Austurglugginn


Austurglugginn - 25.11.2021, Page 3

Austurglugginn - 25.11.2021, Page 3
Fréttir frá Fjarðaáli Ábyrgðarmaður: Dagmar Ýr Stefánsdóttir Flest okkar hafa orðið vör við það að gömlu glóperurnar og flúorljósin eru að hverfa af markaði og þess í stað notuð LED lýsing sem hefur ýmsa kosti fram yfir gömlu ljósin og þá sérstaklega frá umhverfisverndarsjónarmiði séð. Vinnustaðalýsing skiptir miklu máli fyrir fólk sem er allan daginn baðað í lýsingu sem ýmist getur aukið eða dregið úr vellíðan þess. Flúorljós gefa frá sér útfjólubláa geislun og breyta henni í sýnilegt ljós með hjálp fosfórs í perunni. LED ljósin eru að ýta gömlu natríum, flúor og málmhalogen ljósunum út úr iðnaðarflórunni og í raun líka að yfirtaka allt sem glóperur og sparperur gerðu áður. Hjá Fjarðaáli er núna stórt verkefni í gangi með því markmiði að skipta smám saman yfir í LED lýsingu en stórum áfanga verkefnisins lýkur á næsta ári þegar klárað verður að skipta um öll ljós í kerskála álversins. Dýrasti vinnupallur í heimi? Aðspurður að því hvers vegna það er verið að skipta út ljósum í álverinu segir Jón Garðar Helgason, umsjónarmaður lágspennu hjá Fjarðaáli: „Það er orðið erfitt að fá varahluti í gömlu ljósin og þau eru frek á viðhald. Í kerskála til dæmis þarf að nota svokallaða PTM krana til að komast í ljósin og það er dýr stillans að nota fyrir viðgerðir á lýsingu. Skermarnir á gömlu ljósunum verða fljótt óhreinir og þá minnkar nýtni ljósanna mjög hratt. Á LED ljósunum er ekki skermur heldur gler sem vísar beint niður og það ætti að vera lengur að falla á sléttan flöt sem snýr beint niður.“ Af hverju er LED lýsing betri en þessi hefðbundna flúorlýsing sem nú er? „LED er með miklu betri litarendurgjöf sem þýðir að það eru mun fleiri litir sem ljósið gefur frá sér heldur en natríum ljós sem er víðast hvar að finna hér,“ segir Jón Garðar. „Natríum ljósin hafa alltaf þótt mjög nýtin og góð ljós en þeirra galli er guli liturinn í þeim. Með því að skipta þá fáum við ljós með tíu ára ábyrgð.“ LED ljósin umhverfisvænni en þau gömlu „Almennt er álitið að orkusparnaður sé umhverfisvænn. Þarna er þó svolítið tvíeggja sverð á lofti því stærsti galli LED ljósa út frá umhverfissjónarmiðum er sá að þegar ljósið hefur lokið líftíma sínum er það ónýtt og því er skipt út fyrir nýtt. Gömlu ljósin okkar eru ekkert saklaus heldur með þetta því það er mikið af búnaði sem þarf að endurnýja reglulega í þeim og í ákveðnum gerðum af perum er að finna kvikasilfur sem þykir ekki náttúruvænt efni. Ljósin sem við erum að kaupa eru að miklu leyti smíðuð úr áli sem er auðvelt að endurnýta og hver sá búnaður sem hefur góða endingu er í eðli sínu umhverfisvænn,“ segir Jón Garðar. LED ljósin eru líka væn fyrir vinnuumhverfið að sögn Jóns Garðars. „Góð lýsing skiptir miklu máli við að búa starfsfólki öruggt vinnuumhverfi og sérstaklega í umhverfi eins og okkar þar sem margt ber að varast. Munurinn á gömlu ljósunum og þessum er mjög mikill og fólki líður betur í bjartara umhverfi.“ Hvað með kostnaðinn? Aðspurður um hugsanlegan sparnað segir Jón Garðar að sparnaðurinn á hans vinnusvæði liggi að mestu leyti í minna viðhaldi. „Ef við setjum upp ljós sem þarf ekki að sinna neitt í tíu ár er það gríðarlegur sparnaður, miklu meiri en sá orkusparnaður skilar okkur sem er þó auðveldara að reikna út og sýna fram á.“ Hann bendir á samstarfsmann sinn, Bríeti Ósk Moritz Hjörvarsdóttur, sem skrifaði lokaverkefni í rafiðnfræði við HR um orkustýringu og orkunýtni Alcoa vegna innleiðingar ISO 50001:2018. „Það er mikill fróðleikur um lýsingu og þessi útskipti okkar þar.“ Í lokin spyrjum við Jón Garðar um viðbrögð fólks sem vinnur í þessari lýsingu. Hann svarar: „Ég hef unnið markvisst að því að reyna að fá fólk til að benda mér á gallana við hana því útskiptin eru dýr. Það eru gallar við LED lýsingu sem þarf að passa upp á en þau eru mjög stefnuvirk sem getur valdið því sem heitir glýju, eða ofbirtu með því að horfa í áttina að ljósunum. Ég hef ekki fengið neinn til að hallmæla þessari lýsingu þrátt fyrir þessar tilraunir að einni ungri konu undanskilinni en hún sagði það galla að þurfa lengri tíma í að mála sig áður en hún mætti í vinnuna af því að lýsingin er orðin svo góð.“ Sjá má mikinn mun á nýju (t.v.) og gömlu lýsingunni (t.h.). Mynd: Alcoa Fjarðaál/Hilmar Sigurbjörnsson Breytt lýsing bætir starfsumhverfið hjá Fjarðaáli

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.