun um að eitthvað sé rétt eða rangt lokar á alla hina möguleikana. Við hættum að leita að öðrum útskýringum. Okkur sem manneskjum langar að vita, og sem börn spyrjum við spurninga, og sem samfélag þurfum víst að taka ákvarðanir stundum. Ef við þurfum endilega svör finnst mér mikilvægt að svarið sé sjálfbær snjóbolti, sem getur rúllað og stækkað ef þörf er á. Ég hef tileinkað mér það að efast um allt og það er bæði frelsandi og stórhættulegt. En með því að efast um allt sem er “vitað” finnur maður kannski sinn eigin sannleika. Býr til sitt eigið. Mér finnst skemmtilegt að hlusta á fólk segja frá einhverju með algerri vissu og skilur ekkert pláss eftir til að spegúlera. Hvort sem umræðuefnið er gufuhvolf annara plánetna eða bólusetningar, eða eitthvað sem skéði fyrir löngu, eða næringafræði eða vínþrúgur. Ég sagði í upphafi að ég hefði ekki trúað því að ég stæði hér að halda ræðu á menningarráðstefnu á Dalvík. Reyndar hefði ég ekki trúað því að ég myndi yfirleitt halda ræðu. Né væri á Dalvík. En það var mikið gæfuspor fyrir okkur fjölskylduna þegar vindurinn feykti okkur norður. Það fyrsta sem ég gerði þegar við fluttum síðasta sólarsumar var að planta vindsokk í bakgarðinn við húsið. Ég fæddist og ólst upp við Reykjavíkurflugvöll og rauðhvítu röndóttu sokkarnir tveir sem standa vaktina við flugbrautina hafa heillað mig alla tíð. Ég uppgötvaði snemma að þeir bera mikilvæg skilaboð til þeirra sem málið varðar. Þeir, eins og vindsokkum er von og vísa, eru allan sólarhringinn að tjá sig um veðrið. (Draumastarf.) Vindsokkar á flugvöllum og flugfólk talar sama tungumál, vinna saman og það er mjög mikilvægt að fólk sem flýgur flugvélum talar tungumál vindsokksins og kann að lesa hans skýru skilaboð. En aftur að garðinum í Árgerði. Vindsokkurinn sem ég plantaði þar er í minni kantinum og hvítur. Ég spjalla við vindsokkinn og skráset upplýsingarnar sem hann segir mér, upplýsingarnar sem finnast á þessum hnitmiðaða stað í garðinum, eru nákvæmari en þær sem finnast á háþróuðum vindkortum. Stundum er hann fullur af orku svo munnurinn hans titrar og nylon efnið þenst út, það er spenna í hverjum nylonþærði. Stundum ræður leikgleði ríkjum og hann hoppar upp og niður til skiptis. Í hálfgerðu hláturskasti skellir hann uppúr. Stundum er hann vindlaus, alveg búin áðí. Þynnkulegur. Oft syngur hann heilt tónverk. Síðan ég flutti á Dalvík hef ég spjallað enn frekar um veðrið. Í daglegum símtölum við systur mína eyðum við ávalt nokkrum orðum í veðrið. Hvernig er verðið? Oft lýsum við óumbeðnar veðrinu. Kannski er það vani en kannski er það því veðurtal í upphafi samtals gefur ýmsar upplýsingar um hvernig fílíngur er hinum megin á línunni. Ég eru svo heppin að vera orðin meðlimur í hinum há-menningarlega klúbbi, Veðurklúbbnum, á Dalbæ, þar sem gott fólk spáir í veðrið útfrá ; gömlum veðurathugunardagbókum og eigin draumum, eigin tilfinningum, horfir til tunglsins og horfir til hvernig dýrin haga sér; villt dýr, húsdýr og dýr í draumum. Á einkasýningu minni í marsmánuði síðastliðnum, sem fjallaði um veður og manneskjur, lét ég fylgja með tilvitnun í Danna í veðurklúbbnum, þar sem hann lýsti draumi um að óveður sé í aðsigi. Í fáum orðum hljóðaði draumurinn svo: Frúin reynir að teyma villtan gráan hest. Og ég setti tilvitnunina aftan á mynd af vindi, tekna úr gervihnetti, sem gæti alveg eins verið hár á einhverjum skrokki. Veðurklúbburinn gerir sér fulla grein fyrir beinum áhrifum veðurs á mannfólk; líkamlega, andlega og atvinnulega. Í veðurklúbbnum er verið að skoða munstur og vísbendingar sem náttúran gefur okkur en við kunnum ekki öll að lesa. Í veðurklúbbnum er verið að skapa samtal við náttúruna, útfrá menningararfinum, gersemunum, sem veðurathugunardagbækur eru og útfrá skilaboðum úr undirmeðvitundinni. Þar er verið að þýða á milli tungumála ; tungumála drauma og náttúrunnar yfir í orð sem mannfólk skilur og getur lesið. Veðurklúbburinn tekur þetta risastóra, ósýnilega og þýðir yfir í orð. Ef það er ekki menning þá veit ég ekki hvað menning er. Jafnvel er það hrein og tær listsköpun. Að þýða hugmynd í hlutmynd Ragnhildur Lára Weisshappel Frúin reynir að teyma villtan gráan hest Vindsokkur í garðinum á Árgerði

x

Norðurslóð

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.