Austurglugginn - 18.02.2021, Page 4
4 Fimmtudagur 18. febrúar AUSTUR · GLUGGINN
Vinstrihreyfingin – grænt framboð
varð í vikunni fyrst flokka í
Norðausturkjördæmi til að velja
forustusveit sína á framboðslistann
í komandi þingkosningum.
Flokkarnir fylgja síðan hver af
öðrum í kjölfarið.
Óli Halldórsson, starfsmaður
Þekkingarnets Þingeyinga og
sveitarstjórnarfulltrúi í Norðurþingi,
varð efstur í kjörinu. Bjarkey
Olsen Gunnarsdóttir, sitjandi
þingmaður og formaður þingflokks
VG hreppti annað sætið. Jódís
Skúladóttir, lögfræðingur og
sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi
varð efst Austfirðinga í þriðja sætinu
en Vopnfirðingurinn Kári Gautason
varð fjórði.
Framboðsfrestur hjá Framsóknar-
flokknum rann út um helgina. Þar
verður kosið með póstkosningu um
sex efstu sætin. Kjörið hefst 1. mars
og stendur yfir út mánuðinn. Líneik
Anna Sævarsdóttir, þingmaður frá
Fáskrúðsfirði, og Ingibjörg Ólöf
Isaksen, bæjarfulltrúi á Akureyri,
berjast þar um fyrsta sætið. Mjótt er
á mununum milli þeirra, samkvæmt
heimildum Austurgluggans.
Píratar eru einnig komnir af
stað en þar er sama aðferð notuð
fyrir landið allt. Opið er fyrir
framboð til 3. mars. Prófkjörið
sjálft hefst nokkrum tímum eftir
að framboðsfresturinn rennur
út og stendur til 13. mars. Einar
Brynjólfsson, fyrrum þingmaður,
hefur lýst yfir framboði í fyrsta sætið.
Línur skýrast í mars
Kjördæmisráð Samfylkingarinnar
fundaði í lok janúar. Þar var bæði
kosin ný stjórn þess og ákveðið að
stilla upp á listann. Ráðið hefur
óskað eftir tilnefningum um fólk sem
áhuga hefur á að taka sæti á listanum.
Frestur til að skila inn tilnefningum
er til 28. febrúar. Albertína Friðbjörg
Elíasdóttir, sem skipaði annað sætið
síðast, hefur lýst því yfir að hún gefi
ekki kost á sér aftur. Albertína fór
inn sem jöfnunarþingmaður í síðustu
kosningum en miðað við gengi
flokksins í könnunum ætti annað
sætið á framboðslistanum að vera
líklegt þingsæti.
Hjá Sjálfstæðisflokknum stendur
til að halda rafrænan aðalfund
kjördæmisráðs í mars. Þar verður
ákveðið hvaða aðferð verður notuð
við að velja á lista. Að sögn Kristins
Árnasonar, formanns ráðsins, hafa
sóttvarnatakmarkanir áhrif á hvaða
leið verður valin og ekki líkur á
að málið liggi ljóst fyrir fyrr en í
lok mars. Kristján Þór Júlíusson,
ráðherra og oddviti flokksins, hefur
ekki gefið út hvort hann sækist eftir
endurkjöri.
Hjá Miðflokknum skýrast málin að
loknum aðalfundi kjördæmisfélags,
þar sem kjörstjórn verður kosin.
Samkvæmt lögum flokksins má velja
milli uppstillingar eða kosningar um
efstu fimm frambjóðendur.
Nýju flokkarnir
væntanlega síðar á
ferðinni
Landshlutaráð Viðreisnar ákveður
hvernig valið er á framboðslista í
hverju kjördæmi fyrir sig. Sú vinna
stendur yfir hjá landshlutaráðinu
í kjördæminu en til þessa hefur
flokkurinn alfarið haldið sig við
uppstillingar.
Flokkur fólksins stillir upp á lista
sína í öllum kjördæmum. Leit að
frambjóðendum er hafin og segir
Baldvin Örn Ólason, verkefnastjóri
hjá flokknum, hana ganga vel en
óvíst sé enn hvenær hægt verði að
kynna listana.
Sósíalistaflokkurinn undirbýr
framboð um allt land. Verið er að
móta áherslurnar og síðan taka
kjörnefndir, sem valdar eru með
slembivali úr félagatali, til við að raða
á listana. Því verki á að vera lokið í
síðasta lagi fyrir 1. maí.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn
hefur fengið úthlutað listabókstafnum
O fyrir kosningarnar. Leiðtogi hans,
Guðmundur Franklín Jónsson, hefur
í fjölmiðlum sagt að bæði stefnumál
og frambjóðendur flokksins komi
fram eins seint og hægt er.
