Austurglugginn - 04.10.2013, Page 16
Anton Helgason skoraði í síðasta blaði á sveitunga
sinn, Önnu Maríu Sveinsdóttur. Hún deilir hér
með lesendum gæsasúpu, Marokkólambi og
karamelluís.
Gæsasúpa
Bein, leggir, hjarta og vængir af gæs sett í pott
ásamt vatni, púrrulauk, gulrótum, selleríi, svörtum
pipar, einiberjum, villikrafti, salti og lárviðarlaufi.
Soðið í 2-4 tíma. Síið og bætið gæsakjötinu í
soðið ásamt rjómaosti, lerkisveppum og rjóma.
Smakkað til. Bætið þunnum eplasneiðum í undir
lok eldamennsku.
Marokkólamb
Veltið lambakjöti upp úr hveiti, krydduðu með
salti og pipar. Steikið á pönnu ásamt lauk, papriku,
rifnu engifer, saffran og kjúklingateningi.
Leggið apríkósur í bleyti. Þegar kjötið er að verða
tilbúið eru apríkósurnar, auk smá sítrónusafa bætt
í og látið malla í 10 til 15 mín. Smakkið til. Gott
er að bera fram með hrísgrjónum og fersku salati.
Karamelluís
1/2 - 1 bolli sykur
2 bollar vatn
4-6 eggjarauður
3 pelar rjómi
Sykurinn og 1 bolli vatn soðið saman þar til
lögurinn er gullinbrúnn, en þá er afgangurinn af
vatninu settur út í. Kælið. Eggjarauður þeyttar
með karamellunni þar til þetta er orðið ljóst og
létt í sér. Þá er þremur pelum af þeyttum rjóma
bætt varlega í. Frystið, borðið og njótið.
Anna María skorar hér á vinkonu sína til 30 ára,
Guðrúnu Aradóttur á Djúpavogi.
Sælkeri vikunnar
Anna María Sveinsdóttir
Sveinn Birkir Björnsson
Fegurð orðanna
Lokaorð vikunnar á Sveinn Birkir Björnsson
„Orð eru til alls fyrst,“ segir íslenskt máltæki.
Það má til sanns vegar færa. „Í upphafi var Orðið
og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð,“ segir í
upphafsorðum víðförlar bókar eftir ótilgreindan
höfund. Slíkur er máttur orðanna. Þessa hugmynd
má víða sjá birtast í máltækjum. „Penninn er
máttugri en sverðið,“ vegna þess að orðin eru
beittari en eggin og særa dýpra en blaðið.
Þessi máttur orðanna hefur lengi verið mér
hugleikinn. Þau gera okkur kleift að tjá okkur
og forma eigin hugsun. Heimspekingurinn John
Locke sagði í einu rita sinna að tungumálið væri
endimörk hugsunarinnar. Að eiga sér tungumál
jafngildir því að geta hugsað.
„Ég skildi, að orð er á Íslandi til um allt, sem er
hugsað á jörðu,“ segir Einar Ben í einu ljóða sinna.
Við vitum að þetta er ekki alveg sannleikanum
samkvæmt, og margt hefur verið hugsað hér á
jörðu sem ekki eru til orð yfir á Íslensku. Enda
gera kenningar málfræðinga samtímans sumar
hverjar ráð fyrir því að fólk með mismunandi
tungumál upplifi raunveruleikann á mismunandi
hátt. Það myndi mögulega skýra hina séríslensku
heimsmynd.
Undanfarið hefur talsvert verið rætt um keppni
á vegum hugvísindasviðs Háskóla Íslands og
Ríkisútvarpsins um fegursta orð íslenskrar tungu.
Þessi áhugi er skiljanlegur, enda er íslensk tunga
sameiginlegur arfur okkar og flestum tamt að hafa
skoðun á henni. Þessi áhugi er okkur innprentaður frá
blautu barnsbeini, með síendurteknum leiðréttingum
í gegnum máltökuskeiðið og fram á unglingsárin
þegar við erum (vorum?) sum hver enn að læknast
af þágufallssýkinni.
Það eru mörg orð sem koma til álita þegar við
veltum fyrir okkur fegurstu orðum íslenskrar
tungu. Eitthvað sem mætti jafnvel fjölyrða um.
Síðast þegar þessi keppni fór fram var það orðið
„ljósmóðir“ sem bar sigur úr býtum. Það er raunar
vel til fundið, enda myndrænt og fallegt orð sem
lýsir starfi sem við erum öll ósköp þakklát fyrir.
Þessi áhersla Ríkisútvarpsins á fegurð orða hefur
hins vegar valdið mér smá hugarangri. Ekki síst
vegna þáttar Ríkisútvarpsins í því að nær útrýma
því fegursta sem íslensk tunga hefur upp á að bjóða:
flámælinu. Um miðja síðustu öld var flámæltu
fólki bannað að tala í útvarp allra landsmanna til
þess að rækta þann ósið úr tungunni. Þetta var ein
birtingarmynd gamallar mál- og þjóðræktarstefnu
sem lagði að jöfnu hreina tungu og hreina þjóð, og
hefur mér jafnan fundist að í þessu fælist einhver
dómur yfir austfirðingum sem lakari íslendingum.
Svo um fegurstu orð íslenskrar tungu hef ég lítið
segja, en þó þetta. Ef það býður upp á hljóðvarpið
ö-é eða i-e, þá er það þeim mun fallegra. Og hver
veit, ef kenningar málfræðinganna eru réttar, þá
kynni það að útskýra hina sér austfirsku heimsmynd,
þar sem það er staðbundin málvenja að austur og
norður séu gagnstæðar áttir.
Sveinn Birkir Björnsson
Viðbygging gengur vel á Borgarfirði
Í 36.tbl árið 2002 má sjá frétt frá Borgarfirði um
stækkun á Fiskverkun Karls Sveinssonar, sem
rekin hefur verið síðan 1986.
Um er að ræða tveggja hæða viðbyggingu sem
nemur um 420 fermetrum. „Okkur vantar alltaf
pláss,“ segir Karl. „Þarna inni kemur nýr frystiklefi,
stærri þurrkunaraðstaða og aukið vinnslurými.“
Fyrir 11 árum...
35.tbl. 1. árg
Fimmtudagurinn 3. október 2002
Karl Sveinsson fyrir utan þann hluta Fiskverksmiðjunnar
sem verið er að reisa. Hann stefnir á að reyna að koma þaki
yfir nýbygginguna áður en veturinn skellur á.