Austurglugginn - 18.02.2021, Side 11
AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 18. febrúar 11
Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir, frá
Möðrudal á Fjöllum, setti nýverið
Íslandsmet fyrir æfingar sínar í
listhlaupi á skautum á móti í Sviss,
þar sem hún býr og æfir lungann úr
vetrinum. Skautaáhuginn kviknaði
á frosnum tjörnum í Möðrudal.
„Ég byrjaði þar á alltof stórum
skautum, sem mamma hafði átt. Ég
fór í mörg pör af ullarsokkum til að
tolla í þeim. Ég skautaði á frosinni
tjörninni daglangt, mamma var í
mesta veseni með að fá mig inn.
Ég fékk síðan hokkískauta í
jólagjöf frá frænku minni og þegar
við fjölskyldan fluttum til Akureyrar
fór ég að æfa hokkí, sem ég gerði
í um það bil einn og hálfan vetur.
Eitt sinn, þegar ég var að leika mér
á svellinu á almenningstíma, kom
þjálfarinn í listhlaupinu til mömmu
og sagði að ég ætti frekar heima í
listhlaupi en hokkí. Sennilega sá hún
að ég hafði meiri áhuga á að skauta
hratt og snúa mér í hringi heldur en
elta pökkinn. Svo eftir að hafa horft
á listdanssýningu spurði ég mömmu
hvort ég mætti ekki prófa listskauta.
Ég byrjaði í listdansinum skömmu
síðar,“ segir Ísold Fönn.
Hún var sex ára gömul þegar hún
byrjaði í listdansinum. Rétt að verða
átta ára fór hún á fyrsta alþjóðlega
mótið sitt sem var haldið í Riga í
Lettlandi. Ísold Fönn kveðst ekki
hafa fundið fyrir aukinni pressu af
að taka þátt í móti erlendis. „Ég held
ég hafi ekki spáð mikið í það. Ég var
búin að fara nokkrum sinnum til
Reykjavíkur til að keppa. Þangað var
langt að keyra. Ég hugsaði bara að
það væri svipað að fara til útlanda og
Reykjavíkur. Keppnin var öðruvísi að
því leyti að í henni voru fleiri sterkir
skautarar, einkum í eldri hópunum
og fleiri starfsmenn í kringum hana
en það vandist fljótt.“
Vildi fylgja þjálfaranum
Ísold Fönn var fyrsta veturinn
sinn í listhlaupi undir handleiðslu
Telmu Eiðsdóttur en fluttist árið
eftir í hóp Ivetu Reitmayerrovu,
sem var yfirþjálfari hjá Skautafélagi
Akureyrar. Eftir að hafa búið á
Akureyri í sjö ár og hafa þjálfað
Ísold helming þess tíma, ákvað Iveta
að fara aftur til síns heimalands,
Slóvakíu. Úr varð að Ísold Fönn elti
hana þangað líka.
„Ég og mamma bjuggum í
Bratislava í tvö ár, 2017-19. Eftir
að Iveta hætti á Akureyri fórum
við að sækja æfingabúðir hjá henni
út. Dvölin í Slóvakíu varð hægt og
rólega meiri og meiri og við fengum
okkur að lokum íbúð á leigu þar. Ég
sagði mömmu að samband mitt og
Ivetu væri svo gott og ég vildi ekki
missa það.
Meðan á flakkinu til Bratislava
stóð, fékk ég tímabundið leyfi frá
skólasókn í Brekkuskóla. Mér hefur
alltaf gengið vel í skólanum og að
mörgu leyti var þetta þægilegt.
Ég var í skólanum mínum á sama
tíma og slóvakísku krakkarnir voru
í sínum. Við æfðum á morgnana,
síðan var skóli áður en æft var aftur
seinni partinn.
Við æfðum vanalega sex daga
vikunnar og á hverjum degi voru
tvær æfingar á svellinu og ein utan
þess. Við æfum stökk og tækni á
ísnum en utan hans gerum við mikið
af styrktaræfingum til að tryggja að
vöðvarnir í kringum þá sem við
notum mest séu í góðu standi.“
Tæpt ár frá vegna meiðsla
Síðustu 2-3 ár hafa verið Ísold
Fönn erfið vegna meiðsla. „Ég braut
setubeinið og þurfti að taka mér
rúmlega fjögurra mánaða hlé. Þegar
ég byrjaði aftur fékk ég bakslag sem
tók rúma þrjá mánuði og veturinn
eftir það fékk ég beinabjúg í hæl sem
tók næstum fjóra mánuði. Þetta voru
því alls ellefu mánuðir í meiðslum
þegar ég keppti í keppnisflokknum
Advanced Novice, á aldrinum 11-
13 ára.