GG
Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750
• Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Friðrik Indriðason blaðamaður: frett@austurglugginn.is
• Auglýsingar: Stefán Bogi Sveinsson: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Stefán Bogi Sveinsson: askrift@austurglugginn.is
• Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent
Leiðari
Kosningaár í
Norðausturkjördæmi
Línur eru lítillega teknar að skýrast
í framboðsmálum í kjördæminu
fyrir þingkosningarnar í lok
september. Úrslit úr fyrsta forvalinu
benda til þess að baráttan verði hörð
og átakalínur innan flokkanna
margslungnar.
Það sætir alltaf tíðindum þegar
sitjandi þingmaður verður undir
í baráttunni og þannig var þegar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir,
formaður þingflokks VG, varð
undir í baráttu við nýliðann Óla
Halldórsson. En fleira sætir
tíðindum í valinu. Til dæmis
náði varaþingmaðurinn og ritari
flokksins, Ingibjörg Þórðardóttir
úr Neskaupstað, ekki inn í efstu
fimm sætin en Jódís Skúladóttir,
sveitarstjórnarfulltrúi í Múlaþingi
varð þriðja.
Framundan er forval hjá
Framsóknarflokknum. Þar keppast
Ingibjörg Ólöf Isaksen frá Akureyri
og Líneik Anna Sævarsdóttir frá
Fáskrúðsfirði um fyrsta sætið.
Línurnar eru óskýrari hjá öðrum
framboðum sem eru skemur á veg
komin. Þó er líklegt að þingsæti
sé í boði hjá Samfylkingunni eftir
að Albertína Elíasdóttir ákvað að
halda ekki áfram og beðið er eftir
hvað Kristján Þór Júlíusson gerir
hjá Sjálfstæðisflokki.
Kosið hefur verið í
Norðausturkjördæmi síðan 2003.
Þá leið gamla Austurlandskjördæmi
undir lok, Hornafjörður fór
yfir í Suðurkjördæmi en restin
sameinaðist í raun Norðurlandi
eystra. Eyjafjarðarsvæðið, einkum
Akureyri, vegur langþyngst í
mannfjöldasamsetningu kjör-
dæmisins. Því er eðlilegt að
flokkarnir vilji fulltrúa þaðan
ofarlega. Miðað við samantekt
Austurgluggans fyrir síðustu
tvær kosningar er dreifingin
milli frambjóðenda eftir búsetu
nokkuð jöfn. Þó má merkja
vissa tilhneigingu, Akureyringar
hafa bæði verið uppistaðan
í oddvitasætum sem og
frambjóðendum almennt meðal
nýrri framboða. Hjá fjórflokknum
hefur dreifingin verið meiri,
enda byggja þeir á nokkuð föstu
flokksskipulagi þar sem reynt er
að tryggja aðkomu úr mismunandi
héruðum.
Þótt frambjóðendur lýsi allir
yfir vilja til að þjóna kjördæminu á
víðum grundvelli er það alltaf svo að
fólk tengist best sínu nærumhverfi.
Austfirðingar þurfa að tryggja sinn
hag á þingi áfram. Nú er til dæmis
ljóst að fjórðungurinn kemst ekki
að í líklegum þingsætum VG og
spurningin er hvort Austfirðingar,
eða aðrir, verði sáttir við að báðir
þingmenn Sjálfstæðisflokksins
komi frá Akureyri. Þannig var
staðan hjá Samfylkingunni líka,
Austfirðingar verða að gera alvöru
tilkall til annars sætisins þar nú.
Austurland hefur átt tvo
þingmenn á kjörtímabilinu, báðir
hafa setið fyrir Framsóknarflokkinn.
Væntanlega vilja önnur svæði koma
sínu fólki þar að, eins og framboð
Ingibjargar í oddvitasætið ber með
sér. Hafi hún betur gæti staðan
orðið sú að þrír af fjórum oddvitum
fjórflokksins verði frá Akureyri, í
versta falli missa þeir af tveimur
efstu sætunum hjá framboðunum
líka.
Þá á Miðflokkurinn tvo
fulltrúa í kjördæminu. Annar
þeirra, formaðurinn Sigmundur
Davíð Gunnlaugsson, hafði lengi
lögheimili á Héraði en hefur flutt
það í Garðabæ. Ekki er komið í
ljós hvort hann færi sig en hinn
þingmaður flokksins, Anna Kolbrún
Árnadóttir, er Akureyringur.
Í grófum dráttum hefur mátt
skipta kjördæminu landfræðilega
í fjóra eða fimm hluta. Akureyri,
Tröllaskaga, Eyjafjörð, Þingeyjar-
sýslur og Austurland. Að auki er
ýmis barátta um málefni, kynslóðir
og kyn við val á frambjóðendum.
En Austfirðingar hafa væntanlega
hag af því að hafa sannarlega sitt
fólk á Alþingi. Það gerist ekki af
sjálfu sér.
GG
Flokkarnir velja frambjóðendur
Stjórnmál