Austurglugginn


Austurglugginn - 04.10.2013, Qupperneq 13

Austurglugginn - 04.10.2013, Qupperneq 13
 AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 4. október 13 Hákon er borinn og barnfæddur í Neskaupstað en flutti endanlega aftur heim með tilvonandi manni sínum, Hafsteini, fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Hann segir þá hafa verið að brasast í ferðaþjónustu í nokkur ár og eftir að þeir fluttu austur byrjuðu þeir á því að taka að sér eina og eina veislu, sem hefur svo sannarlega undið upp á sig. „Við keyptum svo matartrukk, gamlan amerískan hertrukk, sem við förum með hvert sem er í veislur og á mannamót. Trukkurinn okkar kallast Fjallkonutrukkurinn þar sem hún kemst á fjöll og er matarleg. Hún gerði það gott í sumar þó svo við höfum ekki farið á eins margar útihátíðir og við vildum, en þar sem við komum vöktum við lukku. Fólk er hissa á því að fá gæðaskyndibita sem er afgreiddur fljótt. Fljótlega vantaði okkur almennilegt húsnæði til að geta framleitt meira magn af mat og þá datt Mjólkurstöðin upp í hendurnar á okkur. Um er að ræða gömlu mjólkurstöðina í bænum, en hún tengist okkur töluvert. Langafi stóð fyrir byggingu hússins og var kaupfélagsstjóri. Pabbi vann í Mjólkurstöðinni í mörg ár og flestir í fjölskyldunni hafa unnið hjá kaup- félaginu á einhverjum tímapunkti. Húsið hafði staðið autt í 10 ár og beið þess eiginlega ekkert nema vera rifið. Við vildum endilega bjarga húsinu og lögðum gríðarlega vinnu í að koma því aftur í lag. Við enduðum svo með allt of stórt eldhús og þótti því tilvalið að endurvekja gömlu mjólkurbúðina. Við vissum að hér vantaði ferskvöru – byrjuðum bara með kjöt og fisk og svo höfum við verið að færa okkur í sælkeravöru, tilbúna rétti og take away. Fyrirtækið heitir Hildibrand, í höfuðið á langafa mínum, Hildibrandi Guðröði kaupfélagsstjóra, sem er elskaður og dáður innan fjölskyldunnar. Það kom þó aldrei til greina að Mjólkurstöðin myndi ekki halda nafni sínu, hún verður aldrei annað.“ Ódýrari en kjöt- og fiskbúðir í Reykjavík Hákon segir bakbein fyrirtækisins þó vera veisluþjónustuna. „Þó svo að fólk sé mjög ánægt með búðina og nýti sér hana töluvert, þá er hún ekki nóg til að halda uppi svona fyrirtæki. Búðin gleður og lífgar helling upp á mannlífið. Hún er líka skemmtileg fyrir þær sakir að okkur leyfist að vera í tilraunaeldamennsku, gera kannski tvo rétti af hverju og sjá hvað selst. Við erum mjög samkeppnishæf á markaði og erum alls ekki dýr sem sérvöruverslun. Ég veit að við erum alveg töluvert ódýrari en kjöt- og fiskbúðir í Reykjavík og aðkomufólk verður dolfallið yfir úrvalinu og verðinu. Við bendum þeim á að við búum í sjávarplássi og við gætum aldrei selt þorskinn á 2000 krónur kílóið og heimamenn njóta góðs af því.“ Rekjanleiki hráefnisins mikilvægur „Við viljum sjá veisluþjónustuna vaxa og dafna enn frekar. Við búum mjög vel að vera með svona stórt og öflugt eldhús sem getur framleitt mikið. Það er líka einstakt að vera með eldhús á hjólum þannig að við getum í rauninni farið með veislur hvert sem við viljum - alveg sama hver aðstaðan er, þess vegna uppá hálendi. Verkefnin okkar eru alltaf að stækka og við erum orðin vel samkeppnishæf við stærri fyrirtæki í sama geira. Stærsti munurinn á okkur og flestum er að við vinnum allt frá grunni, heila skrokka og fisk með sporð. Þó svo að matseðilinn sé svipaður kaupum við nær ekkert frosið eða tilbúið. Til dæmis byrja litlu kjötbollurnar okkar sem skrokkur sem við fáum í hendurnar, sem við úrbeinum, hökkum og handrúllum. Svona viljum við vinna - að halda okkur við rekjanleika hráefnis, auk þess að nota eins mikið austfirskt og hægt er. Þetta teljum við gefa okkur ákveðið forskot, gestirnir okkar finna að þeir eru að borða hreinar afurðir.“ Brakandi ferskt og fjölbreytt úrval Það er ekki hægt annað en fá vatn í munninn þegar Hákon talar um framleiðsluna. „Við framleiðum vörurnar okkar á staðnum. Við erum svo alltaf með kjöt- og fiskrétti í borðinu hjá okkur, tilbúna í bakka, vel útilátna og á mjög viðráðanlegu verði. Einnig erum við með salöt, ýmiskonar meðlæti – bæði sósur og salöt og tilbúið grænmeti í ofninn. Við höfum getið okkur góðs orðs með skyrkökunum sem við búum til. Mikið af þessum vörum myndu henta í verslanir í kringum okkur og jafnvel sumar á landsvísu.“ Litríkur ferill En, af hverju ætli Hákon hafi endað í matvælaiðnaði? „Æji úff,“ segir Hákon og hlær. „Ég er svona út um allt – ef ég væri barn væri ég pottþétt greindur ofvirkur.