Ég komst aftur af stað í janúar
í fyrra. Endurhæfingin hefur alltaf
gengið vel. Mér fannst ég alltaf
fljót að komast aftur á þann stað
sem ég var á fyrir meiðsli og svo
lengra þegar ég byrjaði að skauta.
Ég fékk mikla hvatningu og hjálp
frá sjúkraþjálfaranum mínum á
Akureyri, honum Helga Steinari.
Svo þegar ég mátti ekki enn skauta,
en mátti synda eftir einhvern tíma,
fékk ég að koma á æfingar með
sundfélaginu Óðni á Akureyri.
Það skipti miklu fyrir mig að fá að
mæta á sundæfingarnar, fá fyrirmæli
og tilsögn þjálfaranna og tilheyra
öðrum íþróttakrökkum aftur. Þegar
maður er vanur að mæta á æfingar
daglega er erfitt að þurfa að taka
svona löng hlé frá íþróttinni. Það
vantar svo mikið í lífið sem gefur
manni gleði.“
Ísold þurfti eins og fleira
íþróttafólk að gera hlé á æfingum
í fyrra vegna Covid-takmarkana
en hún átti ráð. „Ég gat gert
styrktaræfingar og svo þegar viðraði
gat ég farið út að skauta heima í
Möðrudal.“
Mæðgurnar dvelja nú yfir
vetrarmánuðina í Champéry í Sviss
þar sem Ísold æfir hjá Stephane
Lambiel og liði hans. „Eftir sjö góð
ár með Ivetu ákváðum við að freista
gæfunnar í nýjum slóðum. Ég fékk að
fara í prufu til Stephane Lambiel rétt
fyrir Covid hléið og fékk í kjölfarið
inngöngu í liðið þar. Ég fann um leið
að þetta voru æfingaaðstæður sem ég
var ánægð með og sagði mömmu að
við ætluðum að eiga heima hér! Svo
byrjaði ég þar á fullu í sumar þegar
Sviss opnaði eftir Covid lokun.“
Fyrst Íslendinga til að
lenda tvöföldu þreföldu
stökki
Það var ekki nóg með að Ísold Fönn
setti stigamet á mótinu fyrir jól,
heldur varð hún fyrst Íslendinga til
að lenda tvöföldu þreföldu stökki.
Þrefalt stökk þýðir að skautarinn
fer þrjá hringi í loftinu. Til að gera
stökkið tvöfalt lendir skautarinn
á öðrum fæti eftir fyrra þrefalda
stökkið og fer strax upp í annað
þrefalt. „Það er alltaf gaman að
vera fyrstur til að gera eitthvað sem
maður hefur unnið að lengi. Svo er
eitt að geta hlutina á æfingum og svo
annað að ná því á móti. Tilfinningin
þegar ég lenti því loks var því ekkert
smá góð.“
Skautadansarar geta ekki skipt um
skoðun í loftinu, það leiðir til þess að
stökkin verða hættuleg eða skrýtin.
Þeir sem séð hafa skautadans þekkja
að stundum verður skauturum
hált á svellinu og detta jafnvel.
Ísold segir það eðlilegan hluta af
ferlinu. „Æfingarnar eru ekki alltaf
fullkomnar, stundum dettur maður
og dettur en okkur er kennt að
detta þannig við minnkum líkurnar
á meiðslum og getum staðið upp og
haldið áfram.“
Ísold hefur verið hér á landi
lungann úr febrúarmánuði. „Við
reynum alltaf að koma heim á
þriggja mánaða fresti, það fer
eftir keppnum, skólanum eða
hvort eitthvað spennandi sé að
gerast heima í Möðrudal. Nú eru
ekki mörg mót eftir í vetur útaf
COVID, mest æfingar fyrir næsta
vetur en tímabilið hefst í ágúst.
Ég stefni á heimsmeistaramót
unglinga og þátttöku í Junior
Grand Prix mótaröðinni. Síðan eru
Ólympíuleikar á næsta ári en ég verð
níu dögum of ung til að geta keppt
þar. Þeir verða því að bíða.“
GG
Ísold Fönn við æfingar í Sviss. Mynd: Úr einkasafni
Skautadansarinn sem byrjaði á frosnum
tjörnum í Möðrudal
Vetraríþróttir