“ Hákon segist alltaf hafa haft áhuga á matargerð, en hann er alinn upp í sveit og fékk að vera með ömmu sinni að brasa í eldhúsinu. „Menn sáu kannski snemma hvert krókurinn beygðist og ég slapp við útiverkin. Ég fékk svo smám saman frjálsari hendur í eldhúsinu og var farinn að elda ofan í fjölskylduna á kvöldin þegar ég var unglingur.“ Að grunnskóla loknum vann Hákon á hóteli á Skógum í þrjú sumur. Hann fór svo til Montreux í Sviss í háskóla sem heitir HIM (Hotel institute de Montreux), hótelskóla uppá gamla mátann. Þaðan lá leiðin til Bandaríkjanna í verklegt nám. „Skólinn sneri ekki mikið að matargerð, meira að hótel-, veitinga- og gæðastjórnun. Við vorum reyndar látin borða gríðarlega mikið af góðum mat og fengum gott vín til að þekkja það,“ segir Hákon sáttur. Hákon kom svo heim og kom að ýmsu áður en hann opnaði Mjólkurstöðina. Hann vann á Hilton í Reykjavík, rak veitingastaðinn Frú Lúlú í Neskaupstað, fór í hönnun í Listaháskólanum, var skemmtikraftur og veislustjóri svo fátt eitt sé nefnt. „Ég hef alltaf haft gaman af því að vera svolítið ögrandi og öðruvísi. Eftir að ég kynntist Hafsteini Hafsteinssyni, tilvonandi manninum mínum, sáum við ekki fram á að geta framfleytt okkur í Reykjavík og ákváðum að gefa því séns að fara út á land. Hafsteinn er heimsborgari en hafði aldrei komið lengra út fyrir Reykjavík en í Þórsmörk. Við komum hingað á þriggja mánaða vertíð og getum nú hvergi annars staðar hugsað okkur að vera.“ Vöntun á fjölbreyttari kvennastörfum Hákon og Hafsteinn lífga heilmikið upp á lífið í Neskaupstað. „Hafsteinn hefur verið með námskeið fyrir krakka, heldur sýningar og er með opna vinnustofu í listasmiðjunni Þórsmörk í Neskaupstað,“ segir Hákon og bætir því við að það sé skemmtileg tilviljun að hann vinni nú í Þórsmörk þar sem hann hafði ekki komið lengra frá Reykjavík en í Þórsmörk syðri áður. „Við stefnum á að vera hér. Okkur langar að ferðast og sjáum fram á að geta það með því að búa hér – eigum kannski einhvern afgang í lok mánaðar. Við erum mjög hamingjusamir ef við höfum nóg að gera og getum gert eitthvað fyrir svæðið í kringum okkur. Það er gríðarmikið starf framundan varðandi ferðaþjónustu á svæðinu og við sjáum því fram á næg verkefni. Þó við séum aðallega núna að vinna að matargerð, liggur stefnan alltaf á aukin umsvif í ferðaþjónustunni. Við ætlum okkur stóra hluti, við viljum vera atvinnuskapandi og veita fólki tækifæri. Við erum um átta manns í kringum fyrirtækið, en aðeins tveir starfsmenn í fullri vinnu. Hjá okkur fær ungt fólk tækifæri, sérstaklega konur. Á okkar svæði er vöntun á fjölbreyttari kvennastörfum, hér tengjast þau flest iðnaði og umönnun. Hér eru hæfileikaríkar konur á öllum aldri á hverju strái, sem ekki eru allar að vinna þá vinnu sem þær vildu vera í. Ég held að ferðaþjónusta í Neskaupstað gæti skapað mjög fjölbreytt störf, ekki bara fyrir þær heldur líka fyrir ungt fólk og þá sem hafa áhuga á slíku.“ Áframhaldandi þróun framundan Hákon segir að verkefnið framundan sé meðal annars að koma framleiddum vörum í áframhaldandi þróun, neytendavænni umbúðir og aukna dreifingu. „Við erum alltaf með Sushi á föstudögum og það er alveg sama hve mikið við gerum af því, það klárast alltaf. Við fáum fjölmargar fyrirspurnir hvort við getum sent það á aðra firði. Við höfum að sjálfsögðu reynt að koma til móts við þær óskir og sú hugmynd hefur komið upp að breyta almenningssamgöngum í Fjarðabyggð í Sushi train á föstudögum.“ Jólahlaðborð og jólaglögg Nú fer í hönd einn annasamasti tími hjá öllum veisluþjónustum og þar er Hildibrand engin undantekning. „Við verðum bæði með jólahlaðborð og jólaglögg í nóvember og desember. Við ákváðum að endurlífga Félags- lund á Reyðarfirði, við erum mjög hrifnir af því sem veisluhúsi, bæði er það miðsvæðis sem og gamaldags og kósý. Við verðum með fimm jólahlaðborð og fimm sinnum með jólaglögg. Jólaglöggið er fyrst og fremst hugsað fyrir fyrirtæki - snýst meira um samveruna og skemmtunina, verðum með lifandi tónlist og mikið um að vera. Þar verður byrjað á vínsmökkun og svo fá gestir bakka með fjöldanum öllum af smáréttum á borðið, sem allir innihalda þetta hefðbundna bragð af jólunum í nýstárlegu formi. Jólahlaðborðin verða klassísk í bland við nýstárlegt. Bókanir eru komnar vel af stað og ég ráðlegg fólki að bóka í tíma til þess að komast að.“ Veisluþjónustan er bakbein fyrirtækisins (framhald af forsíðu) Það er fátt betra en að borða eftir gott djamm á björtum sumarnóttum. Fjallkonan sá um sína eftir sjómannadagsball í Neskaupstað í júní síðastliðnum.

x

Austurglugginn

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.